10 maí, 2018

Það eru að koma kosningar (1) (kannski)

Það er rétt að taka það fram í upphafi, að ég bý í Laugarási. þar með fjarlægi ég þá mögulegu gagnrýni.

Ég neita því ekki, að það hefur nokkrum sinnum hvarflað að mér að nýta ekki nánast heilagan rétt minn til að greiða atkvæði við kjör til sveitarstjórnar í Bláskógabyggð.
Það hvarflar að mér nú.
Ég kýs að nota þennan vettvang minn til að velta fyrir mér hvað það er helst sem veldur áhugaleysi mínu fyrir þessar kosningar.
Ég ætla að reyna að hugsa upphátt, hvert sem það leiðir mig nú. Ég ætla að reyna að sneiða hjá gagnrýni á það ágæta fólk sem býður sig fram til starfa á þessum vettvangi (þó vissulega megi gagnrýna það á ýmsa lund), en einbeita mér frekar að því ástandi sem er í Bláskógabyggð.

Þrír hreppar sameinast árið 2002.

Biskupstungnahreppur, Laugardalshreppur og Þingvallahreppur gengu í eina sæng og hið nýja sveitarfélag hlaut nafnið Bláskógabyggð.
Ég var aldrei sáttur við þessa sameiningu vegna þess að mér fannst hún of lítil. Ég sá það fyrir, sem síðan gekk eftir, að mínu mati: öll orka sveitarsjórnar færi í að hafa íbúa þessara þriggja sveitarfélaga að mestu góða. Síðan eru 16 ár. Enn í dag heyri ég í óánægðum Laugdælum, sem telja Tungnamenn hafa gleypt allt. Ég sjálfur tel, að Laugarás hafi verið sett lengra út á kantinn en þorpið þó var fyrir þessa sameiningu.
Ekki veit ég hver viðhorf annarra Tungnamanna eða Þingvellinga eru til þessa.

Þegar sameiningin var framkvæmd var íbúafjöldinn í sveitarfélögunum þrem þessi (2001):
Biskupstungnahreppur: 659
Laugardalshreppur : 252
Þingvallahreppur: 39
Árið 2002 voru íbúar í Bláskógabyggð 887. Nú (2018) eru þeir 1115. Hefur fjölgað um 228.

Hvernig hefur svo íbúafjöldinn á þéttbýlisstöðunum þrem þróast?
                                    2002                2018            breyting
Reykholt                       145                  270              +125
Laugarás                       133                  116               - 17
Laugarvatn                   150                   191              + 41


Laugarás fékk fulltrúa í sveitarstjórn í þessum fyrstu kosningum. Hinir 6 voru þrír sem komu úr Laugardal og þrír úr Biskupstungum (utan Laugaráss).

Í kosningunum 2006 komu þrír fulltrúar úr Biskupstungum, þrír úr Laugardal og einn frá Þingvöllum. Enginn fulltrúi úr Laugarási.

Næst var kosið 2010. Þá settust 4 fulltrúar úr Biskupstungum í sveitarstjórn, 2 Laugdælir og 1 Þingvellingur. Enginn úr Laugarási.

Í síðustu sveitarstjórnarkosningum (2014) varð niðurstaðan sú, að 3 fulltrúar komu úr Biskupstungum, 3 úr Laugardal og 1 frá Þingvöllum.  Engan fulltrúa átti Laugarás.

Kosningarnar framundan

Í komandi kosningum virðist nú vera gerð tilraun til að brjóta upp þetta tveggja lista fyrirkomulag sem hefur verið við líði frá sameiningu. Það er kominn fram nýr listi, N-listinn.

Ég lék mér að því að skoða samsetningu listanna þriggja og miða í því við 7 efstu sætin. Sæti þeirra sem eiga fræðilega möguleika á að setjast í sveitarstjórn að loknum kosningum.

Alslemm: 
Verði úrslit kosninganna þannig að einn listi fái alla fulltrúana, myndi svona fólk sitja í næstu sveitarstjórn:

N-listi: 5 Laugdælir, 2 Tungnamenn (þar af 1 úr Laugarási)
T-listi:  2 Laugdælir, 4 Tungnamenn, 1 Þingvellingur (enginn úr Laugarási)
Þ-listi:  3 Laugdælir, 4 Tungnamenn (þar af 1 úr Laugarási).

