22 janúar, 2017

Hetjudraumar og framtíð karlmennskunnar (1) kannski

Það sem hér fer á eftir er framhald þess sem ég skrifaði á þessa síðu í gær og tengist einnig því sem ég hef áður skrifað um þessi mál.  Kveikjan að greininni í gær var tilvitnun í framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu, sem ég sá í fjölmiðlum, þar sem eftir honum/henni var haft, að: piltar falli frekar úr skóla vegna þess að þeir ali með sér drauma um að verða atvinnuknattspyrnumenn.
Ég vil halda því til haga, að þetta var kveikjan. Jafnframt, að ég ætla framkvæmdastjóranum ekki að halda fram þessari skoðun skýringalaust, en ég hef ekki hlustað að viðtalið við hann/hana, sem fyrirsögnin byggir á.
Eins og ég nefndi í pistlinum taldi og tel ég að það séu einhverjar ástæður fyrir þessum "draumum" ungra pilta.  Í framhaldi af því setti ég fram skoðanir á því og vísa bara í pistilinn varðandi þær.
Af ráðnum hug setti ég inn í greinina myndskeið sem lýsa því hvað gerist þegar ein dýrategund er alfarið alin upp af annarri. Ef einhverjum hefur dottið í hug að með því væri ég að halda því fram að uppeldisaðstæður pilta varu fyllilega sambærilegar því sem þar birtist, þá er mér ljúft og skylt að leiðrétta það. Tilgangur minn var auðvitað að benda á að umhverfi okkar mótar okkur, sem er auðvitað bara ágætt og eðlilegt.  Það er ekki fyrr en í ljós kemur, að mótið sem við erum sett í passar ekki eðlislægum eða líffræðilegum eiginleikum okkar, sem jafnvægi raskast.
Ég held því fram að jafnvægið í uppeldislegum aðstæðum barna á Íslandi (og reyndar miklu víður í hinum vestræna heimi) hafi raskast, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
Þetta er auðvitað mín skoðun og hver sem er getur tjáð sínar skoðanir og jafnavel haldið því fram að þarna sé ekkert sem ástæða er til að hafa áhyggjur af. Það getur hver sem er haldið því fram að skoðanir mínar séu bara gamaldags og taki mið af raunveruleika sem er horfinn. Það er mér að meinalausu.

Ég byggi málflutning minn á tvennskonar þróun, sem erfitt getur reynst að afneita:
1. Kynjahlutfall starfsfólks í leik-, grunn- og framhaldsskólum:
Leikskólar 1998: konur 3635, karlar 79 - 2014: konur 5635, karlar 384
Grunnskólar 1998: konur 2993, karlar 1052 - 2014: konur 3911, karlar 902
Framhaldsskólar 1998: konur 644, karlar 823 - 2012: konur 1009, karlar 902

2. Kynjahlutfall háskólanema
1984: konur 2500, karlar 2500 - 2013: konur 12500, karlar 7500  (fyrir 1984 voru karlar fjölmennari í háskóla).

Það er betra að skoða þessa þróun á línuritum hér.

Það sem fólk segir eða heldur fram um þessi kynjamál, byggir á skoðunum, en minna fer fyrir einhverju því sem ótvírætt gefur til kynni hvernig á þeim breytingum stendur, sem þarna birtast. Mér var bent svör á vísindavef HÍ við spurningunni:
Er í alvöru til eitthvað sem heitir eðli, hjá mannfólki og sem munur á milli kynjanna?
Þarna eru birt tvenns konar svör, annað frá sjónarhóli kynjafræðings og hitt frá sjónarhóli heimspekings. Kjarni málsins í sambandi við þessi svör, sem eru sjálfsagt ágæt, út af fyrir sig, er, að þau koma af tilteknum "sjónarhóli". Þar með geta þau engan veginn talist algild eða marktæk og það sem meira er, þau veita hreint ekki svar við þessum spurningum:
Er samhengi milli skekkts kynjahlutfalls við kennslu í leik- og grunnskólum og samsetningu nemenda í háskólum?
Ef þetta samhengi er ekki fyrir hendi, hvað er það þá sem veldur því að piltar leggja síður fyrir sig háskólanám en stúlkur (annað en bara draumurinn um að verða atvinnuknattspyrnumaður)?
Mér er alveg sama hvaða skoðanir eru settar fram um þetta efni. Þær munu ekki breyta minni fyrr en gerð hefur verið einhver sú rannsókn sem ég treysti mér til að taka mark á.  Öll erum við, jú, á okkar sjónarhólum. Hver er sá sjónarhóll sem er bestur? Sá sem veitir sýn á flestar hliðarnar, að mínu mati.

Konur eru jafn góðir kennarar og karlar og öfugt. Um það snýst málflutningur minn ekki.  Hinsvegar breytum við því ekki, að konur eru konur og karlar eru karlar. Hættum að reyna að gera karla að konum, eða konur að körlum.  Annað er hvorki betra né verra en hitt. Þau bara eru, með réttu eða röngu. 
Málflutningur minn gengur út á það, að fjöldi kennara sem eru konur, hafi áhrif á pilta. Ég er ekkert á leiðinni að breyta þeirri skoðun minni. 

Hér get ég farið að fjalla í löngu máli um þær gífurlegu þjóðfélagsbreytingar sem hafa átt sér stað á síðustu áratugum, með afleiðingum sem við erum ekki farin að sjá fyrir endann á.  

