31 desember, 2016

Sjálfsupphafning

Það er kominn gamlársdagur og frá síðustu áramótum hef ég birt 70 pistla á þessari síðu, sem mér finnst nú vera ótrúlega afköst, svona þegar horft er til baka. Hver pistill er að meðaltali 550 orð, sem þýðir, að ég hef skrifað hér sem næst 38.500 orð á árinu 2016. Þetta þýðir að ég væri búinn að gera talsvert meira en ljúka heimsþekktum skáldsögum eins og "Of Mice and Men" eftir John Steinbeck (29.160 orð)  eða "Animal Farm" eftir George Orwell (29.996 orð) mig vantar bara 9.000 orð upp á að hafa skrifað orðafjöldann í "The Great Gatsby" eftir Scott Fitzgerald (47.094 orð), ég væri sem næst hálfnaður með "The Catcher in the Rye" (Bjargvætturinn í grasinu) eftir J.D. Salinger (73.404 orð).
Ég byrjaði að skrifa pistla á þessa síðu í febrúar árið 2008 og hef síðan þá birt 799 pistla. ef ég hef verið jafn afkastamikill öll árin síðan þá, væru orðin orðin 439.450 sem þýddi að ég væri búinn að skrifa um það bil 1600 blaðsíðna verk í pappírskiljubroti, eða stórvirkið "Gone with the Wind" (Á hverfanda hveli) eftir Margaret Mitchell.
Já, já, það getur verið gaman að verla sér upp út tölum. Ætli það sé ekki frekar það sem liggur að baki þeim sem skiptir meira máli. Það er orðin sjálf, orðavalið, samhengi þeirra eða það sem þau tjá, sem gefur þessu öllu gildi.
Á þessu ári hef ég fjallað um allskyns efni, um persónuleg mál, þjóðfélagsmál og afar margt þar á milli. Í þessum skrifum er fremur lítið samhengi.

Af ofantöldu má auðveldlega ráða, að ég sé farinn að velta fyrir mér að skrifa bækur, en svo er nú bara ekki. Það er einfaldlega gott til þess að vita, að ég gæti það mögulega.  Ef ég færi nú að skella í eins og eina skáldsögu, jafnvel sögulega, nú eða úr samtímanum, gætu hún fjallað um: Undirheima Laugaráss, dramatíska atburði frá kennsluferlinum, eða eitthvað þvíumlíkt.
En óttist ekki - ekki enn.

Ég þakka ykkur sem hafið kíkt inn á þessar síður mínar á árinu og jafnvel lesið pistlana. Það skiptir ansi miklu máli að vita að einhverjir eiga leið hér um, en mér sýnist að fjöldi þeirra sem lesa það sem hér birtist sé á bilinu 100- 200. Einstaka pistlar ná meiri lestri og þá helst þeir sem einhver deilir, eða skrifar eitthvað um.  Fyrir mér skiptir fjöldinn ekki öllu máli, heldur gæði og tryggð lesendanna.
Megi nýja árið fara vel með ykkur.

Pistlar ársins 2016:

Að lifa vel og deyja vel30.12.2016
"Ein frá Sólveigarstöðum!"29.12.2016
Sópraninum krossbrá25.12.2016
Jólajákvæðni25.12.2016
Eftir síðustu andartökin14.12.2016
Kannski bara miklu betri.11.12.2016
Í "Leiðslu"28.11.2016
Svei svörtum fössara25.11.2016
Eigi skal hún inn19.11.2016
Gamalt en mögulega einnig nýtt (2)18.11.2016
Gamalt en mögulega einnig nýtt (1)16.11.2016
Dyngjan og athvarfið14.11.2016
Persónulegur ávinningur11.11.2016
"...all men are created equal" í tilefni dagsins8.11.2016
Með hálfum huga7.11.2016
Dagurinn í dag29.10.2016
Hvar setur maður krossinn? (2)23.10.2016
Hvar setur maður krossinn? (1)22.10.2016
Hvað á maður að segja?20.10.2016
PR í molum13.10.2016
Ég, hálfvitinn11.10.2016
Er þetta nú svona merkilegt?29.9.2016
Var Macbeth framsóknarmaður?24.9.2016
Rannsóknarblaðamenn LB18.9.2016
Þessir kjósendur!11.9.2016
Skeinipappír í jurtalitum5.9.2016
Úrið2.9.2016
Sósulitur og svartur ruslapoki eða skrautklæði28.8.2016
Reynir Sævarsson og Skálholt 1974-521.8.2016
Jóna á Lind19.8.2016
Ég hef varann á mér14.8.2016
"Þessvegna flýgur þú betur með Icelandair", er manni sagt10.8.2016
Í bráðri lífshættu2.8.2016
Kraðak eða ekki kraðak1.8.2016
Líklega betra að koma ekki heim29.7.2016
Vanþróuð víkingaþjóð23.7.2016
Einn komma fimm kílómetrar um álfabyggð7.7.2016
Þorpið teiknað1.7.2016
Sumarið kemur í haust - vonandi28.6.2016
Seríos áskorunin24.6.2016
Íslendingar að léttast?17.6.2016
Önnur sýn1.6.2016
Þegar leikurinn stóð sem hæst23.5.2016
Karlaraddir / Männerstimmen16.5.2016
Síðasta áminning Töru14.5.2016
Upphaf ferðar nokkurrar (1)7.5.2016
X399017.4.2016
Sjálfutækni14.4.2016
Finslit10.4.2016
Góður biti í hundskjaft7.4.2016
Hungur3.4.2016
Í villum á páskadagsmorgni28.3.2016
Að liðka til við Hliðið28.3.2016
Var það kannski valdarán?25.3.2016
Þar sem ljósið nær ekki að skína22.3.2016
Mánudagsflug14.3.2016
Bönnum það bara12.3.2016
Ég stend mig að því að......10.3.2016
Jákvætt eða neikvætt - kannski bara kvætt.3.3.2016
Opnun fyrir mannkynslausnara28.2.2016
Að vera blaðamaður27.2.2016
"The Condom King" - eða þannig16.2.2016
Í raun afar merkilegt - Hljómaskál14.2.2016
Á leikskólahraða í Brúðkaup14.2.2016
Ég á bara ekki heima þar!4.2.2016
Ylur minninga á þorra31.1.2016
Janúar blús - þreyjum þorrann23.1.2016
Formannavísur á Stokkseyri 18919.1.2016
Gamanvísur um Skitu-Lása4.1.2016

30 desember, 2016

Að lifa vel og deyja vel

Þann 15. desember lést Guðmundur Indriðason á Lindarbrekku á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Lundi á Hellu, á 102. aldursári.  Engum kom á óvart að hann skyldi ekki láta Jónu, bíða lengi eftir sér, en hún lést þann 13. ágúst  síðastliðinn.
Útför hans er gerð frá Skálholtskirkju í dag.

Guðmundur fæddist  í Hrunamannahreppi 15. maí, 1915, áttundi í röð tíu systkina sem komust á legg.
Guðmundur fjallar allítarlega um lífshlaup sitt í viðtali við hann og Jónu í Litla-Bergþór, 2. tbl. 2010, þá 95 ára, svo ég fer ekkert að orðlengja um það hér.

Á Laugarvatni hófst saga Guðmundar og Jónu, sem nú hefur verið settur endapunkturinn við, eftir hartnær 7 áratuga, farsæla sambúð.
Að mörgu leyti get ég sagt það sama um Guðmund og ég sagði um Jónu hér. Líf þeirra og fjölskyldu minnar í Hveratúni og síðar í Kvistholti hefur legið saman og þar hefur aldrei borið skugga á. Hvernig mætti líka annað vera? Fyrir nágranna af þessu tagi ber að þakka.

Þó svo okkur sé það ljóst að dauðinn er hluti af lífinu og við sættum okkur æ betur við tilhugsunina um hann eftir því sem við verðum eldri, þá kallar hann fram í huga okkar söknuð og ótal minningar um lífið sem hann tekur við af. Í dauðanum felst endanleiki; eitthvað sem ekki verður breytt eða tekið til baka.
Við lífslok erum við frekar mæld á grundvelli þess sem í okkur bjó, mannkostum okkar, fremur en veraldlegum auð. Það er nefnilega eitt mikilverðasta hlutverk okkar á lífsgöngunni að marka spor sem leiða gott af sér fremur en illt.
Sporin sem Guðmundur og Jóna skilja eftir sig bera vitni um að þar fór gott fólk og það er mikilverðast.