Þetta gerist nú sennilega ekki. Líklegra að ástandið verði óbreytt, þar sem við íbúar Bláskógabyggðar erum talsverðir hefðarsinnar og lítið fyrir grundvallarbreytingar. Samt metnaðarfullir, að eigin mati, sýnist mér á stefnuskrám.

Óbreytt
Verði niðurstaðan óbreytt hlutfall, sem er líklegast, munu fá sæti í sveitarstjórn:

3 Laugdælir, 3 Tungnamenn, 1 Þingvellingur  (enginn úr Laugarási).

Tapi meirihlutinn einum manni til Þ-lista:
2 Laugdælir, 4 Tungnamenn, 1 Þingvellingur (enginn úr Laugarási).

Auðvitað er hægt að halda svona áfram lengi, en ég sleppi því.
Ég þykist viss um að ýmsa muni langa til að fjargviðrast út þessari áráttu minni að flokka frambjóðendur eftir upprunastað þeirra og að með því sé ég að kynda undir klofningi innan sveitarfélagsins. Þeir mega alveg fjargviðrast, mér að meinalausu. Ef ekki þessar forsendur, hvaða forsendur á ég þá að notast við þegar ég þarf að velja á milli þessara framboða? Ekki virðast það vera hugsjónir sem aðgreina þau.

Ég ætla kannski að velta mér aðeins upp úr því næst.



06 maí, 2018

Bjór á tíkall

Nýi Skálholtsbjórinn, bruggaður í Ölvisholti.
Við fD veltum því fyrir okkur hvort við ættum að skella okkur út í Skálholt í gær til að smakka nýja bjórinn sem þar var kynntur.
Eftir nokkrar pælingar og vangaveltur í tengslum við samhengi kirkjusóknar okkar og áhuga á bjór, sem ekki leiddu til neins, ákváðum við að láta slag standa. Vandi okkar var eiginlega sá, að ekki var ljóst af kynningarefninu sem við höfðum séð, hvernig fyrirkomulag tímans milli 17 og 19 átti að vera. Þar kom aðeins fram hver dagskráin væri, en hvorki í hvaða röð hún væri né hvar hver dagskrárliður færi fram. Af þessum sökum vorum við andlega tilbúin til að fara beint í skólann þegar í Skálholt væri komið, beint í bjórinn, enda hann megin tilgangur viðburðarins.
Þegar við komum í Skálholt lá straumurinn hinsvegar inn í kirkju og við fylgjum straumnum,yfirleitt, að mestu. Það gerðum við einnig þarna.
Í kirkjunni hófst dagskráin með ávarpi sem ég heyrði eiginlega nánast ekkert af. Hélt að allgott hátalarakerfi myndi koma að góðum notum við svona tilefni, enda vita það allir að talað orð, ómagnað, á afar erfitt uppdráttar á því ágæta húsi sem kirkjan er.
Annað var uppi á teningnum þegar Jón Bjarnason flutti toccötu, sem ég veit ekki meira um, með sínum einstaka hætti og á eftir honum söng Unnur Malín, ofurkona á tónlistarsviðinu, tvö lög í tilefni sumarblíðunnar sem hefur látið bíða eftir sér. Vel gert.

sr. Halldór með þúsundkallinn
Þá var komið að sr. Halldóri Reynissyni, sem sagði sögur sem tengjast Skálholti og Skálholtsstað. Mál Halldórs komst vel til skila þar sem hann flutti það frammi í kirkjunni þar sem betur heyrist.
Hann bar fram margvíslegan fróðleik og í ýmsu, skemmtilegan. Þó kom á mig hik þegar hann skipaði gestum að taka fram veskin sín. Ekki varð ég við því, enda veskið mitt ekki með í för, bara nokkrir tíkallar fyrir bjór. Ekki ætla ég hér, að uppljóstra um tilefni þessarar skipunar sr. Halldórs, en hann veifaði þúsundkalli í kjölfarið í góða stund. Þá fjallaði hann um glugga Gerðar Helgadóttur, sem flestir eru í Þýskalandi til viðgerðar og altaristöflu Nínu Tryggvadóttur. Þar kom fram hjá honum að maður skyldi ávallt horfa á altaristöfluna í gegnum augnhárin, þá sæi maður Hreppafjöllin í bakgrunni. Ég mun ávallt horfa á hana með opnum augum og huga. Hann bar einnig saman þá Krist og Trump.
Altaristafla Nínu Tryggvadóttur