Jack Myers, höfundur bókarinnar  The Future of Men: Masculinity in the Twenty-First Century segir í grein í TIME:
Donald Trump and Bernie Sanders are tapping into what I’m calling a “Lean Out” generation of young, discouraged and angry men—men who are feeling abandoned by the thousands of years of history that defined what it meant to be a real man: to be strong; to be a provider; to be in authority; to be the ultimate decision maker; and to be economically, educationally, physically and politically dominant. A growing percentage of young men are being out-earned by young women, as women capture 60% of the higher education degrees required for success in today’s economy.
Eru ungir menn farnir, í síauknum mæli að upplifa sig utanveltu? Eru þeir farnir að leita fyrirmynda í "hetjum"af einhverju tagi frekar en venjulegum karlmönnum sem eiga venjulegt líf, bara vegna þess að þeir hafa ekki tækifæri til að kynna sér slíka karla?
Líta ungir karlmenn í vaxandi mæli á sig sem tapara, ofbeldismenn, fávita eða eitthvað álíka jákvætt?
Í niðurlagi greinarinnar segir Myers:
If we fail to focus on redefining men’s roles alongside women’s, we are in danger of fostering a culture of hostility among men who are feeling left out in school, in the job market, and in relationships. These men will be less likely to accept gender equality, less likely to advocate advances for women, and less likely to foster healthy relationships and families. For the sake of a healthy society, we need to redefine a positive and appropriate form of masculinity.
Just as it’s no longer acceptable to educationally, economically and politically restrict women, it is no longer acceptable to disregard men’s issues. When we bring men into the conversation, we further gender equality for everyone.
Svei mér þá, ég held að ég hætti bara hér.
Ég hef enga trú á að skoðanir mínar breyti einu eða neinu, en það skiptir mig ekki öllu.  Ég veit um marga sem eru mér sammála og deila áhyggjum mínum af þróuninni, ég veit líka um fólk sem telur að þetta sé allt með eðlilegum hætti.
Svona er nú lífið nú létt og skemmtilegt.

Hér fyrir neðan set ég svona til gamans, viðbrögð við pistlinum sem ber nafnð Hetjudraumar. Ég vona að mér hafi tekist að bregðast við einhverju því sem þar kom fram, en hafa ber í huga að allar eru þessara umræður fremur þokukennadar.
Ég þakka þeim sem þar lögðu sitt til málanna.


9 ummæli
Ummæli
Helga Ágústsdóttir Fleiri karla í uppeldisstéttirnar. Það er lífsnausyn - hef lengi sagt.
Helga Ágústsdóttir Feleiri karla - ins if skot!
Bjarni Þorkelsson Þetta er ég fús að taka undir - og á þessu er ég alltaf að hamra þegar tækifæri gefast!
Pálmi Hilmarsson Alveg sammála þér þarna Páll, eins og svo oft áður😊
Freyja Rós Haraldsdóttir Eins og nærri má geta þá hef ég velt þessum málum fyrir mér og hef á þessu skoðun. Alveg sammála því að körlum þarf að fjölga í kennarastéttinni. Eðlishyggjan þar sem muninum á körlum og konum er líkt við muninn á lambi og hundi eða fólki og úlfum er hins vegar eitthvað sem ég get ekki tekið undir. Læt duga að benda á þessa grein: http://www.visindavefur.is/svar.php?id=1084. Fyrst og fremst erum við fólk. Strákar eru allskonar og stelpur eru allskonar. Fjölbreytni í skólastarfi er því af hinu góða. 

Kyn kennara skiptir máli, ekki af því að strákar þurfi einhverja sérstaka tegund af kennslu. Ekki trúi ég því heldur að þeir hafi þörf á tilsögn í því að vera "karlmannlegir". 
En þeir þurfa fyrirmyndir. Í þeim skilningi að þeir ættu að fá að upplifa skólastarf sem vettvang fyrir bæði karla/stráka og konur/stelpur. 

