29 desember, 2016

"Ein frá Sólveigarstöðum!"

Flugeldur sem KvisturArt hyggst setja á loft á áramótum,
á miðnætti og nokkrir furðu lostnir furðufuglar.
Þá fóru allir út á miðnætti og fylgdust með flugeldaskotum annarra íbúa í þorpinu. Í Kvistholti var, heldur minna um stóra flugelda en hjá þeim sem betur voru stæðir. Það var reynt að stíla frekar upp á magnið en stærðina, enda í rauninni það mikilvægast sem næst manni var; það sem maður fékk sjálf(ur) að kveikja í.
Elstu pjakkarnir tveir voru farnir að sýna áhuga á að skjóta rakettum og þá komu ílurnar litlu í góðar þarfir, afar margar og ódýrar.

Hjá ýmsum öðrum var þetta allt stórfenglegra og þegar einhver skaut var hrópað, svo enginn missti nú af:
"Þarna kemur ein frá...." (svo var bærinn nefndur). Allir snéru sér þangarð. "VÁÁÁÁ þessi var flott!" "Þarna kemur ein frá...." (bærinn aftur nefndur). Allir snéru sér þangað. "Þessi var ekkert sérstök". 
Og svona gekk þetta. Raketturnar flugu á loft hver af annarri og ávallt var tekið eftir hvaðan þær komu. Það var hægt að sjá hver væri stórtækastur, sem var auðvitað ákveðið merki um velgegngni á árinu. Í Auðsholti mun hafa verið einhver sjómaður, sem skaut alltaf upp skiparakettu.

KvisturArt lýkur flugeldasýningu sinni
með kvenskörungum.
Svo liðu árin. Fjárhagurinn í Kvistholti fór heldur batnandi og þar með varð mögulegt að veita meira fé til flugeldakaupa. Börnin stækkuðu líka og jafnframt því minnkaði áhugi þeirra "fíriverki". Það sem einnig gerðist var að að trén sem Laugarásbúar höfðu plantað af dugnaði fyrir áratugum, stækkuðu og þar með varð erfiðara að greina hvaðan hvaða flugeldur, eða bomba, kom. Þetta gat jafnvel leitt til rökræðna, þegar fólkið var ósammála um uppruna flauganna.

Nú eru börnin auðvitað flogin úr hreiðrinu, en eftir situr einhver lítil neisti frá fyrri tíð og af þeim sökum, en þó aðallega til að styjða björgunarstarf í landinu, er alltaf keypt eitthvert fíriverk í Kvistholti. Einnig núna, en þessu sinni í nafni nýja gæluverkefnisins sem ber heitið KvisturArt.

Það má sem sagt segja, að Laugarásbúum og þeim sem eiga leið um Laugarás, hvort sem það er vegna þess að þeir hafa beinlínis komið af þessu tilefni eða af öðrum ástæðum, er boðið að horfa á þessa flugeldssýningu og njóta.  Auk þess sem þessum flugeldi verður skotið á loft, af fD sjálfri, verður lítilsháttar annað fíriverk beint í kjölfarið.

Svo tekur við nýtt ár með nýjum áskorunum.

