19 mars, 2019

Kúba: "Ferðin okkar?"

Það hafði vissulega hvarflað að mér, að það væri nú nógu gaman að leggja leið til Kúbu, en umræða um slíkt hafði aldrei náð neinu flugi, en þetta hafði vissulega komið til tals, ekki síst þegar fR nefndi það að við þrjú, sem hér er og verður um að ræða, þyrftum endilega að drífa okkur eitthvert saman.

Það var svo ekki fyrr en í lok nóvember, að skeyti barst á samfélagsmiðli frá fR. Þar var að finna hlekk á auglýsingu um ferð til Kúbu, ásamt tjákni sem vísar til einhverskonar  hálfkærings, en samt einhvern veginn ekki:
Þar sem þarna var ekkert spurningamerki og þar með ekki óvitlaust að líta á skilaboðin sem fullyrðingu með því að víxla "Er" og "þetta", kviknaði einhver neisti og hugurinn hvarf til menntaskólaáranna og Che Guevara og alls þess sem því fylgdi.  Þegar maður fær tækifæri til að upplifa drauma unglingsáranna svo skyndilega getur ýmislegt skeð. Þar sem ég leit þessi skilaboð varð mér á orði: "Jú, einmitt!"

Ég hóf að kynna mér þetta fyrirbæri 2GO ICELAND og þessar ferðir. Þarna á bakvið voru einhverjir tveir náungar, mögulega ævintýramenn, tilbúnir að leiða bláeyga landsbyggðarmenn á glapstigu. 
Við tókum þann pól í hæðina og nú væri einmitt kominn tími til að taka einhverja áhættu í lífinu og þar með fór ég á vefsíðuna kubuferdir.com  bókaði ferð fyrir okkur þrjú í ferð til Kúbu. Svo tók við bið eftir því sem gerðist næst.

Það reyndist vera hringing frá Guðna, nokkrum, Kristinssyni, öðrum forsprakka þessa fyrirtækis, sem ég síðan ættfærði og komst þannig að því að hann er frá Skarði í Landssveit og þar með Sunnlendingur og þar með nær því að vera í lagi. Við fórum yfir málin, greiðslur og fleira og þannig rúllaði þetta bara af stað og ég orðinn nokkru vissari um að ekki hefði verið um gönuhlaup hjá okkur að ræða.
Þetta myndi allt fara vel.
Síðan tók við bið fram til 1. mars. Jú, við ákváðum, að ráði heilbrigðisstarfsfólks að verða okkur úti um bólusetningu við hinu og þessu. Svei mér ef við erum ekki orðin fær um ferðalög um allan heim eftir þær. Það á víst ekkert að bíta á okkur. Reyndar fengum við síðar upplýsingar um að það væri ekkert endilega nauðsynlegt að fara í svona sprautur fyrir ferðalag til Kúbu, en hvað með það, svo sem?
Ég fjölyrði ekki frekar um aðdragandann að ferðinni, en gríp næst niður þar sem við þrjú, auk mín fylgdarkonurnar frú Dröfn Þorvaldsdóttir (fD) og frú Ragnheiður Jónasdóttir (fR) sátum með gutl í glasi og skyndibita í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og vorum einhvernveginn ekki alveg viss um að þetta myndi gerast. Vorum meira að segja farin að gera áætlanir um að leigja okkur íbúð á Stokkseyri í hálfan mánuð frekar en að snúa til baka, ferðarlaus. Auðvitað voru þetta bara taugaveiklaðar pælingar í aðdraganda mikillar ferðar og að engu hafandi.

Sjálfsafgreiðslustandarnir á Pearson flugvelli (mynd af vef)
Flugvél Icelandair hóf sig á loft á réttum tíma, rúmlega 17 og stefnan var tekin í vesturátt, en áfangastaðurinn var Toronto í Kanada þar sem ætlunin var að gista eina nótt á flugvallarhóteli. Með í för var áðurnefndur Guðni, en hinn hluti tvíeykisins, hann Carlos var þegar staddur á Kúbu við að undirbúa móttöku 30 manna hópsins sem þarna var um að ræða.
Á Pearson flugvelli byrjaði ævintýrið fyrir alvöru, með óvissu þeirra sem vita ekkert hvað þeir eru komnir út í. 
Það var talsverð þrautaganga að komast að farangrinum, sem hófst á afar langri gönguför um rangala flugstöðvarinnar í endalausri röð af fólk. Við gengum þar til við komum í sal sem ég hef aldrei áður séð á flugvöllum, þar sem feikilegur fjöldi fólks var að bardúsa fyrir framan einhverjar vélar.  Það blasti við að við myndum þurfa að eiga samskipti við þær, svo við fylgdumst með hvað fólk var að gera. Það smellti á skjáhnappa, setti vegabréf sín inn í skanna, og síðan fór einhver armur af stað, sem reyndist vera búinn myndavél. Armurinn stillti sér upp í hæð við þann sem við vélina stóð og tók mynd. Í lokin prentaði vélin síðan út blað með myndinni, sem viðkomandi átti síðan að geyma vandlega og framvísa þegar gengið væri úr flugstöðinni.
Svo kom röðin að okkur og við smelltum á skjáhnappa. Svo bað vélin um að við settum vegabréfin á tiltekinn stað til skönnunar, sem við gerðum. Eftir nokkra umhugsun tilkynnti vélin hinsvegar að vegabréfið hefði þegar verið skannað og hætti við aðgerðina og engin mynd var tekin og við fengum ekkert blað útprentað og skipti þá engu hvert þriggja vegabréfanna var skannað.

Jæja, hvað tæki nú við? 
Ekki gátum við bara staðið þarna og séð til hvað gerðist næst og því var eina mögulega útgönguleiðin að koma okkur fyrir í röðinni sem lá úr skannasalnum að töskufæribandinu. Þarna á milli var í raun mjög stutt leið, en röðin hinsvegar ógnarlöng. Manni leið dálítið eins og lambi á leið til slátrunar (veit reyndar ekki hvernig því líður) þar sem röðin liðaðist milli banda, fram og til baka, einum fjórum sinnum. Þetta gekk þó furðu hratt og eftir heilsubótargöngu dagsins í þessum sirkus komum við að flokkunarkonu sem benti fólki á hvert það ætti að fara, eftir því hvort það hafði útprentaða miða eða engan miða, sem við höfðum auðvitað ekki: "Go to number 12" sagði hún við okkur miðalausa fólkið. Fyrir innan lúgu  sem merkt var 12, sat ábúðarmikil, dökk kona og ég greindi frá ástæðum þess að við vorum þarna stödd.  Þá tók við heilmikil yfirheyrsla, þar sem fjallað var um ástæðu komu okkar, lengd dvalar og hvort við værum með vopn, sprengjur, eiturlyf eða eitthvað annað illt, í farteskinu.  Þar kom, eftir hálfglottandi svör mín við spurningum um það hvort við værum hryðjuverkamenn eða eiturlyfjasmyglarar, stimplaði landamæravörður þessi á gulan miða og benti okkur áfram í átt að töskufæribandinu. 

Okkur var létt.

Ekki hef ég mörg orð um þá venjubundnu aðgerð fólks á flugvöllum að bíða eftir töskum á færibandi brottför úr töskusalnum og inn í Kanada, en það sem þá tók við var stutt ferð með flugvallarlest yfir á Alt hótel, sem var bara ágætt.  Það var ekki laust við þreytu eftir reynslu dagsins, og á íslenskan tíma var klukkan langt gengin í 12 á miðnætti, en þarna var 5 tíma munur á Íslandi og Toronto.

Í býtið næsta morgun, 2. mars, pökkuðum við og brunuðum síðan með lestinni á flugvöllinn, á degi sem átti eftir að verð áhugaverður. 

Pearson flugvöllur (mynd af vef)
Pearson flugvöllur er talsvert stór og þegar við bættist að til hans þekktum við ekkert, virkaði hann frekar yfirþyrmandi. Guðni hljóp á milli og leiðbeindi hópnum á sjálfafgreiðslustöðvum og benti síðan á hvar ógnarlöng röðin í sjálfvirka töskuafhendinguna byrjaði: "Þarna þar sem þú séð bláklæddu konuna". Ég sá reyndar nokkrar, en sú rétta fannst og við tók lö-ö-öng röð með allar töskurnar.  Töskumóttakan neitaði svo að taka við töskunum okkar svo við urðum að kalla til starfsmann, sem braust inn í tölvukerfið og nauðgaði töskunum okkar í gegn. Skyldu þær þá fylgja okkur til Kúbu?
Allt gekk nú harla vel í gegnum öryggisskoðunina utan þar misstum við dýrindis sólarvörn sem við höfðum gleymt að flytja á milli taska. Hvað með það, þetta átti nú ekki að verða nein sólarferð, þannig séð.
Ekki gátum við framfylgt þeim íslenska sið að skella í okkur drykk fyrir flugið, en Kanadamenn selja ekki áfenga drykki í flugstöðvum fyrr en kl. 11 á daginn. Við lifðum það af og síðan flugum við í rúma þrjá klukkutíma yfir landið hans Trömps með flugfélaginu West Jet áður en við lentum á áfangastaðnum, Varadero á norðanverðri Kúbu. 

Þar með vorum við komin í nýjan menningarheim, en frá því segir næst.

17 mars, 2019

Kúba: Ekki strax .... en síðar.


Ég ætla mér að festa á þetta svæði einhverskonar frásögn af ferð minni til Kúbu nú í fyrri hluta mars. Það gerist hinsvegar ekki í dag, þar sem ég þarf fyrst að koma frá mér einhverjum þeirra hugrenninga sem þessi ferð hefur kallað fram. Ég vona að mér takist það án þess að virðast heittrúaður á einhvern hátt, enda væri slík afstaða hvorki mér né öðru til framdráttar.

Það er eiginlega verst að þær vangaveltur sem mig langar að reyna að koma frá mér, eru svo stórar, að ég átta mig ekki fyllilega á því hvernig ég á að fara að því. Ætli megi þó ekki segja að þær fjalli um líf okkar á jörðinni, hvorki meira né minna.

Einhver kann að velta fyrir sér litla stund, hvort nú hafi ég endanlega misst tökin. Ég hyggst hinsvegar ekki freista þess að bregðast við slíkum, mögulegum pælingum, heldur halda mínu striki, hvert sem það kann að leiða mig.

"The answer to the ultimate question of life, the universe and everything is 42." 
(Adams, D.: The Hitch Hiker's Guide to the Galaxy)

Já, það er engu líkara en ég ætli mér að takast á við þessa ógnarstóru spurningu, en svo er auðvitað ekki. Mig langar frekar að spyrja sem svo: 

Úr íslenskri ofgnóttarverslun
Hvað höfum við gert, hvert hefur það leitt okkur og hvert stefnir?
Þetta er svo sem alveg nógu stór spurning fyrir hvern sem er og svör við henni hljóta að taka mið af ótal umfangsminni spurningum.  

Maðurinn hefur, frá því hann varð að einhverskonar "nútímamanni" í það minnsta, búið yfir allskyns hæfileikum, þar á meðal samkennd, hófsemi, trúarþörf, getunni til að greina rétt frá röngu, sjálfsást, ást til annarra, að hugsa út leiðir til að leysa vandamál, græðgi, undirferli, að skara eld að eigin köku.  
Þetta voru nú bara nokkur atriði af handahófi, en sem gefa til kynna, að maðurinn er bæði góður og vondur. Hann býr yfir miklum andstæðum og það má segja að saga hans endurspegli það. 
Það hafa komið fram einstaklingar og hópar, sem telja sig bera fram hina einu réttu leið fyrir okkur, leiðina að hamingusömu lífi, annað hvort fyrir alla eða bara suma. Það hafa sprottið fram spekingar sem telja leiðina felast í því að allir séu jafnir og aðrir spekingar sem telja að einstaklingsfrelsið muni helst verða okkur til góðs og enn aðrir spekingar sem hafa sett fram kenningar um eitthvað þarna á milli. 
Á tóbaksræktarbúgarði í Viñales á vesturhluta Kúbu
Ég leyfi mér að fullyrða, að engar þessara kenninga hafa gengið, eða ganga upp. Hversvegna skyldi það nú vera?  
Mitt svar er nú, í einfaldleika sínum, allir þeir veikleikar sem mannskepnan býr yfir. Þar eru þrír eiginleikar sem standa upp úr (að mínu mati, að sjálfsögðu): trúgræðgi og valdafíkn
Græðgin og valdafíknin byggja á þeirri trú, að þessir eiginleikar leiði til lífshamingu eða lífsfyllingar. 


Til hvers lifum við?
Við fæðumst einhversstaðar á jörðinni. Það getur verið í Sýrlandi, Bandaríkjunum, Ástralíu, Kúbu eða Íslandi. Það sem þá bíður okkar er líf í svona 60 til 80 ár. Við stöndum frammi fyrir því að takast á við þetta líf, og reynum að gera okkar besta til að það sé þess virði að lifa því, hvert með sínum hætti. 
Svo deyjum við.  
"So long, and thanks for all the fish". (Adams, D.)

Toronto úr CN-turninum
Líf okkar milli fæðingar og dauða getur verið til einskis, það getur stuðlað að bjartari framtíð þeirra sem koma á eftir okkur, en það getur einnig eyðilagt möguleika þeirra á hamingjuríku lífi, eða lífi, yfirleitt. 

Tilgangur lífs okkar getur aldrei orðið annar en að ala af okkur og móta framtíð komandi kynslóða. Allar okkar eignir og upplifanir um ævina eru í raun ekki til neins fyrir okkur sjálf, svona þegar upp er staðið. Þær geta hinsvegar haft áhrif á afkomendur okkar svo lengi sem jörðin verður byggileg.
En hve lengi verður hún það?
Ekki lengi ef okkur tekst ekki að hætta að hugsa í núinu.
Ekki lengi ef við hægjum ekki á okkur, hættum að hugsa um veraldleg gæði fyrst og fremst og byrjum í staðinn að hugsa inn á við, huga að því sem stendur okkur næst og velta fyrir okkur hvað það er sem raunverulega skapar lífshamingjuna, hætta að velta okkur upp úr hlutum sem, í hinu stóra samhengi skipta nákvæmlega engu.

Hendur í Havana
Kommúnistaríkið Kúba verður víst seint talið fyrirmyndarríki. 
Ég mun fjalla síðar um hvernig hún blasti við mér. 
Það jákvæða sem ég upplifði var, að mér fannst fólkið talsvert lífsglaðara en þekkist hjá okkur, það var meiri ró yfir lífinu, samskipti barna og foreldra nánari, samkennd meðal íbúanna meiri, hjálpsemi við brugðið. Mér fannst fólkið, á heildina litið, vera hamingjusamt, þó svo ekki virtist nú beinlínis mulið undir það.  

Svo flugum við í þrjár klukkustundir til Toronto í Kanada, sem segja má að sé alger andstæða að mörgu leyti. Ég treysti mér ekki til að fullyrða neitt um Kanadabúa út frá stuttri viðdvölinni. Um göturnar, í skugga háreistra glerveggja  stormaði fólk með heyrnartól og Starbucks kaffimál, í eign heimi á einhverri vegferð. Ég sá færri bros, en þeir Kanadabúar sem við þó hittum, virtust ánægðir með lífið, en það voru helst þjónustufólk og leigubílstjórar. 

Nei, ég á ekki neitt endanlegt svar, frekar en aðrir. 

Skilti rétt fyrir neðan Niagara fossana
Ég vil ljúka þessu og þar með afgreiða þessar vangaveltur mínar með því að spyrja þig, lesandi góður aðeins um hamingjuna (ef þér er sama um hana, skaltu bara láta eiga sig að lesa spurningarnar - þitt er valið): 
Finnurðu hamingju þína aukast og að þú finnir til aukinnnar lífsfyllingar þegar:
- þú getur valið milli 20 tannkremstegunda í Bónus?
- þú getur valið milli 50 sjónvarpsdagskráa?
- þú getur keypt nýjasta farsímann?
- þú færð mörg læk á Facebook?
- þú bjargar kvöldinu með því að leyfa börnunum þínum að "horfa"?
- þú ert búinn að setja inn illgirnislega athugasemd við einhverja frétt eða frásögn á netinu?
- þú losar þig við ruslið úr bílnum í vegarkanti?
- þú vinnur 10 tíma á dag?
- þú ferð út að borða þrisvar í viku?
- þú horfir á fréttir sem greina frá hörmungum fólks í Austurlöndum?
- þú lest fyrir bönin þín áður en þau fara að sofa á hverju kvöldi?
- þú spjallar við börnin þín við matarborðið?
- þú gefur fuglum í garðinum?
- þú leggst til hvílu eftir að hafa gert eitthvert góðverk?
- þú ferð til sólarlanda á hverju ári?
- þú getur keypt nautalund frá Ástralíu í Bónus?
- þú getur fengið frægan ost frá Frakklandi í búðinni. 
- þú getur sturtað klósettpappírnum í klósettið?
- þú getur gengið um götur og torg í merkjafötum?
- þú varst fremst(ur) í röðinni þegar bandríski kleinuhringjastaðurinn var opnaður á Laugavegi?

Ég get sannarlega haldið áfram lengi með þessar spurningar, en veit ekki hverju það myndi breyta. 
Þegar upp er staðið er það eina sem við, aumar manneskjurnar, getum gert, er að reyna að vera almennilegar manneskjur, sem tilheyra samfélagi og taka á sig samfélagslega ábyrgð. Ef okkur tekst það þá erum við á réttri leið.

Ytra prjál, hvaða nafni sem það nefnist, er lítið annað en sóun á auðlindum heimsins. 

Þá er ég búinn að koma þessu frá og í framhaldinu ætla ég að fjalla, með einhverjum hætti, um ferð mína til Kúbu fyrir skömmu, en þangað brá ég mér með eiginkonunni Dröfn Þorvaldsdóttur (hér eftir fD) og góðri vinkonu okkar Ragnheiði Jónasdóttur (hér eftir fR). 
Ég hugsa að ég verði lengi að vinna úr þeirri upplifun sem það var að koma til Kúbu og þeim hugrenningum sem heimsóknin vakti. 

Hvernig var að að vera Vesturlandabúinn, sem hefur miklu meira en allt til alls, sem brá sér í heimsókn til kommúnístaríkisins Kúbu? 
Var þessi ferð kannski bara enn eitt dæmið um flottræfilshátt eða sjálfsupphafningu (Guð, ég þakka þér að ég er ekki eins og aðrir menn!) - tilraun til að geta svo sagt frá því þegar heim væri komið, hve sigldur maður er nú orðinn? 
Hver veit? 
Kannski.



27 febrúar, 2019

Trú, völd og hagsmunir á biskupsstóli

Séð frá minnisvarða um Jón Arason.
Nei, það er nú ekki þannig, að ég ætli mér að gera einhverja lærða úttekt á þeirri samþættingu trúar, valda og hagsmuna af ýmsu tagi sem birtist þegar maður rennir í huganum yfir málefni Skálholtsstaðar. Ég er nú bara einn nágranni, sem hef stærstan hluta ævinnar átt heima í túngarði biskupsstólsins, rétt handan Keldunnar.
Ég hef afrekað það að:
- að vera kirkjuvörður þá er Sveinbjörn Finnson var staðarráðsmaður og fulltrúi þeirra "fyrir sunnan".
- að kenna við Lýðháskólann þegar sr. Heimir Steinsson var og hét.
- að hafa setið í sóknarnefnd og náð því, meira að segja, að verða sóknarnefndarformaður í nokkur ár.
- að þenja tenórröddina svo áratugum skiptir í Skálholtskórnum, bæði þeim eldgamla, gamla og nýja.
- nú síðast, að vera valinn til að setjast í varastjórn Skálholtsfélagsins hins nýja.

Þakskífur

Altarisverk Nínu Tryggvadóttur
Líf mitt allt og lítið brot sögu Skálholts í gegnum aldirnar, hafa átt samleið, svo um munar (fyrir mig, en ekki Skálholt).

Lái það mér hver sem vill, en þessi samleið hefur afskaplega oft gert mig afhuga Skálholtsstað og því starfi sem þar hefur verið unnið, en á sama tíma, hvort sem ég hef haft um það eitthvert ákörðunarvald eða ekki, þá hef ég ávallt haft og hef enn sterkar taugar til þessa staðar, vísast sterkari en margur sá sem um staðinn vélar eða hefur vélað.

Skálholt var endurreist eftir langan tíma niðurlægingar. Dómkirkjan reis og skólahús var byggt. Það var byggt yfir sóknarprestinn, organistann/kantorinn og rektorinn. Hvernig gátu þessar byggingar annað en upphafið Skálholt til fyrri stórfengleika?
Þarna voru allir möguleikar.
Það hefur hinsvegar ekki enn tekist að nýta þá svo sem vonir stóðu til.

Sannarlega lifir Skálholt á fornri frægð, og er þekkt um heiminn sem einn þeirra staða sem ferðamenn þurfa að heimsækja. Þekkt um hinn kristna heim. Þekktur sögustaður. Þekktur menningarstaður.

