31 janúar, 2016

Ylur minninga á þorra

Hvað er betra þegar maður er búinn að leyfa hrímköldum þorra að leika um lungun, búinn að njóta þess, með frostbitið nefið, að skella sér í kraftgöngu um Laugarási í þrítugum kraftgallanum, en að ylja sér við minningar í myndasafninu, sem vex með hverju ári.
Í samræmi við ofangreint rakst ég á stutt myndskeið frá 2010.
Við fD skelltum okkur til Þýskalands til að fara á útitónleika þar sem tenórinn okkar tróð upp ásamt ítölsku sóprandívunni Luciu Aliberti. Upplifun okkar þarna gerði ég auðvitað skil hérhér og hér.
Þarna varð minna úr upptökum en til stóð þar sem allt slíkt var harðbannað og ég auðvitað, sem ávallt, fór að þeim, reglum sem giltu, að langmestu leyti.  Þó lét ég mig hafa það að taka skot og skot.
Hér er stutt myndskeið þar sem tenórinn er að flytja O, sole mio á umræddum útitónleikum. Það má glöggt sjá á þessu myndskeiði hver áhrif flutningurinn hafði á föðurinn, sem auðvitað gleymdi alveg að fylgjast með hvort myndefnið væri í rammanum.




23 janúar, 2016

Janúar blús - þreyjum þorrann

Ætli mér sé ekki óhætt að fullyrða, að ástæðu þagnar minnar á þessum síðum undanfarið megi rekja til árstímans. Fyrstu tveir mánuðirnir hafa aldrei talist með þeim vinsælustu í huga mér og mér liggur við að segja að séu þeir nánast hundleiðinlegir, í það minnsta svona í stórum dráttum. Ég veit að þetta er ekki fallega sagt og sjálfsagt ekki á bætandi mögulegan miðsvetrarblúsinn í hugum ykkar sem þetta lesið.

Grámi þessa dags í síðari hluta janúarmánaðar kallar ekki fram neinn sæluhroll. Það er kalsarigning og hvasst í nágrenni Laugaráss.  Landsliðið, sem oft hefur nú lýst um þennan dimmasta tíma ársins, er úr leik og maður verður að halda með Degi eða Guðmundi. Þorrablót Tungnamanna var í gærkvöld, en þangað fór ég ekki. Laugarásbúar halda sig heima við og það er hálka á vel ruddum gangstígum. Framundan eru síðustu dagar janúarmánaðar og þá tekur febrúar við, og svipað ástand.

Ég er nú bara að grínast með þetta allt saman, verður það ekki að teljast líklegt? Í allri þeirri sút sem við kunnum að upplifa á þessum árstíma, þurfum við ekki annað en beina athyglinni að því hve heppin við erum í þessu landi allsnægtanna og undrafegurðarinnar.
Líf flestra okkar er harla öruggt og við njótum þess, að lúta forystu á stjórnmálasviðinu sem slær hvert heimsmetið á fætur öðru á hinum aðskiljanlegustu sviðum. Við höfum í rauninni óbilandi trú á þeirri braut sem leiðtogar okkar ryðja fyrir okkur. Við erum þess fullviss að forysta þeirra muni færa okkur alla þá brauðmola sem við eigum skilda. Við megum ekki vera vanþakklát því óendanleg viska landsforeldranna, þó stundum skorti okkur vit eða sýn til að skilja hvert þeir eru að leiða okkur, mun á endanum leiða okkur inn í fyrirmyndarríkið þar sem hver fær það sem hann á skilið, hvorki meira né minna.

Sannarlega er ástæða til að gleðjast, til að fagna ljósinu, ekki aðeins ljósi eldhnattarins sem dag frá degi hækkar á himinhvolfinu, heldur ekki síður viskunni, réttsýninni, mannskilningnum, kossunum og faðmlögunum sem leiðtogar okkar eru svo ósinkir á og sem veita okkur innblástur til afreka sem við höfum ekki getað ímyndað okkur að væru á okkar færi.

Ég er viss um að ég gæti orðið öflugur áróðursmeistari  tiltekinna stjórnvalda austast í Asíu, ef dæma má af því sem ég hef lamið inn hér fyrir ofan. Mér virðist reynst auðvelt að breyta svörtu í hvítt og öfugt, í samræmi við það hvernig vindar blása hverju sinni. Slíka andagift get ég fyrst og fremst þakkað undursamlegri leiðsögn minna ástkæru leiðtoga.

Þessi skrif eru innblásin af starfi íslenskra stjórnvalda, segja jafn mikið og jafn lítið. Þau eru af ásettu ráði eins og þau eru, hvork of né van. Allt eins og því er ætlað að vera.

Megi fínu jólapeysurnar okkar gleðja ykkur, kalla fram
lítil bros, auka bjartsýni og efla trú á íslenska þjóð.





09 janúar, 2016

Formannavísur á Stokkseyri 1891

Sigurður Pálsson á Baugsstöðum

Ég verð seint talinn til hóps þess fólks sem ber skynbragð á sjósókn á einhverjum tíma. Þrátt fyrir það á ég ekki langt að sækja tengsl við sjómenn og þá aðallega vegna þess að móðir mín, Guðný, fæddist á Baugsstöðum í Stokkseyrarhreppi og þar bjuggu foreldrar hennar Elín Jóhannsdóttir og Páll Guðmundsson og bræðurnir Siggeir og Sigurður. Af þessum hópi er Sigurður einn eftir og býr enn í gamla bænum, en hann fæddist 1928 og er því 87 ára um þessar mundir.  Hjá Sigga er flest með sama hætti og hjá foreldrum hans. Hann setur upp jólatré sem langafi minn smíðaði og býr yfir mikilli þekkingu á ættarsögunni.


Sjóbúðir á og í grennd við Baugsstaði
Foreldrar afa míns og ömmu bjuggu einnig á Baugsstöðum og þaðan voru stundaðir sjóróðrar á opnum bátum og ég  man eftir þeim síðasta sem var kallaður Græðir. Ég geri fastlega ráð fyrir að um útgerðina frá Loftsstaðasandi hafi þegar verið skrifað heilmikið þó ekki viti ég það. Þó svo væri ekki, yrði það aldrei mitt hlutverk að færa þá sögu í letur.


