22 janúar, 2018

Svona gerir maður í janúar.

Ætli janúar sé ekki sá mánuður ársins sem gæti verið betri. Með því að orða það þannig, er ég ekki að taka djúpt í árinni.
Þegar mánuður gæti verið betri, þá reynir maður að gera eitthvað sem eykur líkurnar á að hnn geti orðið betri.
Margt vitlausara lærir maður nú í þessu lífi.
Þetta er ég nú búinn að læra, börnin góð.

Ég gerði þennan janúar betri, hvorki meira né minna.
Ég gerði vel við sjálfan mig, auk þess, auðvitað, að ég dreifði gleðinni vítt og breitt, í það minnsta hér innan húss og í huganum hef ég séð fD dansa um allt hús í samfögnuði sínum vegna þeirrar gleði sem frá mér hefur stafað í þessum drungalega vetrarmánuði.
Ég á reyndar eftir að sjá dansinn raungerast, en hef fulla trú á að svo geti orðið.
Sjáum til.

Það sem ég gerði.
Þegar janúar gekk í garð, þurfti ég að finna eitthvað til að gera hann betri. Það hvarflaði ekki að mér að fara að stunda ræktina. Ekki kom til greina að taka þátt í veganúar, þvi það hefði nú bara aukið á drungann.
Nei, ég fór inn á vefverslun BogH fljótlega eftir áramót og pantaði mér linsu.


Segi og skrifa.
Sem ég er lifandi.

Áður en ég ákvað kaupin skoðaði ég allt sem auga á festi á veraldarinnar vef, um þessa linsu. Um hana var ekkert sagt nema gott eitt.
Ég ræddi við sjálfan mig um málið, velti fyrir mér viskunni sem fælist í mögulegum kaupum, og kannaði möguleika á að í þeim mætti mögulega finna viskuskort, jafnvel vitleysu.

Niðurstaðan varð sú, að sem vestrænn maður á góðum aldri, sem lifir í vellystingum og allt það, gæti ég vel réttlætt linsukaupin fyrir sjálfum mér. Öðrum er bara ekki til að dreifa.

Ég smellti á kaupa hnappinn og hef síðan beðið óþreyjufullur, meðan þessi mánuður hefur liðið hjá eins og vindurinn.  Það get ég sagt ykkur, að það er fátt betra til þrauka dimmustu og köldustu daga ársins en að láta sig hlakka til.

Linsan kom í morgun.
CANON EF 100-400 f/4,5-5,6L IS II USM  
L-ið sá ég einhvers staðar, að stendur fyrir LUXURY  og II þýðir að þetta er önnur útgáfa, sem beðið hefur verið eftir, í fjöldamörg ár.

Nú er næst á dagskrá, fyrir utan auðvitað að fara að prófa gripinn, að freista þess að selja öndvegis linsuna mína: CANON EF70-300 F4-5,6L IS USM, sem ég keypti árið 2011 (hægra megin á öftustu myndinni hér fyrir ofan). Þar er á ferð hreint ágætur gripur.  Það er bara svo með mig, eins og marga aðra: mikið vill meira.

Ég þarf (nú eða þarf kannski ekki, en stefni á) að selja þessa linsu.
Vilt þú kaupa?

Hvað þetta þýðir svo fyrir mig, veit ég ekki.

Eitt veit ég þó: Janúar hefur alveg sloppið til þetta árið.

Hér er fyrsta tilraunin með gripinn. Auðnutittlingurinn ber með sér svip sem auðvelt er að túlka sem lotningu, þar sem hann lítur linsuna fyrsta sinni:


Nei, reyndar var þessi fyrst:


😂

13 janúar, 2018

Sameinaðir stöndum vér, en ......

Það er ýmsar ástæður fyrir því að ég ákvað að fjalla lítillega um sameiningarmál í uppsveitim Árnessýslu.  Þær eru auðvitað bæði persónulegar og sögulegar.
Á þessu ári eru 20 ár síðan gerð var alvarleg tilraun til að sameina uppsveitirnar í eitt sveitarfélag.
Það kann að vera að margir viti fátt um stærstu tilraun sem gerð hefur verið á þessu svæði og ég ætla að reyna að varpa örlitlu ljósi á hana, frá mínum bæjardyrum.  Þá ætla ég að ljóstra upp hver skoðun mín er á þeim sameiningum sem orðið hafa síðan og loks upplýsa um skoðun mína á því sem ætti að gerast næst.
Ég sat í minnihluta í hreppsnefnd Biskupstungnahrepps frá 1995-8.