Það hafa margir lagt hönd á plóg í Skálholti, af alúð og heilum hug. Þar hefur margt ágætt verk verið unnið. Ég verð að viðurkenna að mér er það vart skiljanlegt hve mörgu góðu hefur verið komið þar til leiðar, þrátt fyrir það umhverfi sem staðnum er búið.

Skálholtshátíð 2018
Ekki treysti ég mér til að telja fram alla þá aðila, stofnanir, ráð, nefndir, félög, einstaklinga, fyrirtæki,   -  sem hafa með málefni Skálholts að gera, eða telja sig vita hvað staðnum er fyrir bestu. Þarna er um að ræða afskaplega ósamstæðan hóp, sem sjaldnast getur orðið einhuga um skipan mála í Skálholti í nútíð eða framtíð.
Allir þessir aðilar vilja vel, hver á sinn hátt og þar má segja að hnífurinn standi í vorri kú.
Það er tekist á um flest sem hugsast getur í tengslum við staðinn. Það takast á hagsmunir af ýmsu tagi, hagsmunir sem tengjast fjármagni, skipulagi, trú, nágrenni, lífsskoðun, ferðaþjónustu, landbúnaði, .....  Ég sé ekki tilgang með að reyna að telja saman alla þá hagsmuni sem hægja á málum sem tengjast Skálholti, en þessi staður er þess eðlis að það er mjög auðvelt að vera ósammála um hann og þegar þannig er háttað, er enginn hörgull á ósamrýmanlegum skoðunum.

Sú skoðun er talsvert algeng í mínu umhverfi að það hljóti að hvíla einhver álög á "Skálholtstorfunni", þar sé aldrei friður. Ég hef heyrt fólk halda þeirri skoðun fram að þetta eigi uppruna sinn í þeirri stund þegar Jón Arason og synir hans voru hálshöggnir árið 1550.  Til þessa vil ég ekki taka afsöðu svo sem, en verði ekki málefnum Skálholts skipað með skilvirkari hætti, munu þessi átök (jæja, mismunandi skoðanir eða sýn) halda áfram.
Það er nú mín auðmjúka skoðun, að ákvörðunarvald um málefni staðarins þarf að vera hjá einum aðila, sem "að bestu manna yfirsýn" leggur þær línur sem feta skal. Þessi aðili þarf að vera í afar góðum tengslum við staðinn, þekkja sögu hans og mikilvægi fyrir þjóðina og nágrennið mjög vel.

Biskupshúsið / Gestastofa
Það er vel þekkt máltæki sem segir, að því verr gefist heimskra manna ráð sem fleiri koma saman. Ekki tek ég nú svo stórt upp í mig að vilja halda þessu fram þegar málefni Skálholtsstaðar eru annars vegar, fjarri því, en hinsvegar tel ég að málefnum staðarins sé ekki vel komið með svo marga álitsgjafa og/eða ákvörðunaraðila sem raun ber vitni.

Svo er það þetta með Biskupshúsið eða Gestastofuna, sem nú stendur þarna á hlaðinu og bíður framtíðarhlutverks síns.
Í hvers/hverra höndum er að ákveða hvert það verður?  Hvað dvelur?




23 febrúar, 2019

Stundum kallað PERMANETT

Við eigum öll sögu, þar með talinn ég sjálfur. Mig grunar að margir telji mig vera fremur venjulegan náunga, sem fetar þessa venjulegu slóð gegnum lífið. Ég held það bara líka, svona í stórum dráttum.

Samt á ég auðvitað sögu, sem að sumu leyti lýsir frávikum frá því sem þessi almenna mynd af mér kann að gefa til kynna, í það minnsta gagnvart þeim ykkar sem þekkja minna til mín. 
Ég á góða spretti í sögurammanum mínum, sem ég er stoltur af, og aðra sem ég vil síður að séu hluti af því sem fólk veit um mig. Hinsvegar finnst mér, svona þegar maður lítur til baka, þeir vera bara nokkuð "töff". 

Árin 1978 og 1979 ( 40 ár síðan) bjó ég með fD og eins árs syni í Kópavogi, langt kominn með námið sem ég hafði valið mér.
Í nágrenninu bjó frú Auður, mágkona mín með sínum manni og börnum. Hún starfaði sem hárgreiðsludama (fyrirgefðu, Auður), eða hvað sem fólk vill eða má kalla það fólk sem leggur á sig að klippa til og snyrta hár fólks.
Einhvernveginn æxlaðist það svo, í einhverju "bríaríi" að ég lét tala mig inn á að fá mér svokallað "permanent" eða "permanett" eins og ég sá það oft nefnt og skrifað. Ekki man ég hvort þær systur þurftu að tala mig til, enda skiptir það ekki máli, úr því sem komið er, en allavega reyndist ég nægilega tilbúinn til að fara þessa ótroðnu slóð til að aðgerðin var ákveðin og síðan framkvæmd.

Það vitum við öll nú að þetta fyrirbæri kallast PERMANENT, sem auðvitað er alþjóðlegt orð yfir eitthvað sem er varanlegt. Það ber að hafa það í huga að þetta fyrirbæri var, almennt séð, svona kvenna-dæmi. Konur fengu sér permanent. Þarna var hinsvegar langt liðið á áttunda áratuginn og frægir karlmenn sáust æ oftar á myndum þar sem þeir skörtuðu permanenti og virtust bara nokkuð sáttir.


Ég reikna með að ég hafi hugsað sem svo, að ég gæti alltaf vísað til tískustrauma ef ég fengi athugasemdir við uppátækið. Verkið fólst, eins og sjá má á myndunum í því að sérhæfðum permanent rúllum var komið fyrir með einhverjum sérhæfðum hætti, eins og reglur kváðu á um. Síðan man ég eftir litlum plastbrúsa með efni sem sprautað var á rúllurnar, en þarna mun hafa verið um að ræða  einhverskonar festi, sem síðan olli því að hárið hélst í einhvern tíma, svona líka svakalega krullað.
Ég minnist þess ekki að hafa orðið fyrir aðkasti vegna þessa uppátækis, enda var þetta að verða nokkuð viðtekið hjá karlmönnum sem töldust vera eitthvað. Ég þykist hafa fulla vissu fyrir því að svili minn hann Anfinn (maður frú Auðar) hafi fengið samskonar hanteringu. Til sannindamerkis um það fann ég mynd þá sem sjá má hér neðar, þar sem ekki verður um það villst, að permanent hefur verið sett í karlinn.
Já það er nú það.

Þá er komið að því að uppljóstra um þetta allt saman, með persónum og leikendum.  Ef einhver svo mikið sem brosir út í annað, þá er tilgangi mínum með þessum undarlega pistli náð. Jafnframlýsi ég því yfir að ég tel persónuverndarlög ekki ná til þessara myndbirtinga, enda myndirnar löngu fyrndar - teknar nánast í fornöld.

"The Man"

Anfinn og frú Auður

fD 




22 febrúar, 2019

Innflutningur á efni

Mér þykir vænt um þjóð mína og allt sem hún stendur fyrir. Ég vil henni ekkert nema það besta. Ég hef mikla trú á þjóðinni minni. Ég held að hún viti hvað henni er fyrir bestu og að hún eigi að hafa val um hvernig hún hagar lífi sínu. Ég held að ég sé góður maður. 

Í ljósi þessa hef ég sett fram kröfu um að fá að flytja til landsins þetta efni. Ég hef sannarlega reynt að flytja það inn, en einhverjar fornar reglur kveða á um að mér sé það óheimilt. 
Forsjárhyggjan tröllríður þessu samfélagi og ég er staðráðinn í að berjast fyrir rétti einstaklinganna í þessu samfélagi til að velja sjálft hvernig það kýs að haga lífi sínu. Jú, auðvitað þarf ég að hafa eðlilegan arð af þessum viðskiptum. Það er eðli viðskipta, en eins og ég segi, fólk á að hafa val og það vantar þennan valkost á íslenskan markað. 

Þegar upp er staðið, er það ekki von mín um persónulegan hagnað sem ræður för, en ef vel tekst til með innflutninginn verður ekki annað um mig sagt en að ég sé velheppnaður athafnamaður, sem, með athöfnum mínum, hef auðgað líf fólks, jafnvel þeirra sem minnst mega sín og erfiðast eiga.  
Ég er sannur sonur Íslands.

Jæja, ekki þýðir víst að ganga fram af lesendum í oflofi um sjálfan mig. Ég neita því ekki, að þessi barátta mín tekur á og krefst þess að ég þurfi, vakandi og sofandi, að takast á við allar úrtöluraddirnar sem stöðugt reyna að bregða fyrir mig fæti. Sem betur fer hef ég ágætan aðgang að fjölmiðlum (á í nokkrum) og gott fólk í vinnu sem tryggir að engu verður látið ósvarað sem beint er að mér eða fyrirætlunum mínum, hvort sem það er á samfélagsmiðlum, dagblöðum, útvarpi eða sjónvarpi. 

Þessi barátta mín snýst ekki um það hvort ég get keypt hvað sem hugurinn girnist, geti ráðið til mín snjalla almannatengla, eða skattasérfræðinga og jafnvel slatta af stjórnmálamönnum. 
Nei, aldeilis ekki. 
Auðvitað hef ég þetta allt og meira til, einmitt til að geta tryggt að íslenskir neytendur fái að hafa val. Það eru þeirra hagsmunir sem ég berst fyrir. 

Jæja, þetta er efnið sem ég ætla mér að flytja inn, þó svo það muni kosta mig blóð, svita og tár:
Efnið eykur athygli og einbeitingu, dregur úr svefnþörf, minnkar matarlyst ásamt því að veita vellíðan. Það er stundum notað sem lyf til að meðhöndla athyglisbrest, drómasýki, og offitu.
Það er vinsælt þar sem það veldur vellíðan, eykur kynorku, heldur manni vakandi, og eykur einbeitingu. Viðbrögð verða fljótari, tímaskyn breytist, fólk hefur meira þol og meiri vöðvastyrk.
Er einhver ykkar, lesendur mínir, sem treystir sér til að halda því fram, að hér sé um að ræða vöru sem ég ætti ekki að fá að flytja inn?  Þau jákvæðu og góðu áhrif sem efnið hefur á fólk, munu verða til þess að efla þjóðina til átaka við neikvæðni og úrtöluraddir, sem virðast ekkert sjá fyrir sér þjóðinni til handa nema grútartýrur og moldarkofa.  Í þessu efni blasir við framtíð þjóðarinnar með þjóða.