25 desember, 2016

Sópraninum krossbrá

Messur eru nú yfirleitt þess eðlis að fátt kemur á óvart. Það stefndi í eina slíka á þessum degi í Skálholti, nema ef til vill að því leyti, að nokkrum mínútum fyrir upphaf messunnar lá fyrir hvað sálmar eða verk yrðu sungin, en þannig er það bara.
Svo hófst messan, reyndar ekki alveg eins og til stóð, en kór og kirkjugestir fengu fyrirmæli um að ganga í kringum jötu sem komið hefur verið fyrir í kirkjunni í tilefni jólanna og syngja á meðan öll fjögur erindi sálmsins "Nóttin var sú ágæt ein". Látum vera, þetta var, eins og maður segir öðruvísi, þó fD hafi haft um það orð eftir á.
Að þessu búnu hófst síðan messan samkvæmt því ritúali sem finna má í bók séra Bjarna sem kallast "Messa á jólum". Allt eins og við var búist.
Þá kom að prédikun.
Prédikanir eru þannig í Skálholti, að kórinn heyrir allajafna vart orðaskil fyrir glymjanda og það var ekkert óvenjulegt við það. Í stað þess að lyftast í andanum undir kraftmikilli prédikun var sett í hvíldargírinn þar til kæmi að sálmi eftir prédikun.
Þetta fór nú talsvert á annan veg þessu sinni; byrjaði allt svo sem venja er til, en skyndilega, þegar nokkuð var á liðið prédikunina "blöstuðu" tenórarnir þrír vísunni "Fjármenn hrepptu fögnuð þann"  af slíkum krafti, að hárið á saklausum sópraninum bærðist, en hvort það var vegna kraftsins í ténórunum, eða skelfingarefans sem heltók þær, skal ekki fullyrt. Það hefði verið gaman að sitja í kirkjunni sem gestur og sjá hvernig andlitsdrættir þeirra endurspegluðu líðanina.
Til útskýringar á þessari mikilfenglegu innkomu tenórsins í miðja prédikum, skal geta þess, að tveim mínútum fyrir messubyrjun kom presturinn að máli við einn tenórinn og fól honum og hans mönnum að bresta í söng  á tilteknum stað í prédikuninni, svo sem lýst er hér að ofan. Sá sem tók við fyrirmælum prestsins leiddi síðan félaga sína tvo í allan sannleik um hvað til stæði, í þann mund er messa hófst með kraftmiklu orglespili.
Sópranarnir flettu í huganum í gegnum gögn um framgang messunnar og fundu innkomunni í prédikunina engan stað. Þegar tenórarnir stukku síðan aftur inn á tilteknum stað með annað erindi úr sama sálmi, varð ljóst að allur ketill sóprananna hafði fallið í eld og það mátti greina vantrúar- og uppgjafar fas í titrandi hárinu, sem var þeð eina sem tenórarnir, heldur sperrtir í glæsileik sínum, gátu nýtt til að meta innibyrgð viðbrögðin í sætaröðinni fyrir framan.

Það var síðan þegar síðustu tónar orgelsins hljóðnuðu í lok messunnar, sem flóðgáttir brustu. Allt sem sópranana hafði langað að segja var þá sagt og meira að segja á kjarnyrtri íslensku. Sumir héldu áfram að tjá sig um það sem gerst hafði, langleiðina heim.

Hver var svo að tala um að messur væru fyrirsjáanlegar?

Jólajákvæðni

Stundum eiga sér stað átök hið innra. Það er svona eins og með klassísku myndina af púkanum með þríforkinn á annarri öxlinni og englinum með geislabauginn á hinni. Maður stendur frammi fyrir einhverju sem hægt er að bregðast við með tvennum hætti: annaðhvort að "standa í lappirnar" og berjast gegn meintu óréttlæti eða broti gegn þér og hagsmunum þínum, eða sýna skilning, sjá aðrar hliðar á málinu, neita að trúa því að eitthvað annað búi undir en virðist vera við fyrstu sýn.

Þarna kristallast baráttan milli engilsins og púkans, sem báðir búa innra með þér og valda því að þú er oftast í ákveðnum vafa þegar kemur að því að bregðast við ytra áreiti.  Það er, sem betur fer svo, að oftar en ekki er það engillinn ber sigur úr býtum, í það minnsta út á við. Maður hneigist til að trúa því, á endanum, að það sé ekki verið að brjóta á þér með neinum hætti. Maður kemst að þeirri niðurstöðu að það séu málefnalegar ástæður fyrir því sem kann að líta fremur illa út við fyrstu sýn.

Ekki neita ég því að púkarnir hafa háð dálitla baráttu á öxlum mínum undanfarnar vikur og sjálfsagt fleirum í umhverfi mínu. Það er dálítið kaldhæðnislegt í kringum hátíð ljóssins, að barátta þeirra er til kominn vegna ljóss sem kom og kom ekki, réttinn til ljóssins eða ekki. Kannski hefur þetta snúist um baráttuna milli þess sem samfélagið ætti að gera fyrir þig eða þú fyrir samfélagið, vegið á móti því sem samfélaginu er ætlað að öðru leyti. Mögulega gæti þetta snúist um kröfur til samfélagsins sem eru eðlilegar eða óeðlilegar.