Guðmundur naut þess að eldast afskaplega vel og fram á tíræðisaldur tók hann sér fyrir hendur ýmislegt sem fólk hættir venjulega að gera upp úr sextugu. Mér er sérstaklega minnisstætt þegar Jóna lýsti áhyggjum sínum af því fyrir nokkrum árum (svona 10, kannski) að hann hafi prílað upp á þak á íbúðarhúsinu til að sinna einhverju viðhaldi.

Ég kíkti einusinni í heimsókn til þeirra í þjónustuíbúðina sem þau dvöldu í á Flúðum, áður en þau fluttu á Lund á Hellu. Vissulega var sá gamli farinn að bera þess merki að elli kerling sótti á. Til að byrja með kannaðist hann ekki alveg við mig, en með réttum tengingum small allt saman og það runnu upp úr honum sögurnar frá fyrstu árunum í Laugarási og ég fékk að kíkja í myndaalbúm meðan gnótt bakgrunnsupplýsinga fylgdi.  Þetta var ánægjuleg heimsókn og síðan hef ég oft leitt hugann að því hve gaman hefði nú verið að geta gefið sér meiri tíma til að ausa úr þeim viskubrunni sem Guðmundur var, en af því varð ekki og þannig er það bara. Það væri nú samt gaman að komast aftur í myndaalbúmin og ná þaðan myndum í safnið.

"Ég er nú enginn fýlupúki" sagði Guðmundur þegar mér varð á að nefna það hve létt var yfir honum á aldarafmælinu.
Mér var sagt að eftir afmælið hafi hann verið kallaður "Hundraðkallinn", á Lundi. Nafngift  sem hæfir vel lundarfari mannsins. Það er sama hvernig ég reyni, þær myndir af Guðmundi sem koma í hugann eru ávallt af broshýru andliti með gamanmál af einhverju tagi á takteinum. Aldrei sút.

Árið 2016 er árið þegar Lindarbrekkuhjónin kvöddu og þau skilja eftir ágætan minningasjóð.

Börn Guðmundar og Jónu, f.v. Grímur, Katrín Gróa, Jón Pétur og Indriði.
°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°

Lítið eitt um Lindarbrekku

Lindarbrekka í desember 2016

Útidyrnar á gamla húsinu.

Saga lóðarinnar sem síðar varð Lindarbrekka, hófst 1942 með því Jóhann Sæmundsson yfirlæknir og félagsmálaráðherra um nokkurra mánaða skeið, fékk hálfan hektara lands og byggði sér 29m² sumarhús á brekkubrúninni. Ein megin ástæða þessa mun hafa verið sú að hann vildi hafa möguleika á að hafa öruggt skjól í mögulegum loftárásum á landið.
Eiginkona hans var Sigríður Sæmundsson, fædd Thorsteinson.

Sigurður Jónasson  keypti húsið 1948. Sigurður var alllengi forstjóri Tóbakseinkasölu ríkisins, og var svokallaður athafnamaður.

Föst búseta á Lindarbrekku hófst 1951 þegar Guðmundur og Jóna keyptu þetta 29 fermetra sumarhús og fluttu inn.

Árið 1958 var nafn býlisins staðfest og um leið var landið sem það stendur á stækkað um helming. Guðmundur og Jóna stækkuðu íbúðarhúsið 1961. Árið 1976 byggðu þau gróðurhús og notuðu til þess efni úr gróðurhúsi sem hafði staðið á Sigurðarstöðum. Árið eftir byggðu þau pökkunarhús eða vélageymslu og loks íbúðarhús 1980.
Gamla húsið stendur enn í rólegheitum á brekkubrúninni, að niðurlotum komið eftir góða þjónustu og í því hefur enginn búið frá 1988.