"Frá Baugsstöðum" - sjóbúðir

Það sem varð til þess að ég set inn þessa færslu voru 45 vísur sem ég rakst á úr fórum foreldra minna. Ekki veit ég hvort þær eru þegar til á prenti, en geri þó frekar ráð fyrir því, hef að minnsta kosti séð nokkrar þeirra í vísnaþáttum héraðsfréttablaða.

Höfundur vísnanna: Magnús Teitsson

Þetta er meðal þess sem ég fann um Magnús:
Magnús Teitsson (1852-1920) fæddist í Kolsholti í Villingaholtshreppi, var formaður í Garðbæ á Stokkseyri, síðar á Brún á Stokkseyri. Foreldrar hans voru Teitur Jónsson bóndi í Vallarhjáleigu í Gaulverjabæjarhreppi og kona hans Kristrún Magnúsdóttir.
Árið 1920 dó á Stokkseyri aldraður maður, Magnús Teitsson að nafni. Hann var ættaður af Eyrum og mun hafa átt þar heima alla sína ævi. Aðalatvinna hans framan af ævi voru sjóróðrar á vetrum og kaupavinna á sumrum. Stundum var hann líka háseti á þilskipum við Faxaf lóa, er sá útvegur tók að færast í aukana. Magnús var vel verki farinn og hinn hagasti, að hvaða verki sem hann gekk. Kunnastur er hann samt fyrir hinar smellnu vísur, er hann hafði jafnan á hraðbergi, því að hann var prýðilega hagmæltur og oft ótrúlega fljótur að koma saman vísu.
 Magnúsi er svo lýst, að hann hafi verið tæplega meðalmaður að hæð, en þrekinn og svarað sér vel, og beinvaxinn var hann fram á elliár. Hann var kringluleitur, réttnefjaður, fullur að vöngum og nokkuð kinnbeinahár. Hann var ekki ennismikill né höfuðstór. Það sem einkenndi hann sérstaklega frá öðrum, voru augun, þau voru fremur lítil, dökkmóleit, eldsnör og gáfuleg. Hann var dökkur á hár og skegg, alskeggjaður, og yfirskeggið úfið. Hann tók í nefið, og vildi þá neftóbak hnoðast í hið úfna yfirskegg og loka nösunum. Þess vegna hóf hann oft mál sitt með því að blása snöggt út um nefið. — Vín þótti honum mjög gott.  

Hér eru vísur Magnúsar um formenn á Stokkseyri 1891

Formennina veit ég ekkert um og flestar vísnanna skil ég hreint ekki. Það getur vel verið að þarna finni einhver vísu um langafa sinn.

Það skal heyra þjóðin svinn
þá, sem keyra um skervöllinn
fiska leira fákinn sinn
frá Stokkseyri um veturinn.

Adólf keyrir kaðla jó
kalt þó heyrist Ránar hó
örum meiri áls um mó
á Stokkseyri halur bjó.

Afla notar alvanur
ára gota framsettur
á keilu slotið kappsamur
frá Keldnakoti Bernharður.

Bensi ferðast fiska um lá,
fín þó skerðist lognin blá,
aðsókn herðir ötull sá,
Íragerði vestra frá.

Askinn fjarða um ýsu lá,
ei þó skaði bylgjan há,
blágóms jarðir beitir á
Bárður, Garði ytra frá,

Út á stikar ægi lon
á árablika í happa von,
breið þó lyki bláleits kvon,
Bjarni Nikulásarson.

Brátt ef slotar bylgjan há,
ber sig otalandi frá
báru gota á byrðings lá,
Bjarni, koti Hellu frá.

Flæðar músa frambrunar
frekt og knúsar bárurnar
bjargar fús um breiðan mar
Bjarni í húsi Símonar.

Ört, nær liggur aldan stinn,
ára Frigg á skervöllinn,
otar hygginn æ hvert sinn
Einar byggir Pálsbæinn.

Fokku barða fetar á,
frek nær skarðar kólgan há,
alúð sparar enga sá,
Einar, Garðhúsunum frá.

Siglu bolla um síla lá
setur holt í afla stjá
með ýta stolta á öldu blá,
Einar, holti Borgar frá.

Borða kjóa beita má,
breið þá hói aldan grá,
gedduflóa gruggið á
Grímur, Móakoti frá.

Árna kiði á öldu knur
ýtir sniðugt hugaður,
straums á iðu stöðugur,
Steindórs niður, Guðmundur.

Oft þó heyrist hrönin blá
Halldór keyrir neglu má,
hjá Stokkseyrarseli
siglir leirinn mjaldurs á.

Þó Ægir vaði öflugur
ára naðinn framsetur
á keilu traðir kappsamur,
Kolbeinsstaða Hallgrímur.

Hannes eigi hræðast má,
hátt þó geygi röstin blá,
ríður fleyi Roðgúl frá
rastar veginn breiðan á.

Ingvar Karels kundur snar,
kalt þó svari hafmeyjar,
lætur fara fokku mar
fram á þara leiðirnar.

Létt þó blundi báru són,
borða hundi laus við tjón,
Vernharðs kundur vaskur, Jón
vel fær heundið sels á lón.

Hvals á frón hinn hugdjarfi
hlunni lóna stýrandi,
gildur þjónar gæfunni
gætinn Jón í Framnesi.

Eins þó láar ærist knur,
aflann háa Jón finnur,
Holti frá um haföldur
hestinn ráa fram setur

Jón þó sveimi jötuns gól,
jóinn teymir ára á ról,
ekki feimins áls á ból,
á nú heima á Rauðárhól.

Á húna kiði ei hræðist tjón,
hátt þó iði bylgju són ,
þræðir sniðugt þorska lón
Þórðar niður, ungur, Jón.

Flæðar keyrir fákinn sinn
á fiska leirinn vel heppinn,
þó jötuns heyrist jögunin,
Jón, Stokkseyrar húsbóndinn.

Dvergasteinum dregur frá,
djarft þó veini bylgjan há,
Jón, með sveina um síla lá
sinn að reyna kaðla má.

Jafnt þó brúsi báru frón,
borða krús á mjaldurs lón,
ýtir fús með afla bón,
á Móhúsum bóndi, Jón.

