Sýnir færslur með efnisorðinu Guðný Pálsdóttir. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Guðný Pálsdóttir. Sýna allar færslur

23 september, 2020

Að efna í aldarminningu 2 (2)

Guðný og Elín Ásta
Pálsdætur.
Þetta er framhald af þessu: Að efna í aldarminningu 2 (1).

Baugsstaðir árið 1920, já. Ég tók mig reyndar til og fletti í gegnum sóknarmannatal í Gaulverjabæjarsókn frá árinu 1917 til 1947, svona til að reyna að átta mig á því fólki sem var með skráða heimilisfesti í vesturbænum á því 30 ára tímabili sem hér um ræðir.

Í árslok 1920, þegar Guðný kíkti fyrst á heiminn, voru 10 aðrir einstaklingar með heimilisfesti á bænum. 
Þetta voru auðvitað hinir nýbökuðu foreldrar Elín og Páll (32 og 33 ára), amma barnsins, Elín Magnúsdóttir (64), Krístín, systir Elínar (37) og fimm börn hennar og Siggeirs, bróður Páls: Guðmundur Siggeir (14), Jóhann (11), Ásmundur (8), Sigurlaug (6) og Sigurður (2). Loks var þarna Kristín María Sæmundsdóttir (14), Stína María, sem var dóttir Guðlaugar, systur Elínar, eins og áður hefur verið nefnt.
11 manna heimili, sem sagt.

Aðeins um Kristínu Jóhannsdóttur og börn hennar.

Kristín var með börn sín á Baugsstöðum til ársins 1922, en þá flutti hún, eftir því sem sóknarmannatalið segir, til Reykjavíkur. Hún var síðan orðin húsfreyja á Læk í Ölfusi 1927(44). Maður hennar var þá Ísleifur Einarsson (52). Þar voru þá með henni börnin Jóhann, Sigurlaug og Sigurður Siggeirsbörn
Ásmundur og Sigurlaug Siggeirsbörn og 
Guðný og Elín Ásta Pálsdætur.

Tveir synir Kristínar og Siggeirs, þeir Guðmundur Siggeir og Ásmundur urðu eftir þegar Kristín fór frá Baugsstöðum. Guðmundur var þar skráður til 1932, þá 26 ára og Ásmundur  til 1943.  
Sigurlaug flutti með móður sinni til Reykjavíkur 1923, en kom aftur á Baugsstaði árið eftir og var þar þar til móðir hennar flutti að Læk. Þar var hún síðan þar til hún kom aftur á Baugsstaði 1935 með nýfædda dóttur sína Sigríði, sem var alltaf kölluð Sigga Ísafold í mín eyru. Sigurlaug (Silla) var síðan á Baugsstöðum með dóttur sína til 1946.
Ég ákvað að setja þennan stutta kafla um Kristínu og börn hennar og Siggeirs Guðmundssonar hér, til að halda til haga hve náin tengsl voru milli þessara fjölskyldna.

Annað fólk á Baugsstöðum 1920-1947
Guðný Ásmundsdóttir, móðir Páls, lést í maí 1920, á 67. aldursári, en ný Guðný tók síðan við keflinu í október það ár, Guðný Pálsdóttir.

Elín Magnúsdóttir með
Siggeir Pálsson (líklegast)

Elín Magnúsdóttir
, móðir Elínar, fékk að njóta heldur fleiri lífdaga en Guðný. Hún lést í apríl 1944, þá rétt að verða níræð. 
Kristín María Sæmundsdóttir  (Stína María) hvarf til Reykjavíkur, 1925, þá á 19. aldursári.
Vigfús Ásmundsson kom á Baugsstaði 1922 (62) og var þar til 1932 en fór þá að Seli í Grímsnesi, þá 72 ára.  Vigfús var bróðir Guðnýjar Ásmundsdóttur og því móðurbróðir Páls. 
Vigfús var bóndi í Haga 1889-1892 og í Fjalli á Skeiðum 1892-1896. Fæddur 23. desember 1859, d. 8. nóvember 1945. Um hann segir Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi: „Tók við búi af föður sínum, hóglætismaður og drengur góður. Kona hans var Guðrún Jónsdóttir frá Minna-Núpi, systir Guðmundar á Baugsstöðum; voru barnlaus. Bjuggu allvel, en fóru eftir fá ár að Fjalli á Skeiðum. Þar hættu þau búskap er heilsan bilaði." Jón Guðmundsson í Fjalli bætir við: „Skildu barnlaus um aldamótin. Son átti Vigfús, sem var Kjartan bóndi í Seli í Grímsnesi."  (Fréttabréf ættfræðifélagsins, 1. tbl. 1. jan. 2005).

Vigfús Ásmundsson (Fúsi)

Kjartan, bóndi í Seli í Grímsnesi var faðir Árna, "Árna á Seli", sem tók síðan við jörðinni. Það voru allmikil samskipti milli Hveratúns og fólksins Seli, Árna og Ellinor konu hans. Ég vissi, minnir mig, að það væru skyldleikatengsl, en það var ekki fyrr en fyrir nokkrum árum sem ég uppgötvaði hvernig þeim var háttað.

Sveinbarn var skráð til heimilis að Baugsstöðum 1924. Í athugasemd segir að það sé frá Hellum og sé frændi. Þetta vekur forvitni, en ekki hef ég fundið frekari upplýsingar um þennan pilt.

Hólmfríður Bjarnadóttir, skráð vinnukona, var með heimilisfesti á Baugsstöðum frá 1931-1935 eða 6. Hún var 54 ára þegar hún kom og hvarf síðan á braut 59 ára. Í sóknarmannatali er skráð í athugasemd, að hún hafi komið frá Ási í Hrunamannahreppi, en síðan strikað yfir það. Í sóknarmannatali Hrunasóknar er hún skráð sem vinnukona í Ási og þar kemur fram að hún hafi fæðst í Klapparkoti í Miðneshreppi.  Þetta er rannsóknarefni.

---------------------

Jæja, gott fólk. Nú er ég búinn að tína til það fólk (fyrir utan Elínu, Pál og börn þeirra) sem litaði heimilishaldið á Baugsstöðum í þá tvo áratugi eða svo sem Guðný, móðir mín, var að slíta barnsskónum. Mér fannst nauðsynlegt að reyna að ná utan um þetta og þykist all miklu fróðari eftir.

Næst á dagskrá er síðan að fabúlera um æsku og uppvöxt Guðnýjar og systkina hennar. Sömuleiðis hef ég í hyggju að  birta myndir af persónum og leikendum, eftir föngum. Þarf bara að hitta einn mann.


FRAMHALD



20 september, 2020

Að efna í aldarminningu 2 (1)

Fimmtudaginn 7. október, árið 1920 fæddist á Baugsstöðum í Stokkseyrarhreppi, stúlka sem hlaut nafnið Guðný og hún var dóttir hjónanna Elínar Jóhannsdóttur og Páls Guðmundssonar. Þetta þýðir að við blasa þau tímamót að 100 ár verða liðin frá fæðingu móður minnar, en hún lést þann 19. desember, 1992, fyrir tæpum 28 árum.
Af þessu tilefni hyggst ég tína saman eftir getu, helstu þætti í ævigöngu Guðnýjar, frá fyrstu skrefunum á Baugsstöðum til dauðadags. Hvernig til tekst verður bara að koma í ljós.

Ég hef nú alltaf átt fremur efitt með að átta mig á samsetningu íbúa á Baugsstöðum á þeim tíma sem mamma fæddist, en veit samt eitthvað og reyni að bæta aðeins við þekkinguna af þessu tilefni.

Í ársbyrjun 1918 voru þessi skráð í sóknarmannatal Gaulverjabæjarsóknar, með búsetu á vesturbænum á Baugsstöðum:
Guðmundur Jónsson, bóndi (68)
Guðný Ásmundsdóttir, kona hans (64)
   Siggeir Guðmundsson, sonur þeirra (38)
   Kristín Jóhannsdóttir, kona hans (34)
      Guðmundur Siggeir Siggeirsson, sonur þeirra (11) 
      Jóhann Siggeirsson, sonur þeirra (8)
      Ásmundur Siggeirsson, sonur þeirra (5)
      Sigurlaug Siggeirsdóttir, dóttir þeirra (3)
   Páll Guðmundsson, vinnumaður (30)
Elín Jóhannsdóttir, vinnukona (29)
Elín Magnúsdóttir, vinnukona (62)
Kristín María Sæmundsdóttir, á sveit (11)

Sóknarmannatal 1917

Það sem lesa má út úr þessum lista er, meðal annars, að á Baugsstöðum bjuggu þau Guðmundur og Guðný ásamt tveim sonum sínum, þeim Siggeiri og Páli

Siggeir var kvæntur Krístínu og þarna höfðu þau eignast fjögur börn og það fimmta, Sigurður, var á leiðinni og fæddist þann 10. mars þetta ár. 