Laugarás

Að Guðmundi gengnum eru tímamót í ekki svo langri sögu Laugaráss sem þorps, en með honum hverfur á braut síðasti frumbýlingurinn í þorpinu. Þá á ég við þá íbúa sem hér hófu búsetu á fimmta áratug síðustu aldar. Þau sem hér eru nefnd fylla þennan hóp:
Laugarás 2 (Gamla læknishúsið): Ólafur Einarsson og Sigurlaug Einarsdóttir, Knútur Kristinsson og Hulda Þórhallsdóttir. Ólafur og Knútur störfuðu hér sem læknar.
Hveratún: Skúli Magnússon og Guðný Pálsdóttir.
Sólveigarstaðir: Jón Vídalín Guðmundsson og Jóna Sólveig Magnúsdóttir.
Laugarás 1 (Helgahús): Helgi Indriðason, bróðir Guðmundar og Guðný Aðalbjörg Guðmundsdóttir, systir Jóns Vídalín. Rétt er að geta þess að Helgi og Guðný (Gauja) hófu búskap sinn í Laugarási 1946, en þá bjuggu þau í kjallaranum í læknishúsinu, en fluttu síðan í eigið hús 1949.
Ef taldir eru með þeir sem fluttu í Laugarás milli 1950 og 1960, eru þær nú einar eftir, að ég tel, þær Fríður Pétursdóttir í Laugargerði, sem er nýflutt á Selfoss og Sigríður Pétursdóttir í Sigmarshúsi.


100 ára, á léttu nótunum 

29 desember, 2016

"Ein frá Sólveigarstöðum!"

Flugeldur sem KvisturArt hyggst setja á loft á áramótum,
á miðnætti og nokkrir furðu lostnir furðufuglar.
Þá fóru allir út á miðnætti og fylgdust með flugeldaskotum annarra íbúa í þorpinu. Í Kvistholti var, heldur minna um stóra flugelda en hjá þeim sem betur voru stæðir. Það var reynt að stíla frekar upp á magnið en stærðina, enda í rauninni það mikilvægast sem næst manni var; það sem maður fékk sjálf(ur) að kveikja í.
Elstu pjakkarnir tveir voru farnir að sýna áhuga á að skjóta rakettum og þá komu ílurnar litlu í góðar þarfir, afar margar og ódýrar.

Hjá ýmsum öðrum var þetta allt stórfenglegra og þegar einhver skaut var hrópað, svo enginn missti nú af:
"Þarna kemur ein frá...." (svo var bærinn nefndur). Allir snéru sér þangarð. "VÁÁÁÁ þessi var flott!" "Þarna kemur ein frá...." (bærinn aftur nefndur). Allir snéru sér þangað. "Þessi var ekkert sérstök". 
Og svona gekk þetta. Raketturnar flugu á loft hver af annarri og ávallt var tekið eftir hvaðan þær komu. Það var hægt að sjá hver væri stórtækastur, sem var auðvitað ákveðið merki um velgegngni á árinu. Í Auðsholti mun hafa verið einhver sjómaður, sem skaut alltaf upp skiparakettu.

KvisturArt lýkur flugeldasýningu sinni
með kvenskörungum.
Svo liðu árin. Fjárhagurinn í Kvistholti fór heldur batnandi og þar með varð mögulegt að veita meira fé til flugeldakaupa. Börnin stækkuðu líka og jafnframt því minnkaði áhugi þeirra "fíriverki". Það sem einnig gerðist var að að trén sem Laugarásbúar höfðu plantað af dugnaði fyrir áratugum, stækkuðu og þar með varð erfiðara að greina hvaðan hvaða flugeldur, eða bomba, kom. Þetta gat jafnvel leitt til rökræðna, þegar fólkið var ósammála um uppruna flauganna.

Nú eru börnin auðvitað flogin úr hreiðrinu, en eftir situr einhver lítil neisti frá fyrri tíð og af þeim sökum, en þó aðallega til að styjða björgunarstarf í landinu, er alltaf keypt eitthvert fíriverk í Kvistholti. Einnig núna, en þessu sinni í nafni nýja gæluverkefnisins sem ber heitið KvisturArt.

Það má sem sagt segja, að Laugarásbúum og þeim sem eiga leið um Laugarás, hvort sem það er vegna þess að þeir hafa beinlínis komið af þessu tilefni eða af öðrum ástæðum, er boðið að horfa á þessa flugeldssýningu og njóta.  Auk þess sem þessum flugeldi verður skotið á loft, af fD sjálfri, verður lítilsháttar annað fíriverk beint í kjölfarið.

Svo tekur við nýtt ár með nýjum áskorunum.