Ég átta mig á því, að það sem er búið að brjótast í mér og fleirum að undanförnu eru siðferðisleg álitamál framar öðru eins og reyndar afar mörg mál um alllanga hríð, sem smám saman hafa gert það erfiðara að taka afstöðu með englinum. Það er þessi eilífa spurning um réttlæti og ranglæti, sem hægt er að teygja og toga þangað til að þessu háleitu hugtök verða að merkingarlausum klisjum.

Með engilinn sigri hrósandi á annarri öxlinni og sigraðan púkann á hinni held ég áfram göngunni í gegnum það sem er og verður, héðan í frá sem hingað til.
Þó engillinn hafi sigrað þessu sinni, veit maður aldrei hvað gerist næst.

Hvítárbrú hjá Iðu í desember 2016 - fyrir PS

Hvítárbrú hjá Iðu í desember 2016 - eftir PS



14 desember, 2016

Eftir síðustu andartökin

Fremst má sjá færibandið sem fjallað er um
og í baksýn er flegið af krafti
ÞESSI FRÁSÖGN ER EKKI FYRIR VIÐKVÆMA (í alvöru)

Við tímamót verður manni hugsað til baka. Nú er hafið niðurrif á sláturhúsinu sem hefur staðið hér í Laugarási frá 1964. Það hús hefur séð tímana tvenna, bæði góða og slæma, en nú er komið að leiðarlokum. Það væri gaman að segja sögu þessa húss og starfseminnar þar, en það verður ekki gert hér og nú. Ég ætla hinsvegar að láta hugann reika til um það bil 1970, en þá starfaði ég í sláturhúsinu eitt eða tvö haust fram í lok september. Skólinn byrjaði 1. október í þá daga.


Á þeim tíma var ég einhversstaðar á bilinu 15 - 17 ára (trúi ekki að foreldrar mínir hafi leyft mér að vinna þarna yngri en það). Fyrstu störf mín fólust í að flytja lömbin milli hólfa í réttinni. Þar var réttarstjóri sem skipaði fyrir um úr hvaða hólfi lömbin skyldu færð, hvert og hvenær, en alltaf voru þau rekin í hólf sem var nær skotklefanum. Ég færðist líka stöðugt nær skotklefanum og áður en ég var fluttur til, inn í slátursalinn var ég kominn með það hlultverk að draga lömbin síðasta spölinn í lífi þeirra, inn í klefann þar sem Ásgeir á Kaldbak tók við og aflífaði þau með byssu sem var einhvern veginn þannig gerð, að hann þurfti að setja nýja patrónu í hana eftir hvert skot. Skotið fólst síðan í því að pinni skaust fram úr byssunni og vann sitt verk, en ég held að tveir menn hafi leitt hvert lamb til fullnustu á þeim dómi sem þau höfðu hlotið á einhverjum bænum. Mennirnir skelltu skrokknum síðan upp á færiband. Þar varð ég fyrir afar áhrifamikilli reynslu, sem ég ætla að reyna að koma í orð.  Mig grunar að sú tegund fólks sem staðið hefur með mótmælaspjöld fyrir utan SS á Selfossi að undanförnu, geti átt erfitt með að kyngja því sem þarna fór fram.

