Áður en lengra er haldið, er kannski rétt að geta þess, að þar sem ég er frekar fyrir pappírshluta framkvæmda, en framkvæmdirnar sjálfar, var ég búinn að grafa upp, þegar hér var komið, teikningar af frárennslislögn hússins (ekki mikill gröftur þar sem ég er alræmdur fyrir skipulagsáráttu mína). Þetta gerði ég til að gera mér betur grein fyrir hvert vatnið úr eldhúsvaskinum og þvottavélinni ætti að fara. Það kemur afar skýrt fram á þessum teikningum, að allt afrennsli (og þá meina ég ALLT) af efri hæðinni sameinaðist og rann þannig út í rotþró, sem er í 25 m fjarlægð frá húsinu og einnig það, með sama hætti, að allt afrennsli af neðri hæðinni sameinaðist ekki afrennslinu af efri hæðinni fyrr en við ofangreinda rotþró. Þetta var afar skýrt teiknað og engum vafa undirorpið.
Þegar þessi skýring lá fyrir, olli það, sem við mér blasti í ferð minni niður í kjallara vegna vatnshljóðs, óleysanlegri gátu í mínum huga.
Þannig er, að út úr vegg í kjallaranum stendur stútur sem upphaflega var ætlaður fyrir afrennsli af eldhúsvaski þar, ef einhverntíma yrði þörf á slíku. Þessi stútur er í 60 cm hæð frá gólfi. Samkvæmt teikningunni, sameinast lögnin frá þessum stút, lögn frá niðurfallli í gólfi kjallarans ásamt öllu því öðru, sem vatn þarf að renna frá, í kjallaranum. Stúturinn var, sem sagt 60 cm ofar en niðurfallið!! Út úr þessum stút flæddi nú vatn í gríð og erg (væntanlega frá þvottavélinni á efri hæðinni, sem hamaðist við að dæla af sér skolvatninu).
Spurningarnar sem ég stóð nú frammi fyrir því að svara voru þessar:
1. Hvernig stóð á því að vatn frá þvottavél á efri hæð gat runnið út um stút sem ekki tengist lögninni frá hæðinni með neinum hætti?
2. Hvernig stendur á því, að þegar stútur, sem er í 60 cm hæð frá gólfi, og sem er tengdur sömu lögn og niðurfall úr gólfi, að það rennur vatn úr stútnum, niður í niðurfallið?
Ég tel mig nú ekki vera óskýrari í kollinum en margir aðrir, en hér var svo komið að mér vafðist ennisblað um litlaheila.
Það var enn svo, eftir að ég var búinn að leggja leið mína niður í pökkunarskúr til að leita einhvers, sem ég gæti troðið ofan í veggstútinn.
Staðan var óbreytt þegar ég hafði troðið slöngubút, sem ég fann þar, í stútinn þar til hann komst ekki lengra vegna einhverrar fyrirstöðu.
Ekkert var breytt í höfðinu þegar ég reyndi árangurslaust að ná ristinni úr niðurfallinu til að athuga hvort það væri kannski stíflað hinumegin frá.
Það eina sem hafði breyst við þessar aðgerðir mínar var, að hlutastífla í frárennslinu hafði breyst í alstíflu - vatnið seig ekki lengur um millimetra í stútnum! Ég hafði greinilega þjappað stíflunni rækilega saman með slöngunni.
Við þessar aðstæður sýndist mér orðið ljóst, að "gulur kóði" hafði breyst í "rauðan kóða"; Það fór ekki dropi frá eldhúsvaski eða þvottavélum lengur, þá leið sem frárennsli frá húsi á að fara. Það sem verst var, var það, að ég skildi ekki hvernig eðlifræðilögmál höfðu þarna verið brotin.
Það hefur stundum hjálpað mér við svipaðar aðstæður, að setjast niður í rólegheitunum, og velta fyrir mér, fram og til baka hvernig þetta mátti vera.
Ég hugsaði, og hugsaði. Ég velti fyrir mér.
Þá fór loks að birta....smám saman.
úff.
SvaraEyðaMaður þarf nú teikningu til að skilja þetta.
Eða kannski gera þetta að ennþá meir óskiljanlegra vandamáli.