25 desember, 2016

Sópraninum krossbrá

Messur eru nú yfirleitt þess eðlis að fátt kemur á óvart. Það stefndi í eina slíka á þessum degi í Skálholti, nema ef til vill að því leyti, að nokkrum mínútum fyrir upphaf messunnar lá fyrir hvað sálmar eða verk yrðu sungin, en þannig er það bara.
Svo hófst messan, reyndar ekki alveg eins og til stóð, en kór og kirkjugestir fengu fyrirmæli um að ganga í kringum jötu sem komið hefur verið fyrir í kirkjunni í tilefni jólanna og syngja á meðan öll fjögur erindi sálmsins "Nóttin var sú ágæt ein". Látum vera, þetta var, eins og maður segir öðruvísi, þó fD hafi haft um það orð eftir á.
Að þessu búnu hófst síðan messan samkvæmt því ritúali sem finna má í bók séra Bjarna sem kallast "Messa á jólum". Allt eins og við var búist.
Þá kom að prédikun.
Prédikanir eru þannig í Skálholti, að kórinn heyrir allajafna vart orðaskil fyrir glymjanda og það var ekkert óvenjulegt við það. Í stað þess að lyftast í andanum undir kraftmikilli prédikun var sett í hvíldargírinn þar til kæmi að sálmi eftir prédikun.
Þetta fór nú talsvert á annan veg þessu sinni; byrjaði allt svo sem venja er til, en skyndilega, þegar nokkuð var á liðið prédikunina "blöstuðu" tenórarnir þrír vísunni "Fjármenn hrepptu fögnuð þann"  af slíkum krafti, að hárið á saklausum sópraninum bærðist, en hvort það var vegna kraftsins í ténórunum, eða skelfingarefans sem heltók þær, skal ekki fullyrt. Það hefði verið gaman að sitja í kirkjunni sem gestur og sjá hvernig andlitsdrættir þeirra endurspegluðu líðanina.
Til útskýringar á þessari mikilfenglegu innkomu tenórsins í miðja prédikum, skal geta þess, að tveim mínútum fyrir messubyrjun kom presturinn að máli við einn tenórinn og fól honum og hans mönnum að bresta í söng  á tilteknum stað í prédikuninni, svo sem lýst er hér að ofan. Sá sem tók við fyrirmælum prestsins leiddi síðan félaga sína tvo í allan sannleik um hvað til stæði, í þann mund er messa hófst með kraftmiklu orglespili.
Sópranarnir flettu í huganum í gegnum gögn um framgang messunnar og fundu innkomunni í prédikunina engan stað. Þegar tenórarnir stukku síðan aftur inn á tilteknum stað með annað erindi úr sama sálmi, varð ljóst að allur ketill sóprananna hafði fallið í eld og það mátti greina vantrúar- og uppgjafar fas í titrandi hárinu, sem var þeð eina sem tenórarnir, heldur sperrtir í glæsileik sínum, gátu nýtt til að meta innibyrgð viðbrögðin í sætaröðinni fyrir framan.

Það var síðan þegar síðustu tónar orgelsins hljóðnuðu í lok messunnar, sem flóðgáttir brustu. Allt sem sópranana hafði langað að segja var þá sagt og meira að segja á kjarnyrtri íslensku. Sumir héldu áfram að tjá sig um það sem gerst hafði, langleiðina heim.

Hver var svo að tala um að messur væru fyrirsjáanlegar?

Jólajákvæðni

Stundum eiga sér stað átök hið innra. Það er svona eins og með klassísku myndina af púkanum með þríforkinn á annarri öxlinni og englinum með geislabauginn á hinni. Maður stendur frammi fyrir einhverju sem hægt er að bregðast við með tvennum hætti: annaðhvort að "standa í lappirnar" og berjast gegn meintu óréttlæti eða broti gegn þér og hagsmunum þínum, eða sýna skilning, sjá aðrar hliðar á málinu, neita að trúa því að eitthvað annað búi undir en virðist vera við fyrstu sýn.

Þarna kristallast baráttan milli engilsins og púkans, sem báðir búa innra með þér og valda því að þú er oftast í ákveðnum vafa þegar kemur að því að bregðast við ytra áreiti.  Það er, sem betur fer svo, að oftar en ekki er það engillinn ber sigur úr býtum, í það minnsta út á við. Maður hneigist til að trúa því, á endanum, að það sé ekki verið að brjóta á þér með neinum hætti. Maður kemst að þeirri niðurstöðu að það séu málefnalegar ástæður fyrir því sem kann að líta fremur illa út við fyrstu sýn.