Eins þó blekki báran há,
bila ekki stjórinn má,
öllum þekkur ýtum sá,
ungur Kekki, Jón er frá.

Þó virða lýi veðra þrá,
viskustiginn sigla má,
húna kríu á höfin blá
hann Júníus, Seli frá.

Áls um bungu æ forsjáll
ára lungi beitir þjáll,
þó seltu drungi sýnist háll
sonur ungur Þórðar, Páll.

Pálmar keyrir kaðla, dýr,
kaldan þeyinn ekki flýr.
Áls á leirinn ötunn, skýr,
á Stokkseyri núna býr.

Dreka hnellinn ára á,
þó aldan skelli flúðum hjá,
mjaldurs svellið miðar á
Magnús, Helli kominn frá.

Magnús beitir ára örn,
áls um bleytu reynir vörn,
borinn Teiti um byrðings tjörn,
þó báran þeyti reiði gjörn.

Hafs á fletin, hugdjarfur,
hlunnjó setur öflugur,
aflann metur auðfengur,
Árna getinn, Sigurður.

Sigurð glaðan met ég minn,
más um traðir velheppinn,
keipa að hlaða kak fann sinn
Kalastaða húsbóndinn.

Fokku hundinn framsetur,
fyrr en blundar hræsvelgur,
hafs á grundu hugaður,
Hinriks kundur, Sigurður.

Teignum beina ferðast frá,
frek þó kveini aldan blá,
Siggi á hreina sela lá,
sigluteina jónum á.

Hrauk frá gengur, hugaður,
hót ei lengur við dvelur,
síls á engi, Sigurður,
sínum drengja hóp meður.

Upp þó skvettist ýsu frón,
orkumettur, laus við tjón,
aflar þétt á ára ljón
einn frá Stéttum, Sigurjón.

Eins þó bralli aldan blá,
ekki hamla ferðum má,
djarft að svamla um síla lá,
Símon, Gamla hrauni frá.

Lungi hröðum ára á,
oft með glöðum huga sá,
lýsu tröðum löngum  á,
Leiðólfsstöðum, Snorri, frá.

Sturlaug fúsan svo ég sá,
sigla brúa um löginn blá,
stýra húsum Starkaðs frá,
stór ei knúsan gæfan má.

Þórður ráa þægum gant,
þeysa náir, laus við stant,
Skipum frá um laxa lant,
liðugt gáinr, tefji brant.

Torfi Söndu treður frá,
tjóni og gröndum horfinn frá,
keipa bröndusina sá,
sesttur löndin karfa á.

Öldu glaði ýta má
ei hann skaðar bylgjan há,
þá með hraða um þorska lá
Þórður Traðarholti frá.

Þröst á fjala þéttur gengur,
Þorkell, valinn Magnús bur,
hátt þó gali Hræsvelgur,
heppinn talinn, formaður.

Ýta og fljóðin æ hvert sinn,
annist góður drottinn minn,
svo má þjóðin, þýð og svinn
þylja ljóðin, stirðkveðin.






04 janúar, 2016

Gamanvísur um Skitu-Lása

smella til að stækka
Ég var að leita að einhverju þegar ég rakst á vélrituð, samanheftuð blöð í pappírum sem foreldrar mínir skildu eftir sig.  Ég blaðaði í gegnum þetta og fannst kveðskapurinn eitthvað undarlegur þar til ég áttaði mig á að þarna voru vísur til söngs við sama lag og Bílavísur sem er þekkt revíulag og byrjar svona:
Halló þarna bíllinn ekki bíður.Æ, blessuð flýtið ykkur tíminn líður.Sæti, fröken, sestu þarna manni. Þau ætluðu nefnilega rétt sem allra snöggvast að skreppa suður í Hafnarfjörð og auðvitað  íleyfisleysi og banni.
Nafn höfundarins var skráð undir vísunum. Ég reiknaði í fyrstu með að það væri dulnefni.  Ég ákvað samt að gúgla,  með þeim árangri að þarna reyndist vera um að ræða raunverulegan einstakling: Hjörmund Guðmundsson 
Hjörmundur Guðmundsson (1876-1960) var fæddur á Hjálmsstöðum í Laugardal, vinnumaður á Hjálmsstöðum, síðar verkamaður í Hafnarfirði. Foreldrar: Guðmundur Pálsson bóndi á Hjálmsstöðum og kona hans Gróa Jónsdóttir.
Í minningargrein Karls Jónssonar í Gýgjarhólskoti um Hjörmund segir:
Hjörmundur var sérstaklega skemmtilegur, kátur og glaður, hagorður í bezta lagi, enda mikið um vísna- og ljóðagerð á Hjálmsstöðum á þeim árum, oft orti hann af munni fram, og fauk þá margt sem ekki var ætlazt til að lifði, en oft voru orðatiltækin hnittin og vöktu kátínu og gleðskap. Hann var sérstakur geðprýðismaður, og ég fullyrði að ég sá hann aldrei reiðan.
Í framhaldi af þessum fundi ákvað ég að prófa að gúgla Skitu-Lása og viti menn:
Hann var sagður förumaður, tómthúsmaður og hjónabandsmiðlari.Það mun vera þáttur um þennan mann í bókinni "Grímsnes: búendur og saga"
Nikulás Helgason "Skitu-Lási" var fæddur 5. apríl 1855 í Ölvaðsholtshjáleigu í Holtum. Foreldrar hans voru Helgi Jónsson (1822-1894) og k.h. Guðríður Magnúsdóttir (1821-1894). Nikulás giftist Sigríði Jónsdóttur (1861-?) og áttu þau tvö börn. Hann andaðist 18. janúar 1929 á St. Jósefsspítalanum í Hafnarfirði.
Með alla þessa vitneskju fengu þessar vélrituðu vísur allt aðra merkingu og ég fór að reyna að átta mig á hvenær þær hefðu verið ortar. Nafn einnar konu í vísunum kannast ég við, en það er Sigríður Tómasdóttir í Brattholti. Hún fæddist 1874 og af því má álykta að vísurnar hafi verið samdar 1923-24, þar sem Sigríður er sögð vera á "fimmtugasta ári".

Það væri ekki leiðinlegt ef einhver kynni betri skil á þessum vísum og því fólki sem þar er tilgreint.