Ég fékk, sem sagt, eftir að hafa verið í réttinni, það hlutverk að fylgjast með færibandinu og því sem þar fór fram. Mig minnir að færiböndin hafi verið tvö, í sitthvora áttina út frá skotklefanum. Ég man ekki hvort ég þurfti að sinna þeim báðum, minnir það þó hálfpartinn.
Meðfram færibandinu endilöngu, var renna og niðurfall úr henni niður í kjallara. Þegar Ásgeir hafði unnið sitt verk var skrokkunum skellt á færibandið, eins og áður segir, fyrst í stað stífnuðu þeir upp og við þeim tók maðurinn með hnífinn, sem ég man því miður ekki hver var, en hann skar fumlaust á hálsæðrnar og blóðið  fossaði úr sárinu og ofan í rennuna. Í þann mund hófust dauðateygjurnar sem voru mismiklar, stundum svo kröftugar, að skrokkarnir flugu af bandinu niður á gólf. Mitt hlutverk var, meðal annars að sjá til þess að koma þeim aftur upp á bandið, sem var mjög miserfitt, enda skrokkarnir misþungir. Bandið var á að giska 5-6 m. langt. Eftir að blóðgunin hafði átt sér stað tók við að losa höfuðið frá búknum og ég heldað sami maðurinn hafi gert hvottveggja. Skrokkarnir sprikluðu æ minna eftir því sem nálgaðist endann á færibandinu, en þegar þangað var komið þurfti ég að vippa þeim yfir á fláningshringinn (minnir að það hafi verið hluti af starfa mínum, en er ekki viss) þar sem fláningsmennirnir tóku við og unnu hratt og örugglega að því að flá skrokkinn þannig, að hver hafði sitt hlutverk, svona eins og í bílaverksmiðju, ef svo má segja.  Aðrir eru betur til þess fallnir að segja frá þessum verkþætti.

Eftir fyrsta daginn við þetta verk verk var ég alveg búinn á sál og líkama; sál vegna þess sem fyrir augu bar og í höfðin hrærðist, líkama, vegna þess að þetta var skratti erfitt. Svo vandist þetta bara. Ég hætti smám saman að líta þannig á að það væri verið aflífa dýr, sem hugsanlega ættu að fá að halda áfram að lifa. Lömbin sem þarna voru leidd til slátrunar urðu bara hluti að verkferli; breyttust úr jarmandi ungviði í girnileg læri og hryggi áður en við var litið.
Margt af störfum mínu í sláturhúsinu er hulið gleymskuhjúp. Ég var einhvern tíma í vömbunum og eitthvað kom ég í kjallarnn hjá Gústa á Löngumýri, en þarna niðri voru innyflin orðin svo fjarlæg lífinu sem þau þjónuðu áður, að þau höfðu engin áhrif á mig. Það gerði vinnan við færibandið hinsvegar.
Núr er hafði niðurrif  á þessu sögulega húsi.


11 desember, 2016

Kannski bara miklu betri.

Kannski bara vitlaust gefið er titillinn á bloggfærslu minni á sama tíma árið 2013. Hún á alveg jafnvel við nú og þá.  Það sama má segja um viðbrögðin í samfélaginu.
Ávallt þegar niðurstöður PISA kannana eru birtar gerist þetta:
1. Stórar fyrirsagnir og sopnar eru hveljur og útdeilt er misgáfulegum ásökunum hingað og þangað.
2. Þeir sem ásakanir beinast að, bera þær af sér og ræða um að fjölmargir þætti hafi áhrif á niðurstöðuna.
3. Í kjölfarið á þessu upphefst umræðan þar sem PISA kannanirnar eru rifnar niður með ýmsum hætti, ekki síst með því að halda því fram að þær mæli ekki í samræmi við þær áherslur sem eru í íslenska menntakerfninu, heldur einhverja þætti sem við teljum fremur ómerkilega. Jafnvel fara menn að velta sér úpp úr lélegum þýðingum á verkefnum sem krakkarnir áttu að leysa, en það er nú alveg sérstakur kapítuli.
4. Það eru settir á fót starfshópar til að greina niðurstöðurnar og þeir skila skýrslum, sem leiða ekki til neins..
5. Ný fréttabomba sviftir PISA umræðunni út í hafsauga og hún sest ekki aftur fyrr en næstu niðurstöður koma.

Hver er tilgangurinn með því að taka þátt í þessum PISA könnunum ef viðhorf okkar til þeirra eru þau að þegar upp sé staðið séu þær ekki að mæla rétt?
Þrátt fyrir þessar slæmu niðurstöður megum við ekki missa sjónir á að PISA könnunin er aðeins einn af mörgum mælikvörðum á skólakerfið. Hann mælir ekki frammistöðu á öllum sviðum og má þar nefna sköpunargáfu, félagsgreind, frumkvæði og fleiri mikilvæga þætti. Engu að síður gefur PISA könnunin mikilvægar upplýsingar sem við getum ekki litið framhjá og tökum því af fullri alvöru. Að mínu mati er afar margt vel gert í skólunum og kemur meðal annars í ljós í frammistöðu okkar í alþjóðlegu samstarfi á sviði vísinda og rannsókna, frumkvöðlastarfi og góðum árangri á fjölmörgum sviðum“.                                           (Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, 6. des., 2016). 
Hún mælir ekki sköpunargáfu, félagsgreind, frumkvæði og fleiri mikilvæga þætti, segir ráðherrann. Ég segi hinsvegar: Hvaða máli skiptir það? Getum við sýnt fram á að á þessum sviðum sé staðan hjá okkur jafngóð eða betri en hjá einhverjum samanburðarþjóðum?  Það þýðir ekkert að reyna að drepa málinu á dreif með svona tali.

Það er sannarlega rétt, að fjölmargir þættir leiða til þess að við komum lakar út úr þessum PISA könnunum og þó ég hafi afar ákveðnar skoðanir á því, þá krefst ég þess ekki að allir samþykki þær. Í grunninn snúast þær um grunnþætti í uppeldisaðstæðum barna í þessu landi. Um þetta fjallaði ég í greininni frá 2013 sem ég vísa til hér efst.

Þegar fólk eignast börn ætti það að fela í sér skuldbindingu, ekki bara til að gefa þeim að borða og kaupa ("versla" á nýslensku) handa þeim föt og dót (og fara á lækveiðar á facebook).
Uppeldi barna er stóralvarlegt mál þar sem foreldrar sitja uppi með skyldu til að elska, aga, móta, setja ramma, gera kröfur, styðja, hrósa og fjölmargt annað.
Ég hef heyrt foreldra tala um hvað það er mikill vinur barnsins síns. "Við erum vinir", segir það og þykir flott. Foreldri er foreldri, en ekki vinur fyrr en það hefur skilað af sér afkvæminu þannig að það geti flogið hjálparlaust um veröldina. Þangað til það gerist, er foreldri foreldri, alveg eins og önnur foreldri meðal spendýra. Hlutverk þess er að kenna barninu hvað það er að vera manneskja, vera því fyrirmynd svo lengi sem það er hægt, setja því mörk, planta í huga þess hugmyndinni um að menntun sé mikilvæg, tala við það, fórna eigin hagsmunum eða frelsi (t.d. til að sitja við Facebook þegar það kemur heim úr vinnunni), hjálpa barninu að uppgötva að það er gott við og við að láta sé leiðast, og það sem er erfitt og tekur á, sé jákvætt og ótalmargt annað.
Ekki vera vinur, heldur foreldri, sem er svo miklu merkilegra hlutverk.

Ég get alveg haldið því fram, að ofnotkun leikskólans (svo góður sem hann getur verið í hæfilegum skammti) sé með því versta sem við gerum börnum okkar, en það ætla ég sannarlega ekki að gera, enda skortir mig til þess nægilega góðan grunn. Ég gæti hinsvegar mögulega haft þessa skoðun.
Þegar ég heyri að foreldrar sendi börn sín í leikskóla í eigin fríum frá vinnu, liggur við að mér fallist hendur.  Það er bara þannig. Ég held því auðvitað til haga að í undantekningatilfellum getur þetta verið nauðsynlegt.

Að stórum hluta til má sjálfsagt rekja hluta af niðurstöðum PISA könnunarinnar til óhóflegrar notkunar að snjalltækjum af ýmsu tagi. Í gær var sagt frá dönskum unglingum sem leita sér lækninga eftir upp undir 7 klst notkun á dag. Hefðu þeir getað notað þessar 7 klukkustundir í eitthvað viturlegra?
Eitt nýjasta "trendið" í íslenskum skólum er að fylla þá af snjalltölvum. Frábært, engar bækur lengur, bara ennþá meiri tími í snjalltækjum!

Ég gæti svo sem fjallað um þessa áhrifaþætti einnig: grunnskólann, framhaldsskólann, háskólann, en það geri ég ekki hér, enda líklega búinn að ofbjóða nógu mörgum.