Þegar ég hef, með tilteknum lagalegum aðferðum, náð þessu mikla réttindamáli fram, með hagsmuni þjóðfrelsis og einstaklingsfrelsis í huga, hyggst ég hefja baráttu mína fyrir enn frekari sókn af sama meiði og hef þegar fundið efnið sem er næst á dagskrá hjá mér, en það hefur þessa góðu eiginleika, meðal annarra:
- Mikla vellíðan og nánast alsælutilfinningu.
- Meiri orku, árvekni og félagsfærni.
- stórbætt sjálfsmat.
- þreyta hverfur eða minnkar í það minnsta.
- matarlyst minnkar - hver vill ekki grennast?.

Þetta er framtíðin og ég er staðráðinn í að berjast gegn durgum af hvaða tagi sem er til að þjóðin fái að hafa val. 
Tími brennivínsins, ákvítisins og landans er að líða undir lok. 
Það eru nýir tímar framundan.

------------------------ Jæja þá að raunveruleikanum --------------------------

Fyrra efnið sem ég segist ætla mér að flytja inn er AMFETAMÍN. Ég tók út allt það sem telja verður neikvætt við þetta efni.
Amfetamín er örvandi efni. Efnið eykur athygli og einbeitingu, dregur úr svefnþörf, minnkar matarlyst ásamt því að veita vellíðan og vímu. Það er stundum notað sem lyf til að meðhöndla athyglisbrest, drómasýki, og offitu.

Amfetamín er vinsælt eiturlyf þar sem það veldur vellíðan, vímu, eykur kynorku, heldur manni vakandi, og eykur einbeitingu. Viðbrögð verða fljótari, tímaskyn breytist, fólk hefur meira þol og meiri vöðvastyrk. Stærri skammtar af amfetamíni valda þó vöðvaniðurbroti, mjög stórir skammtar valda geðrofi með ranghugmyndum og ofsóknaræði. Þegar amfetamín er notað sem eiturlyf eru skammtarnir mun stærri en þegar það er notað sem lyf. Þessi háu skammtar valda því að fólk á mjög auðvelt með að ánetjast amfetamíni, og að aukaverkanir þess eru mun verri. Algeng götunöfn amfetamíns eru spítt og hraði sem vísa þá til örvandi áhrifa lyfsins á hegðun, hugsun, og tímaskyn.
Síðara efnið er kókaín, en þar láðist að geta þess, t.d. að:
Það er mikil hætta fólgin í því að nota kókaín, hvort heldur það er tekið gegnum nef, sprautað eða reykt. Stórir skammtar kókaíns geta valdið flogi og dauða vegna öndunartruflana, heilablóðfalli, blæðingum eða hjartabilunum. Ekki er til mótefni sem hægt er að nota ef of stórir skammtar kókaíns eru teknir.
Þetta er, í mínum huga ein leiðin til að fá okkur til að trúa því að vont sé gott. Við eigum á hafa úrval og ákveða sjálf hvernig við högum lífi okkar.
Svona nokkuð gengur í fólk, vegna þess að mörg okkar hugsa, því miður, ekki lengra en nef okkar nær. Ef eitthvað verður okkur að falli, þá er það einmitt þessi eiginleiki okkar.  

Það er sannarlega langt seilst hjá mér að bera saman kröfu um að fá að flytja inn fíkniefni, annars vegar og ófrosið kjöt og grænmeti hinsvegar.  Ég geri það bara samt, þar sem þarna er ýmislegt samanburðarhæft. sem ég er viss um að mörg okkar átta sig á - þangað til hagsmunaaðilar eða útsendarar þeirra snúa okkur aftur.


Mér er fremur óljúft að játa það, en það bærðist í mér framsóknarstrengur eftir daginn í gær. 
Maður á að segja eins og manni finnst.......

------------------------------------

Nú er svo komið að fólk er farið að panta hjá mér umfjöllun, sem sannarlega þarf ekki að koma á óvart, eða þannig. Eftir pistil minn í gær, fékk ég þessi skilaboð:
Bíð eftir skrifum um nýjasta útspil svokallaðs ráðherra landbúnaðarmála.

Kannski ég fari að gerast atvinnupistlahöfundur, bara. 😅

20 febrúar, 2019

Með okkur í vasanum

Ég veit það ósköp vel, að þetta er ekki til neins, ekki bara vegna þess að þið eruð nú ekkert sérstaklega mörg sem leggið á ykkur að lesa þessi skrif mín um allt og ekkert, heldur ekki síður vegna þess hve ódýr orðin eru orðin. 
Vægi þeirra fer síminnkandi á sama tíma og fjöldi þeirra eykst.
Eftir því sem orðunum fjölgar verður æ erfiðara að greina á milli sannleika og lygi og það verður æ auðveldara að stjórna okkur.
Eftir því sem orðunum fjölgar verður æ erfiðara að taka ákvarðanir því með orðum má flækja málin svo og menn vita varla hvað snýr upp og hvað niður í lok orðaflaumsins, sem lýkur reyndar aldrei.

Þegar upp er staðið munu þeir standa með pálmann í höndunum og okkur í vasanum, sem tala hæst og endurtaka mest, einföld skilaboð sem smám saman fara að klingja ómeðvitað í hausnum á okkur.  Með öðrum orðum, þá munu þeir sem sem eiga nægt fjármagn til að stýra því sem við fáum að heyra, ráða heiminum. Við verðurm að glingri sem þeir fitla við í vasanum við og við, gleypandi molana sem að okkur eru réttir.

Nánast á hverjum degi birtast loftbólur ofan úr djúpinu, þar sem það er geymt sem ekki má ná yfirborðinu. Samt sleppa alltaf þessar bólur. Örlög þeirra eru að springa eða verða sprengdar, jafnvel áður en okkur hefur tekist að skilja hvað þær fela í sér.  Þær eru sprengdar með orðum og endurtekningum. Svo sleppur bara næsta bóla og sagan endurtekur sig.

Sannarlega er ég búinn að fullyrða mikið hér fyrir ofan og gera ansi hreint lítið úr okkur, almúganum.
Ég reyni hér að nefna bara nokkur atriði til að reyna að undirbyggja fullyrðingar mínar:

Laun bankastjóra fylltu eina bóluna, en svo var hún sprengd þegar  það var upplýst að launin væru hófleg miðað við allt og allt og að ákvarðanir um launahækkun hafi verið varkár.  Dettur einhverjum í hug að innihald þessarar bólu og uppistandið sem varð þegar hún sprakk, leiði af sér einhverjar breytingar?  Það finnst mér afar ólíklegt og afskaplega mörg okkar, sem jafnvel fyllum lægstu launaþrepin, eru bara harla sátt og finnst þetta eðlilegt.

Hefur einhver lagt það á sig að bera saman þjónustu bankanna þriggja, við okkur sem  eigum hjá þeim einhverjar innistæður?  Þeir eru sagðir ástunda samkeppni sín í milli.
Um verðskrá Arion banka sagði Gylfi Zoega, hagfræðiprófessor fyrir stuttu:
„Ég, sem venjulegur maður, get varla lesið þetta. Þó að ég fari upp í sumarbústað í einn mánuð þá gæti ég ekki munað þetta. Ef ég ætti, sem neytandi, að bera saman verðskrá eins og þessa við verðskrá Íslandsbanka eða Landsbankans þá gerði ég ekki annað. Þetta flækjustig er viljandi og flækjustigið kemur í veg fyrir öll samskipti. Bankarnir keppast um stóru fyrirtækin sem vilja fá lán en almenningur? Það er engin leið að efla samkeppni um bankaviðskipti almennings þegar verðskrá er svona óskýr.“
Jú, þessi bóla sprakk dag einn fyrir nokkru, og svo ekki söguna meir.  Vitlausustu viðbrögð bankanna hefðu að sjálfsögðu verið að svara þessu að einhverju leyti. Þeir vita hvernig fer með þessar bólur.

Þetta snýst ekki bara um bankana. Það er af nógu að taka. Sumar bólur koma upp á yfirborðið oftar en einu sinni. Þannig var með mál starfsmannaleigunnar. Fyrri bólan sprakk, en auðvitað gerðist svo ekki neitt. Síðari bólan sprakk og gerir einhver ráð fyrir að innihald hennar verði nú tekið föstum tökum? Ég er harla efins, ekki síst í ljósi þess, að nú hefur okkur verið birt annað innihald þessarar bólu, sem stangast algerlega á við hið fyrra. Hvort var þarna um að ræða stóralvarlegt mansalsmál, eða leikþátt Roma fólks (Sígauna) frá Rúmeníu, til að gera grín að okkur.  Hverju trúum við? Hverju höfum við forsendur til að trúa? Tökum við kannski bara ættjarðarástina á þetta?

Svo eru þar stjórnmálamennirnir okkar, sem eru þar sem þeir eru vegna þess hve góðir þeir eru í að tala - hve mörgum orðum þeir geta komið frá sér.. Það sem er í höfðinu skiptir minna máli, harla oft.  Er það virkilega svo, að sú hliðin sem við almúginn sjáum, sé bara leikrit. Getum við nefnt marga þingmenn, sem eru það sem þeir virðast eða segjast vera?   Ég á í braski með það.  Þurfum við að beita hlerunum til að komast að hinu sanna um þessi sverð og skildi íslensku þjóðarinnar?
-------------

Ég viðurkenni það fúslega, að ég finn talsvert oft fyrir þreytu á þessu samfélagi okkar; öllum þessum orðum, sem segja svo margt, en eru bara hljóðbútar eða skriftákn, þegar upp er staðið.

Ég viðurkenni það einnig að vera búinn að reyna að finna flöt á að tjá mig um þetta, svo sæmilega skipulegt megi teljast, en hef ekki fundið hann. Mér tókst samt að komast að niðurstöðu, og hún er þessi:
Það skiptir engu máli hvað ég segi, ef það mögulega reynist skipta einhvern einhverju máli, þá verður eitthvað annað til þess að snúa honum aftur.   

Þar með varð niðurstaðn sú að byrja bara og sjá svo til hvar ég setti punktinn aftan við innihaldið, en sannarlega ekki efnið, því það er óþrjótandi.

Þar með set ég punktinn.

punktur



17 febrúar, 2019

Milljónavirði eða einskisnýtt

Ég ætlaði reyndar að fjalla um snjómokstur á þessum sunnudegi, eftir ofurmoksturinn í Laugarási í gærkvöld, þegar mokstursbíllinn fór hér í það minnsta þrisvar í gegn. Það hefði mátt ímynda sér að einhver áríðandi samkoma væri í grenndinni.
Ég komst hinsvegar að því, að slík skrif ofan á önnur af svipuðum toga í gegnum lyklaborðið mitt, væru of fánýtt verk.