Gamanvísur um Skitu-Láka

Hjörmundur Guðmundsson

Það þekkja flestir farfuglinn hann Lása,
sem flögrar milli sveita rödd með hása.
Hans starf er nú að kynna konur mönnum.
Honum þykir það afturför í landinu hve lítið að unga fólkinu giftir sig og ungu piltarnir líta varla við
fagur leitum svönnum.

Hann sér að fólkið síst er glatt í lyndi
og seglunum það hagar eftir vindi,
en hugsar sér að bíða og sjá hvað setur.
Svo hefur hann tekið eftir að stúlkurnar eru hálf daufar og niðurdregnar þegar 
kemur fram á vetur.

En sumir fóru að segja Lása í hljóði
hvort sæi hann nokkurstaðar völ á fljóði,
sem gæti þénað búskapsþörfum bráðum,
bara að hún væri snotur útlits, og ekki mjög gömul og 
sniðug vel í ráðum.

Hann Lási sagðist lítið hafa að gera
og líklegur til útréttinga vera.
Já, þetta er eitt sem þarf í hasti að laga,
svo þaut hann upp og fór í bestu flíkurnar, setti upp harða hattinn og hvítan flibba sem tók honum 
langt niður á maga.

Og bílstjórinn á Borg hann fyrstur sendi
og bíður honum gjaldið strax í hendi,
ef kæmi hann með konu til sín fríða.
Ég er kominn undir fertugt, alveg uppgefinn á lausamennskunni 
og hálfþreyttur að bíða.

Það er sagt að Lási svæfi ei vært þá nóttu,
hann sveif á burtu löngu fyrir óttu
og barði á dyr um fótaferð í Hólum,
spurði hvað framorðið væri, flensaði snjóinn burt af 
slitnum göngutólum.

En heimasætuna Hildi vildi hann finna
og henni þessa málaleitan kynna,
en samningurinn síður er mér kunnur,
en svo mikið er víst að Lási hrópaði "halló" og 
opinn var hans munnur.

Hann Sigurð, karlinn setti dáltið hljóðan,
þeir sögðu hann ýmist hvítan eða rjóðan.
Hann tók á líku traustum karlmannshöndum
það tekur ei að æðrast út af svona smámunum 
svo sem ljón í böndum.

Hann tekur Lása á eintal úti í kofa
því inni fyrir sá til skýja rofa,
og biður hann í Brattholt strax að hlaupa
og biðja fyrir sig heimasætuna þar - þeir 
óðar þessu kaupa.

En ef þér lukkast ferðin, frændi góður,
þá færðu Grána strax og allt hans fóður
og þrettán ærnar þrifa og kosta gildar.
Þú skalt svei mér ekki ver haldinn hjá mér, en þeim sem 
sendi þig til Hildar.

Hann Lási brá sér leiðina inn með Hlíðum,
í léttum göngumannabúning víðum
og barði svo í Brattholti að dyrum
og bóndadótturina Sigríði
Tómasdóttur spyr um.

Það segir ekki af Siggu og Lása fundum,
því samtal oft eru heimulegt með sprundum.
Hún sendi aftur silfur lokk af hári,
sem sagður fullur meter á lengd, en Sigríður nú á
fimmtugasta ári.

Í bakleið aftur Efstadal hann finnur,
þar ekkja býr hún Guðný mest sem vinnur.
Hann býður henni að bjarga henni í skyndi,
semsé að útvega henni mannsefni, sem veiti
henni skjól og yndi.

En þetta gjörðu þau ei lengur ræða,
en þegar hann var búinn sig að klæða
þá skaust hann eins og kólfur eða kúla,
kom hvergi á bæi, kokkaði málið og trúlofaði hann 
Ingvar bónda í Múla.

Svo brá hann sér í Borgar háa ranninn
og býður Hrefnu að útvega henni manninn.
Hún var hálf treg og gaf þó síðar svarið:
"Mér er alveg sama hvort eða síðar
tekið verður af skarið".

Hann Lási þurfti þarna ekki meira
og þessi svörin hrópar Karli í eyra,
en Kalli sá að happ var honum hlotið.
Það var hreinasta undur
hve vel hann fór með skotið.

Að Gýgjarhóli gekk hann einhvern daginn
og guðaði að kvöldlagi á bæinn.
Hann hafði mér sér umboð ýmsra sveina
að inna að því við heimasæturnar þar
hvort þeir mættu reyna.

Því gullæðin um Gýgjarhólinn streymir,
um gullnar vonir marga pilta dreymir,
Og gullhár hefur heimasætan bjarta.
Það kvað hafa töluverð áhrif á
mannlegt auga og hjarta.

Hann bauð henni Magnús, búfræðinginn unga,
sem bragna og meyja lofar sérhver tunga.
En stúlkan hafði ei bónorð fegnið betri,
hún bara vildi giftast honum sem fyrst,
helst á þessum vetri.

Svo hélt hann áfram út um sveitir allar
og alltaf hann um sama málið fjallar,
uns sextán pör hann saman hefur bundið.
Það kostaði hann talsverða fyrirhöfn og skófatnað og 
margra að því fundið.

Hann þreytist ekki góðverkin að gera,
fyrir giftingunum vill hann agitera.
Hann sjálfan vantar aðstoð þó í elli,
það eru helst efnaðar piparmeyjar og ríkar ekkjur sem
þar í kramið félli.

Og sjálfan hafði hann sig á bak við eyra
svona jafnvel lét það á sér heyra,
að ef sér yrði gerður dáldill greiði,
þá gæti hugsast að Tjarnarkot í Tungum fari ei
næsta vor í eyði.



30 desember, 2015

Þorpið í skóginum á nýju ári: Ofar og hærra

Það sem hér fylgir hentar örugglega ekki öllum jafn vel, mér hentar það ágætlega. Ég freista þess að það beina spjótum mínum ekkert sértaklega  mikið að neinum, vonandi ekkert, en kannski eitthvað. Ég veit það ekki fyrr en ég verð kominn lengra.
Árið sem er að líða hefur falið í sér merki um að jákvæðra breytinga sé að vænta í Laugarási.