Ekki neita ég því að púkarnir hafa háð dálitla baráttu á öxlum mínum undanfarnar vikur og sjálfsagt fleirum í umhverfi mínu. Það er dálítið kaldhæðnislegt í kringum hátíð ljóssins, að barátta þeirra er til kominn vegna ljóss sem kom og kom ekki, réttinn til ljóssins eða ekki. Kannski hefur þetta snúist um baráttuna milli þess sem samfélagið ætti að gera fyrir þig eða þú fyrir samfélagið, vegið á móti því sem samfélaginu er ætlað að öðru leyti. Mögulega gæti þetta snúist um kröfur til samfélagsins sem eru eðlilegar eða óeðlilegar.

Ég átta mig á því, að það sem er búið að brjótast í mér og fleirum að undanförnu eru siðferðisleg álitamál framar öðru eins og reyndar afar mörg mál um alllanga hríð, sem smám saman hafa gert það erfiðara að taka afstöðu með englinum. Það er þessi eilífa spurning um réttlæti og ranglæti, sem hægt er að teygja og toga þangað til að þessu háleitu hugtök verða að merkingarlausum klisjum.

Með engilinn sigri hrósandi á annarri öxlinni og sigraðan púkann á hinni held ég áfram göngunni í gegnum það sem er og verður, héðan í frá sem hingað til.
Þó engillinn hafi sigrað þessu sinni, veit maður aldrei hvað gerist næst.

Hvítárbrú hjá Iðu í desember 2016 - fyrir PS

Hvítárbrú hjá Iðu í desember 2016 - eftir PS



14 desember, 2016

Eftir síðustu andartökin

Fremst má sjá færibandið sem fjallað er um
og í baksýn er flegið af krafti
ÞESSI FRÁSÖGN ER EKKI FYRIR VIÐKVÆMA (í alvöru)

Við tímamót verður manni hugsað til baka. Nú er hafið niðurrif á sláturhúsinu sem hefur staðið hér í Laugarási frá 1964. Það hús hefur séð tímana tvenna, bæði góða og slæma, en nú er komið að leiðarlokum. Það væri gaman að segja sögu þessa húss og starfseminnar þar, en það verður ekki gert hér og nú. Ég ætla hinsvegar að láta hugann reika til um það bil 1970, en þá starfaði ég í sláturhúsinu eitt eða tvö haust fram í lok september. Skólinn byrjaði 1. október í þá daga.


Á þeim tíma var ég einhversstaðar á bilinu 15 - 17 ára (trúi ekki að foreldrar mínir hafi leyft mér að vinna þarna yngri en það). Fyrstu störf mín fólust í að flytja lömbin milli hólfa í réttinni. Þar var réttarstjóri sem skipaði fyrir um úr hvaða hólfi lömbin skyldu færð, hvert og hvenær, en alltaf voru þau rekin í hólf sem var nær skotklefanum. Ég færðist líka stöðugt nær skotklefanum og áður en ég var fluttur til, inn í slátursalinn var ég kominn með það hlultverk að draga lömbin síðasta spölinn í lífi þeirra, inn í klefann þar sem Ásgeir á Kaldbak tók við og aflífaði þau með byssu sem var einhvern veginn þannig gerð, að hann þurfti að setja nýja patrónu í hana eftir hvert skot. Skotið fólst síðan í því að pinni skaust fram úr byssunni og vann sitt verk, en ég held að tveir menn hafi leitt hvert lamb til fullnustu á þeim dómi sem þau höfðu hlotið á einhverjum bænum. Mennirnir skelltu skrokknum síðan upp á færiband. Þar varð ég fyrir afar áhrifamikilli reynslu, sem ég ætla að reyna að koma í orð.  Mig grunar að sú tegund fólks sem staðið hefur með mótmælaspjöld fyrir utan SS á Selfossi að undanförnu, geti átt erfitt með að kyngja því sem þarna fór fram.