Ég fór þess í stað  að athuga með listaverkaeign mína, þar sem styttast fer í að þar þurfi að taka ákvarðanir.
Fyrir 20-30 árum var bankað upp á í Kvistholti. Fyrir utan stóðu útlendingar, sem reyndust var ungir Frakkar. Þeir munu hafa verið að ferðast um landið til að selja verk eftir sjálfa sig.  Ég var í einhverju þannig skapi á þessum tíma, og verðalagið á verkunum með þeim hætti, að þetta endaði með því að ég skellti mér á olíumálverk. Reyndar er það svo, að ég skil ekki enn í mér, en það er nú oft þannig.

Verkið eftir Bartox/Bartok/Barton
Það getur vel verið, að ég hafi hugsað sem svo, að einhverntíma í framtíðinni yrði þetta verk mitt sa fjársjóður sem myndi geta tryggt mér og mínum áhyggjulaust ævikvöld, en mig grunar að svo hafi ekki verið. Það er líklegra að sölutæknin Frakkanna hafi virkað betur á mig en sölutækni margra annarra sem banka á dyr hjá mér.

Síðan hefur þetta magnaða olíumálverk prýtt þá hluta hússins sem ég, alla jafna hef út af fyrir mig. Það getur vel verið að götumynd frá fjarlægri borg passi ekki inn í hið bráðíslenska umhverfi sem einkennir innviði Kvistholts. Ekki hefur fD hvatt neitt sérstaklega til þess að verkið færi upp á stofuvegg.

Nú er að koma að því, að ég þarf að ákveða hvort ég farga þessu mikla verki sem hefur blasað við mér áratugum saman og örugglega einhverntíma veitt mér innblártur sem eftir hefur verið tekið. Hver veit.
Ég er búinn að draga fram áritun listamanssins og hún virðist mér segja hann vera Bartox, Bartok eða Barton. Við gúglun þessara möguleika hefur mér ekki tekist að komast nær neinum þekktum listamanni en Bela Bartok, sem er auðvitað heimsfrægt tónskáld.

Nærmynd af neðsta hluta verksins. Það verður ekki sagt
annað er að fagrir eru litirnir.
Það kann að vera að eitthvert ykkar, lesendur góðir geti leitt mig í átt að réttir ákvöðrun um örlög þessa ágæta olímálverks. Kannski er þetta svona dæmigert verk fyrir það sem maður getur keypt á götuhorni á Tenerife - ekki hef ég vit á því. Það er alltaf fyrir hendi sá möguleiki að þarna sé um að ræða næsta Picasso, Rembrandt eða Kjarval.

Ég er allaveg búinn að ákveða, að takist mér ekki að öðlast sannfæringu um að verkið hafi málað stórkostlegur,  heimsfræður listamaður, þá muni það enda í  einhverjum spilliefnagámi. Þannig er það.

09 febrúar, 2019

Þorraspjall á Hestakránni

Það kom mér nokkuð í opna skjöldu fyrir nokkrum vikum, þegar ég fékk símtal frá Bjarna Ófeigssyni í Fjalli á Skeiðum. Erindi hans var að biðja mig að spjalla við eldri borgara í Skeiða og Gnúpverjahreppi á þorrablóti þeirra í Hestakránni þann 8. febrúar.  Þetta kom mér svo mikið í opna skjöldu, að ég bað um umhugsunarfrest. Svo hugsaði ég og komst að þeirri niðurstöðu að líklega gæti ég alveg kraflað mig fram úr þessu verkefni, og tók það að mér. 
Ég fékk, hjá Bjarna, alveg frjálsar hendur varðandi innihald og tímalengd "spjallsins", með þeim orðum að fólk á þessum aldri hefði nægan tíma. 
Þar sem ég fell ekki í þann flokk manna að vera "spjallari" að eðlisfari, settist ég yfir verkið í tölvunni minni og skráði það sem ég vildi sagt hafa, frá orði til orðs. Ég myndi svo geta bætt við eða sleppt úr, eftir því hvernig aðstæður yrðu.

Mynd: fD

Þorrablót eldri borgara í Skeiða- og Gnúpverjahreppi var í gær, kl. 14. Til að byrja með fannst mér þetta fremur undarlegur tími fyrir þorrablót, en því meira sem ég hugsaði málið, varð ég hrifnari af þessu fyrirkomulagi. Til hvers líka að vera að dandalast langt fram eftir kvöldi við skemmtun af þessu tagi?

Ég fann það strax þar sem ég gekk þarna í salinn á Hestakránni og leit yfir hópinn, að þarna væri komið fólk sem að mörgu leyti hefði deilt sömu reynslu og ég. Mörg andlit þekkti ég eða kannaðist við, sem er nú ekki óeðlilegt, svo sem.  Ekki vissi ég hvernig "spjalli" mínu yrði tekið, en ákvað fyrirfram að taka bara kæruleysið og léttleikann á þetta. Svo færi sem fara myndi.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um það, en þessi hópur tók mér afskaplega vel þó langt væri erindið. Ég fékk algert hljóð undir flutningnum og engir farsímar fóru á loft.  Þetta var hin ágætasta stund, og ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að koma þarna til að kynnast menningu í öðrum sveitum. 

Þar sem ég lagði nú talsverða vinnu í að skrá "spjallið" niður, ákvað ég að setja það hér inn, ekki síst bara fyrir sjálfan mig, í þeirri von að Google ákveði ekki dag einn að henda út öllu sem hann geymir undir mínu nafni. Ég bætti aðeins inn í textann sem ég flutti og það er skáletrað.


Og hefst þá spjallið

Ásmundur Benidiktsson

Ég vil byrja á að þakka fyrir að hafa verið boðið til þessa þorrafagnaðar eldri borgara í Skeiða- og Gnúpverjahreppi hér í Hestakránni. Nafn staðarins ber með sér að hann sé helst ætlaður hestamönnum, en ég held að minna hestelskandi einstaklingar, svona eins og ég, hljóti að kíkja hér inn einstaka sinnum.

Á æskuheimilinu var ekki mikið um húsdýr, ein kýr var þó á einhverjum tíma, sem bar nafnið Kusa og einnig folald eða foli sem gekk undir nafninu Jarpur. Jarpur var aldrei taminn og ég held að hann hafi frekar verið einhverskonar dekurdýr á heimilinu og færði sig æ meir upp á skaftið. Gekk svo langt, þegar hann kom að útidyrunum opnum, að hann fór inn og skellti sér í búrið til að ná sér í brauðbita. Þar kom að hann hverf af heimilinu og ég veit ekkert um afdrif hans þaðan í frá.

Í æsku fór einusinni á hestabak, svo ég muni. Þá fór ekki betur en svo að hrossið bakkaði og hreyfði sig ekki eftir það. Síðar prófaði ég nokkrum sinnum en tókst aldrei að uppgötva þá töfra sem hestamennsku eiga að fylgja.

Tengsl mín við Skeið og Gnúpverjahrepp.

Ætli sé ekki rétt að ég byrji á að gera aðeins grein fyrir mér, en til þess að tryggja jákvæðar viðtökur vil ég geta þess, að á Skeiðum og í Gnúpverjahreppi eiga ættmenn mín nokkur spor, þó ég sjálfur eigi hér fátt nema ferðir niður og upp Skeiðin, einar 80 á ári, sem er nú alveg slatti.

Þannig var, að langa lang afi minn og amma, afi og amma afa míns, sem var Páll Guðmundsson á Baugsstöðum, þau Ásmundur Benidiktsson og Sigurlaug Jónsdóttir, fluttu búferlum frá Stóru Völlum í Bárðardal árið 1870 og settu sig niður að Haga í Gnúpverjahreppi. Eitt af því, sem Ásmundur var einna kunnastur fyrir út í frá, voru langferðir hans í ýmsum erindum, helst fyrir aðra og hann fór um 40 ferðir yfir Sprengisand.

Líf þessarar fjölskyldu í Haga var víst enginn dans á rósum en þar bjuggu þau í tæp tuttugu ár. Þá tók Vigfús sonur þeirra við búinu, en hann var afi Árna Kjartanssonar bónda á Seli í Grímsnesi.

Þau Ásmundur og Sigurlaug fluttu svo með honum að Fjalli á Skeiðum 1892, þaðan sex árum seinna, til annars sonar, Ásgeirs, að Árhrauni, þar sem þau voru í 11 ár, eða þangað til fjölskyldan fluttist að Kálfholtshjáleigu í Ásahreppi. Þar létust þau Ásmundur og Sigurlaug með skömmu millibili (1915 og 1916) og voru jarðsett að Stóranúpi, að eigin ósk. 

(viðbót)
Ásgeir Ásmundsson
Úr minningargrein um Ásgeir Ásmundsson frá 1947Ásgeir og Sigríður Gísladóttir frá Arakoti, kona hans hættu kotbúskap sínum í Kálfholthjáleigu 1923, fóru síðan í eitt ár í húsmennsku að Helgastöðum í Biskupstungum, þaðan fóru þau niður í Flóa og bjuggu í nokkur á í Rútsstaða Norðurkoti í Gaulverjabæjarhreppi. Með bilandi heilsu og féleysi urðu þau að leita á náðir annarra. Hjóni í Sandlækjarkoti, Eiríkur Jónsson og Kristín Ingimundardóttir tóku við þeim, vegna gamals vinfengis. Sigríður lést 1946 en Ásgeir 1947.

Tvö börn Ásmundar og Sigurlaugar til viðbótar áttu heimili á Skeiðum. Það voru þau Ingibjörg, sem var gift Birni Guðmundssyni í Vesturkoti og Benedikt, sem var til heimilis þar hjá systur sinni, en „var vitfirrtur frá unga aldri“ eins og Valdimar Briem segir í þeirri frásögn af þessari fjölskyldu sem ég byggi þetta á.

