02 febrúar, 2019

Autt sæti í helgum steini

Þegar maður er orðinn hálf sjötugur heyrir maður stundum lágvært hvísl sem berst með vindinum, segir manni að tími sé til kominn að fara að leita að þessum helga steini sem svo oft er nefndur til sögu þegar fólk nær tilteknum aldri eða lýkur hlutverki sínu á vinnumarkaðnum.  Þessi helgi steinn þar sem maður reiknar með að sé þarna einhversstaðar ku vera einkar þægilegur að setjast í. Einhverjir kunna að telja, eða halda fram, að í þennan stein sé ég nú sestur og ég var jafnvel að byrja að trúa því sjálfur.

Svo fór að líða að Þorra.

Ég ætla ekki að fjölyrða neitt sérstaklega, á þessum vettvangi, um hvað varð til þess að ég lét slag standa, eftir tiltekinn, ítrekaðan þrýsting (auðvitað lætur maður ganga á eftir sér), og tók þátt í undirbúningi og framkvæmd þorrablótsins, en það orð hefur lengi farið af þorrablótum Skálholtssóknar, að skemmtiatriði sem þar eru fram borin, beri nokkuð af. Þá fer það orð af íbúum Skálholtssóknar að þeir fari helst ekki á þorrablót nema sín eigin. Þeir skríði, rétt eins og uppvakningar út úr skóginum á fjögurra ára fresti og þá með látum.

Það er af mér að segja, að þegar ég var kominn af stað, var búinn að leggja frá mér allar hugsanir um sæti í hinum helga steini, uppgötvaði ég enn á ný, hvað svona stand er nú gefandi og skemmtilegt.
Ég hafði efasemdir, ekki neita ég því, um hvernig það myndi geta gengið upp að einstaklingar sem dreifðust á aldursbilið frá um tvítugt og upp í það að vera ríflega sjötugt, settust yfir það að undirbúa og framkvæma svona lagað.
Það tókst afar vel og af því má ýmislegt læra.

Aðdragandinn og framkvæmdin á þessu nú til dags, er með allt öðrum hætti en áður var, þegar allt var framkvæmt beint ("live") á sviðinu. Það hafði sannarlega sinn "sjarma", en reyndi talsvert meira á leikarana en tæknibúnaðinn. 

Skálholtssókn sá um þorrablótið 1991 og var heilmikið í það lagt að vanda. Svo merkilegt sem það er þá hafa varðveist gögn frá þessu þorrablóti, bæði myndir sem ég fékk hjá Kaju (Karítas Óskarsdóttir) og svo tókst mér að grafa upp handrit að uppsetningunni þar sem hvert smáatriði var skipulagt, og af einu atriðinu, þar sem Jóna á Lindarbrekku, þá á áttræðisaldri, lék þungaða konu sem lenti í slagsmálum við síma.
Hér fyrir neðan má sjá sýnishorn af þessum gögnum.



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...