1998 Sameiningin sem átti að verða.
Árið 1998 fór fram kosning um sameiningu allra sveitarfélaganna 8 í uppsveitum Árnessýslu í tveim umferðum.
Önnum kafinn, 23. maí, 1998
23. maí  var kosið um sameiningu allra hreppanna, en íbúar Grafningshrepps og Gnúpverjahrepps felldu fyrir sitt leyti. Þessir hreppar áttu það sameiginlegt að njóta umtalsverðra tekna af virkjunum og því að vissu leyti skiljanlegt að þeir skyldu fella tillöguna.
Fimm hreppanna, ákváðu að endurtaka kosninguna þann 27. júní. Grímsneshreppur tók ekki þátt í þeirri kosningu, enda búinn að ákveða að sameinast Grafningi.
Niðurstaðan í þetta sinn varð sú, að íbúar Skeiðahrepps felldu tillögu um að sameinast Þingvallasveit, Laugardal, Biskupstungum og Hrunamannahreppi.

Með þessari niðurstöðu var úti um þessa tilraun, og fátt í stöðunni annað en hvíla málið. Þessi niðurstaða var mér mikil vonbrigði, ekki síst vegna þess að ég hafði átt sæti í framkvæmdanefndinni sem undirbjó kosninguna. Mér fannst og finnst enn, vera fremur fátækleg og boruleg rök sem færð voru fram gegn þessari sameiningu.

Sameiningarnar í framhaldinu
Þann fyrsta júní 1998 sameinuðust Grímsneshreppur og Grafningshreppur og mynduðu sveitarfélagið Grímsnes- og Grafningshrepp.
Árið 2002 var samþykkt sameining Þingvallasveitar, Laugardals og Biskupstungna* þannig, að úr varð Bláskógabyggð og einnig var á þessu ári samþykkt sameining Skeiðahrepps og Gnúpverjahrepps, þannig að úr varð Skeiða- og Gnúpverjahreppur.

Ég var andvígur þessari takmörkuðu sameiningu sem varð með tilurð Bláskógabyggðar og er raunar enn þó það skipti svo sem ekki máli úr þessu.  Ekkert gerði ég til að beita mér gegn henni hinsvegar, enda hættur afskiptum af sveitarstjórnarmálum. Fyrir afstöðu minni voru tvær megin ástæður: sameiningin væri of lítið skref til að úr yrði sæmilega stöndugt eða öflugt sveitarfélag, sem mér finnst hafa orðið raunin.
Hin ástæðan reyndist einnig eiga við rök að styðjast, því miður. Ég sá fyrir mér að með sameiningunni myndi öll orka sveitarstjórnar fara í að reyna að skapa traust milli Laugdælinga og Biskupstungnamanna. Annað yrði látið sitja á hakanum. Þarna er um að ræða að halda þyrfti ákveðnu jafnvægi milli Laugarvatns og Reykholts.  Þá fengu Þingvellir sinn fulltrúa í sveitarstjórn, með röðun á lista. Eftir situr Laugarás, sem hefur fengið það hlutverk að verða hálf utanveltu í þessu máli öllu.

Hvað um það, það hefur lítið upp sig að gráta það sem liðið er en það er allt í lagi að halda því til haga.

Hvernig verður framtíðin?
Á undanförnum mánuðum hafa aftur farið af stað þreyfingar um sameiningu í Árnessýslu. Þá ber svo við, að Bláskógabyggð skilar auðu, sem ég hef svo sem ekki séð nein rök fyrir, enda ekki verið að eltast við þau.


Mér finnst mikilvægt að gerð verði atlaga að því aftur að sameina.  Þar kemur tvennt til greina:
- sameining uppsveitanna, eins og reynt var 1998
- sameining Árnessýslu, sem verður stöðugt áhugaverðari kostur í mínum huga. Það er kominn tími til þess, að við sættum okkur við að Selfoss verði miðstöð stjórnsýslunnar. Það er alveg komið nóg af þessu smákóngasamfélagi í uppsveitunum. Hvert framfaramálið á fætur öðru er drepið vegna þess að allir vilja fá allt til sín.

