23 ágúst, 2009

Hvað skal með hvítt borð?

Eins og fólk á mínum aldri veit af langri reynslu, þá er lífið stöðugt að taka breytingum. Eitthvert tiltekið ástand sem var, er ekki lengur. Breytt ástand kallar að ýmsu leyti á breytingar, sem hjálpa til við aðlögun að hinu nýja ástandi, oftast í þá átt að maður þarf að bæta við, frekar en draga úr, eða jafnvel losna við eitthvað það sem hentaði ástandi mála á einhverju tímaskeiði, en gerir það ekki lengur.

Það er þannig með málið sem hér um ræðir - málið með hvíta eldhúsborðið.
Það voru tímar sem kölluðu á þetta hvíta borð: fjölskyldan var orðin 6 manns. Þegar varla var orðið sætt í eldhúsinu við morgunverðinn lengur, sökum þrengsla við lánsborðið, sem lengi var notað, ákváðu Kvisthyltingar á fjárfesta í þessu fína, hvíta eldhúsborði, sem var meira að segja stækkanlegt. Lánsborðinu var skilað, reyndar ekki fyrr en áratugum seinna (ef það hefur þá verið gert - hvað veit ég? Það getur vel verið að það gegni enn einhverju burðarhlutverki í þvottahúsinu).
Hvíta borðið naut þess að vera umvafið Kvisthyltingum þar til þeir fóru að tínast burtu, einn af öðrum. Þegar þeir voru orðnir eftir þrír, kom fram sú hugsun, að það væri hreinlega orðið of stórt, ekki síst þar sem æskilegt þótti að fá meira athafnarými í ekki allt of stóru eldhúsinu.
Það vildi svo vel til, að á þessum sama tíma fór að bera á myndlistaráhuga fD og þar með fannst nýtt hlutverk fyrir hvíta borðið og jafnframt afsökun fyrir því að kaupa nýtt og betur passandi eldhúsborð. Hvíta eldhúsborðið varð, sem sagt að hvíta myndlistarborðinu. Þarna fékk það að gegna sínu hlutverki í tiltölulega stuttan tíma, eða þar til sú stund kom, sem þegar hefur verið greint frá hér, að fD taldi sínum málum vera betur fyrir komið á skrifstofu heimilisins, ekki síst þar sem þar var að finna afar stórt og veglegt borð, sem hentaði betur. Myndlistin var flutt niður á skrifstofuna og skrifstofan, eða það sem eftir var af henni, í fyrrverandi myndlistarherbergi, sem nú skyldi fyrst og fremst hýsa tölvubúnað af ýmsu tagi. Hvíta borðið hentaði einfaldlega ekki þeirri starfsemi sem þar skyldi fara fram, heldur var keypt viðeigandi plata með viðeigandi festingum, sem nú prýðir tölvuherbergið, nákvæmlega í réttum hlutföllum.
Hvíta borðið fór hinsvegar fram á gang og þar stendur það enn, engum til gagns og fremur til óþurftar, enda þarf að komast framhjá því mörgum sinnum á dag og það hefði sannarlega ekki verið mál fyrir 30 árum.

Vissulega hefur verið rætt hver örlög hvíta borðsins skulu vera og það sem liggur beinast við er að keyra það út í timburgám, í þeirri von að það verði þannig til einhvers framhaldsgagns (sem verður þó að draga í efa). Þetta er hinsvegar ekki eitthvað sem mér hugnast, enda sérlega ágætt hvítt borð hér á ferðinni.
Ég hef hugsað mikið um hvert mögulegt gagn borðið gæti gert hér, en hef ekki komst að viðunandi niðurstöðu þar um. Hér er frekar þörf á að fækka húsgögnum en viðhalda eða bæta við. Hvað myndi gerast ef einhver teldi sig husanlega hafa not fyrir borðið? Það er spurning sem ekki hefur verið svarað - og hún hefur ekki einu sinni verið borin upp við fD.
Það er hinsvegar nokkuð klárt, að hvíta borðið verður ekki á þeim stað sem það er nú mikið lengur. meira að segja ég myndi ekki láta það gerast.

Allt um kring mig eðalmenni sátu
og árbít sinn og kaffibrauðið átu.
Hver örlög verða mín ég ekki veit
en ágæt var hér dvöl, í skógarreit.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...