Á þessum degi rann upp sú stund, að ég undirritaði samning vegna styrkveitingar frá Uppbyggingarsjóði Suðurlands. Styrkurinn er ætlaður til að styðja við verkefni sem ber heitið: Laugarás, þorpið í skóginum. Ég er löngu búinn að hafa þetta verkefni í huga og er reyndar búinn að vinna talsvert í því undanfarin 4-5 ár.
Það má kannski segja að mig hafi vantað ákveðið spark til að fara nú að koma því þangað sem því er ætlað, nefnilega inn á vefinn: laugaras.is. Þangað fer það efni sem safnað er víst ekki sjálfkrafa.
Af rælni sótti ég um þennan styrk. Átti ekkert frekar von á að fá hann, en nú blasir við að duga eða drepast.
Upphæðin sem mér var veitt til þess arna færi nú ekki langt ef vinnulaun til mín yrðu reiknuð inn í kostnaðinn. Það er hinsvegar ekki upphæðin sem slík, sem skiptir mestu máli, heldur þrýstingurinn sem styrkurinn skapar. Með henni eru settir upp frestir til framkvæmda og það er gott.
Leiðin lá í Fjölheima á Selfossi, þar sem Háskólafélag Suðurlands er til húsa. Þar tók Hrafnkell Guðnason á móti okkur fD og gengið var frá samningnum og hann undirritaður meðan fD, að mínu undirlagi, lét ítrekað vaða á EOS-inn. Mér fannst nauðsynlegt að skrásetja þennan, vonandi, merkisviðburð. Með honum hefst formleg vinna við að koma öllu því sem ég kem höndum yfir um sögu Laugarás og líf í þorpinu, fram á þennan dag. Hvernig til tekst, verður tíminn síðan að leiða í ljós.
Nú þegar er ég búinn að safna saman upplýsingum um húsin í Laugarási fram undir aldamót og íbúa þeirra. Enn sem komið er er þar um að ræða nokkurskonar grunnupplýsingar og ég vona að ég geti bætt þar í að einhverju marki. Þá á ég efni um brúna, og vatnsveitufélagið (sem ég átti þátt í að drepa á sínum tíma). Ég hef safnað nokkru af myndum frá ýmsum árum, en þarf að bæta þar talsvert í.
Ég veit um menn sem hafa skrifað heilmikið um Laugarás gegnum tíðina og bind vonir við að til þeirra megi ég leita um efni.
Á þessum tímapunkti er ef til vill viturlegt að fara ekki að segja of mikið, en leggja frekar áherslu á vonina um að allt fari þetta vel að lokum.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)
Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...
-
Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...
-
Það er ótvíræður kostur við þorrabót eldri borgara í Biskupstungum, að það er ekki boðið upp á dansiball með tilheyrandi hávaða þegar fól...
-
Líklega lið annars bekkjar veturinn 1971-1972. Aftari röð f.v. Helgi Þorvaldsson, Eiríkur Jónsson, Kristján Aðalsteinsson, Páll M, Skúlaso...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli