Ég hef ekki látið af þessu og skal nú lítillega greint frá nýjasta afreki mínu á þessu sviði.
Lagt var upp í heimsókn til nýbakaðra Borgnesinga með fulltingi gamla unglingsins og akandi í grænu þrumunni hans. Ferðalagið sjálft gekk vel - svo vel reyndar, að mér þótti með fádæmum. Í upphafi ferðar var mér gert að segja til um hvenær áfangastað yrði náð og til að segja eitthvað nefndi ég 12.15 og var þá klukkan kl 10.15 - þegar ferðin hófst.
Eftir akstur um Grafnning, Kjósarskarð, Hvalfjarðarbotn, Dragháls og Skorradal ásamt viðkomu í Hreppslaug (áhugavert staðarheiti) var rennt í hlað við tiltekið hús í Borgarnesi, nákvæmlega þegar sekúnduvísirinn small og klukkan varð 12.15.00 eins og ég hafði auðvitað sagt. Ég var svo sem ekkert hissa á þessari einstöku rýmisvitund minni, en fannst nokkuð miður hve hrós fyrir þetta afrek reyndist takmarkað úr munni samferðafólks.
Ferðin sjálf átti nú aldrei að vera í einhverju aðalhlutvereki hér, heldur þeir atburðir sem gerðust þegar dýrindismáltíð hafði verið borin á borð fyrir okkur ferðalangana. Þannig var að drykkjarglösin voru sérlega fín, e.k. hvítvínsglös með grænunm fæti og úr þeim var drukkið lítilsháttar öl.
Þegar merihluti máltíðarinnar var liðinn birtist í borðstofunni stór og verklegur geitungur, sem renndi sér fimlega milli matargesta, sem auðvitað brugðust misvel við heimsókninni. Hófust umræður árasargjarna geitunga á þessum árstíma og drottningar sem væru farnar úr búunum og væru skaðræðiskvikindi. Allir töluðu með hálfkrepptum vörum og gættu þess að hreyfa hvorki legg né lið. Meðal hugmynda sem fram komu um að losna við kykvendið var að ná í ryksugu, opna út á svalir eða leita að töfraefninu því sem nýtist vel í Kvistholti (það var reyndar ekki til á þessum bæ).
Það er vel þekkt, að geitungum finnst ölið gott, og það kom loks í ljós þegar þessi renndi sér að einu hinna fínu ölglasa og settist á glasbrúnina. Þaðan hóf hann síðan göngu sína ofan í glasið til að dreypa á vökvanum. Það var þá sem snilldin tók völdin. Munnþurrka var sett yfir glasið og haldið fast. Með þessu var bara hálfur sigur unninn - enn lifði hann. Hinn góði maður, húsbóndinn á umræddu heimili, tók glasið og hugðist fara með það, með geitunginn innbyrðis, út á svalir og sleppa honum þar. Þetta töldu Kvisthyltingar (alræmdir geitungabanarnir) hreint ekki við hæfi. Svona kvikindi átti ekki að sleppa lifandi frá aðstæðum sem þessum.
Það varð úr, að ég fékk glasið í hendur; ofan í því grimmilegur geitungurinn og munnþurrkan lokaði fyrir möguleika hans á að sleppa. Hugmyndin hljóðaði einfaldlega upp á að ég þrýsti munnþurrkunni ofan í glasið þar til líf væri farið úr kvikindinu. Auðvitað, eins og mér er einum lagið, skoðaði ég verkferilinn allan, fram og til baka áður en ég hófst handa. Þegar ég taldi alla möguleika á að vinurinn slyppi, útilokaða, hóf ég að þrýsta munnþurrkunni ofan í glasið. Varlega og yfirvegað fyllti munnþurrkan smám saman kúlulaga glasið og stöðugt þrengdi að geitungnum. Hann gerðist órólegur og freistaði útgöngu, en ég gaf engin grið - þrýsti áfram - hann skyldi sko drepinn sá djöfull!
Ég þrýsti enn og nú gat félaginn sig hvergi hreyft lengur. Ég þrýsti áfram og hann var orðinn hálf klesstur upp við glasvegginn, en hreyfðist enn. Einn lokaþrýstingur skyldi nú enda þá óláns lífsgöngu sem þarna hafði verið um að ræða.
Skyndilega heyrði ég smell og leit á glasið, en ég hafði, sem sagt, litið upp á borðfélagana svona rétt áður en verkið skyldi fullkomnað. Hliðin var úr glasinu, en sannarlega var geitungurinn kraminn til ólífis. Í hálfa sekúndu velti ég því fyrir mér hvort ég kæmist upp með þetta þannig að húsbændur vissu ekki af, en varð auðvitað jafnskjótt ljóst, að um það væri ekki að ræða.
Þau brugðust auðvitað ljúfmannlega við þessu 'óhappi' - en ég veit ekki enn hvort hér var um að ræða ódýrt bónusglas eða ómetanlegan ættargrip og mun sennnilega aldrei fá neitt um það að vita.
Geitungurinn var allur - og það er mest um vert.
Geitunginn leit ég í glasi,
grimmur hann virtist og stór.
Með firna rólegu fasi
ég fargaði honum í bjór.
- ég tek fram að myndirnar eru ekki eftir mig - þó þær gætu vissulega verið það.