Auk þess legg ég til að byggt verði dvalar- og hjúkrunarheimili í Laugarási. 

-------------------------


* Í nóvember kusu íbúar í Grímsnes- og Grafningshreppi, Þingvallahreppi, Laugardalshreppi og Biskupstungnahreppi um sameiningu þessara fjögurra hreppa. Íbúar í Grímsnes- og Grafningshreppi fellu tillöguna.  Í kjölfarið varð það niðurstaða í sveitarstjórnum þeirra þriggja sem höfðu samþykkt, að hefja viðræður um sameiningu, sem lyktaði með því að kosið var til sveitarstjórnar í sameinuðu sveitarfélagi í maí 2002. 

Ég læt fylgja tvær bókanir úr fundargerðum hreppsnefndar Biskupstungnahrepps frá byrjun árs 2002:



Fundur hreppsnefndar Biskupstungnahrepps 30. janúar, 2002
Ákvörðun um sameiningu sveitarfélaga, Biskupstungnahrepps, Laugardalshrepps og Þingvallahrepps. Hreppsnefnd samþykkir sameiningu Biskupstungnahrepps við þau tvö sveitarfélög sem einnig samþykktu sameiningu viðkomandi sveitarfélaga í almennri kosningu, 17. nóvember 2001 í samræmi við 91. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Hreppsnefnd telur að með sameiningu sveitarfélaganna verði til ný sóknarfæri með sterkari stjómsýslu í stærri heild. Möguleikar aukast á betri nýtingu fjármuna og uppbyggingar í nýju sveitarfélagi. Það samstarf sem verið hefur á milli viðkomandi sveitarfélaga er staðfest með sameiningunni. Í ljósi vaxandi rekstrarkostnaðar sveitarfélaga verða þau að leita leiða til hagræðingar m.a. með aukinni samvinnu. Framundan eru krefjandi verkefni fyrir nýja sameiginlega sveitarstjórn að ná fram hagsæld og árangri þannig að hið nýja sveitarfélag geti áfram boðið upp á þjónustu sem íbúar geta verið stoltir af hér eftir sem hingað til. Sameiningin fékk afgerandi kosningu í sveitarfélögunum eða yfir 70%. Hreppsnefnd samþykkir sameininguna einhuga. Samþykkt að Margeir Ingólfsson og Sveinn A. Sæland fari með umboð hreppsnefndar í þeim sameiginlegu verkefnum og ákvörðunum sem vinna þarf að fram að kosningum.



Fundur hreppsnefndar Biskupstungnahrepps 13. febrúar, 2002

Ákvörðun um sameiningu sveitarfélaga. Lögð fram eftirfarandi fundargerð framkvæmdahóps sveitarfélaga, frá 4. febrúar 2002, sem ákveðið hafa sameiningu að vori komanda þ.e. Þingvallahrepps, Laugardalshrepps og Biskupstungnahrepps. Samkvæmt því samþykkir framkvæmdahópurinn eftirfarandi og mun leggja niðurstöður fyrir viðkomandi hreppsnefndir til endanlegrar staðfestingar: Að undangenginni almennri kosningu, 17. nóvember 2001 og með vísan til 2. mgr. 91. gr. og 95. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 er hér með staðfest að sameining Biskupstungnahrepps, Laugardalshrepps og Þingvallahrepps í eitt sveitarfélag hefur verið ákveðin. Sameining framangreindra sveitarfélaga í eitt sveitarfélag skal taka gildi 9. júní 2002. Hið sameinaða sveitarfélag skal taka yfir allt það land, sem nú tilheyrir áðurgreindum þremur sveitarfélögum. Ibúar hinna þriggja sveitarfélaga skulu vera íbúar hins sameinaða sveitarfélags. Eignir, skuldir, réttindi og skyldur, sem tilheyra þessum þremur sveitarfélögum skulu falla til hins sameinaða sveitarfélags. Skjöl og bókhaldsgögn allra sveitarfélaganna skulu afhent hinu sameinaða sveitarfélagi til varðveislu. Sérstök athygli er vakin á eftirfarandi: Kosning sveitarstjórnar hins sameinaða sveitarfélags skal fara fram þann 25. maí 2002, sbr. 96. gr. Sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Kjósa skal sjö fulltrúa í sveitarstjórn hins nýja sveitarfélags, sbr. 1. mgr. 12. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Sveitarstjórnirnar þrjár kjósa sameiginlega þrjá fulltrúa í yfirkjörstjórn og þrjá til vara. Kjörstjómir þær sem kosnar voru í upphafi yfirstandandi kjörtímabils skv. 14. gr. laga um kosningar til sveitarstjóma nr. 5/1998 skulu vera undirkjörstjómir við kosningarnar. Samhliða sveitarstjórnarkosningum verður kosið um nafn hins nýja sveitarfélags samkvæmt tillögum framkvæmdanefndar sem áður skal auglýsa eftir hugmyndum á nafni hins nýja sveitarfélags.

