11 desember, 2016

Kannski bara miklu betri.

Kannski bara vitlaust gefið er titillinn á bloggfærslu minni á sama tíma árið 2013. Hún á alveg jafnvel við nú og þá.  Það sama má segja um viðbrögðin í samfélaginu.
Ávallt þegar niðurstöður PISA kannana eru birtar gerist þetta:
1. Stórar fyrirsagnir og sopnar eru hveljur og útdeilt er misgáfulegum ásökunum hingað og þangað.
2. Þeir sem ásakanir beinast að, bera þær af sér og ræða um að fjölmargir þætti hafi áhrif á niðurstöðuna.
3. Í kjölfarið á þessu upphefst umræðan þar sem PISA kannanirnar eru rifnar niður með ýmsum hætti, ekki síst með því að halda því fram að þær mæli ekki í samræmi við þær áherslur sem eru í íslenska menntakerfninu, heldur einhverja þætti sem við teljum fremur ómerkilega. Jafnvel fara menn að velta sér úpp úr lélegum þýðingum á verkefnum sem krakkarnir áttu að leysa, en það er nú alveg sérstakur kapítuli.
4. Það eru settir á fót starfshópar til að greina niðurstöðurnar og þeir skila skýrslum, sem leiða ekki til neins..
5. Ný fréttabomba sviftir PISA umræðunni út í hafsauga og hún sest ekki aftur fyrr en næstu niðurstöður koma.

Hver er tilgangurinn með því að taka þátt í þessum PISA könnunum ef viðhorf okkar til þeirra eru þau að þegar upp sé staðið séu þær ekki að mæla rétt?
Þrátt fyrir þessar slæmu niðurstöður megum við ekki missa sjónir á að PISA könnunin er aðeins einn af mörgum mælikvörðum á skólakerfið. Hann mælir ekki frammistöðu á öllum sviðum og má þar nefna sköpunargáfu, félagsgreind, frumkvæði og fleiri mikilvæga þætti. Engu að síður gefur PISA könnunin mikilvægar upplýsingar sem við getum ekki litið framhjá og tökum því af fullri alvöru. Að mínu mati er afar margt vel gert í skólunum og kemur meðal annars í ljós í frammistöðu okkar í alþjóðlegu samstarfi á sviði vísinda og rannsókna, frumkvöðlastarfi og góðum árangri á fjölmörgum sviðum“.                                           (Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, 6. des., 2016). 
Hún mælir ekki sköpunargáfu, félagsgreind, frumkvæði og fleiri mikilvæga þætti, segir ráðherrann. Ég segi hinsvegar: Hvaða máli skiptir það? Getum við sýnt fram á að á þessum sviðum sé staðan hjá okkur jafngóð eða betri en hjá einhverjum samanburðarþjóðum?  Það þýðir ekkert að reyna að drepa málinu á dreif með svona tali.

Það er sannarlega rétt, að fjölmargir þættir leiða til þess að við komum lakar út úr þessum PISA könnunum og þó ég hafi afar ákveðnar skoðanir á því, þá krefst ég þess ekki að allir samþykki þær. Í grunninn snúast þær um grunnþætti í uppeldisaðstæðum barna í þessu landi. Um þetta fjallaði ég í greininni frá 2013 sem ég vísa til hér efst.

Þegar fólk eignast börn ætti það að fela í sér skuldbindingu, ekki bara til að gefa þeim að borða og kaupa ("versla" á nýslensku) handa þeim föt og dót (og fara á lækveiðar á facebook).
Uppeldi barna er stóralvarlegt mál þar sem foreldrar sitja uppi með skyldu til að elska, aga, móta, setja ramma, gera kröfur, styðja, hrósa og fjölmargt annað.
Ég hef heyrt foreldra tala um hvað það er mikill vinur barnsins síns. "Við erum vinir", segir það og þykir flott. Foreldri er foreldri, en ekki vinur fyrr en það hefur skilað af sér afkvæminu þannig að það geti flogið hjálparlaust um veröldina. Þangað til það gerist, er foreldri foreldri, alveg eins og önnur foreldri meðal spendýra. Hlutverk þess er að kenna barninu hvað það er að vera manneskja, vera því fyrirmynd svo lengi sem það er hægt, setja því mörk, planta í huga þess hugmyndinni um að menntun sé mikilvæg, tala við það, fórna eigin hagsmunum eða frelsi (t.d. til að sitja við Facebook þegar það kemur heim úr vinnunni), hjálpa barninu að uppgötva að það er gott við og við að láta sé leiðast, og það sem er erfitt og tekur á, sé jákvætt og ótalmargt annað.
Ekki vera vinur, heldur foreldri, sem er svo miklu merkilegra hlutverk.

Ég get alveg haldið því fram, að ofnotkun leikskólans (svo góður sem hann getur verið í hæfilegum skammti) sé með því versta sem við gerum börnum okkar, en það ætla ég sannarlega ekki að gera, enda skortir mig til þess nægilega góðan grunn. Ég gæti hinsvegar mögulega haft þessa skoðun.
Þegar ég heyri að foreldrar sendi börn sín í leikskóla í eigin fríum frá vinnu, liggur við að mér fallist hendur.  Það er bara þannig. Ég held því auðvitað til haga að í undantekningatilfellum getur þetta verið nauðsynlegt.

Að stórum hluta til má sjálfsagt rekja hluta af niðurstöðum PISA könnunarinnar til óhóflegrar notkunar að snjalltækjum af ýmsu tagi. Í gær var sagt frá dönskum unglingum sem leita sér lækninga eftir upp undir 7 klst notkun á dag. Hefðu þeir getað notað þessar 7 klukkustundir í eitthvað viturlegra?
Eitt nýjasta "trendið" í íslenskum skólum er að fylla þá af snjalltölvum. Frábært, engar bækur lengur, bara ennþá meiri tími í snjalltækjum!

Ég gæti svo sem fjallað um þessa áhrifaþætti einnig: grunnskólann, framhaldsskólann, háskólann, en það geri ég ekki hér, enda líklega búinn að ofbjóða nógu mörgum.


2 ummæli:

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...