(Viðbót)
Þessi frásögn er til og skráð af Hermanni Jónassyni skólastjóra í Sunnudagsblaðinu 28. maí 1961:
SKÖMMU fyrir 1870 brjálaðist unglingspiltur á Stóruvöllum í Bárðardal. Hann hét Benedikt Ásmundsson. í fyrstu hafði hann veikina öðru hvoru, og fylgdi æði veikindaköstunum. Síðar varð veikin stöðug og æðið minnkaði. Einu sinni var það í harðindatíð að vetrarlagi að Skjálf andafljót,. er rennur niður undan Stóruvöllum, féll í nálægt 12 metra breiðum ál millum sterkra höfuðísa. Þá var það, að Benedikt slapp á burtu í einu æðiskastinu. — Hann hljóp beint niður að fljótinu. Efldir karlmenn eltu hann þegar, en þeir höfðu ekkert við honum á hlaupi. Þá er að álnum kom, stökk Benedikt óðar út í hann. — Fljótt bar hann yfir. Var sem hann væði í óstæðu vatninu, og hafði hann höfuð og háls upp úr því. Þegar yfir að skörinni kom,. studdi Benedikt höndum á brúnina og strokaði svo sig léltilega upp úr vatninu, að hann kom fyrst á fæturna niður á ísinn. Állinn var langt yfir að vera stæður á dýpt, og allstrangur. Frá næsta bæ á móti sást fol ferða Benedikts og varð 'honum náð þaðan.

Ásmundur og Sigurlaug áttu þrjú börn til viðbótar, sem komust til manns, tvo syni, Ágúst og Halldór, sem fluttu til Vesturheims.

(Viðbót)
Frásögn af Ágúst Ásmundssyni í Lögbergi 9. júní, 1955:
Ágúst Ásmundsson
Þann 8. desember 1954 andaðist Ágúst Ásmundsson að heimili sínu í Red Deer, Alberta. Ágúst var fæddur 25. ágúst 1871 að Haga í Gnúpverjahrappi í Árnessýslu, sonur Ásmundar Benediktssonar og konu hans Sigurlaugar. Systkini Ágústs voru Ásgeir, Vigfús, Halldór og Ingibjörg. Halldór kom til Vesturheims og bjó í Calgary, nú dáinn fyrir mörgum árum. Þau voru náskyld þeim bræðrum, Gísla Dalman, Jóni Jónssyni og Benedikt Bardal frá Möðrudal. Til Vesturheims kom Ágúst árið 1900 og var samferða Breiðuvíkur-fólkinu. — Hann dvaldist um nokkurn tíma í Argyle-byggð, en fluttist þaðan til Albertafylkis og bjó þar framvegis. Árið 1903 kvæntist hann Sigurlaugu Önnu Jónsdóttur frá Clavertshúsum í Garði í Gullbrigusýslu. Bjuggu þau fyrst í Oktotoks, Alberta, en árið 1905 fluttu þau vestur fyrir Markerville og tóku sér þar heimilisréttarland. Árið 1907 fluttu þau til Red Deer og þar var heimili þeirra upp frá því. Ágúst og Sigurlaug eignuðust þrjú börn. Jón Haraldur, kvæntur konu af norskum ættum, dó 1942 frá konu og fjórum börnum, öllum í ómegð. Anna Sigurlaug, gift H. Goodaere, eiga þau tvö börn. Býr hún á næstu jörð við foreldra sína og hefur verið þeirra önnur hönd. Óskar Ingólfur býr í California, kvæntur hérlendri konu, eiga þau tvö börn. Óskar var um tímabil mikill "Hockey "-kappi. Ágúst hafði marga þá eiginleika til að bera, er gjörðu hann sérstaklega góðan ferðafélaga á lífsleiðinni. Hann var framúrskarandi góður heimilisfaðir, með sinni glaðværu og staðföstu lund. Glöggt dæmi um þessa eiginleika hans er það hvernig hann reyndist tengdadóttur sinni, en hann vitjaði hennar á hverjum morgni til að sjá, hvernig henni og börnunum liði og studdi hana á ýmsan hátt. Vart mun að finna iðjusamari mann. Á yngri árum sínum ruddi hann heila flaka af skógi með exi sinni, og hvaða vinna sem var sýndist leikur í hans höndum. Hann lagði stund á steinsteypu síðustu árin, og var það hans líf og yndi. 75 ára að aldri byggði hann sér heimili úr steinsteypublökkum, sem hann hafði búið til í frístundum sínum. Hann gegndi störfum, sem banka-"janitor' í 26 ár. Húsið er snildarlega gjört, með öllum nýtízku þægindum og mun standa sem minnisvarði um langan aldur. Heimili þeirra „Laugu og Gústa" hefur ætíð verið annálað fyrir gestrisni og góðvild til vegfarenda á þessum slóðum, og voru þau bæði samhent í því. Ágúst var ungur í anda fram til síðustu stundar. Bókhneigður var hann og unni öllu því, sem fagurt var á íslandi. Og þó að honum gæfist aldrei tækifæri til að sjá ættjörð sína aftur, þá dvaldi þó hugurinn oft á þeim slóðum, sérstaklega síðustu árin. Útför hans fór fram frá Brown and Johnson Chapel í Red Deer-borg, og var fjöldi af vinum viðstaddir og mikið barst af fögrum blómum. Rev. Uiller og Rev. Guebert fluttu kveðjuorðin. Eru þeir báðir lúterskir kirkjuprestar. Þeim söfnuði tilheyrðu þau hjónin og studdu hann af ráði og dáð. Ágúst var lagður til hinztu hvíldar í Red Deer grafreit.
(viðbót) Sumarið 2017 kom hér barnabarn Ágústs Ásmundssonar til að leita upprunans og það kom í minn hlut að taka á móti honum og samferðafólki og veita þeim leiðsögn um slóðir langafa hans og langömmu. Við fórum meðal annars að Stóra Núpi til að leita uppi leiði þeirra, en þau fundust ekki.
Ég skrifaði um þessa heimsókn undir heitinu Jón frændi 

(Viðbót) 
Frásögn af Halldóri Ásmundssyni í Heimskringlu 6. janúar 1932:
Þann 26. nóvember s.l. lézt Halldór Ásmundsson að heimili sínu í Calgary. Hann var fæddur 9. júní 1873 í Haga í Gnúpverjahreppi í Árnessýslu á Íslandi. Foreldrar hans voru Ásmundur Benediktsson frá Stóruvöllum í Bárðardal í Þingeyjarsýslu og kona hans Sigurlaug Jónsdóttir, ættuð úr Fnjóskadal. Fluttist Ásmundur búferlum suður í Árnessýslu með fjölskyldu sína og búslóð og fór Sprengisand, og þótti það vel gert, eins og ferðalög voru erfið í þá daga. Halldór fluttist vestur um haf árið 1901. Var fyrst í Norður Dakota í eitt ár, og fór svo þaðan til Albertafylkis í Canada. Tók heimilisréttarland norðvestur af Markerville pósthúsi, vann sér inn eignarrétt á því, en skifti því svo fyrir fasteignir í Red Deer og settist þar að árið 1905. Til Calgary fluttist hann 1919 og hefir búið þar síðan.

Árið 1904 kvæntist hann ungfrú Kristínu Þorvaldsdóttur frá Skaftholti í Gnúpverjahreppi. Var Þorvaldur, faðir hennar sonur séra Jóns Eiríkssonar frá Stóranúpi, faðir hinna mörgu Stóranúpssystkina, sem mikill ættleggur er frá kominn. — Halldór og kona hans eignuðust tvo syni, sem nú eru fulltíða menn; Þorvald Pál, sem nú vinnur hjá Canadian Bank of Commerce, og Eggert, skrifstofuþjón hjá Canada Kyrrahafs járnbrautarfélaginu. Lifandi systkini Halldórs sál. eru: þrír bræður, Ágúst í Red Deer, Alta., og Vigfús og Ásgeir og ein systir, Ingibjörg, öll á Íslandi.

Dótturina Guðnýju, áttu þau Ásmundur og Sigurlaug einnig, en hún giftist Guðmundi Jónssyni frá Minna Núpi og þau bjuggu á Baugsstöðum og voru foreldrar afa míns og nafna.

Móðir mín var sem sagt Guðný Pálsdóttir frá Baugsstöðum í Stokkseyrarhreppi, en tenging mín við Skeiðin og Gnúpverjahrepp er þannig, að ég hef ekki ástæðu til að draga hana í efa.

Bjarni í Fjalli, sem ber ábyrgð á að ég er hér kominn, er ekki skyldur mér neitt sérstaklega mikið þó báðir séum af Bergsætt, en það sem er, er í gegnum ömmu mína, Elínu Jóhannsdóttur á Baugsstöðum, en ekki afa minn Pál Guðmundsson.

Þetta þýðir augljóslega að tenging mín við Fjall er meiri en meira að segja ég hafði lengi ímyndað mér. Það er nánast ættaróðal.

Ég treysti mér engan veginn til að tengja föður minn Skúla Magnússon, við Skeiðin. Hann fæddist á Rangárlóni í Jökuldalsheiði haustið eftir frostaveturinn mikla. Hann fór ungur í fóstur að Hallormsstað til Sigrúnar og Benedikts Blöndal. Þegar sá tími kom, var hann sendur um tvítugt suður að Syðri-Reykjum í Biskupstungum, því ætlunin var að hann skyldi læra garðyrkju og koma síðan austur aftur að loknu námi í garðyrkjuskólanum loknu. Af því varð ekki og yrði of langt mál að fjalla um það allt saman. Það sem sennilega gerði útslagið var að hér fyrir sunnan endurnýjuðust kynni hans og heimasætunnar frá Baugsstöðum, en hún hafði einmitt verið í Húsmæðraskólanum á Hallormsstað.

Nú, síðan gerðist það, eins og gerist harla víða. Þau leituðu sér að hreiðri til að ala upp ungana sína í og fundu það í Laugarási. Þar átti bankinn land sem kallaðist Lemmingsland. Þar var íbúðarhús og þrjú rúmlega 100 ferm gróðurhús. Fyrri ábúendur voru dönsk hjón, Börge og Ketty Lemming. Þau höfðu komið þarna 1941 og reist þessa fyrstu garðyrkjustöð í Laugarási.

Já, foreldrar mínir settust að í Lemmingslandi í 60 ferm eldhúslausu íbúðarhúsi, en fyrri eigendur elduðu allan mat í hverunum. Þetta var vorið 1946.
Móðir mín taldi ótækt að búa á bæ sem héti Lemmingsland, svo úr varð á endanum að þetta garðyrkjubýli þeirra fékk nafnið Hveratún.
Svo lifðu þau þarna bæði til æviloka, hún til 1992 og hann til 2014. Börnin urðu fimm og eitt þeirra tók svo við – svona eins og gengur og gerist.
Ég tók ekki við, þó svo ég væri elsti sonurinn, heldur fór aðrar leiðir, sem urðu til þess að ég eyddi ævinni í að uppfræða og ala upp börn og ungmenni, síðustu rúm 30 ár starfsævinnar í Menntaskólanum að Laugarvatni.