Ferðaþjónusta

Ég hef þegar fjallað um eitt slíkt merki þess sem framundan er hér. Síðan það var ritað hef ég fengið frekari staðfestingu á að þarna er alvara á ferðinni. Áætlanir gera ráð fyrir að haustið 2017 taki 72 herbergja lúxushótel til starfa þar sem sláturhúsið stendur nú, á einstaklega fögrum stað, þar sem Hvítá, Hvítárbrúin og Vörðufell sameinast um að móta sérlega fagurt umhverfi. Þetta hótel á að rísa þar sem ég var búinn að leggja til að við uppsveitamenn myndum sameinast um að byggja veglegt hjúkrunarheimili nánast á hlaðinu við heilsugæslustöðina.

"Þar er ekki neitt".

Ég hef fjallað nokkuð ítarlega um þá skoðun mína, að betri staður fyrir aldraða í uppsveituim á ævikvöldi, sé vandfundinn. Það gerði ég í þessum pistlum:
Einskis manns eða allra
Sólsetur í uppsveitum (1)
Sólsetur í uppsveitum (2)
Sólsetur í uppsveitum (3)
Ég stend að sjálfsögðu við allt sem þar kemur fram og er enn þeirrar skoðunar, að Laugarás sé afar hentugur staður fyrir hjúkrunarheimili. Einnig fyrir dvalarheimili fyrir aldraða eða þjónustuíbúðir fyrir aldraða.  Ég veit það hinsvegar, eftir að hafa heyrt það í umhverfi mínu, að svona hugmyndir falla í afar grýttan jarðveg í uppsveitum. Einu rökin sem ég hef heyrt gegn þessum skoðunum mínum hljóða upp á, að í Laugarási "sé ekki neitt", sem ég get auðvitað ekki tekið sem sterk, vel ígrunduð rök. Ég nenni hinsvegar ekki að fara að fjargviðrast frekar um þetta mál, enda veit ég að ástæður fólks fyrir andstöðu við uppbyggingu af þessu tagi eða öðru í Laugarási, eru aðrar og, mér liggur við að segja "heimóttarlegri", en það vil ég ekki segja.
Vonbrigði mín í þessu máli snúa auðvitað fyrst og fremst að því, að sveitastjórnum á svæðinu skuli ekki takast að sjá mikilvægi samstöðunnar í þessu máli.
Mér sýnist að Selfoss verði valinn sem staður fyrir hjúkrunarheimili til að þjóna öldruðum í uppsveitunum.

Fólksfjölgun

Ég neita því ekki, að ég var farinn að gerast nokkuð svartsýnn á framtíð Laugaráss á tímabili. Íbúarnir gerðu ekkert nema eldast og hverfa lengra inn í skóginn. Það var svo komið að framundan blasti við að skólabílaakstur myndi leggjast af.
Svo frétti ég af því, að ungt par með barn væru flutt á staðinn. Nokkru síðar bættist annað par við, með tvö börn. Nú veit ég af tveim  pörum til viðbótar  sem koma eftir áramótin eða á fyrri hluta árs með hóp af börnum. Fregnir af þessu tagi eru ótrúlega jákvæðar og bætast við fréttirnar af hótelbyggingunni.

Einkaframtak

Ég hef aldrei verið einhver sérstakur talsmaður einkaframtaks á þeim sviðum sem lúta að grunnþjónustu við íbúa þessa lands. Ég fagna hinsvegar einkaframtaki þar sem það á við og samgleðst þeim sem vel gengur á þeim vettvangi.  Í þeirri stöðu sem Laugarás er í, í uppsveitasamfélaginu, verður það einkaframtakið sem eitt getur framkallað breytingar. Það er ekki mengað af hrepparíg, þarf ekki að hafa neitt í huga við val á stað fyrir starfsemi sína annað en, að þar muni það mögulega fá viðunandi arð af starfseminni.  Sú starfsemi sem þannig verður til, elur síðan af sér aðra starfsemi, og skýtur þannig stoðum undir frekari þróun byggðarinnar.


Það var síðast í gær að ég fregnaði að á nýju ári verði stigið annað mikið skref sem mun efla byggðina í Laugarási, en ég tel mig ekki geta farið nánar út í það á þessu stigi.

Með því að atvinnutækifærum fjölgar í Laugarási, og þar með íbúunum blasa við fleiri jákvæðar breytingar eins og hver maður getur ímyndað sér. 


--------------------------------------------------



Ég leyfi mér að halda því fram að árið 2016 verði árið þegar ný bylgja uppbyggingar í Laugarási hefst. Jafnvel gæti hún orðið stærri en sú sem var á síðari hluta sjöunda áratugs síðustu aldar.

Það er nóg af fallegum stöðum fyrir aldraða í Laugarási þó svo sláturhúslóðin verði nýtt fyrir hótel og það má alltaf vona, að viðhorfsbreyting  eigi sér stað.

Loks þakka ég lesendum þessara pistla minna kærlega fyrir lesturinn á árinu og óska þeim alls hins besta á nýju ári.


28 desember, 2015

Í hvítri og friðsamri sæng - rafræn útgáfa

Skúli Magnússon upp úr 1940
Það sem hér fer á eftir er umfjöllun sem birtist í Litla-Bergþór, 2. tbl., 36. árg, desember 2015. Ég set hana hér inn til að eiga hana á þessu svæði. Ég neita því ekki, að það fór ansi mikill tími í að afla upplýsinga sem gætu varpað meira ljósi að það sem gerðist þarna  fyrir um 75 árum. Flestir þeir sem á þessum tíma voru komnir af barnsaldri eru horfnir af vettvangi, mér tókst ekki að komast í samband við fólk sem mögulega gæti munað þennan atburð, og minni þeirra sem ég ræddi við var auðvitað ekkert sérstaklega skýrt, enda þarna oftast um upprifjun á atburði sem þeir mundu að hefði komið til tals síðar. Það var þannig, eins og við þekkjum mörg, að um erfiða atburði að áföll, var ekki rætt við börn, eða lítið rætt yfirleitt.. 
Þó pabbi hefði verið þarna virkur þátttakandi í leitinni að Olav, var það ekki fyrr en eftir að hann lést á síðasta ári, þegar ég rakst á dagbók sem hann hafði skrifað árið 1940 (fyrsta árið sem hann var á Syðri-Reykjum) að ég fékk vitneskju um  þá hörmung sem þarna hafði átt sér stað. 
Ég leitaði að frásögnum en fann ekkert annað en fréttir í dagblöðum og fannst þessvegna mikilvægt að 
reyna að afla frekari upplýsinga og 
koma dagbókarfærslunum á prentað form. Það tókst á endanum og viðleitni mína má nú finna í ofangreindu tölublaði Litla-Bergþórs. 
_____________________________________________________
M1:Olav Sanden í byrjun árs 1940
Árið 1938 kom ungur Norðmaður, Olav Sanden (f. 29.11.1918 (í skrá um legstaði í Torfastaðakirkjugarði er hann sagður hafa fæðst 29.1.1918 og þarna er líklega um að ræða skrifvillu í annarri heimildinni)), til landsins og hóf störf á Syðri-Reykjum hjá Stefáni Árnasyni (1911-2002) og Áslaugu Ólafsdóttur (1909-1996). Þau áttu tvö börn á þeim tíma sem hér er fjallað um: Ingveldi Björgu (3) og Ólaf (2). 