28 nóvember, 2016

Í "Leiðslu"

Flytjendur, tónskáld og Emilía Ísold Egilsdóttir, sem sá um afhendingu
blóma í lok tónleikanna.
Maður veltir stundum fyrir sér hvernig svo fór að okkur fD tókst að eignast börn, tengdabörn og barnabörn, sem virðast vera okkur endalaus uppspretta ánægju og stolts. Hvert af öðru sýna þau hvað í þeim býr og það er hreint ekki svo lítið.  Þó ég hafi nú yfirleitt ekki sérlega hátt um þessi mál, þá geri ég það hér með.
Á laugardaginn var hélt elsti sonurinn, Egill Árni, útgáfutónleika vegna nýja hljómdisksins sem hann hefur nú gefið út.  Þessi diskur ber heitið "Leiðsla" eða "Reverie". Á honum er að finna 22 íslensk sönglög.
Tónleikarnir voru í Salnum í Kópavogi og ég held að ég þurfi ekkert að fjölyrða um hve vel allt fór þar fram. Fyrir utan að vera þarna og njóta þess sem fram fór tók ég, óbeðinn, að mér hlutverk ljósmyndara, en afraksturinn er að finna  hér

Ekki er Egill alveg  einn flytjandi á diskinum, en Kristinn Örn Kristinsson leikur heldur betur fimlega á píanóið og Sophie Marie Schoonjans á hörpu.  Kristinn Sigmundsson syngur eitt lag með Agli og Oddur Arnþór Jónsson annað. Einnig má heyra Karlakórinn Þresti, félaga út Mótettukór Hallgrímskirku og Arnar Jónsson, leikara.  Einn skemmtilegasti meðsöngvari Egils er þó Júlía Freydís sem flytur eitt lag með föður sínum.
Þeir Kristinn Sigmundsson og Oddur Arnþór Jónsson gátu ekki verið með á tónleikunum vegna annarra starfa, en Ásgeir Páll Ágústsson fyllti skarð þeirra með sóma.  Þá komu einnig til liðs sóprandívurnar Þóra Gylfadóttir og Ingibjörg Aldís Ólafsdóttir auk harmonikkuleikarans Ólafs B. Ólafssonar.
Egill flutti lag eftir Björgin Þ. Valdimarsson, sem ekki er á diskinum og var Björgvin viðstaddur af því tilefni.


Eitt laganna á diskinum var sérstaklega samið fyrir þessa útgáfu, en það er "Skeljar" eftir Hreiðar Inga Þorsteinsson, sem einnig  eyddi æskunni í Laugarási.  Annað lag er þarna í fyrsta sinn á hjómdiski og er eftir Gunnstein Ólafsson og heitir "Frændi þegar fiðlan þegir".


Egill hefur lagt mikið í þessa útgáfu. Með diskinum fylgir bæklingur með öllum textum laganna, bæði á íslensku og ensku. Hann hefur svo tekið saman yfirlit yfir ýmis laganna á diskinum og varpað ljósi á vinnuferlið HÉR. Þarna er einnig að finna frásganir Hreiðars Inga og Gunnsteins Ólafssonar, en þeir segja frá tilurð sinna verka.  Allt þetta er að finna  og þarna er að finna mikilvægar og skemmtilegar bakgrunnsupplýsingar. Það er snillingurinn, sonur okkar fD, Brynjar Steinn, sem tók upp mest af efninu sem þarna er að finna og vann það síðan til útgáfu.

Að sjálfsögðu er "Leiðsla" í mínum huga tímamótaverk.

Á bakvið vinnsluferli á svona verki gerist margt sem ekki fer hátt, en gerist samt. Í bakgrunninum er fjölskylda Egils, Soffía og dæturnar, Júlía Freydís og Emilía Ísold. Hlutverk Soffíu í þessu verki tel ég að verði seint ofmetið.

Júlía Freydís syngur "Mamma ætlar að sofna" með föður sínum.