12 janúar, 2018

"Fokkings fávitar!"

Það munaði litlu að ég þyrfti gifs á einhvern útlim, skömmu eftir hádegið, en mér tókst að rifja upp gamla danstakta frá kartöflumjölsstráðu gólfinu í Aratungu. Ég er samt viss um að aðfarir mínar á svellinu hefðu getað kallað fram brosvipru hjá þeim sem hefði séð, sem var enginn nema fD. Hún átti nú fullt í fangi með sjálfa sig og ekki í aðstöðu til neinna hlátraskalla.

Þetta er hinsvegar ekki efni pistilsins, þó það verði að teljast forsenda fyrir því að efni hans varð til.

Heilsubót dagsins fól í sér (ekki verða hissa) göngu út á brú. Aukaafurð heilsubótarinnar skyldi vera athugun á stöðu árinnar eftir síðustu veður.  Hún reyndist hinsvegar hin rólegasta, mikið til undir ís, en samt vaxandi lænur inn á milli, sérstaklega ein talsvert áhugaverð vestan megin. Þar er eiginlega gat í ísinn um það bil 3 sinnum 5 metrar. Framhjá þessu gati streymdi síðan jökulfljótið og sýndi, að þó yfirborðið væri að mestu rólegt, var þarna undir villidýr, sem bíður þess að láta til sín taka svo um munar.

Þar sem við fD stóðum þarna við brúarhandriðið norðan megin, hugfangin af skemmtilegu gatinu í ísinn, kom rúta inn á brúna að austanverðu.

Það veit maður, að þegar stórir bílar fara yfir brúna, sér þess glögg merki, með því það réttist úr boganum á brúargólfinu.
Það gerðist þarna.
Engu líkara en maður væri kominn á sjó.
En allt í lagi með það.
Þar sem um var að ræða hina verklegustu rútu stigum við upp á brúarkantinn og stóðum þétt upp við handriðið.
Frá Hangzhou
Þegar rútan var í um 30 metra fjarlægð frá okkur tóku ljósin á henni að blikka, hún hægði snarlega á sér og þegar mér varð litið á bílstjórann, var engu líkar en hann væri að stjórna hljómsveit. Kannski var þarna á ferð kínversk lúðrasveit frá Hangzhou, hvað vissi ég?
Þegar nær dró og mér tókst að greina andlit bílstjórans, var ekki annað að sjá en hann væri nokkuð æstur.  Handahreyfingarnar fóru einnig að benda til þess að hann væri að skipa okkur að fara frá, sem ég met út frá því að hann benti mjög ákveðið og ítrekað út fyrir brúna norðanmegin, þar sem gatið er á ísnum.
Var maðurinn að ætlast til þess, að við klifruðum yfir handriðið og stykkjum fram af?
Við fD?
Virkilega?
Með þann skilning í huga, og jafnframt staðfestu þess sem ætlar ekki að henda sér fram af brú, bara til að rúta, full af kínversku lúðrasveitarfólki kæmist framhjá, tók ég á það ráð, að brosa framan í bílstjórann og veifa, með fínu lopavettlingana mína á höndinni.  Auðvitað hefði ég getað sent frá mér annarskonar merki, en lopavettlingarnir gáfu ekki kost á slíku.
Í þann mund er Gray-line rútan ók framhjá, og til næsta áfangastaðar, sá ég andlit bílstjórans ummyndast af bræði og sannfærður er ég um að hann hefur sagt það sem fyrirsögnin gefur til kynna að hann hafi sagt.
Það hefði líka verið allt í lagi, því kínverska lúðrasveitarfólkið hefði alveg eins getað haldið að hann væri að benda á dæmi um það hvernig hraustir, Íslendingar haga lífinu og líta út.
Ég vil trúa á þann skilning þess.