 Ég hef áður tekið myndir af þessu mikla verki Nínu, en aldrei við þær aðstæður sem nú eru fyrir hendi. Lýsingin á því er einstök þegar engir steindir gluggar hindra aðgang náttúrulegrar birtu að henni.

Fyrir utan spígsporuðu nokkrar lóur og ég hefði gjarnan viljað vera með fuglalinsuna mína.

Jæja, meðan sr. Halldór leiddi gestina niður í kjallara til frekari upplýsingar um staðinn, lögðum við fD leið okkar í skólann. Þar var fyrir hlaðið borð af matvælum eins og þeim sem rannsóknir benda til að hæft hafi veislum á miðöldum í Skálholti. Kokkurinn, Sölvi B. Hilmarsson, kynnti þennan miðaldamálsverð fyrir gestum, en þarna mátti fólk smakka sitt lítið af hverju.
Drífa á Keldum, formaður stjórnar Skálholts ávarpaði samkomuna.
Sr. Halldór tók þessu næst fyrsta sopann af hinum nýja Skálholtsbjór, sem ber heitið Skálholt og í beinu framhaldi hófst afgreiðsla hans á barnum og var þar heilmikill atgangur, eins og nærri má geta, enda þurfti að greiða hvorki meira né minna en 10 íslenskar krónur fyrir flöskuna (aðeins í gær). Þar mun hafa verið um að ræða verðlag í samræmi við það sem á að hafa tíðkast á miðöldum. Hvernig Skálholtsmenn hafa komist að því, er mér ókunnugt um, en hafi tíkallinn á miðöldum verið hlutfallslega jafn há upphæð og nú, má reikna með að miðaldamenn hafi ekki gert margt annað en sulla í bjórnum. Þar er ef til vill komin skýringin á "hinum myrku miðöldum".

Sýnishorn af málsverðinum.
Hvað sem því líður, þá létu gesti það eftir sér að reiða fram tíukrónu peningana sína möglunarlaust við barinn.
Síðan hófst drykkjan, eða segjum svo, og einnig smakkið. Undir þessu flutti Unnur Malín tónlist sína, sem þarna fór nokkuð framhjá mér vegna þess hve fólk ræddi ákaft munngátina og önnur veisluföng, eða bara skiptist á kjaftasögum, eða loforðum fyrir komandi sveitarsjórnarkosningar.

Bjórinn er hreint ágætur og fallegur á litinn. Ég hef hinsvegar ekkert vit á því hvernig bjór á að vera utan að mér finnst hann eiga að vera frekar fleiri prósent en færri. Þessi er frekar færri, en bragðgóður samt.
Ég gæti alveg hugsað mér að snæða miðaldamálsverð í góðu tómi og renna honum niður með Skálholti. Vonandi gefst tækifæri til þess.

Þarna var talsvert af fólki saman komið til að njóta stundarinnar. Þarna voru ekki allir sem ég hefði reiknað með.

Að veitingunum stóðu Sölvi og hans fólk og var þar allt staðnum til sóma.
Ég þakka fyrir mína hönd og fD fyrir ágæta stund.

Þessi sáu um matinn og bjórinn.
f.v.Hólmfríður Ingólfsdóttir, Sölvi B. Hilmarsson,
Eva Björk Kristborgardóttir og Jóna Þormóðsdóttir


05 maí, 2018

Að daðra við dauðann í Feneyjum


Gott að spila þetta undir lestrinum

Feneyjar.
Það stórkostlegt hvernig einhverjum hefur einhverntíma dottið í hug að kalla þessa borg eða svæði þessu nafni, en hún fær nafn sitt af ævafornri þjóð sem bjó á svæðinu á 10. öld fyrir Krist. Það voru Venetar (Veneti) og á ítölsku kallast hún Venezia.