Til samanburðar má taka dæmi af fótboltanum. Stelpur eru færri í fótbolta heldur en drengir. Til að fjölga stelpum í sportinu væri mjög til bóta að fleiri konur væru sýnilegar í tengslum við íþróttina; iðkendur, þjálfarar, fréttafólk, dómarar o.s.frv. Ekki svo fótboltinn geti orðið kvenlegri svo stelpur finni sig þar betur, heldur svo stelpur upplifi að fótboltinn sé vettvangur þar sem konur jafnt sem karlar taka þátt.
Líka viðSvara220 klst.Breytt
Páll M Skúlason Skelli í viðbrögð á morgun 😎
Gylfi Þorkelsson Mér er nær að halda að öldum saman, sennilega alla tíð, hafi konur séð um uppeldi barna og því sé það engin ný bóla, eins og álykta má af þessum pistli. Auðvitað hafa þau ekki alla tíð verið jafn lengi undir verndarvæng kvenna enda samfélög breyst mikið og þau ekki send til ,,vinnu" utan heimilis jafn snemma nú á dögum og áður tíðkaðist, þar sem drengir fengu að fylgja feðrum sínum, bræðrum, öfum og kynbræðrum, ef þeir voru það heppnir að fá að alast upp meðal vandamanna. En hræddur er ég um að mæður, systur, ömmur, langömmur og frænkur hafi alla tíð séð um uppeldi drengja mestan hluta sólarhringsins, alveg þar til þeir voru taldir hæfir til, með réttu eða röngu, að yfirgefa hreiðrið og fara að ,,vinna karlmannsverk". Þó því verði síður en svo neitað að afar mikilvægt sé að karlmönnum fjölgi í kennarastétt og öðrum uppeldisstéttum þá má heldur ekki gleyma þeirri mikilvægu grundvallarbreytinu sem orðin er á mikilvægasta uppeldisstaðnum, með fæðingarorlofi karla og þátttöku þeirra inni á heimilunum. Þar njóta drengir (og auðvitað stúlkur líka) nú feðra sinna, mikilvægustu karlkynsfyrirmyndanna, sem fyrri kynslóðir nutu ekki eða mjög takmarkað. Og þó vökutími barna á heimilum sínum, eftir að þau komast á ,,stofnanaaldur", sé of stuttur þá gæti sá tími sem þó gefst með báðum foreldrunum, en ekki bara móður, vegið býsna þungt. Nema menn trúi því að mikilvægasta fyrirmyndin fyrir unga drengi sé að faðir þeirra sé að heiman - á veiðum til að færa björg í bú?
Bjarni Þorkelsson Var ekki ,,vandamálið", sem lagt var upp með í grein Páls, að karlar skuli nánast vera horfnir úr kennarastétt, nema einstaka nátttröll eins og undirritaður, sem hér leyfði sér orð til hneigja - um það megininntak?
Líka viðSvara6 klst.Breytt
Gylfi Þorkelsson ... það væri vandamál að ungir drengir væru nánast eingöngu í umsjá kvenna frá 8-20 (vegna skorts á körlum í kennara- og uppeldisstéttum) sem ég leyfði mér að halda fram að væri ekki ný bóla - og því varla nýtt vandamál.
Líka viðSvara13 klst.
Bjarni Þorkelsson Gylfi Þorkelsson Ekki spánnýtt, auðvitað - en kannski visst vandamál samt, og viðvarandi. Verst er nú ef vopnin snúast í höndum manns og einhverjir fara að skilja það svo að maður efist um yfirburði þeirra góðu kvenna sem sjá um uppeldi þjóðanna og kennslu skólabarna!
Gylfi Þorkelsson Ekki held ég neinum detti það í hug.
Gylfi Þorkelsson Best að taka það fram, áður en Páll hakkar mig í sig í nýjum, beittum pistli, að ég leit ekki svo á að ég væri að gagnrýna, hvað þá mótmæla neinu sem hér hefur verið skrifað. Aðeins að reifa málið frá öðru sjónarhorni.
Líkar ekki viðSvara11 klst
Páll M Skúlason Gylfi Þorkelsson  Ég hef ekki í hyggju að hakka eitt eða neitt - svo því sé nú haldið til haga.
Líka viðSvara11 klst
Gylfi Þorkelsson Bjóst ekki við því. En gamansemi skilar sér illa. Nema helst með ,,brosköllum" 😌
Páll M Skúlason Ég er nú bara að bíða eftir því að þið hættið þessari umræðu svo mér gefist færi á að byrja pistilinn mikla.
Líkar ekki viðSvara11 klst
Bjarni Þorkelsson ..............og ég líka, ef mig skyldi kalla!
Líkar ekki viðSvara11 klst
Páll M Skúlason Auðvitað þakkaég ykkur sem hér hafið lagt orð í belg. Allt er þar auðvitað á málefnalegum nótum, eins og ykkar er von og vísa. Ég mun, í framhaldsgrein í bloggi mínu (nema hvað) freista þess að takast á við verkefnið sem þið hafið fært mér. Mér finnst þetta samfélagsmiðlaumhverfi einhvern veginn ekki henta og vel því að fr þá leið sem ég nefndi hér að ofan. Vona að það sé ykkur að meinalausu að ég vitni til ummæla ykkar, sem hluta af greininni.
Líka viðSvara12 klst.
Geirþrúður Sighvatsdóttir Góðir pistlar hjá þér Palli og ég er sammála greiningunni á þróun samfélagsins frá því að konur voru "dregnar" út á vinnumarkaðinn í seinni heimsstyrjöldinni í fjarveru karla og fólk uppgötvaði að þær gátu gert allt sem karlar gátu allavega á andlega sviðinu. Það er munur á líkamlegum styrk og viðhorfum til margra mála og það þarf að viðurkenna. Og best að það sé jafnvægi milli kynjanna sem víðast, í uppeldismálum, stjórnmálum, launamálum o.s.frv... En þú átt samherja Páll, hlustaðir þú á Ævar Kjartansson og Gísla Sigurðsson tala við félagsfræðinginn Ingólf (man ekki hvers son) í morgun á Rás 1?:)
Líkar ekki viðSvara22 klst. 

21 janúar, 2017

Hetjudraumar

Kynjahlutfall meðal kennara í grunnskólum.
Það fór lítilsháttar hneykslunaralda um samfélagsmiðla fyrir nokkrum dögum þegar framkvæmdastjóri jafnréttisstofu  tjáði sig um ástæður þess að drengir falla frekar út úr skólakerfinu.  Framkvæmdastjórinn var m.a. útnefndur "skúrkur vikunnar": 
Hjörvar Hafliðason og Kjartan Atli Kjartansson, umsjónarmenn Brennslunnar, útnefndu Kristínu skúrk vikunnar fyrir þessi ummæli hennar og gagnrýndu þau harðlega.(Nútíminn 17. janúar)
Það sem framkvæmdastjórinn mun hafa sagt, efnislega, er að piltar falli frekar úr skólakerfinu vegna þess að þeir ala með sér drauma um að verða hetjur eða fáránlega ríkir.
Þetta er auðvitað alveg rétt hjá framkvæmdastjórnanum.
Það sem vantar hinsvegar í málflutninginn er ástæðan fyrir þessum draumum ungra pilta. 

Hér fyrir neðan er að finna hlekki þar sem ég fjalla um uppeldismál eins og ég sé þau vera.
Ég nenni varla að fara enn einu sinni að fjargviðrast út að stöðu uppeldismála í þessu samfélagi, ætla bara segja þetta þessu sinni, en vísa að öðru leyti í það sem ég hef sagt um þessi mál áður. Það sem ég hef sagt hefur ekki fengið neinar undirtektir og ég hef hvergi séð neinn annan halda þessu fram.
Við höfum flest séð skemmtileg myndskeið af því hvernig dýr, sem alin eru upp meðal annarrar dýrategundar en sinnar eigin, hafa aðlagast lifnaðarháttum og atferli tegundarinnar sem elur það upp.
Þetta myndskeið sýnir lamb sem telur sig vera hund:




HÉR er það hundur sem telur sig vera kött.

Svo er hér myndskeið af úkraínskri stúlku sem var alin upp meðal hunda:



Ekki er ég nú svo mikill öfgamaður í uppeldismálum að ég haldi því fram, að uppeldisaðstæður drengja séu fyllilega sambærilegar við það sem sjá má hér fyrir ofan, en samt tel ég að þær séu talsvert langt frá því að vera eins og best getur verið.
Það getur vel verið að við séum sammála um að það beri að ala stráka og stelpur eins upp. Þá er það bara svo, en uppeldið hlýtur þá að vera með þeim hætti að það taki með í reikninginn mismunandi líffræðilega eiginleika kynjanna.