Ég fékk, sem sagt, eftir að hafa verið í réttinni, það hlutverk að fylgjast með færibandinu og því sem þar fór fram. Mig minnir að færiböndin hafi verið tvö, í sitthvora áttina út frá skotklefanum. Ég man ekki hvort ég þurfti að sinna þeim báðum, minnir það þó hálfpartinn.
Meðfram færibandinu endilöngu, var renna og niðurfall úr henni niður í kjallara. Þegar Ásgeir hafði unnið sitt verk var skrokkunum skellt á færibandið, eins og áður segir, fyrst í stað stífnuðu þeir upp og við þeim tók maðurinn með hnífinn, sem ég man því miður ekki hver var, en hann skar fumlaust á hálsæðrnar og blóðið  fossaði úr sárinu og ofan í rennuna. Í þann mund hófust dauðateygjurnar sem voru mismiklar, stundum svo kröftugar, að skrokkarnir flugu af bandinu niður á gólf. Mitt hlutverk var, meðal annars að sjá til þess að koma þeim aftur upp á bandið, sem var mjög miserfitt, enda skrokkarnir misþungir. Bandið var á að giska 5-6 m. langt. Eftir að blóðgunin hafði átt sér stað tók við að losa höfuðið frá búknum og ég heldað sami maðurinn hafi gert hvottveggja. Skrokkarnir sprikluðu æ minna eftir því sem nálgaðist endann á færibandinu, en þegar þangað var komið þurfti ég að vippa þeim yfir á fláningshringinn (minnir að það hafi verið hluti af starfa mínum, en er ekki viss) þar sem fláningsmennirnir tóku við og unnu hratt og örugglega að því að flá skrokkinn þannig, að hver hafði sitt hlutverk, svona eins og í bílaverksmiðju, ef svo má segja.  Aðrir eru betur til þess fallnir að segja frá þessum verkþætti.

Eftir fyrsta daginn við þetta verk verk var ég alveg búinn á sál og líkama; sál vegna þess sem fyrir augu bar og í höfðin hrærðist, líkama, vegna þess að þetta var skratti erfitt. Svo vandist þetta bara. Ég hætti smám saman að líta þannig á að það væri verið aflífa dýr, sem hugsanlega ættu að fá að halda áfram að lifa. Lömbin sem þarna voru leidd til slátrunar urðu bara hluti að verkferli; breyttust úr jarmandi ungviði í girnileg læri og hryggi áður en við var litið.
Margt af störfum mínu í sláturhúsinu er hulið gleymskuhjúp. Ég var einhvern tíma í vömbunum og eitthvað kom ég í kjallarnn hjá Gústa á Löngumýri, en þarna niðri voru innyflin orðin svo fjarlæg lífinu sem þau þjónuðu áður, að þau höfðu engin áhrif á mig. Það gerði vinnan við færibandið hinsvegar.
Núr er hafði niðurrif  á þessu sögulega húsi.


11 desember, 2016

Kannski bara miklu betri.

Kannski bara vitlaust gefið er titillinn á bloggfærslu minni á sama tíma árið 2013. Hún á alveg jafnvel við nú og þá.  Það sama má segja um viðbrögðin í samfélaginu.
Ávallt þegar niðurstöður PISA kannana eru birtar gerist þetta:
1. Stórar fyrirsagnir og sopnar eru hveljur og útdeilt er misgáfulegum ásökunum hingað og þangað.
2. Þeir sem ásakanir beinast að, bera þær af sér og ræða um að fjölmargir þætti hafi áhrif á niðurstöðuna.
3. Í kjölfarið á þessu upphefst umræðan þar sem PISA kannanirnar eru rifnar niður með ýmsum hætti, ekki síst með því að halda því fram að þær mæli ekki í samræmi við þær áherslur sem eru í íslenska menntakerfninu, heldur einhverja þætti sem við teljum fremur ómerkilega. Jafnvel fara menn að velta sér úpp úr lélegum þýðingum á verkefnum sem krakkarnir áttu að leysa, en það er nú alveg sérstakur kapítuli.
4. Það eru settir á fót starfshópar til að greina niðurstöðurnar og þeir skila skýrslum, sem leiða ekki til neins..
5. Ný fréttabomba sviftir PISA umræðunni út í hafsauga og hún sest ekki aftur fyrr en næstu niðurstöður koma.