Það sem hér fer á eftir eru færslur úr dagbók (feitletrað) Skúla Magnússonar, síðar garðyrkjubónda í Hveratúni (1918-2014) frá árinu 1940. Þessar færslur fjalla um aðstæður þegar Olav varð úti á leið sinni frá Efstadal til Syðri-Reykja, 19. febrúar, 1940. 

Veður var ágætt vikuna 11.- 17. febrúar 1940. Framan af var hæg austan átt og hiti um og yfir frostmarki. Um miðja vikuna fór að kólna með norðaustan golu. 

Lífið á Syðri Reykjum gekk sinn vana gang og unnið að undirbúningi fyrir vorið: rör voru fægð og lökkuð, stungið upp og byrjað að planta út tómötum. 
M2:Séð frá S.-Reykjum. Brúará í forgrunni,
Efstidalur ofarlega til hægri
Laugardagurinn 17. Norðaustan kaldi bjart veður 10 gráðu frost. Olav fór upp að Efstadal.
Til þess að fara frá S.-Reykjum upp í Efstadal, var farið á bát yfir Brúará. Erindi Olavs í Efstadal var að hitta þar jafnaldra sína, en einhverjir þeirra voru í íhlaupavinnu á Syðri-Reykjum á þessum tíma. Þá bjuggu í Efstadal II hjónin Jórunn Ásmundsdóttir (59) og Sigurður Sigurðsson (60). Börn þeirra sem þá voru heima voru: Steinunn (22), Magnús (21), Ingvar (20), Björn (19) og Magnhildur (17). Á hinum bænum í Efstadal bjuggu hjónin Sigþrúður Guðnadóttir (43) og Karl Jónsson (35), síðar í Gýgjarhólskoti, ásamt börnum sínum Helgu (11) Jóni (10), Guðrúnu (8), Ingimar (7), Guðna (6), Arnóri (4), Margréti (3) og Gunnari (á fyrsta ári) og bróður Karls, Grími (29).
M3:Róið yfir Brúará um 1940
Sunnudagurinn 18. Norðan og norðaustan gola 2 gráðu frost mikil snjókoma með morgninum. Olav var ókominn frá Efstadal. 
 Mánudagurinn 19. Norðaustan strekkingur, mikil snjókoma og fjúk er á daginn leið, en var slydda um morguninn og fremur stillt veður. Þegar við höfðum borðað morgunverð lögðum við fjórir af stað, Stefán, Jón Guðmundsson, Bergur og ég til að líta eftir Olav, því að veður tók heldur að versna, snjókoma og vindurinn jókst. Við vonuðum að hann hefði aldrei lagt af stað frá Efstadal, en þorðum samt ekki annað en grennslast eftir því. Þegar vorum komnir norður fyrir Brúará var kl. 9:50. Við reyndum að hraða ferð okkar sem mest, en það var ekki auðvelt því að snjórinn var mjög mikill, stöðugt kafald í mitt læri og mitti og jafnvel enn þá meira sumstaðar. Okkur sóttist seint sem vonlegt var. Þegar við höfðum gengið æði spöl áleiðis til Efstadals mættum við pilti þaðan, sem fræddi okkur á því að Olav hefði farið þaðan kl. 8 um morguninn og kvaðst ekki hafa þorað annað en fara á eftir honum er hann varð þess var hversu veðrið var ískyggilegt. Nú leist okkur ekki á blikuna og vissum sem sagt ekki hvað gera skyldi. Snjókoman jókst enn meir jafnframt því sem hvessti. Loks tókum við þá ákvörðun að fara vestur að Böðmóðsstöðum, því að okkur þótti líklegt að hann hefði leitað þangað, þar eð þetta var næsti bær. Eftir hér um bil tvær klukkustundir komumst við þangað (þegar sæmilegt er umferðar er þessi vegalengd farin á 20 mín til hálftíma) og vorum flestir þurfendur hvíldar. Eftir að við höfðum hresst okkur þar og fengið þau klæði sem okkur vanhagaði um, við höfðum ekki búið okkur nægilega vel er við lögðum af stað að heiman, lögðum við af stað sömu leið ásamt Guðmundi bónda. Ferðin heim gekk slysalaust og vorum við komnir um kl. 5. Jón fer með Guðmundi til baka aftur því að varhugavert þótti að láta einn mann vera á ferð í þessu veðri. Þreyttir og áhyggjufullir lögðumst við til hvíldar.
Mennirnir fjórir voru Stefán Árnason (28), Skúli Magnússon (21), Ingibergur Sæmundsson (19) og Jón Guðmundsson (28) frá Blesastöðum, en hann hafði komið að Syðri-Reykjum nokkru fyrr til að leggja miðstöð í gróðurhús.

M4:Afstöðumynd: Efstidalur, S.-Reykir,
Böðmóðsstaðir
Í dagbókinni er talað um að fjórmenningarnir hafi verið búnir að ganga „æði spöl“ í átt að Efstadal þegar þeir mættu pilti þaðan. Á meðfylgjandi korti er mögulegur staður þar sem þeir hittu piltinn (merktur með A). Þessi piltur mun hafa verið Ingvar Sigurðsson, þá tvítugur og var hann ríðandi. Það má teljast líklegt að þeir hafi valið stystu leiðina að Böðmóðsstöðum frá þeim stað sem þeir mættust og er möguleg leið sýnd á kortinu með mjórri punktalínu frá A. Vissulega er hér um ágiskun að ræða.