Ég vil halda því fram að drengir fái ekki það uppeldi sem þeir þurfa til þess að geta notið sín sem karlmenn síðar.  

Uppalendur þeirra eru nánast eingöngu konur. Það er þannig með konur, að líffræðilega eru þær eru ekki karlar. Reynsluheimur þeirra er kvenlegur, hugsanir þeirra, skoðanir, atgerfi, útlit, eða bara flest, er kvenlegt. Það segir sig nokkuð sjálft. Af þessum ástæðum hlýtur uppeldið sem þær veita börnum að henta kynjunum mis vel.  Mér finnst að þetta segi sig sjálft.

Uppalendurnir eru fyrirmyndir barnanna. Fáir geta víst neitað því. Það er af foreldrum og kennurum sem börnin öðlast hugmyndir um það hvað þau eru, en þar með er ekki öll sagan sögð.  Tíminn með foreldrunum verður æ styttri og börnin eyða stærstum hluta vökutíma í stofnunum þar sem einvörðungu (nánast) starfa konur.  Tíminn með foreldrunum er frá því um kl . 17:30 til kl 20 á virkum dögum. Hve mikið af þeim tím nýtist til samskipta eða raunverulegrar samveru með foreldrunum? Hve mikinn hluta þess tíma nýta foreldrarnir til þess að ná sér niður eftir vinnudaginn eða sinna nauðsynlegum heimilisverkum. Hvað með helgarnar. Hve mikinn tíma um helgar hafa drengir með föður sínum í raun? 

Ég hef haldið þessum skoðunum fram. Einu viðbrögðin sem ég hef fengið eru að þetta sé bara bull;  rannsóknir sýni að kyn kennara skipti engu máli. Ætli það sé ekki einhver svona rannsókn sem vísað er til?

Dæmi um rannsókn sem var hluti af B.Ed. verkefni við HA árið 2005:
Rannsóknarspurningarnar sem leitast var við að svara voru: Hefur kyn kennara áhrif á kennslu? Finnst nemendum á unglingastigi skipta máli af hvoru kyninu kennari þeirra er? Hvaða eiginleikum telja nemendur að kennari þeirra eigi að búa yfir? Notuð var megindleg rannsóknaraðferð þar sem spurningalistar voru lagðir fyrir nemendur í 9. bekk á Akureyri. Úrtakið var 266 nemendur eða 134 stelpur og 132 strákar.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru að nemendum finnst ekki skipta máli af hvaða kyni kennari þeirra sé. Nemendur hafa hins vegar ákveðna skoðun á því hvaða eiginleika þeir vilja helst hafa í fari kennarans. Hann á einkum að vera skemmtilegur, fyndinn og þolinmóður. Kyn kennara virðist ekki hafa áhrif á kennslu, heldur þykir mikilvægara að kennari sé hæfur í starfi. (úr rannsókn sem var hluti af B.Ed. verkefni við HA árið 2005).

Ég verð að segja það, að á niðurstöðum þessarar rannsóknar get ég ekki tekið mark. Segjum sem svo að lambið á myndskeiðinu hér fyrir ofan gæti svarað spurningunum: Skiptir það máli hvort þú elst upp meðal hunda eða sauðfjár? og Hvaða eiginleika telur þú að góður uppalandi eigi að hafa?  Myndi lambið sem hefur bara alist upp meðal hunda moögulega hafa forsendur til að telja uppeldi meðal sauðfjál betra? Myndi það t.d. hafa hugmyndaflug til að segja að það væri góður eiginleiki uppalenda að geta jarmað?

Nei, strákar skortir fyrirmyndir í skólakerfinu og þar er auðvitað við karlmenn að sakast. Þeim ber skylda til að gera sig gildandi á þessu sviði og ég tel þar mikið vera í húfi.

Líffræðilega eru strákar strákar, hvað sem tautar og raular, en hvað gerir umhverfið úr þeim sem manneskjum?
Ég er ekkert hissa á niðurstöðu framkvæmdastjóra jafnréttisstofu. Ég er hinsvegar hissa á að hann skuli ekki fjalla um ástæður þess að strákar vilja verða atvinnuknattspyrnumenn.

Hlekkir á nokkur fyrri blogg mín um þessi mál:

Kannski bara vitlaust gefið  2013
Alhæfingar rétttrúnaðarins    2012
Það má auðvitað ekki segja það, en .........  2010
Þjóðfélag á hverfanda hveli 1  2008
Þjóðfélag á hverfanda hveli 2  2008
Þjóðfélag á hverfanda hveli 3  2008

16 janúar, 2017

Masterclassmaðurinn, ég.

Ég var nú ekki búinn að vera lengi í kór þegar kórstjórinn (ætli það hafi ekki bara verið Glúmur Gylfason) lagði á það áherslu og söngfólkið syngi með opnn munninn. Þetta tileinkaði ég mér strax, en komst auðvitað fljótlega að því, að það er hreint ekki viðtekin venja að opna með þessum hætti fyrr það undrahljóðfæri sem mannskepnan býr yfir. Þetta uppgötvaði ég eiginlega fyrsta sinni þegar ég sá mynd af kórnum sem ég syng í, fyrir allmörgum árum. Þar var greinilega verið að syngja einhvern opinn sérhljóða, t.d. A,  Á þessari mynd var ég sá eini sem opnaði aldeilis upp á gátt og hleypti (væntanlega undrafagurri) tenórröddinni út til áheyrenda. Þar sem ég hef engan sérstakan áhuga á að standa  allt of mikið út úr, hef ég lengi stefnt að því að freista þess að aðlaga opnun míns munns öðrum munnum, en það bara hreinlega gleymist yfirleitt í hita leiksins. Þetta er svona eins og með að læra að hjóla, þú getur eiginlega ekki aflært það.
Ég reyni auðvitað að halda í réttlætinguna fyrir nálgun minni með því að bera saman hljómgæðin sem koma annarsvegar úr mínum munni og hinsvegar úr munni annarra kórfélaga. Þennan samanburð má sjá á myndinni hér fyrir ofan. Það þarf ekki lengi að velta því fyrir sér þeim óhemju mun sem er á hátalara í farsíma og alvöru græju, sem getur "blastað" silfurtærum tóni í hvaða styrkleika sem er.