Jæja, úr því ég var nú kominn á þennan stað fyrir nokkrum dögum, var ekki um annað að ræða, en láta gamlan draum rætast, um að sigla með gondóla um síkin sem gegna hlutverki gatnakerfis á þessum sérstaka stað. Enginn bíll, engin reiðhjól, strætisvagnar eða sporvagnar. Aðeins gangandi eða siglandi vegfarendur.

Frá glæsilegu skipinu okkar, Michelangelo, var um eins og hálfs kílómetra gangur niður á Markúsartorgið fræga (Piazza San Marco), þar sem finna má Hertogahöllina (Palazzo Ducale) og Markúsarkirkjuna (Basilica di San Marco). Þaðan mátti síðan ganga eftir þröngum krókaleiðum að Ríalto brúnni frægu (Ponte di Rialto).
Ótrúlega áhugavert, allt saman, en ótal greinar hafa verið skrifaðar um þetta svæði, þannig að ég sé ekki tilgang í að fara að endurtaka það allt saman.

Þessi stubbur minn fjallar bara um gondólasiglinguna mína og fD. 
Þar sem fD var engu minna áhugsöm um að fá að upplifa siglingu um þröng síkin í Feneyjum, var eitt það fyrsta sem við gerðum, að leita upp hentugan stað til að komast um borð í það fley sem myndi geta  leyft þessum draumi okkar að verða að veruleika.
Fyrir framan innganginn að Markúsartorginu, rétt við Hertogahöllina var heilmikið af gondólun, sem biðu þess eins að fá að flytja ferðamenn. Við komumst að því að hver ferð kostaði €80 (ISK10.000) styttri hringinn en  €100 (ISK12.000) þann stærri. Þetta þótti okkur nú vel í lagt, en létum það ekki aftra okkur frá að uppfylla drauminn okkar í þessari draumasiglingu um Feneyjar.

Næst á dagskrá var síðan að velja ræðara. Gondólarinir í Feneyjum eru allir svartir með rauðum plusssætum, en um það var einhverntíma tekin miðlæg ákvörðun. Þeir skyldu allir vera eins og bera með sér ákveðinn prjállausan virðuleika.  Við þurftum bara að velja okkur ræðara sem við teldum geta fullnægt óskum okkar, en þær voru aðallega fjórar:
1. Hann skyldi vera klæddur eins og gondólaræðari (þarna voru ræðararnir klæddir með ýmsu móti, og jafnvel ekki með ómissandi hattinn). Nei okkar skyldi vera í þverröndóttri peysu og með gondólahatt.
2. Hann átti að vera trúverðugur í öllu fasi og framgöngu. Þeir voru það nú flestir.
3. Hann átti að geta sungið göndólasöngva meðan hann þræddi örmjó síkin og undir brýrnar. Þarna þurfti bara að spyrja, sem svo: Puoi cantare O sole mio? (Geturðu sungið O sole mio?)
4. Hann þurfti að leyfa mér að standa á gondólanum eins og ræðari, með hatt og í þverröndóttri peysu og syngja með silfurtærri tenórrödd, (meðan fD smellti af mynd) fyrstu línurnar í: O, sole mio, sem ég hafði lagt á mig að læra fyrir ferðina, en textinn er svona:

Che bella cosa na jurnata 'e sole,
N'aria serena doppo na tempesta!
Pe' ll'aria fresca pare già na festa...
Che bella cosa na jurnata 'e sole.

Ma n'atu sole
Cchiù bello, oje ne'.
O sole mio
Sta 'nfronte a te!
O sole
O sole mio
Sta 'nfronte a te!
Sta 'nfronte a te!

Quanno fa notte e 'o sole se ne scenne,
Me vene quase 'na malincunia;
Sotto 'a fenesta toja restarria
Quanno fa notte e 'o sole se ne scenne.