Á Böðmóðsstöðum bjuggu á þessum tíma hjónin Karólína Árnadóttir (42) og Guðmundur Ingimar Njálsson (45). Börn þeirra, sem komust á legg, voru: Guðbjörn (19), Ólafía (18), Aðalheiður (17) (síðar í Neðra-Dal), Kristrún (15), Jóna Sigríður (14), Valgerður (13), Lilja (11), Fjóla (11), Njáll (10), Ragnheiður (8), Árni (7) (síðar á Böðmóðsstöðum), Guðrún (6), Herdís (5) og Hörður (4) (síðar á Böðmóðsstöðum) og Ólafía Guðmundsdóttir, móðir Guðmundar (72). 

Í ævisögu Páls á Hjálmsstöðum, „Tak hnakk þinn og hest“ sem Vilhjálmur S. Vilhjálmsson færði í letur og sem kom út 1954, er þáttur sem ber heitið „Erfið beitarhúsaferð“. Þar er fjallað ítarlegar um veðrið sem greint er frá í dagbókinni:
…allt í einu bar svo við, á þorranum, að hann fór að snjóa á galauða jörð. Algert logn var, og kyngdi niður snjónum í tvo sólarhringa samfleytt. Ég fór fram í beitarhús og Guðmundur sonur minn með mér. Ætluðum við að gæta að fénu og leita hesta, sem áttu að vera þarna ekki langt frá. Við gáfum á jötur og fórum að því loknu heim með hestana. Enn snjóaði, og nú ákafar en áður, og stóð svo í marga daga. Ég þorði ekki að senda drenginn einsamlan, og tók ég þá það ráð að fara ríðandi ásamt Hilmari syni mínum. Var þá bæði ákafur snjógangur og þoka, en það var óvenjulegt veðurlag. Svo svört var hríðin, að við sáum ekki út úr augunum og snjórinn var í miðjar síður á hestunum. Við fundum þó fjárhúsin um síðir. Þegar við vorum hálfnaðir með gegningar rauk á með hvassviðri og varð moldin svo mikil að varla sáum við niður á hnén á okkur.
og áfram heldur Páll og segir hér frá ferðinni til baka frá beitarhúsunum:
Lausamjöllin var komin í skafla, sem náðu upp fyrir hestana. Þeir brutust um og við gengum með þeim, því að ekkert viðlit var að sitja á þeim. Þarna kútveltumst við og hestarnir í snjónum og okkur fannst að ekkert miðaði.
M5: Mbl 23.02.1940
Áfram héldu þeir þó og á endanum „bókstaflega rákust þeir á bæinn“ fimm tímum eftir að þeir lögðu af stað frá beitarhúsunum. Að lokum segir svo:
Ég held að ég hafi aldrei komist í krappari dans á ævi minni. Þessi ofsi stóð í heilan sólarhring og linnti aldrei. Þá varð danskur maður úti skammt frá beitarhúsi í dalnum. Hann hafði farið frá Efstadal, en ekki náð heim til sín, að Reykjum í Biskupstungum.
Þriðjudagurinn 20. Hvöss norðaustan, snjókoma og talsvert frost. Dimmviðri var svo mikið að ekki þótti fært nokkrum mann að leita Olavs. Sátu því allir heima og gátu ekkert að gert.

Miðvikudagurinn 21. Austan kaldi úrkomulaust en dálítið fjúk. Fjórir menn héðan af bæjunum fóru norður að Efstadal og vestur að Laugardalshólum til að vita hvort Olav hefði komið þangað en svo reyndist ekki vera. Leituðu þeir síðan hér á mýrunum meðan bjart var, en án nokkurs árangurs. Nú gerðu menn sér ekki von um að Olav væri lífs fyrst hann hafði ekki komist til þessara, áðurnefndra bæja. Var nú tekið að safna liði hér í nágrenni til að leita á morgun.
Fimmtudagurinn 22. Austan strekkingur, krapahríð. Leitað var að Olav meirihluta dagsins. Við vorum átta sem tókum þátt í leitinni. Heim komum við án nokkurs árangurs. Eins og áður er sagt var krapahríð, enda urðum við mjög hraktir og kaldir. Á mýrunum var snjóinn ekki að sjá, en í skóginum og þar sem eitthvað afdrep var, var kafald og hin mesta ófærð. Okkur þótti fullvíst að leit væri árangurslaus meðan þessi snjókyngi væri á þessum slóðum, var því ákveðið að geyma hana uns þiðnaði.
 Föstudagurinn 23. Norðaustan gola, skýjað loft, úrkomulaust, að kvöldi var 4 gráðu frost. Við lögðum rör í 4 og 5 en létum okkar týnda vin og félaga hvíla í sinni hvítu og friðsömu sæng, óáreittan.
Næstu daga var norðaustan gola, bjart veður og hiti frá -2° niður í -10°, en fimmtudaginn 29. varð breyting á.
Fimmtudagurinn 29. Allhvass að sunnan með dálítilli rigningu 2 gráðu hiti.
Föstudagurinn 1. Hæg suðvestan átt éljaveður en bjart á milli. 1 gráðu frost. Lík Olavs heitins fannst. Var það á svokallaðri áveitu, sem er vestur af Efstadal. Hafði hann auðsjáanlega ætlað að rekja sig með girðingu sem liggur frá grundarhúsunum í Efstadal suður að Brúará, en sökum dimmveðurs tekið skakka girðingu og lent suður á áveituna.