Það er eiginlega frekar óvenjulegt, að af fimm systkinum, búa fjögur enn í Laugarási. Þetta getur ekki þýtt nema annað af tvennu: að Laugarás sé mikill dásemdarstaður, eða þá að við systkinin séum eitthvað undarleg. Ég held auðvitað hinu fyrrnefnda fram, þó ýmsir geti orðið til þess, að að halda því fram að það sanni einmitt hið síðarnefnda.

Látum það liggja milli hluta.

Ég er búinn að eiga sömu konuna í rúm 40 ár, Dröfn Þorvaldsdóttur og við eigum 4 börn, sem eru úti um hvippinn og hvappinn, eins og gerist nú til dags.

Ég reikna nú með að þessi umfjöllun mín um sjálfan mig og ættimenni sé orðin í lengra lagi og við flestar aðrar aðstæður væri ég löngu búinn að missa áheyrendur í spjall eða ofan í símana sína.

Um uppsveitamenn og hraða þróun

Mögulega er ég einnig búinn að missa talsverðan hluta ykkar, sem þó búið vísast yfir meiri hæfni til einbeitingar en yngri kynslóðir.

Ég er viss um að meðal ykkar eru allmargir sem eiga það til að hverfa ofan í facebook eða twitter samt örugglega færri, en í yngri hópum.
Ef að líkum lætur er ég eitthvað örlitið yngri en þið flest sem hér eruð. Samt man ég nú tímana tvenna eða þrenna og velti nokkuð fyrir mér þeim ótrúlegu breytingum sem við höfum gengið í gegnum.

Ég man þegar fyrsti alþýðuflokksmaðurinn flutti í Laugarás, því hann var litinn hornauga. Uppsveitamenn hafa ekki séð mikla ástæðu til að þróa stjórnmálaskoðanir sínar verulega síðustu áratugina, en ég held að þeir séu hljóðari um þær en var þegar inn á heimilin kom annaðhvort Tíminn eða Mogginn. Þegar fólk gerði innkaupin annaðhvort í KÁ eða Höfn. Þar réði verðsamanburður harla litlu. Þegar bílarnir voru fylltir hjá Essó eða Skeljungi. Frekar var bíllinn látinn verða eldsneytislaus, en að menn færu að versla við andstæðinginn.

Þetta voru þeir tímar þegar flest var klipptara og skornara en nú er.

Ég er viss um að mörg okkar sakna þessa einfaldleika. Þá var utanaðkomandi áreiti á okkur bara frá einni rás Ríkisútvarpsins og frá dagblaðinu sem við fengum mögulega tvisvar til þrisvar í viku – þetta var dagblaðið sem við vorum áskrifendur að vegna þess að við þurftum að haldast staðföst í trúnni, annaðhvort á samvinnuhugsjónina eða einstaklingsfrelsið.

Svo varð lífið smám saman flóknara. Sjónvarpið tók til starfa, sem betur fer þannig, að það var frí frá því á fimmtudögum, sem gaf færi á að skella sér á framsóknarvist, og allan júlímánuð þannig að fólk gat áfram notið kvöldblíðunnar lognværu, sem kyssir hvern reit á millli þess sem það skellti sér í ballfötin og á Mánaböll, eða Steina spil með pyttluna í buxnastrengnum.

Síðan þá hefur þetta allt stefnt í eina átt. Eftir að kalda stríðinu lauk vitum við varla hvorumegin hryggjar við eigum að vera.
Hugsjónir breyttust í blinda trú á eitthvað sem svo reynist engin innistæða vera fyrir. Þá spretta nýir stjórnmálaflokkar fram eins og gorkúlur á haug, utan um eitt til tvö málefni hver. Hugmyndir okkar um lífið og tilveruna hætta að snúast um lífssýn eða hugsjónir, en fara þess í stað að taka mið af því hvort stjórnmálaleiðtogi fellir tár í sjónvarpsumræðum.

Stærstur hluti tækniþróunar sem hefur átt sér stað, hefur beinst að því að létta því sem var er líkamlega erfitt eða leiðinlegt af mannfólkinu. Allt sem hægt var að vélvæða var vélvætt og eftir sátum við og söfnuðum ístru.
Það var viðskiptatækifæri.
Matseld fluttist æ meir inní verksmiðjur og fæðan birtist síðan undir vöruheitum í búðunum eða á skyndibitastöðunum – allt tilbúið – ekkert að elda, bara hita upp! Það spruttu upp líkamsræktarstöðvar til að gefa okkur færi á að ná af okkur spikinu.

Tilhlökkun þurfti að fjarlægja eins og kostur var og þar með er það orðið búið mál að við þurfum að bíða þar til í næstu viku eftir framhaldinu af Ófærð eða Barnaby. Maður bara smellir hér og þar og næsti þáttur er kominn á skjáinn áður en við er litið. Kostar auðvitað eitthvað, en „so vott“?
Ég á eftir að nefna lífsstílsiðnaðinn til að taka á hreyfingarleysinu, óholla mataræðinu, þunglyndinu og kvíðanum, en ég vil ekki ofgera ykkur.

Það má margt fleira segja um þessar þjóðfélagsbreytingar allar saman.

Margar þeirra hafa verið og eru til góðs. Hvernig má líka annað vera? En stundum hendir það mig að ég fyllist efa um framtíð mannkyns. Ég er nú líka svoddan svartsýnismaður á ýmsum sviðum.

Til fortíðar

Ég finn sjálfan mig vera farinn að leita æ meir til fortíðarinnar og sennilega hefur einn þátturinn í þeirra leit minni verið þegar ég gekk til liðs við Félag eldri borgara í Biskupstungum, fljótlega eftir að ég hætti ævistarfinu fyrir tveim árum. Þar komst ég fljótlega að því, að á þeim bæ, eða í þeim kima, er flest er eins og það var, talsverður óumbreytanleiki. Þar er enn (eða síðast þegar ég vissi) boðað til funda með úthringingum á einhverja fyrirfram ákveðna línu. Formaðurinn hringir í einhverja sem síðan hringja áfram og svo koll af kolli.
Ég prófaði að stofna metnaðarfullan hóp á Facebook undir heitinu Sextíu plús í Biskupstungum, en hann hefur aldrei komist á flug.

Ég er líklega enn of ungur til að passa alveg í þennan hóp og það finnst mér ég hafa uppgötvað, að það eru í stórum dráttum ákveðin skil að eiga sér stað þessi árin, milli þeirra sem hafa ákveðið að ganga ekki inn í þennan heim tölvutækninnar og hinna sem nota tölvur á hverjum degi. Tölvutæknin er ekki að fara neitt. Hún verður bara þróaðri með hverjum mánuðinum sem líður, og ég er að komast á þann stað að segja við sjálfan mig, að nú sé ég búinn að læra nóg á þessu sviði.
Ég stend mig stundum að því að ákveða að læra ekki, sem í sjálfu sér er frekar mikil uppgjöf, því maðurinn verður aldrei svo gamall að hann getir ekki bætt við sig þekkingu.

Um þorrablót
Það er stundum talað um að uppsveitirnar ættu að sameinast í eitt sveitarfélag, vegna þess að atvinnulífið hér, menningin og mannlífið sé svo einsleitt.
Þegar Bjarni fræddi mig um þorrablót eldri borgara hér í sveit, uppgötvaði ég að svo er bara hreint ekki.
Í Tungunum eru þorrablót í afar föstum skorðum.. Aðalþorrablótið skal haldið á bóndadag. Þar kemur hver með
sitt og enn eru til á einhverjum bæjum trog sem Ingólfur á Iðu smíðaði forðum daga af listfengi. Einhverjir koma enn með þorramatinn sinn í trogum, sem dúkur hefur verið hnýttur utan um, með tiletknum hætti. Þessi hópur er heldur farinn að þynnast.
Æ stærri hluti þorrablótsgestanna kemur með þetta í plastpokum, nú eða á þessum plastbannstímum, í tuskupokum. Svo eru skemmtiatriði, sem sóknirnar fjórar skiptast á að sjá um.

Síðan gerist það, helgina eftir, að Félag eldri borgara í Biskupstungum, heldur sitt þorrablót. Í þessu félagi er auðvitað fólkið sem allt sitt líf barðist fyrir trogaþorrablótunum á sínum tíma. Nú nennir það ekki lengur að standa í svoleiðis veseni. Þorrahlaðborð skal það vera.

Sú hefð, að skemmtiatriðin frá aðalblótinu eru endurflutt hjá þeim eldri, er að verða æ fastari í sessi, sem verður að teljast afar jákvætt að flestu leyti.

Það má ekki skilja mig svo að ég amist við trogaþorrablótum. Mér finnst þetta fyrirkomulag að mörgu leyti skemmtilegt og sérstakt. Það er bara að verða svo, að eldra fólk sækir þorrablót í æ minni mæli. Blótin eru að verða, eins og stundum er haft á orði, „unglingaskemmtanir“, sem er vísast eðlilegt, þar sem því eldra sem fólk verður, því minni verður þörf þess fyrir útstáelsi og djamm.

Látum þetta gott heita.

Um skráningu sögu Laugaráss
Fyrir tæpum 10 árum kom mér í hug að ég ætti kannski að byrja að taka saman eitthvað um Laugarás og þá aðallega fólkið sem hefur byggt þann stað. Mér fannst að saga byggðarinnar væri ekki orðin það umfangsmikil að eitthvert stórmál væri að ná utan um hana.

Það lá þá þegar fyrir heilmikið efni í merkisritinu Sunnlenskar byggðir, sem Búnaðarsamband Suðurlands gaf út á 9. áratugnum og sem á mínu heimili gengur undir heitinu "Glæpamannatalið".
Þetta rit varð síðan útgangspunktur minn og ég lagði þaðan í þá vegferð sem ég er á ennþá, og hef hreint ekki séð fyrir endann á.

Ég hef nú tekið saman efni um íbúa í Laugarási fram til aldamóta, skráð sögu sláturhússins sem starfaði frá 1964-88 og barnaheimilis Rauða krossins sem var starfrækt frá 1952-1971. Þá er ég búinn að taka saman aðdragandann að byggingu brúarinnar sem var tekin í notkun í lok árs 1957.

Þessu efni hef ég komið fyrir á vefsíðu sem ber heitið laugaras.is og þangað ætla ég einnig að setja það sem enn er ógert, sem reynist vera heilmikið. Þar á meðal er saga læknishéraðsins og þar með þess samstarfs sem uppsveitahrepparnir hafa átt með sér í gegnum eignarhald sitt á jörðinni Laugarási.

Þar hef ég nú rekist á vegg, allavega í bili.

