Kynjahlutfall meðal kennara í grunnskólum. |
Það fór lítilsháttar hneykslunaralda um samfélagsmiðla fyrir nokkrum dögum þegar framkvæmdastjóri jafnréttisstofu tjáði sig um ástæður þess að drengir falla frekar út úr skólakerfinu. Framkvæmdastjórinn var m.a. útnefndur "skúrkur vikunnar":
Hjörvar Hafliðason og Kjartan Atli Kjartansson, umsjónarmenn Brennslunnar, útnefndu Kristínu skúrk vikunnar fyrir þessi ummæli hennar og gagnrýndu þau harðlega.(Nútíminn 17. janúar)Það sem framkvæmdastjórinn mun hafa sagt, efnislega, er að piltar falli frekar úr skólakerfinu vegna þess að þeir ala með sér drauma um að verða hetjur eða fáránlega ríkir.
Þetta er auðvitað alveg rétt hjá framkvæmdastjórnanum.
Það sem vantar hinsvegar í málflutninginn er ástæðan fyrir þessum draumum ungra pilta.
Hér fyrir neðan er að finna hlekki þar sem ég fjalla um uppeldismál eins og ég sé þau vera.
Ég nenni varla að fara enn einu sinni að fjargviðrast út að stöðu uppeldismála í þessu samfélagi, ætla bara segja þetta þessu sinni, en vísa að öðru leyti í það sem ég hef sagt um þessi mál áður. Það sem ég hef sagt hefur ekki fengið neinar undirtektir og ég hef hvergi séð neinn annan halda þessu fram.
Við höfum flest séð skemmtileg myndskeið af því hvernig dýr, sem alin eru upp meðal annarrar dýrategundar en sinnar eigin, hafa aðlagast lifnaðarháttum og atferli tegundarinnar sem elur það upp.
Þetta myndskeið sýnir lamb sem telur sig vera hund:
HÉR er það hundur sem telur sig vera kött.
Svo er hér myndskeið af úkraínskri stúlku sem var alin upp meðal hunda:
Ekki er ég nú svo mikill öfgamaður í uppeldismálum að ég haldi því fram, að uppeldisaðstæður drengja séu fyllilega sambærilegar við það sem sjá má hér fyrir ofan, en samt tel ég að þær séu talsvert langt frá því að vera eins og best getur verið.
Það getur vel verið að við séum sammála um að það beri að ala stráka og stelpur eins upp. Þá er það bara svo, en uppeldið hlýtur þá að vera með þeim hætti að það taki með í reikninginn mismunandi líffræðilega eiginleika kynjanna.
Ég vil halda því fram að drengir fái ekki það uppeldi sem þeir þurfa til þess að geta notið sín sem karlmenn síðar.
Uppalendur þeirra eru nánast eingöngu konur. Það er þannig með konur, að líffræðilega eru þær eru ekki karlar. Reynsluheimur þeirra er kvenlegur, hugsanir þeirra, skoðanir, atgerfi, útlit, eða bara flest, er kvenlegt. Það segir sig nokkuð sjálft. Af þessum ástæðum hlýtur uppeldið sem þær veita börnum að henta kynjunum mis vel. Mér finnst að þetta segi sig sjálft.
Uppalendurnir eru fyrirmyndir barnanna. Fáir geta víst neitað því. Það er af foreldrum og kennurum sem börnin öðlast hugmyndir um það hvað þau eru, en þar með er ekki öll sagan sögð. Tíminn með foreldrunum verður æ styttri og börnin eyða stærstum hluta vökutíma í stofnunum þar sem einvörðungu (nánast) starfa konur. Tíminn með foreldrunum er frá því um kl . 17:30 til kl 20 á virkum dögum. Hve mikið af þeim tím nýtist til samskipta eða raunverulegrar samveru með foreldrunum? Hve mikinn hluta þess tíma nýta foreldrarnir til þess að ná sér niður eftir vinnudaginn eða sinna nauðsynlegum heimilisverkum. Hvað með helgarnar. Hve mikinn tíma um helgar hafa drengir með föður sínum í raun?
Ég hef haldið þessum skoðunum fram. Einu viðbrögðin sem ég hef fengið eru að þetta sé bara bull; rannsóknir sýni að kyn kennara skipti engu máli. Ætli það sé ekki einhver svona rannsókn sem vísað er til?
Dæmi um rannsókn sem var hluti af B.Ed. verkefni við HA árið 2005:
Rannsóknarspurningarnar sem leitast var við að svara voru: Hefur kyn kennara áhrif á kennslu? Finnst nemendum á unglingastigi skipta máli af hvoru kyninu kennari þeirra er? Hvaða eiginleikum telja nemendur að kennari þeirra eigi að búa yfir? Notuð var megindleg rannsóknaraðferð þar sem spurningalistar voru lagðir fyrir nemendur í 9. bekk á Akureyri. Úrtakið var 266 nemendur eða 134 stelpur og 132 strákar.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru að nemendum finnst ekki skipta máli af hvaða kyni kennari þeirra sé. Nemendur hafa hins vegar ákveðna skoðun á því hvaða eiginleika þeir vilja helst hafa í fari kennarans. Hann á einkum að vera skemmtilegur, fyndinn og þolinmóður. Kyn kennara virðist ekki hafa áhrif á kennslu, heldur þykir mikilvægara að kennari sé hæfur í starfi. (úr rannsókn sem var hluti af B.Ed. verkefni við HA árið 2005).
Ég verð að segja það, að á niðurstöðum þessarar rannsóknar get ég ekki tekið mark. Segjum sem svo að lambið á myndskeiðinu hér fyrir ofan gæti svarað spurningunum: Skiptir það máli hvort þú elst upp meðal hunda eða sauðfjár? og Hvaða eiginleika telur þú að góður uppalandi eigi að hafa? Myndi lambið sem hefur bara alist upp meðal hunda moögulega hafa forsendur til að telja uppeldi meðal sauðfjál betra? Myndi það t.d. hafa hugmyndaflug til að segja að það væri góður eiginleiki uppalenda að geta jarmað?
Nei, strákar skortir fyrirmyndir í skólakerfinu og þar er auðvitað við karlmenn að sakast. Þeim ber skylda til að gera sig gildandi á þessu sviði og ég tel þar mikið vera í húfi.
Líffræðilega eru strákar strákar, hvað sem tautar og raular, en hvað gerir umhverfið úr þeim sem manneskjum?
Ég er ekkert hissa á niðurstöðu framkvæmdastjóra jafnréttisstofu. Ég er hinsvegar hissa á að hann skuli ekki fjalla um ástæður þess að strákar vilja verða atvinnuknattspyrnumenn.
Hlekkir á nokkur fyrri blogg mín um þessi mál:
Alhæfingar rétttrúnaðarins 2012
Það má auðvitað ekki segja það, en ......... 2010
Þjóðfélag á hverfanda hveli 1 2008
Þjóðfélag á hverfanda hveli 2 2008
Þjóðfélag á hverfanda hveli 3 2008