Nú er það spurningin hvernig hægt er að nálgast diskinn, en Egill stendur sjálfur að útgáfunni og það er hægt að panta hann í gegnum síðuna hans.  Eftir því sem ég best veit verður hann seldur í Bókakaffinu á Selfossi, Bjarnabúð í Reykholti, Hagkaupum, 12 tónum á Skólavörðustíg og sjálfsagt víðar.
Svo erum við fD auðvitað tilbúin að redda eftir því sem þörf er á :).
pallsku að gmail.com s.8989152 drofnth að gmail.com s. 6951856 








25 nóvember, 2016

Svei svörtum fössara

Getur lágkúran orðið öllu meiri?
Hvað í ósköpunum kemur okkur það við þótt Bandaríkjamenn fagni einhverjum atburði í sögu sinni?
Hvað í ósköpunum kemur okkur það við að verslunarmenn í Bandaríkjunum hafi tekið upp þann sið að marka upphaf jólaverslunar með einhverjum tilboðum og valið til þess daginn eftir þakkargjörðardaginn sinn?
Er ekki komið alveg nóg af þessari gagnrýnislausu eftiröpun á öllu því sem amerískt er?
Mér finnst Íslendingar gera óskaplega lítið úr sér með þessum hálfvitagangi.

Ekki bætir svo úr skák þegar verslanir geta ekki lengur þýtt heitið á þessum föstudegi bara yfir á íslensku og kallað hann "svartan föstudag". Nei, annaðhvort verður hann að kallast "Black Friday", eða það sem jafnvel enn skelfilegra: "S V A R T U R   F Ö S S A R I" Almáttugur.

Ef einhverjir skyldu nnú ekki átta sig á samhenginu þá er þetta m.a. sagt á Vísindavefnum um Þakkargjörðardag Bandaríkjamanna:
Fyrsta þakkargjörðardaginn héldu enskir púrítanar, svonefndir pílagrímar, haustið 1621. Þeir höfðu í september árið áður hrökklast með skipinu Mayflower frá borginni Plymouth á Englandi að strönd Massachusettsflóa. Þar stofnuðu þeir nýlenduna Plymouth. Eftir harðan vetur en góða sumaruppskeru ákváðu pílagrímarnir að þakka Guði fyrir alla hans velgjörninga með þriggja daga hátíð. Þeir buðu innfæddum einnig að taka þátt í veislunni, en til matar voru einkum kalkúnar og villibráð.
Svo leiddi eitt af öðru:
Árið 1863 mælti Abraham Lincoln (1809-1865) forseti svo fyrir að allir Bandaríkjamenn skyldu halda hátíðlegan þakkargjörðardag fyrir gæði síðasta árs. Hann skyldi haldinn síðasta fimmtudag í nóvember, en sá dagur var í nánd við daginn sem George Washington gaf út yfirlýsingu sína. Ritstjóri kvennablaðsins Lady’s Magazine, Sarah J. Hale (1788-1879), hafði þá lengi barist fyrir þessu máli. Árið 1939 breytti Franklin D. Roosevelt (1882-1945) forseti dagsetningunni í fjórða fimmtudag nóvembermánaðar og bandaríska þingið staðfesti tillögu hans árið 1941.
Er einhver sérstakur skortur á dögum til að gera sér dagamun á þessu landi elds og ísa?

Það getur verið að svona séum við bara: að hingað hafi flykkst forðum fólk af sömu tegund og nú er nýbúið að kjósa stórundarlegan forseta yfir sig vestanhafs. Það eru ýmis merki þess að við höfum gert slíkt hið sama hér og meira að segja orðið á undan "frændum" okkar fyrir westan.
Ég vil hinsvegar skrifa þetta að stórum hluta að endalausa ásókn okkar í bandarískar sápuóperur og mátt fjármagnsins, sem dregur okkur til að kaupa það sem við höfum ekki raunverulega þörf fyrir.

Hættum þessari vitleysu.
---------------------
Það er enginn ritstjóri sem metur þessi skrif áður er þau fara í loftið, nema ég, sem kýs að láta mér vel líka.

Þetta var blástur dagsins og ég get þar með farið að hugsa um eitthvað uppbyggilegra.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...