Ég læt frekari greiningu á þessu eiga sig, en hún er til komin vegna þess að á samfélagsmiðlum hafa verið að birtast myndir þar sem ég læta vaða við hliðina á heimsfrægum söngvara, honum Paul Phoenix (frb. /fíniks/), sem gerði garðinn frægan með  "The King's Singers", söng í þeim hópi í ein 17 ár, allt til 2014. Hann rekur nú eigið fyrirtæki þar sem hann ferðast um heiminn og heldur námskeið, svokallað "Masterclass" með sönghópum af ýmsu tagi.

Um helgina sem nú er nýliðin var ég,sem sagt á Masterclass námskeiði hjá þessum fræga manni, ásamt mínum kór og þrem öðrum sönghópum. Þarna bættist í reynslubankann, en það sem einkenndi mjög nálgun nafna að verkefninu var, að hann hrósaði heil ósköp, en laumaði síðan með athugasemdum um það sem betur mætti fara. Það er manninum eðlislægt að taka til sín fremur hinar neikvæðu athugasemdir en þær jákvæðu. Ég hef ákveðið, eftir þessa helgi, að hlusta bara á þær jákvæðu, enda tel ég að þær séu að mestu tilkomnar vegna framgöngu minnar.  Ég þykist vita að þessi niðurstaða mín muni ekki falla í frjóan jarðveg hjá öðrum kórfélögum, svo ég dreg hana umsvifalaust til baka.  Kórinn hlýtur allur að taka til sín það jákvæða sem nafni sagði, en einnig ábendingarnar um það sem betur má fara. Þó nú væri!

Nú er bara framundan að vinna úr reynslunni og heita því að gera enn betur. Í mínum huga er það mikilvægasta sem vinna þarf í tvennt: meiri agi og meiri metnaður. Maður á aldrei að sætta sig við að vera kominn á einhvern stað og vera síðan bara ánægður með að vera þar. Það er alltaf pláss fyrir meira og hærra.

Þessi helgi var ánægjuleg og mér fannst gott að fá svona utanaðkomandi aðila til að segja okkur hvað væri gott og hvað megi bæta.

Hér fyrir neðan er tvær þeirra mynda ég nefndi hér efst. Þarna syng ég með "King's Singers" manninum. Augsýnilega afar einbeittur og geri umtalsvert meira úr sérhljóðanum sem sunginn er, en meira að segja hann. Kannski er rétt að loka munninum áður en það er um seinan.
Deiling: Pálína Vagnsdóttir, Veirunum

Deiling: Sigrún Elfa Reynisdóttir, Skálholtskórnum

Masterclass með Paul Phoenix í Seltjarnarneskirkju, 
13.-15. janúar, 2017
Skálholtskórinn
Veirurnar
Góðir grannar
Kvartettinn Barbari

Nokkrar myndir:







Í kveðjuhófi fyrir lækna tvo.

Pétur og Gylfi.
Mynd: Magnús Hlynur Hreiðarsson
Þann 12. janúar var haldið kveðjuhóf fyrir læknana okkar tvo, þá Gylfa HAraldsson og Pétur Z. Skarphéðinsson.  Þar hafði ég fengið það hlutverk að flyta einhverskonar ávarp fyrir hönd nágranna í Laugarási og sjúklinga. Ég var auðvitað upp méð mér að verða þarna maður með hlutverk, en svo fór að mér var ekki ætlað að verða þarna staddur í eigin persónu. Það varð samt úr, að ávarpið var flutt, jafn langt í tíma og fyrirmæli hljóðuðu upp á.  Flytjandinn var Halldór Páll Halldórsson, skólameistari og hófstjóri og kann ég honum þakkir fyrir flutninginn og að hafa sinnt þeim leiðbeiningum sem fylgdu.
Hér fyrir neðan birtist þetta ávarp, ásamt leiðbeiningum)
Halldór Páll
Mynd: MHH

Gylfi og Rut, Pétur og Sísa.

Í textanum sem hér fer á eftir er fjallað um ykkur, í stað þess að talað verði til ykkar, ef frá er talin síðasta málsgreinin.
 
Undanfarin 30 ár eða svo hefur fólki ekki fjölgað mikið í Laugarási. Íbúarnir þar hafa hinsvegar elst nokkuð. Á þessu eru örugglega ýmsar skýringar, en hér vil ég bara nefna eina: Gylfa og Pétur. Áður en þeir komu á staðinn í byrjun 9. áratugarins hafði íbúum í Laugarási fjölgað heil ósköp frá því fólk fór að flytjast þangað um 1940. Fjölgunin var sérstaklega mikil á 15 ára tímabili, eftir miðjan sjöunda áratuginn. Eftir að þeir komu tók að hægja mjög á þessu og sárafáar nýjar garðyrkjulóðir hafa verið stofnaðar síðan. Þessir fáu sem hafa byggt eitthvað eftir það er aðallega fólk sem ber í brjósti einhverjar rómantískar tilfinningar til staðarins og fólk sem virðist oft ekki vera alveg áttað, eins og sagt er á læknamáli.

Það sem styður við þessa kenningu mína, ekki síst, er sú staðreynd, að eftir að ljóst varð að starfslok félaganna voru í nánd, hefur aftur farið að heyrast í börnum í skógarþykkninu.

Samhengið? Tilgáta mín hljóðar upp á það, að þeir sem á annað borð settust hér að, hafa bara ekki viljað fara aftur, því eftir því sem aldurinn færist yfir leggur maður meira upp úr örygginu sem ein besta læknisþjónusta á landinu býður upp á.
Svo segir það sig sjálft, að því eldri sem íbúarnir verða, því minni líkur verða á að maður mæti barnavögnum á heilsubótargöngum.