Hver er tilgangurinn með því að taka þátt í þessum PISA könnunum ef viðhorf okkar til þeirra eru þau að þegar upp sé staðið séu þær ekki að mæla rétt?
Þrátt fyrir þessar slæmu niðurstöður megum við ekki missa sjónir á að PISA könnunin er aðeins einn af mörgum mælikvörðum á skólakerfið. Hann mælir ekki frammistöðu á öllum sviðum og má þar nefna sköpunargáfu, félagsgreind, frumkvæði og fleiri mikilvæga þætti. Engu að síður gefur PISA könnunin mikilvægar upplýsingar sem við getum ekki litið framhjá og tökum því af fullri alvöru. Að mínu mati er afar margt vel gert í skólunum og kemur meðal annars í ljós í frammistöðu okkar í alþjóðlegu samstarfi á sviði vísinda og rannsókna, frumkvöðlastarfi og góðum árangri á fjölmörgum sviðum“.                                           (Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, 6. des., 2016). 
Hún mælir ekki sköpunargáfu, félagsgreind, frumkvæði og fleiri mikilvæga þætti, segir ráðherrann. Ég segi hinsvegar: Hvaða máli skiptir það? Getum við sýnt fram á að á þessum sviðum sé staðan hjá okkur jafngóð eða betri en hjá einhverjum samanburðarþjóðum?  Það þýðir ekkert að reyna að drepa málinu á dreif með svona tali.

Það er sannarlega rétt, að fjölmargir þættir leiða til þess að við komum lakar út úr þessum PISA könnunum og þó ég hafi afar ákveðnar skoðanir á því, þá krefst ég þess ekki að allir samþykki þær. Í grunninn snúast þær um grunnþætti í uppeldisaðstæðum barna í þessu landi. Um þetta fjallaði ég í greininni frá 2013 sem ég vísa til hér efst.

Þegar fólk eignast börn ætti það að fela í sér skuldbindingu, ekki bara til að gefa þeim að borða og kaupa ("versla" á nýslensku) handa þeim föt og dót (og fara á lækveiðar á facebook).
Uppeldi barna er stóralvarlegt mál þar sem foreldrar sitja uppi með skyldu til að elska, aga, móta, setja ramma, gera kröfur, styðja, hrósa og fjölmargt annað.
Ég hef heyrt foreldra tala um hvað það er mikill vinur barnsins síns. "Við erum vinir", segir það og þykir flott. Foreldri er foreldri, en ekki vinur fyrr en það hefur skilað af sér afkvæminu þannig að það geti flogið hjálparlaust um veröldina. Þangað til það gerist, er foreldri foreldri, alveg eins og önnur foreldri meðal spendýra. Hlutverk þess er að kenna barninu hvað það er að vera manneskja, vera því fyrirmynd svo lengi sem það er hægt, setja því mörk, planta í huga þess hugmyndinni um að menntun sé mikilvæg, tala við það, fórna eigin hagsmunum eða frelsi (t.d. til að sitja við Facebook þegar það kemur heim úr vinnunni), hjálpa barninu að uppgötva að það er gott við og við að láta sé leiðast, og það sem er erfitt og tekur á, sé jákvætt og ótalmargt annað.
Ekki vera vinur, heldur foreldri, sem er svo miklu merkilegra hlutverk.

Ég get alveg haldið því fram, að ofnotkun leikskólans (svo góður sem hann getur verið í hæfilegum skammti) sé með því versta sem við gerum börnum okkar, en það ætla ég sannarlega ekki að gera, enda skortir mig til þess nægilega góðan grunn. Ég gæti hinsvegar mögulega haft þessa skoðun.
Þegar ég heyri að foreldrar sendi börn sín í leikskóla í eigin fríum frá vinnu, liggur við að mér fallist hendur.  Það er bara þannig. Ég held því auðvitað til haga að í undantekningatilfellum getur þetta verið nauðsynlegt.

Að stórum hluta til má sjálfsagt rekja hluta af niðurstöðum PISA könnunarinnar til óhóflegrar notkunar að snjalltækjum af ýmsu tagi. Í gær var sagt frá dönskum unglingum sem leita sér lækninga eftir upp undir 7 klst notkun á dag. Hefðu þeir getað notað þessar 7 klukkustundir í eitthvað viturlegra?
Eitt nýjasta "trendið" í íslenskum skólum er að fylla þá af snjalltölvum. Frábært, engar bækur lengur, bara ennþá meiri tími í snjalltækjum!

Ég gæti svo sem fjallað um þessa áhrifaþætti einnig: grunnskólann, framhaldsskólann, háskólann, en það geri ég ekki hér, enda líklega búinn að ofbjóða nógu mörgum.


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...