Þar með hófst leit okkar að hinum eina sanna gondólaræðara. Leitin stóð ekki lengi og fyrr en varði fundum við einstaklega góðlegan og jákvæðan ræðara, sem vildi allt fyrir okkur gera. Hann kvaðst syngja, hann var í réttri peysu og með réttan hatt og sagði að sannarlega mætti ég stilla mér upp eins og ég vildi meðan fD smellti af mér nokkrum myndum.
Ræðarinn fór úr peysunni og tók af sér hattinn. Ég klæddist þessum fatnaði síðan, áður en ég skellti mér um borð. 
Á þessum tíma, um 10:30 að morgni, var ferðamannafjöldinn orðinn óheyrilegur á bakkanum og því eins gott að ekkert  kæmi nú upp á.

Ekki neita ég því að það örlaði á kvíða í brjósti mér þar sem ég tók skrefið af bryggjunni yfir í gondólann. Þetta eru nú ekki stór skip, heldur mjóir smábátar sem rugga auðveldlega í ölduganginum frá bátunum sem stöðugt sigla hjá. Mér tókst þó að komast niður í bátinn og skríða síðan upp á pallinn þar sem ræðarar eiga að standa. Þar brölti ég á fætur með nokkrum erfiðismunum og það var ekki laust við að góðlegi ræðarinn væri orðinn nokkuð óþolinmóður, þar sem hann stóð hattlaus á nærbolnum á bryggjunni.
Upp tókst mér að komast og fékk árina í hendur, kom henni fyrir á sínum stað, rétti mig upp, stóð beinn í baki, horfði fram á við og hóf að syngja: Che bella causa na jurnata 'e sole, n 'aria serena doppo na tempesta!.............
Þegar þarna var komið í textanum var ég orðinn nokkuð öruggur með mig fyrir framan myndavélina hjá fD (sjá mynd efst) og farinn að lifa mig inn í textann og fagnaði þannig sólinni, sem baðaði Feneyjar geislum sínum á þessum ljúfa morgni. Ég var farinn að sveifla höndunum í geðshræringu og vagga mér til og frá í takti við fagra tóna, sem ekki fóru framhjá hundruðum austurlenskra ferðamanna sem stóðu á bakkanum og tóku myndir.

Ég hefði átt að standa kyrr, en ég gerði það ekki.
Ég hefði aldrei átt að óska eftir að standa þarna á pallinum og syngja, en ég gerði það.

Áður en varði hvarf mér jafnvægið. Ég athugaði hvort árin dygði mér, sem reyndist ekki vera og þar með gerðist hið óhjákvæmilega: ég féll í sjóinn, á bólakaf.
Fyrst varð mér hugsað til viðbragða allra myndatakandi áhorfendanna á bakkanum og reyndi því að koma úr kafinu eins virðulega og mér var unnt. 
Reynslunni ríkari frá bananabátsævintýrinu á Gran Canaria, vissi ég að það yrði ekki auðvelt (reyndar útilokað) að komast upp á gondólann. Því synti ég að tréverki þarna í nágrenninu, þar sem mér tókst eftir talsvert streð, og þúsundir ljósmynda, sem síðan myndu rata inn á samfélagsmiðla í Austurlöndum, að príla upp á bryggjuna.

Í sjónum flaut hattur gondólaræðarans.

Ég hefði aldrei átt að stíga fæti á pall ræðarans með ár í hönd og syngja O, sole mio ......





Ég gerði það heldur ekki.
Frásögnin hér að ofan fellur undir svokallaðar falsfréttir, eða "fake news", sem eins og allir vita, eru mjög "inni" þessi misserin.

Við fD reyndum aldrei að komast um borð í gondóla í "Draumasiglingunni" okkar um Feneyjar.

Þannig er það nú.

Þar fyrir utan gaf fD það sterkt til kynna að bátsferð af þessu tagi væri ekki ofarlega á óskalistanum hjá henni, frekar en bananabátsferðin. 
Það sem eiginlega gerði útslagið var ótrúleg mannmergðin hvert sem leið lá á þessum mikla ferðamannastað, sérstaklega eftir kl. 10 á morgnana.