Ekki fer ég lengra með þessa pælingu.
(lesari: Áhugaverð pæling)

Mér hefur oft dottið í hug að Pétur og Gylfi séu að mörgu leyti eins og tvíburar. Í fortíð og nútíð, aftur í ættir, alveg til dagsins í dag blasa við okkur sannindi, sem hafa spunnið þann örlagavef sem hefur leitt okkur til þessa kvölds. Hér mun birtast ykkur, ágætu gestir, ýmislegt sem varpar ljósi á og skýrir ríflega þriggja áratuga samstarf læknanna tveggja, sem hér sitja nú varnarlausir með fjölskyldum sínum og bíða þess sem verða vill.

Gylfi og Pétur eru jafnaldrar, en það er einn þeirra þátta sem einkennir tvíbura.
Þá er einnig er margt í ætt þeirra og uppruna sem styður vangaveltur af þessu tagi: Nöfn fólks í umhverfi þeirra, nú eða þeirra sjálfra, eru mörg hver fremur óvenjuleg. Eins og allir vita þá heitir Pétur, Zóphónías að millinafni, en það nafn fékk hann frá langafa sínum, síra Zóphóníasi Halldórssyni í Viðvík. Uppruni Gylfa er á Snæfellsnesi, en þar er að finna óvenjuleg nöfn sem fylgja ættum og viti menn, hét ekki móðurbróðir Gylfa, Soffanías? Móðir Gylfa var Kristín Cecilsdóttir og bróðir hans heitir einmitt Cecil, séra Cecil Haraldsson. Hvaða svar á Pétur við því? Jú, einmitt. Faðir Péturs var prestur; séra Skarphéðinn Pétursson, prófastur í Bjarnarnesi, Zópóníasson, en það sem meira er, þá er bróðir Péturs einnig prestur, séra Guðjón Skarphéðinsson.

Ég er sannarlega ekki hættur að tína til það sem tengir félagana Pétur og Gylfa saman, en verð auðvitað að stikla á stóru, (þó svo ég sé þess fullviss að sá sem hér stendur og les þetta, væri alveg til í að lesa fram eftir kvöldi).

Það var reyndar ekki fyrr en eftir menntaskóla (Gylfi MA embættispr HÍ 1974), Pétur ML -embættispr HÍ jan 1975) sem mennirnir tóku að bruna eftir samsvarandi braut í lífinu, eftir því sem best er vitað.

Báðir fóru þeir til Svíþjóðar í framhaldsnám, báðir sóttu þeir um stöðu í Laugarási í byrjun 9. áratugarins, og báðir fengu.

Þar með voru þeir komnir í Laugarás og hafa eiginlega bara ekkert farið þaðan síðan.

Til að tryggja varanlegt nágrennið hvor við annan völdu þeir sér, þegar þar að kom, lóðir hlið við hlið í Laugarási og ljúka loks störfum á sama tíma.

Það er varla að hægt sé að tala um æviskeið annars án þess að hinn komi við sögu.

(Hér væri upplagt ef lesarinn myndi snúa sér í tvo hringi áður en hann heldur lestrinum áfram)

Þegar nýr læknir kemur í sveitina þar sem flestir þekkja flesta, þarf hann dálítið að vinna í þvi að skapa sér ímynd. Leiðin að þessari ímyndarsköpun getur verið vandrötuð og líklegra en ekki að læknirinn falli ekki í kramið hjá öllum. Jákvæð ímynd læknisins felur í sér fullkomið traust sjúklinganna til hans sem fagmanns, annarsvegar og hinsvegar byggir hún á því hvernig persóna læknisins birtist sjúklingunum, annarsvegar í viðtalsherberginu og hinsvegar í öðrum samskiptum.
Pétur og Gylfi fengu fljótt á sig það orð, að vera fagmenn fram í fingurgóma. Um það held ég að uppsveitamenn séu almennt sammála. Það var hinsvegar þegar kom að birtingarmynd persónanna, sem þetta gat orðið aðeins skrautlegra svona til að byrja með.

Ég man eftir samstarfsmanni mínum sem fór í fyrsta skipti til Péturs og sagði farir sínar ekki sléttar eftir. Pétur mun í samskiptum þeirra hafa fjallað heldur frjálslega um málin, svona eins og hans er von og vísa. Ég gat þá, í krafti þekkingar og mannskilnings
(hér segir lesarinn: HE, HE) leiðrétt misskilninginn sem uppi var. Síðar, þegar nýr samstarfsmaður þurfti að kíkja á heilsugæslustöðina, beitti ég fyrirbyggjandi aðferðum, svo reynslan af heimsókninni ylli ekki umtalsverðu tráma (læknisfræðilegt hugtak). Þar með var allt í góðu.

Ég held að ég þurfi ekki að fjölyrða um hve samskipti læknis og nágranna geta verið snúin. Þau mega helst ekki verða of náin, þar sem þau tilvik geta komið upp þegar læknirinn þarf að fást við þá líkamsparta eða sálarkima sem enginn annar má vita af og ekki er talað um, sem síðan gæti mögulega haft í för með sér, að vissu leyti, þvingaðri samskipti en ella.

Það gæti nú aldeilis verið fróðlegt að gægjast inn í hugarheim Gylfa og Péturs; sjá þar ríflega 30 ára safn af leyndarmálum bæði gengins og núlifandi uppsveitafólks.

Félagarnir eru í huga mér svo jafn ágætir að ég man ekki hvor þeirra það var sem kallaði eftir því að ég færi að hreyfa mig meira. Á þeim tíma var ég víst byrjaður að bæta nokkuð á mig.

Auðvitað tók ég mark á tilmælunum og hóf reglubundnar gönguferðir um allar þær götur, vegi og stíga sem finna má í Þorpinu í skóginum. Ég velti því auðvitað fyrir mér, fullur réttlætiskenndar, hversvegna ég mætti þeim félögum aldrei á þessum heilsubótargöngum. Ég taldi, að ef læknir ráðlegði sjúklingi að hreyfa sig, hlyti hann sjálfur að iðka heilsubótargöngur af krafti.