Páll er skráður vinnumaður í sóknarmannatalinu, enda hefði mátt reikna með að eldri sonurinn tæki við búinu á Baugsstöðum í fyllingu tímans. Þarna var einnig á bænum Elín Jóhannsdóttir, systir Kristínar konu Siggeirs.  
Ennfremur var þarna móðir Elínar og Kristínar, Elín Magnúsdóttir, en eiginmaður hennar og faðir systranna, Jóhann Hannesson, varð úti 1891, en þá höfðu hann og Elín komið sér fyrir á Baugsstöðum.

Loks er nefnd í sóknarmannatalinu Kristín María Sæmundsdóttir og hún sögð vera "á sveit". Þessa konu þekkti ég og mitt fólk sem Stínu Maríu. Stína María var dóttir Guðlaugar, sem var systir Kristínar og Elínar, en auk systranna þriggja sem hér hafa verið nefndar eignuðust Jóhann og Elín fjögur börn saman og Elín eina dóttur, nokkrum árum eftir lát Jóhanns.  

Hér velti ég fyrir mér hve mörg ykkar eruð búin að gefast upp, en nú finnst mér ég var búinn að kynna nóg af persónum sem tengjast vesturbænum á Baugsstöðum, þarna í upphafi ársins 1918. Þetta ár var mikið örlagaár.

Árið 1918

Kristín og Siggeir 
á Baugsstöðum
Guðmundur Jónsson, bóndi, lést
 í byrjun febrúar, eftir heilablóðfall haustið 1917.  Þar með kom það í hluta bræðranna Siggeirs og Páls að taka við búinu.
Siggeir drukknaði síðan þann 1. desember. 
Slys. 
Það sorglega slys vildi til á Baugstöðum nálægt Stokkseyri, að ungur myndarmaður, Siggeir Guðmundsson á Baugsstöðum, var að reka kindur upp frá sjó og var lasinn, kom ekki heim um kvöldið og er leitað var fanst hann um miðjan dag daginn eftir í sjónum og vissu menn eigi hvort hann hefði dottið og rotast, eða druknað
 (Tíminn .21.12.1918)
Í Íslendingabók er þetta sagt um dauða Siggeirs: Drukknaði, sennilega féll hann niður af völdum Spænsku veikinnar.


Þarna féllu bóndinn á bænum og eldri sonurinn báðir frá á sama ári.  Kristín, skráð í sóknarmannabók sem "búandi ekkja" með 5 börn á aldrinum 0-12 ára. Páll og Elín enn skráð sem vinnuhjú, Guðný, móðir Elínar, sem ekkja og Stína María sem "á sveit".

Árið 1919

Páll og Elín á Baugsstöðum

Sóknarmannatal greinir frá því að Páll Guðmundsson (32) sé tekinn við búinu. Elín (31) er skráð sem vinnukona. Á Baugsstöðum eru nú 3 ekkjur og 6 börn. 
Einhverntíma var mér sagt að Páll og Elín hafi alist upp eins og systkini, enda jafnaldrar, feður þeirra bræður og mæður þeirra systur. Þetta gat varla endað nema á einn veg.  
Á jóladag þetta ár gengu Páll og Elín í hjónaband. 

Árið 1920                                                            

Sóknarmannatal 1920

Þetta ár verður að teljast upphafið á þessara samantekt minni í tilefni af aldarafmæli móður minnar, en eins og áður segir, kom hún í heiminn þann 7. október og var fyrsta barn hjónanna Páls Guðmundssonar og Elínar Jóhannsdóttur.

--------------------------------
Svo kemur bara meira næst.

Til athugunar:

Þann 29. september, 2018 hefði faðir minn, Skúli Magnússon, átt aldarafmæli ef henn hefði lifað. Af því tilefni tók ég saman helstu þætti í ævi hans og birti hér í 7. pistlum. 


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...