06 janúar, 2018

Of snemmt

Sigurveig Mjöll Tómasdóttir
myndin fengin að láni af Facebook síðu Veigu.
Það vita þeir sem starfa við ræktun af einhverju tagi, að jarðvegurinn þarf að henta ungviðinu. Hlutfall næringarefna þarf að vera rétt, vökvun þarf að vera næg og hiti og birta þurfa að vera í samræmi við þarfir þeirrar jurtar sem rækta skal. Þegar allt er rétt í umhverfi plöntunnar getum við yfirleitt treyst því, að hún muni vaxa, dafna og bera ávöxt.

Það er eins með okkur mannfólkið og reyndar allar lifandi verur: umhverfi og aðbúnaður allur skiptir sköpum um hvernig þær vaxa úr grasi og verða fullþroska einstaklingar. Með umhyggju, uppeldi og utanumhaldi hverskonar, getum við yfirleitt búist við því að allt verði eins og það á að vera; uppskeran verði í samræmi við allan aðbúnað í æsku.

Það held ég fari ekki á milli mála, að sá jarðvegur sem Veiga spratt úr, það umhverfi sem henni var búið, sú umhyggja sem hún naut, var eins og best verður á kosið. Foreldrar hennar, þau Dísa og Tommi, fjölskyldan öll og stórfjölskyldan, allt þetta skapaði henni þær aðstæður sem allir myndu óska sér.

Sigurveig Mjöll Tómasdóttir, Veiga, lést á jóladag, 27 ára að aldri.
Ekki ætla ég að fjölyrða um það áfall sem aðstandendur Veigu, og aðrir sem hana þekktu, upplifðu við brotthvarf hennar. Það getur hver og einn ímyndað sér, en það var eitthvað sem enginn hafði átt von á.

Ég kynntist stúlkunni fyrst þegar hún gerðist nemandi við Menntaskólann að Laugarvatni. Þar var hún nemandinn sem var komin í skólann til að leggja sig alla fram og jafnvel talsvert umfram það. Hún var nemandinn sem kom með það veganesti úr foreldrahúsum að nám væri mikilvægt, skólinn væri góð og nauðsynleg stofnun og að til þess að ná árangri þyrfti að leggja hart að sér. Nemandinn Veiga hafði sannarlega tileinkað sér þetta viðhorf til náms og skóla. Allt sem henni var ætlað að sinna í náminu, sinnti hún af alúð og alvöru, staðráðin í að standa sig. Hún var einn af þessum nemendum sem fékk mig til að viðhalda þeirri bjargföstu skoðun minni, að kennslustarfið sé mikilvægt, eitt mikilvægasta starf sem unnið er.

Mér er Veiga ekki síst minnisstæð fyrir það að hún var ekkert sérstaklega mikið fyrir einhverja vitleysu. Ég er þannig innréttaður að ég hef átt það til að beita kaldhæðni í nokkrum mæli, einnig innan veggja skólastofunnar. Hún kunni ekkert sérstaklega vel að meta að of langt væri gengið í þeim efnum og alloft kom það fyrir að hún fór fram á það að ég léti af þessu, sem mér tókst auðvitað ekki, en reyndi kannski að vanda mig aðeins meira. Þannig má segja að hún hafið haldið mér á mottunni að vissu leyti og orðið til þess að ég vandaði mig aðeins meira í þessum efnum.

Eftir að Veiga hafði lokið námi í ML tók frekara nám við, en þó hún hafi þarna horfið úr daglegu umhverfi mínu, frétti ég af henni við og við, bæði vegna þess að hún leysti móður sína stundum af, dag og dag og einnig í gegnum samfélagsmiðil, eins og algengt er nú til dags.

Á liðnu hausti var allt á fullu hjá Veigu og kærastanum hennar, við að standsetja nýja íbúð. Framundan spennandi tímar.

Þeim tímum var ekki ætlað að verða að veruleika. Eftir sitjum við með spurningar sem ef til vill eiga sér ekki svör.