Ég ákvað hinsvegar að skrifa falsfrétt og í því skyni fékk ég fD til að taka uppstillta mynd af mér í hlutverki gondólaræðara, sem ég ætlaði síðan að fótósjoppa inn á mynd þegar heim kæmi. 
Svo kom auðvitað í ljós að engin myndanna (uppstillinganna) passaði við neina þeirra mynda sem  sem ég hafði tekið af gondólaræðurum. Því varð ég að stilla mér upp úti á palli, þar sem mynd var tekin og nýtt eins og sjá má hér efst.

Svona í lokin biðst ég auðvitað velvirðingar á því að hafa skráð niður þessa vitleysu og lofa því að gera þetta aldrei aftur.


19 apríl, 2018

Ekkert spor

Sumardagurinn fyrsti. Það held ég nú.
Ekki get ég neitað því, að það eru ýmis merki í umhverfinu um að veturinn er að gefa eftir. Fuglar syngja eins og á hverju vori og ég tek mig til og ætla nú aldeilis að fanga þetta fiðurfé, sem lætur svo dátt, á mynd.
Ég fer í smávegis bíltúr í bítið.
Hvítá umlykur Laugarás á þrjá vegu og það hlýtur að vera talsvert af þessum söngvurum þar að finna.
Jú, mikil ósköp, það vantar nú ekki.
Álftir og grágæsir. Einn tjaldur og einn stelkur.

Eftir fuglaskim byrja ég enn og aftur að efast um að mér sé ætlað að komast í tæri við einhverja merkilega fugla. Annaðhvort fela þeir sig þegar ég nálgast, eða þá að ég fer alltaf á stjá á vitlausum tíma dags.
Eitthvað er það.
Mér kemur í hug, að ef til vill þurfi ég að fara í læri á næsta bæ, nú eða bara að hætta að reyna að sjá aðra fugla en álftir og grágæsir.

Úr því fuglaúrvalið er ekki meira fer ég að huga að öðru. Minnist frásagnar sem ég fékk frá brúarvinnumanni, af því þegar hann synti yfir ána og skildi síðan eftir fórspor sitt í blautri steypu til minningar um afrekið.
Ég fór að leita að þessu 60 ára gamla fótspori, undir syðri stöpli brúarinnar, en fann bara steypuklessu með tveim stöfum: HV.  Hver var þessi HV? Þar sem ég hef ekki lista yfir alla þá sem komu að brúarsmíðinni, veit ég það auðvitað ekki. Kannski er þetta eitthvert seinni tíma verk.
Jæja, kannski er sporið undir nyrðri stöplinum. Mögulega er það undir vatnsyfirborðinu, en það er mikið í ánni núna.
Ég mun finna þetta spor, ef það er finnanlegt.

Meiri gæsir og álftir. Söngur allra hinna, sem ekki vilja leyfa mér að sjá sig.
Kannski er ég bara þessi sem sé bara stóra fugla, ekki þessa litlu ræfla sem þarf að tæla með matargjöfum svo þeir láti sjá sig.

Stórir fuglar eru líka ágætir.

Gleðilegt sumar og takk fyrir vetrarlesturinn.

14 apríl, 2018

Ragnar Lýðsson


Ragnar Lýðsson
Fuglarnir kyrja vorsöngvana síðan fyrir utan gluggann og það er loksins farið að hlýna og sumarkoman liggur í loftinu. Það getur hinsvegar kólnað áður en við er litið. Á Íslandi er ekki á vísan að róa þegar veðurfarið er annars vegar.

Þannig er þetta einnig með líf okkar mannanna: þó vor og sumar blasi við í lífi okkar þá getur napur vetrarkuldinn og myrkrið skollið á áður en minnst varir.

Raggi Lýðs var skólafélagi minn og jafnaldri, þannig séð, í Reykholtsskóla í gamla daga, svo fórum við hvor í sína áttina, bjuggum löngu síðar í sömu götu um tíma og ennþá löngu síðar hittumst við þegar gamlir samnemendur komu saman til að rifja upp barnaskólaárin.

Það er svona.

Þrátt fyrir að leiðir okkar Ragga hafi ekki skarast verulega á lífsleiðinni, hef ég vitað af honum og hann væntanlega af mér.
Maður fréttir alltaf af fólki.