Það var nefnilega þannig, að eftir að hrepparinir eignuðust jörðina, mynduðu oddvitar framkvæmdanefnd sem fjallaði um málefni hennar og læknishéraðsins. Það verður að reikna með að þeir hafi haldið fundargerðir. Þær liggja hinsvegar ekki á lausu fyrr en frá árinu 1979.

Það væri mikill skaði ef ekki tekst að draga þær fram í dagsljósið fundargerðabækur sem ná yfir árin frá 1922-1979, eða á sjötta tug ára.

Biskupstungnahreppur hefur verið nokkuð duglegur að koma gjörðabókum sínum á héraðsskjalasafnið og eftir að hafa þrælað mér í gegnum þær, hef ég komist að því að málefni sem tengjast læknishéraðinu eða Laugarási hafa ekki verið umfjöllunarefni hreppsnefnda svo heitið geti. Það er þessvegna því mikilvægara að finna gjörðabækur oddvitanefndarinnar.

02 febrúar, 2019

Autt sæti í helgum steini

Þegar maður er orðinn hálf sjötugur heyrir maður stundum lágvært hvísl sem berst með vindinum, segir manni að tími sé til kominn að fara að leita að þessum helga steini sem svo oft er nefndur til sögu þegar fólk nær tilteknum aldri eða lýkur hlutverki sínu á vinnumarkaðnum.  Þessi helgi steinn þar sem maður reiknar með að sé þarna einhversstaðar ku vera einkar þægilegur að setjast í. Einhverjir kunna að telja, eða halda fram, að í þennan stein sé ég nú sestur og ég var jafnvel að byrja að trúa því sjálfur.

Svo fór að líða að Þorra.

Ég ætla ekki að fjölyrða neitt sérstaklega, á þessum vettvangi, um hvað varð til þess að ég lét slag standa, eftir tiltekinn, ítrekaðan þrýsting (auðvitað lætur maður ganga á eftir sér), og tók þátt í undirbúningi og framkvæmd þorrablótsins, en það orð hefur lengi farið af þorrablótum Skálholtssóknar, að skemmtiatriði sem þar eru fram borin, beri nokkuð af. Þá fer það orð af íbúum Skálholtssóknar að þeir fari helst ekki á þorrablót nema sín eigin. Þeir skríði, rétt eins og uppvakningar út úr skóginum á fjögurra ára fresti og þá með látum.

Það er af mér að segja, að þegar ég var kominn af stað, var búinn að leggja frá mér allar hugsanir um sæti í hinum helga steini, uppgötvaði ég enn á ný, hvað svona stand er nú gefandi og skemmtilegt.
Ég hafði efasemdir, ekki neita ég því, um hvernig það myndi geta gengið upp að einstaklingar sem dreifðust á aldursbilið frá um tvítugt og upp í það að vera ríflega sjötugt, settust yfir það að undirbúa og framkvæma svona lagað.
Það tókst afar vel og af því má ýmislegt læra.

Aðdragandinn og framkvæmdin á þessu nú til dags, er með allt öðrum hætti en áður var, þegar allt var framkvæmt beint ("live") á sviðinu. Það hafði sannarlega sinn "sjarma", en reyndi talsvert meira á leikarana en tæknibúnaðinn. 

Skálholtssókn sá um þorrablótið 1991 og var heilmikið í það lagt að vanda. Svo merkilegt sem það er þá hafa varðveist gögn frá þessu þorrablóti, bæði myndir sem ég fékk hjá Kaju (Karítas Óskarsdóttir) og svo tókst mér að grafa upp handrit að uppsetningunni þar sem hvert smáatriði var skipulagt, og af einu atriðinu, þar sem Jóna á Lindarbrekku, þá á áttræðisaldri, lék þungaða konu sem lenti í slagsmálum við síma.
Hér fyrir neðan má sjá sýnishorn af þessum gögnum.



22 janúar, 2019

Að moka heimreiðar

Það er fjarri mér að setja út á það þegar sveitarfélagið sem ég bý í tekur sig til að ákveður að auka þjónustu við íbúana. 
Það sem ég læt frá mér hér á eftir ber að skoða í því ljósi. 
Þá ber að hafa það í huga við lesturinn, að ég fjalla ekki um málið út frá minni persónu, þó sannarlega tilheyri hún þeim hópi sem fjallað er um og er notuð sem útgangspunktur í umfjölluninni. 

Vissulega munu ýmsir afgreiða þetta sem enn einn þáttinn í þeirri "kvartsýki" sem ákveðinn hópur er sagður þjást af, þegar hann gagnrýnir verk yfirvalda og þá er það bara þannig.

Jæja, þá er það tilefni þess að ég nýti hluta þessa fallega dags til að lemja aðeins á lyklaborðið.

Á 199. fundi byggðaráðs Bláskógabyggðar, sem var haldinn í Aratungu þann 26. september, s.l. var þessi tillaga samþykkt:

2.5. Tillaga um breytt fyrirkomulag á snjómokstri, mokaðar verði heimreiðar að öllum bæjum þar sem skráð er lögheimili og föst búseta. Byggðaráð Bláskógabyggðar samþykkir að gera þá breytingu á fyrirkomulagi snjómoksturs að mokaðar verði heimreiðar að öllum bæjum þar sem íbúi/íbúar eru skráðir með lögheimili og hafa fasta búsetu. Í útboði á snjómokstri í Bláskógabyggð, sem Vegagerðin og Bláskógabyggð standa saman að, fyrir tengi- og héraðsvegi, verði boðinn út mokstur heimreiða skv. framangreindu. Sviðsstjóra framkvæmda- og veitusviðs og sveitarstjóra er falið að útbúa drög að verklagsreglum sem lagðar verða fyrir sveitarstjórn.  (feitletrun mín)
Lái mér hver sem vill, en með þessari samþykkt taldi ég víst, að nú fengi ég aukna þjónustu. Það er nefnilega þannig, að til mín liggur heimreið. Ég er skráður með lögheimili og hef fasta búsetu á lögbýli.  Ég var bjartsýnn og fagnaði.

Svo fór loksins að snjóa, bara nokkuð hressilega. Snjóruðningstækin voru tekin til kostanna og í framhaldinu kom stöðufærsla á facebook frá sveitarfélaginu:
Nú hefur reynt í fyrsta sinn á nýtt fyrirkomulag í snjómokstri sveitarfélagsins með að moka heim á bæi þar sem föst búseta er.
Við gerð áætlunar um mokstursleiðir er mögulegt að eitthver bær hafi farið fram hjá okkur og því biðlum til íbúa til að láta vita ef ekki hefur verið mokað til þeirra sem hafa rétt á mokstri. Eins ef eitthvað má betur fara.
(feitletrun mín)
Þar sem ekki hafði verið mokað heim til mín, bað ég, í viðbrögðum við þessari færslu, um nánari útlistun á því hvernig reglurnar sem unnið væri eftir, væru.

Á facebooksíðu Bláskógabyggðar birtust í gær þær verklegsreglur sem unnið er eftir, en þær eru þessar:

Því miður var það mynd af verklagsreglunum sem inn var sett, þannig að ég slæ hér inn það sem fjallað er um og ég hef merkt með gulum lit:

1. Einungis eru mokaðar heimreiðar að bæjum þar sem er föst búseta og viðkomandi íbúar með skráð lögheimili.
2. Sveitarfélagið sér ekki um mokstur á heimkeyrslum að fyrirtækjum eða íbúðarhúsum í þéttbýli, gildir það einnig um heimkeyrslur að lögbýlum sem eru innan þéttbýlis.
3. Samþykkt í sveitarstjórn Bláskógabyggðar 8. nóvember, 2018.
Þessar verklagsreglur hef ég ekki fundið á vef sveitarfélagsins, en þar ættu þær væntanlega að vera. Reglurnar samþykkti sveitarstjórn með þessum hætti (samhljóða):
4.17 Viðmiðunarreglur vegna snjómoksturs. Lagðar voru fram viðmiðunarreglur vegna snjómoksturs. Vegagerðin hefur nýlega boðið út snjómokstur í samstarfi við sveitarfélagið. Í útboðsgögnum er kveðið á um mokstur heimreiða að bæjum þar sem er föst búseta og skráð lögheimili og er það í samræmi við ákvörðun sveitarstjórnar frá því í haust. Í viðmiðunarreglunum kemur fram hvaða reglur hafðar eru til viðmiðunar um mokstur héraðs- og tengivega (svokallaðra helmingamokstursvega) og heimreiða. Umræða varð um reglurnar. Sveitarstjórn samþykkir reglurnar samhljóða.  (feitletrun mín)

Hvað um það, með þessum verklagsreglum er ég útilokaður frá þeirri auknu þjónustu sem sveitarfélagið er að veita íbúunum, jafnvel þó til mín liggi heimreið sú sem sést á myndinni efst, þó ég sé skráður með lögheimili á staðnum og með fasta búsetu og greiði skatta og gjöld rétt eins og hver annar.
Vissulega á það ekki við um mig að ég sé háður því að koma afurðum mínum og aðföngum heim til mín, en það á við um aðra, sem þarna fá ekki þessa þjónustu, þó svo þeir búi á lögbýlum og þurfi að sjá til þess að flutningabílar geti athafnað sig.
Þéttbýlin í Bláskógabyggð eru talvert ólík því sem gerist í þéttbýli eins og t.d. á Selfossi, eða Reykjavík, eins og hver maður getur ímyndað sér.  Hér liggja ekki stofnæðar við húsvegginn, heldur liggja heimreiðar að bæjunum.

Ef eitthvað, þá má segja að mokstur stofnæðanna valdi mér jafnvel meiri vanda en þær leysa, þar sem snjóplógarnir moka upp hryggjum við endann á heimreiðinni sem verða síðan að grjóthörðum saltpækli.

Ég hef nú ekki umtalsverða von um að sveitarfélagið ákveði að breyta skilgreiningu sinni á því hvað telst vera bær með heimreið. Mér finnst hinsvegar ótækt að okkur, sem þarna er gert að sjá sjálf um okkar snjómokstur, sé gert erfiðara fyrir en vera þarf. Því legg ég til að sveitarfélagið veiti mér og öðrum sem við á, þá þjónustu að moka að minnsta kosti burt snjóhryggjunum sem snjóplógarnir ryðja inn í heimreiðar okkar.
Það væri skref í rétta átt.
Ég legg einnig til, að sveitarfélagið reyni í framhaldinu, af fremsta megni, að sjá til þess að íbúar sveitarfélagsins njóti sambærilegrar þjónustu að þessu leyti, óháð búsetu.

Það var fallegt við Hvítá í morgun.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...