Þrátt fyrir að allar ytri aðstæður séu nýjum gróðri hagfelldar, þá getur ýmslegt óvænt komið upp, sem enginn getur séð fyrir og enginn gert neitt við.
Þannig er það með samning okkar við lífið.
Á móti fáum við að njóta þess að vera til, lifa, setja mark okkar á umhverfi okkar, þann tíma sem okkur er ætlaður. Þannig má segja að við lifum áfram þótt við deyjum: minningin um okkur, líf okkar og afrek, lifir áfram í huga þeirra sem halda áfram.

Svona pælingar eru nú ekki mikil huggun, heldur bara pælingar; tilraun til að setja ótímabært dauðsfall í eitthvert samhengi.

Von mín er auðvitað sú að fjölskyldu Veigu megi takast að komast í gegnum þetta stórviðri og finna leiðina áfram. Ég hef fulla trú á að svo geti orðið.



04 janúar, 2018

Þorpið í skóginum - Undirritunin

Á þessum degi rann upp sú stund, að ég undirritaði samning vegna styrkveitingar frá Uppbyggingarsjóði Suðurlands. Styrkurinn er ætlaður til að styðja við verkefni sem ber heitið: Laugarás, þorpið í skóginum. Ég er löngu búinn að hafa þetta verkefni í huga og er reyndar búinn að vinna talsvert í því undanfarin 4-5 ár.
Það má kannski segja að mig hafi vantað ákveðið spark til að fara nú að koma því þangað sem því er ætlað, nefnilega inn á vefinn: laugaras.is.  Þangað fer það efni sem safnað er víst ekki sjálfkrafa.
Af rælni sótti ég um þennan styrk. Átti ekkert frekar von á að fá hann, en nú blasir við að duga eða drepast.
Upphæðin sem mér var veitt til þess arna færi nú ekki langt ef vinnulaun til mín yrðu reiknuð inn í kostnaðinn. Það er hinsvegar ekki upphæðin sem slík, sem skiptir mestu máli, heldur þrýstingurinn sem styrkurinn skapar. Með henni eru settir upp frestir til framkvæmda og það er gott.

Leiðin lá í Fjölheima á Selfossi, þar sem Háskólafélag Suðurlands er til húsa. Þar tók Hrafnkell Guðnason á móti okkur fD og gengið var frá samningnum og hann undirritaður meðan fD, að mínu undirlagi, lét ítrekað vaða á EOS-inn. Mér fannst nauðsynlegt að skrásetja þennan, vonandi, merkisviðburð. Með honum hefst formleg vinna við að koma öllu því sem ég kem höndum yfir um sögu Laugarás og líf í þorpinu, fram á þennan dag.  Hvernig til tekst, verður tíminn síðan að leiða í ljós.

Nú þegar er ég búinn að safna saman upplýsingum um húsin í Laugarási fram undir aldamót og íbúa þeirra. Enn sem komið er er þar um að ræða nokkurskonar grunnupplýsingar og ég vona að ég geti bætt þar í að einhverju marki. Þá á ég efni um brúna, og vatnsveitufélagið (sem ég átti þátt í að drepa á sínum tíma).  Ég hef safnað nokkru af myndum frá ýmsum árum, en þarf að bæta þar talsvert í.
Ég veit um menn sem hafa skrifað heilmikið um Laugarás gegnum tíðina og bind vonir við að til þeirra megi ég leita um efni.

Hvað má lesa út úr þessum svip?
Ekki neitt?  Tilhlökkun? Áhyggjur?
Einbeitingu? Spennu?  Nú, eða bara
eftirvæntingu um hvort myndirnar 
verði nú í fókus hjá fD?  Hver veit,
Myndirnar, sem slíkar, reyndust
vel heppnaðar, hvað sem segja
má um myndefnið.
Framundan er einnig að taka saman helstu þætti í sögu heilsugæslunnar (læknishéraðsins), barnaheimilis RKÍ, hitaveitunnar og sláturhússins, svo stærstu þættirnir séu nú nefndir.  Það liggur við að mér falli einhver ketill í eld við tilhugsunina, en  ætli tilhlökkunin verði ekki yfirsterkari.

Á þessum tímapunkti er ef til vill viturlegt að fara ekki að segja of mikið, en leggja frekar áherslu á vonina um að allt fari þetta vel að lokum.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...