Þann 31. mars, lést Raggi með sviplegum hætti. Útför hans er gerð í dag.


Í október 2011 hittust gamlir skólafélagar og kennarar í Reykholti. Þarna má sjá í aftari röð f.v. Páll M Skúlason,
Sveinn A. Sæland, Sigurður Þórarinsson, Pétur Hjaltason, Gunnar Sverrisson, Ragnar Lýðsson,
Eyvindur Magnús Jónasson, Ragnhildur Þórarinsdóttir, Þorsteinn Þórarinsson, Guðrún Hárlaugsdóttir.
Fremri röð f.v. Geirþrúður Sighvatsdóttir, Renata Vilhjálmsdóttir, Þuríður Sigurðardóttir, Þórir Sigurðsson,
Kristín Björnsdóttir.





11 apríl, 2018

"Lifðu núna" Er það nú vitlegt?

Þar sem ég ek niður á Selfoss, tæmi ég plastflöskuna sem ég var að drekka úr, renni niður hliðarrúðunni og hendi henni út.
Ég lifi núna.

Ég finn síðu á facebook og kemst þar í samband við fíkniefnasala og panta stöff hjá honum. Síðan skelli ég því í mig og nýt upplifunarinnar.
Ég lifi núna.

Mig langar að berja nágranna minn. Fer heim til hans og gef honum einn á hann.
Ég lifi núna.

Ég veit fátt betra en sælgæti. Kaupi það í kílóavís og nýt þess í botn að gúffa því í mig.
Ég lifi núna.

Ég læt vaða yfir femínista og réttrúnað í samfélaginu á blogginu mínu.
Ég lifi núna.

Mig langar í 75" sjónvarp á vegginn hjá mér. Ég panta það á Hópkaup.
Ég lifi núna.

Ég nenni ekki að burðast með eitthvert pokadrasl undir innkaupin mín og kaupi þess vegna alltaf plastpoka þegar ég fer í búð.
Ég lifi núna.

Ég er eins og fuglarnir á pallinum. Þeir eru ekkert að spá í hvað gerðist í gær, hvað þá að þeir velti fyrir sér hvað morgundagurinn ber í skauti sínu.
Þeir lifa núna.


Ég veit fullvel hver hugsunin á bakvið þetta tískufyrirbæri "Lifðu núna" er.  Vefurinn sem ber þetta heiti fjallar sannarlaga um mikilsverð málefni:
Markmiðið með rekstri vefsíðunnar er að gera líf og störf þeirra landsmanna sem eru komnir um og yfir miðjan aldur sýnilegri en þau eru, auka umræðu um þau málefni sem tengjast þessu æviskeiði og lífsgæði þeirra sem eru komnir á þennan aldur.

Það sem ég óttast hinsvegar er, að margir skilji þetta sem svo, að við eigum í æ meiri mæli og fara að hegða okkur eins og fuglar himinsins.

Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? (Mt. 6:26)

Við eigum hvorki að byggja á reynslu fortíðar, né velta fyrir okkur hvað er framundan. Við eigum að lifa núna. Það verður séð til þess að allt verði í lagi hjá okkur (Hver sem á nú að sjá til þess)

Því miður eru þetta skilaboðin sem maður heyrir orðið allt í kringum sig. Þetta er að verða næstum eins og kveðja:
"Lifðu núna!" = Bless
"Já, einmitt. Lifðu núna!" = Bless.
Skilaboðin skiljast óhjákvæmilega sem ákveðið ábyrgðarleysi gagnvart öllu öðru en núinu, sem er til dæmis ekki æskilegt ef hugað er að  umhverfisvernd, heilsunni eða afleiðingum þess sem maður gerir. 

Niðurstaða mín er því sú, að við ættum frekar að segja:
NJÓTTU LÍFSINS 
Hugsaðu til þess sem gerðist í gær og lærðu af því. veltu fyrir þér hvað morgundagurinn ber í skauti sér og gerðu þitt til að hann verði ekki síðri en dagurinn í dag. Að þessu búnu skaltu njóta dagsins, njóta þess að lifa.

Svo mörg voru þau óskiljanlegu orð.