Ég neita því ekki, að nokkrum sinnum hef ég séð fótspor Gylfa í nýfallinni mjöll.

Fótspor Gylfa?

Já, maður þekkir fótspor Gylfa.

Einu sinni hef ég mætt Pétri með kraftgöngustafi, sem hann útskýrði þannig að „frú Sigríður“ hefði skipað sér að fara út að ganga.

Ekki hafa félagarnir þurft að loka sig af, vegna stöðu sinnar.

Pétur fann golfið, eða golfið fann Pétur. Það hefur einhvernveginn verið viðkvæðið þegar spurt er um Pétur, þegar hann er ekki heima: „Hann er sennilega í golfi“.

Pétur er mikið í golfi.

Gylfi gekk meðal annars til liðs við Lions og það samband virðist hafa enst ansi vel, hvað sem menn nú taka sér fyrir hendur í þeim félagsskap. Hann hefur einnig verið drjúgur nefndamaður – sóknarnefnd, skógræktarnefnd og svo framvegis.

Svo sem í flestu öðru, eru Pétur og Gylfi ótrúlega samstíga í fjölskyldumálum. Miklar ágætis konur eiga þeir, þar sem eru Sísa og Rut. Ennfremur eiga þeir tvö börn hvor: pilta, sem eru eldri og stúlkur, sem eru yngri.

Gylfi eignaðist sín börn með fyrri konu sinni, en svo kom Rut til skjalanna með 3 syni.

Ekki hef ég nema gott eitt um þessar fjölskyldur að segja. Ég gæti sannarlega sett það hér í orð, en það verður að bíða betri tíma.
(það breytir engu þó lesarinn gæti vel hugsað sér að renna í gegnum slíka umfjöllun).

Ef við hugsum okkur hjónin tvenn, sem hér er um að ræða, sem blandaðan kór, þá er þar ýmsar samlíkingar að finna. Þar væri Gylfi augljóslega bassinn, Pétur tenórinn, nema hvað, Rut myndi manna altinn og Sísa sópraninn.

Bassinn er alla jafna fremur hæglátur og það er eins og hann bíði alltaf eftir að fá að reyna sig við djúpa tóninn í enda verksins. Bassar eru tregir til að taka efri tón en þann neðsta sem í boði er. Einu skiptin sem maður verður var við togstreitu innan bassans er, þegar verk sem sungið er, gerir ráð fyrir að bassinn skipti sér á milli tveggja tóna. Í þeirra huga eru það bara hálfgerðir tenórar sem taka efri tóna.

Það má að mörgu leyti segja það sama um altinn. Hann fer ekki hátt, en ef hann er ekki til staðar heyrast þess glögg merki.

Tenórinn dansar á efstu tónunum og kann hvergi betur við sig. Hann vill að til sín heyrist og það kemur æði oft fyrir að sópraninn snýr sér við í forundran og aðdáun. Það er oftast sussað á tenórinn, þegar hann þykir syngja af heldur miklum ákafa og sannarlega á hann það til að fara fram úr sér.

Sópraninn ber laglínuna á herðunum, kvartar yfir háu tónunum, en nýtur þeirra samt.

Eitt skýrasta dæmið um hvernig þessi kórsamlíking á rétt á sér er, að í Langholtinu í Laugarási eru bassinn og altinn búin að hreiðra um sig á jafnsléttu, en sópraninn og tenórinn talsvert ofar í holtinu.

Persónur Péturs og Gylfa eru afar ólíkar og þar með eru þeir kannski meira eins og mörg hjón. Það er oft sagt að því ólíkari sem hjón eru, því betur gangi sambúðin. Hjón eru oft nefnd í sömu andrá, til dæmis: Guðný og Skúli, Hjalti og Fríður, Ingibjörg og Hörður. Þannig er það einnig með þessa félaga. Við tölum um Pétur og Gylfa eða Gylfa og Pétur, reyndar einnig um Pétur og Sísu og Gylfa og Rut. Þannig eru sambandsmál þeirra flóknari en fólks yfirleitt.

Það var nefnt við mig að ég myndi verða einhverskonar fulltrúi sjúklinga og nágranna með þessu erindi, sem er auðvitað mikill heiður. Það verður hinsvegar hver og einn að lesa í þær aðstæður sem nú eru uppi og sem valda því að ég flyt ekki þennan pistil sjálfur.
Ég neita því ekki, að það, að standa ekki hér sjálfur, og flytja eigin orð, skapar ákveðið frelsi og það kann að hafa haft áhrif á þennan samsetning.

Pétur og Gylfi og fjölskyldur þeirra eru nú ekkert farin úr Laugarási þó þeir séu hættir að segja okkur til í heilsufarsmálum. Þeir eru enn á góðum aldri og geta þannig haldið áfram göngu sinni í nýfallinni mjöllinni í Þorpinu í skóginum.

Ég hef ekki trú á öðru en þeim muni takast vel að burðast með þakklæti okkar uppsveitamanna og vonast jafnvel til að það nái að lyfta þeim upp fremur en hitt.

Ég hef stundum spurt mig að því hvað ég hafi gert af mér til þess að verðskulda að þurfa að vera samtíðarmaður tiltekinna einstaklinga, sérstaklega á stjórnmálasviðinu. Ég get alveg með sama hætti spurt hvað ég hafi afrekað til að verðskulda læknaparið sem við höfum getað leitað til á nóttu sem degi í yfir þrjá áratugi.

Fyrir mína hönd og allra sjúklinganna og nágrannanna, þakka ég.

Páll M. Skúlason

13 janúar, 2017

Bráðum verð ég frjálshyggjumaður

Nýleg reynsla mín er þáttur í meðvitaðri stefnu til að grafa undan opinberu heilbrigðiskerfi á Íslandi. Hún er liður í því að breyta viðhorfum þessarar þjóðar í þá veru að hún muni sættast á að okkur sé betur borgið með því að einkaaðilar sjái um heilbrigðisþjónustu.

Nú er tekin við í landinu einhver hægrisinnaðasta ríkisstjórn sem þessi þjóð hefur valið sér og þar með blasir ekki annað við en áfram verði grafið undan þjónustu sem á, ef rétt  væri á málum haldið, að standa öllum jafnt til boða og vera ókeypis, nútímaleg og vönduð.

Það sem mér virðist blasa við okkur er, að áfram verði haldið að svelta heilbrigðisþjónustuna, hækka gjöld á sjúklinga,  og skapa þannig frjóan jarðveg fyrir einkavæðingu á öllum sviðum.
Fjárfestar stökkva fram, heilbrigðisfyrirtæki spretta upp, frjáls og "gríðarlega hörð" samkeppni fær að blómsta.

"Sjúklingarnir okkar fá 10% afslátt ef þeir læka síðuna okkar eftir aðgerð".
"Sjúklingarnir okkar í þessum mánuði fá bíómiða fyrir tvo í kaupbæti".
"Skurðirnir okkar bera vönduðu handbragði vitni".
"Hjá okkur færðu endurgreitt ef þú ert ekki orðinn góður eftir viku".
"Er þér illt? Leyfðu okkur að lækna þig í glænýrri læknastöðinni okkar, þar sem gluggarnir eru pússaðir á hverjum degi og þú getur speglað þig í ítölsku gólfflísunum".
"Frábærar strandtöskur og sérmerkt strandbaðhandklæði handa öllum sem við tökum úr sambandi".

Þetta er ekki geðsleg tilhugsun.

Í tvígang, að undanförnu, hef ég þurft á þjónustu Landspítalans háskólasjúkrahúss (LSH) að halda.
Í annað skiptið kom ég þar inn og það sem við mér blasti voru ekki gljáfægðir gluggar eða gólf með ítölskum flísum sem hægt var að spegla sig í, heldur var þar allt fremur grámyglulegt og minnti mig óþyrmilega á vestrænt myndefni af austur-evrópskum sjúkrastofnunum á Stalínstímanum.  Bara gólfdúkarnir eru sjálfsagt jafngamlir mér.
Í hitt skiptið átti ég að mæta þangað í litla aðgerð, eftir margra mánaða bið eftir að komast að.
Það á sér stað heilmikill andlegur undirbúningur fyrir aðgerð á sjúkrahúsi. Það þarf að stilla sig af, skipuleggja hitt og þetta, fá frí í vinnu, og svo framvegis.
Jæja, á tilteknum tíma átti ég á að mæta á tiltekna deild á tiltekinni hæð.
Daginn fyrir þennan tiltekna tíma fékk ég tilkynningu um að tiltekinn tími hefði breyst og honum seinkað um 4 tíma.
Á aðgerðardegi, þar sem ég ók inn í höfuðborgina, hringdi síminn og mér tilkynnt, að enn væri frestun fram eftir degi af óviðráðanlegum "akút" ástæðum og að jafnvel gæti farið svo, að fresta yrði aðgerðinni.
Eftir miðjan dag var loks hringt einu sinni enn og aðgerðin slegin af.
Sannarlega tek ég fram að starfsfólkið sem ég hef verið í samskiptum við, er ekki í öfundsverðu hlutverki og hefur undantekningarlaust verið kurteist og skilningsríkt.

Auðvitað velti ég því fyrir mér, eftir svona reynslu, að það væri nú munur ef þetta væri nú bara einkarekið og menn gætu farið á hausinn ef þeir stæðu sig með þessum hætti gagnvart sjúklingum. Það væri hægt að fara í mál og krefjast tuga milljóna skaðabóta.

Þetta má ekki verða raunin og nú skulu ráðamenn þessarar þjóðar andskotast til að sjá til þess að íslenskt heilbrigðiskerfi rísi úr þessari öskustó. 
Það sem ég óttast hinsvegar er, að þessi þjóð sé búin að opna leiðina að enn frekari  niðurlægingu heilbrigðiskerfisins með því að skapa möguleikann á hægrisinnuðustu ríkisstjórn lýðveldistímans.

Hver var það aftur, sem sagði þessi fleygu orð: "Guð blessi Ísland!"






08 janúar, 2017

Hvað svo?

Það er unnið við að rífa sláturhúsið og staðan á því verki nú er eins og meðfylgjandi myndir sýna. Það virðist styttast í að þakið verði fjarlægt og síðan annað það sem fjarlægt verður.  Ekki neita ég því, að ég hefði hreint ekki slegið hendinni á móti einhverskonar grenndarkynningu á þessu verkefni. Einu upplýsingarnar sem ég hef séð um þetta er teikning sem fór um samfélagsmiðla, viðtal við oddvitann í sjónvarpi, óstaðfest nafn á manni sem á að hafa verið ráðinn framkvæmdastjóri, og svo fregnir af hótelbyggingu sem eru hafðar eftir MÉR, sem er harla fyndið bara.


Nú getur það auðvitað vel verið að fólk almennt hér í Laugarási viti heilmikið um hvað framundan er og þá er auðvitað bara við mig sjálfan að sakast að hafa ekki verið nægilega forvitinn.

Það væri nú ekki slæmt að fá til dæmis að vita hvað félagið heitir sem á Sláturhúslóðina, hverjir eru í forsvari fyrir þá sem ætla að byggja þarna hóteli. Hver stærðin á að vera, í herbergjum talið, og svo framvegis.

Ég vildi gjarnan vita meira, skil þó að þar sem einkaaðilar eru á ferð, ber þeim engin skylda til að upplýsa um áform sína, eða jafnvel hverjir þeir eru.

Já mér finnst fremur óljóst hvað gerist í framhaldi af því að sláturhúsið hverfur.  Mér finnst að við sem hér búum, ættum að fá fyllri upplýsingar um það sem þarna er um að ræða.

Segi og skrifa.





Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...