Grundarhúsin sem þarna eru nefnd eru að öllum líkindum svokölluð Flatarhús. Ekki ber heimildum saman um hver eða hverjir fundu lík Olavs, né nákvæmlega hvar. Ákveðnasta vísbendingin um þetta greinir frá því að Ingvar Sigurðsson, sem áður er nefndur, hafi verið við gegningar í beitarhúsum í svokölluðum Múla. Hann var með hund með sér. Hundurinn mun hafa tekið á rás niður á mýrarnar þar sem hann fann lík Olavs ekki langt frá Bleikhól, sem er merktur á meðfylgjandi korti. Það er í samræmi við það sem aðrir viðmælendur töldu.
Laugardagurinn 2. Suðvestan kaldi, rigning af og til, 5 gráðu hiti. Gröf Olavs var tekin af Bergi. Systir Olavs heitins og maður hennar komu hingað.
Bergur, sem þarna er nefndur, er Ingibergur Sæmundsson.

Systir Olavs, Liv Gunnhild (1915-1951), hafði, tveim árum fyrr gifst Stefáni Þorsteinssyni (1913-1997), garðyrkjufræðingi, sem þetta ár hóf störf sem kennari við Garðyrkjuskóla ríkisins í Hveragerði að loknu námi í Noregi. Stefán og Liv ráku garðyrkjustöðina á Stóra-Fljóti í Biskupstungum um skeið frá 1946, en Liv lést úr berklum 1951. Þá höfðu þau Stefán eignast 6 börn og var Liv Gunnhild þeirra yngst, fædd árið áður en móðir hennar lést, þá 26 ára að aldri. Önnur börn Liv og Stefáns voru Þorsteinn (1938), Aðalbjörg (1940), Guri Liv (1941), Sigrún (1945) og Birgir (1948). Eftir lát konu sinnar var Stefán á Stóra-Fljóti til 1956. 

Eitt barna þeirra Stefáns og Liv, Birgir, fór í fóstur til Guðnýjar Guðmundsdóttur og Helga Indriðasonar í Laugarási og var hjá þeim til fullorðinsára.
Sunnudagurinn 3. Norðvestan kaldi, 4 gráðu hiti. Ekkert nýtt bar til tíðinda.
Mánudagurinn 4. Norðaustlæg átt bjart veður 5 gráðu frost. Jarðarför fór fram á Torfastöðum.

Eftirmáli

Feitletraði textinn er orðréttur úr dagbók föður míns frá þessum tíma, þeim hluta sem fjallar um veður og Olav. Þess ber að geta, að þegar Olav varð úti var faðir minn búinn að vera hálfan mánuð á Syðri-Reykjum og tæpa tvo þar á undan á Torfastöðum, en hann kom í fyrsta skipti hingað suður, austan af Fljótsdalshéraði, í byrjun desember 1939. Fósturfaðir hans Benedikt Blöndal, varð úti á Þórdalsheiði milli Reyðarfjarðar og Héraðs í janúar það ár. 

Ég hef leitast við að fylla í eyður með heimildum úr timarit.is og samræðum við fólk sem mögulega var talið hafa vitnesku um þann atburð sem um ræðir þar á meðal dætur Liv og Stefáns, þær Sigrúnu og Aðalbjörgu. Hjá þeim fékk ég einnig myndina af honum með hestinum. Þá mynd höfðu þær fengið frá Ingveldi Stefánsdóttur frá Syðri-Reykjum. Aftan á myndinni stendur: O Sanden 1940. Hina myndina af Olav fékk ég hjá Ólafi á Syðri-Reykjum, en hún er líklegast tekin 1939.

Ég ræddi einnig við Ólaf Stefánsson á Syðri-Reykjum, Theodór Vilmundarson í Efstadal, Snæbjörn Sigurðsson í Efstadal, Hörð Guðmundsson á Böðmóðsstöðum, Guðnýju og Gróu Grímsdætur á Ketilvöllum, Jón Karlsson og Ragnhildi Magnúsdóttur í Gýgjarhólskoti, Friðgeir Stefánsson í Laugardalshólum og tvö barna Ingvars Sigurðssonar, þau Sigurð og Sigþrúði. Þessu fólki kann ég bestu þakkir fyrir aðstoðina.

M6: Olav Sanden til vinstri. Myndin líklega tekin 1939.
Ekki hef ég nafn hins mannsins.

M7: Skúli Magnússon reynir að hafa stjórn á Ólafi Stefánssyni,
1941-42 (?)

M8: Skúli Magnússon og Stefán Árnason prikla upp úr 1940

Myndirnar á síðunni eru frá Syðri-Reykjum utan M2, M4 og M5. Á frumbýlingsárum Stefáns og Áslaugar voru í það minnst tveir miklir áhugamenn um ljósmyndun, með góð tæki og því mikið myndefni til, sem mér finnst að mikilvægt sé að halda til haga og merkja eftir föngum.

19 desember, 2015

Áhigjur af f***ing túnguni.

Þetta er bara eitt af því sem ég þarf að losa mig við. Ég veit reyndar að það mun ekki gerast með þessu móti einu, en þetta er örugglega skref í átt að því að ég sætti mig við það sem er og fái betri innsýn í það sem líklega verður.
Eftirfarandi texta skrifaði ég á þessa síðu fyrir nokkru. Hér hef ég freistað þess að sjá fyrir mér hvernig hann gæti litið úr eftir einn til tvo áratugi.
Tilefnið er ræða menntamálaráðherra áðan, menntamálaráðherra.

Framundan eraði flutningur kórar úr uppsveitir með einsöngvarar, orgel, trompet og klarinett á verk eftir sigvaldi kaldalóns kirkja óma öll. það erar ekki á móti mæla að einhverjir tenórar beruðu nokkur kvíðbogi fyrir ein nóta í umrætt verk.
Forsaga málið eraði sú að við upphaf æfingar á þetta verk eraði það eins og hver annar verk sem æfað eraði tenórinn dansaði um nóturnar áreynslulaus þó svo ein nóta undir lok hver erindi hafi takað nokkur á. Það eraði ekkert annar en áskorun og þetta var hinn góðasti mál. Með þessi háttur eraði verkið æfað nokkur sinn og það eraði að koma góður mynd á það.

við þeir aðstæður geraði það allt í einu að einn sópraninn tjáaði þá skoðun sinn að sópranlínan liggjaði of lágur. Einhverjir margari sópran takaði undir þessi skoðun.


-lesendur eru varaðir við að taka mig alltof hátíðlega á þessu stigi. Þó kraumi undir, geri ég mér grein fyrir því að ýmislegt er óumflýjanlegt. Þar má til dæmis telja íslenska tungu.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...