21 ágúst, 2009

Sálfræðidýrkun (sakleysisaumingjaskapsdýrkun)

Tvennt varð til þess að ég ákvað að freista þess að tjá mig (enn eina ferðina) um málefni sem hefur verið mér nokkuð hugleikið um langa hríð.
Annarsvegar stóð það upp úr miðaldra fólkinu á Laugaráshátíðinni góðu, að það gæti ekki hugsað sér sín eigin börn við sambærilega iðju og það ástundaði hér í Laugarási í sínu ungdæmi (eggjastuldur, hænustuldur, kapphjólreiðar niður brekkuna, sem enduðu í botnlausum drulluskurði, pappavafningsreykingar, svo dæmi séu nefnd).
Hinsvegar er það svo, að þessa dagana er gamli unglingurinn afar upptekinn af því að fjalla um agamál í skólum, þar sem ég er annars vegar, með tilvísun til eigin skólagöngu á 5. áratug síðustu aldar. Þegar ég lýsi fyrir honum nálgun skólakerfisins að unglingunum nú til dags, kallar hann það sálfræðidýrkun.

Auðvitað viðurkenni ég, að það getur verið gagnlegt að vita skýringar á hinu og þessu í mannlegu eðli, en þegar þekkingin er notuð í þeim tilgangi að ala upp börn sem eru stöðugt umvafin hinni hnausþykku dúnsæng Storgaardismans, þá tel ég það jaðra við misnotkun á fræðunum. Börn sem aldrei fá að reka sig á eru líkleg til að ímynda sér að það sé ekki til neitt vont nema einhversstaðar inni í tölvunni eða sjónvarpstækinu. Þau hneigjast væntanlega til að trúa því að þegar eitthvað vont eða erfitt er framundan þá eigi þau að hlaupa burt. Heimurinn sem þau alast upp í er að hluta til heimur apanna þriggja, sem ekki máttu heyra, sjá eða segja neitt vont.

Hvort sem okkur líkar það betur eða verr þá tel ég að börn þurfi að fá að upplifa sjálf erfiðleika, áhættu, mótlæti eða sársauka upp að einhverju marki. Slíkt umhverfi býr til manneskju sem er tilbúin fyrir þá veröld sem þeir fullorðnu þurfa að takast á við.

Er ekki líklegt að drengjakórinn bindis- og jakkaklæddi, sem þóttist geta gert Ísland að ríkasta landi í heimi af efnislegum gæðum, hefði haldið öðruvísi á málum, ef hann hefði einhverntíma á lífsleiðinni komist í kast við verulegt mótlæti af einhverju tagi. Hann hefði hugsanlega lært, að lífið snýst miklu fremur um aðra og manneskjulegri hluti en öll þó ókjör hugtaka um efnahags- og peningamál sem við erum búin að læra á undanförnum árum, bera vitni um.

Nú blasir við afsprengjum sálfræðidýrkunarinnar veruleiki þar sem ekki er lengur sagt 'já, elskan' þegar hugurinn kallar á nýja græju.
Við höfum sennilega ekki lengur efni á því að klæða leikvelli landsins með gúmmíteppum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...