08 apríl, 2018

Gústaf Ólafsson

Við Hvítá, hjá Auðsholtshamri 1980
Unglingar hafa einhvernveginn fengið á sig það orð á öllum tímum, líklegast, að geta verið snúnir viðureignar, enda undir það seldir að vera að ganga í gegnum þá miklu umbreytingu sem á sér stað þegar barninu er skipt út fyrir fullorðna manneskju.
Haustið 1979 fór ég að kenna ensku og dönsku í Reykholtsskóla og auðvitað mikið til reynslulaus, en hafði þó kennt unglingum einn vetur (1974-5) í Lýðháskólanum í Skálholti, .

Sannarlega voru unglingarnir sem ég stóð frammi fyrir í Reykholti ekkert ólíkir unglingum svona almennt. Þeir voru með ýmsum hætti eins og við var að búast og mis auðvelt við þá að eiga, fyrir utan það, auðvitað, að ég kann að hafa verið mis fær um að takast á við verkefnið.

Ég var viðstaddur minningarstund um einn þeirra í Skálholti í gær, Gústaf Ólafsson frá Arnarholti, en hann lést í Sundsvall í Svíþóð þann 29. janúar síðastliðinn eftir baráttu við ágengan og banvænan sjúkdóm, rétt rúmlega fimmtugar.
1980 - Við minnismerkið um Sigríði í Brattholti
ásamt Brynjari á Heiði.

Þessi piltur var einn þeirra sem ég fékk að kenna fyrstu árin mín í Reykholti. Hann var einn þeirra ótal ungmenna sem ég hef fengist við í gegnum árin, en hafa síðan horfið sjónum mínum þó minningin um þau skjótist stundum í hugann. Ég velti því stundum fyrir mér hvað varð um allt þetta unga fólk: hvort það fór inn á þær brautir sem ég hafði ímyndað mér eftir kynnin við þau.
Í gær fékk ég að vita ýmislegt sem ég ekki vissi um lífshlaup Gústafs, sem ég treysti mér ekki til að fara rétt með hér, enda brallaði hann víst margt eftir að hann slapp frá mér um og upp úr 1980.

Hann er eftirminnilegur eins og reyndar flestir nemendur mínir fyrstu árin.
Ég get sagt það sama um Gústaf og bræður hans tvo, Jónas Inga og Ingvar, að þeir báru með sér að vera afar heilsteyptir ungir menn. Fremur rólyndir, að mig minnir, léttir í lund, lifandi, góðlegir, kurteisir. Þeir báru heimili sínu gott vitni.


Það er auðvitað gömul tugga, þetta með að foreldrar eigi ekki að þurfa að fylgja börnum sínum til grafar. Gömul tugga, vegna þess óréttlætis sem okkur finnst í því fólgið, en jafnframt staðfesting á því, að ekkert okkar getur búið við þá fullvissu að fá að lifa eins lengi og við viljum helst.

Fjölmargir skólafélagar Gústafs voru viðstaddir ágæta minningarathöfn í Skálholti í gær. Mér fannst afar sérstakt að sjá þarna nokkra fyrr um nemendur mína, sem ég hef geymt í hugarfylgsnum óbreytt, sem börn,  næstum 40 ár.  Það má segja að þetta hafi verið ákveðin áminning um það sem maður veit svo sem, að hvað sem öðru líður, leiðir tíminn allar lífverur, jafnt og þétt, hiklaust og fumlaust, allt frá upphafi lífs til loka þess. Við verðum víst að sætta okkur við það.

1980: Ingólfur á Iðu segir frá Iðuferju. 
Myndirnar sem ég læt fylgja hér, eru frá vormánuðum 1980, þegar nemendur Reykholtsskóla fóru í vettvangsferðir til að kynna sér ýmislegt um árnar sem setja mark sitt á líf okkar í Biskupstungum. Eldri hópurinn  tók Hvítá fyrir. Leiðin lá, meðal annars, að Gullfossi og að ferjustöðunum tveim: Iðuferju, þar sem Ingólfur Jóhannsson á Iðu, spjallaði við krakkana, og Auðsholtsferju, þar sem Einar Tómasson kom yfir um á ferjubát til að hitta okkur.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...