Sigurveig Mjöll Tómasdóttir myndin fengin að láni af Facebook síðu Veigu. |
Það er eins með okkur mannfólkið og reyndar allar lifandi verur: umhverfi og aðbúnaður allur skiptir sköpum um hvernig þær vaxa úr grasi og verða fullþroska einstaklingar. Með umhyggju, uppeldi og utanumhaldi hverskonar, getum við yfirleitt búist við því að allt verði eins og það á að vera; uppskeran verði í samræmi við allan aðbúnað í æsku.
Það held ég fari ekki á milli mála, að sá jarðvegur sem Veiga spratt úr, það umhverfi sem henni var búið, sú umhyggja sem hún naut, var eins og best verður á kosið. Foreldrar hennar, þau Dísa og Tommi, fjölskyldan öll og stórfjölskyldan, allt þetta skapaði henni þær aðstæður sem allir myndu óska sér.
Sigurveig Mjöll Tómasdóttir, Veiga, lést á jóladag, 27 ára að aldri.
Ekki ætla ég að fjölyrða um það áfall sem aðstandendur Veigu, og aðrir sem hana þekktu, upplifðu við brotthvarf hennar. Það getur hver og einn ímyndað sér, en það var eitthvað sem enginn hafði átt von á.
Ég kynntist stúlkunni fyrst þegar hún gerðist nemandi við Menntaskólann að Laugarvatni. Þar var hún nemandinn sem var komin í skólann til að leggja sig alla fram og jafnvel talsvert umfram það. Hún var nemandinn sem kom með það veganesti úr foreldrahúsum að nám væri mikilvægt, skólinn væri góð og nauðsynleg stofnun og að til þess að ná árangri þyrfti að leggja hart að sér. Nemandinn Veiga hafði sannarlega tileinkað sér þetta viðhorf til náms og skóla. Allt sem henni var ætlað að sinna í náminu, sinnti hún af alúð og alvöru, staðráðin í að standa sig. Hún var einn af þessum nemendum sem fékk mig til að viðhalda þeirri bjargföstu skoðun minni, að kennslustarfið sé mikilvægt, eitt mikilvægasta starf sem unnið er.
Mér er Veiga ekki síst minnisstæð fyrir það að hún var ekkert sérstaklega mikið fyrir einhverja vitleysu. Ég er þannig innréttaður að ég hef átt það til að beita kaldhæðni í nokkrum mæli, einnig innan veggja skólastofunnar. Hún kunni ekkert sérstaklega vel að meta að of langt væri gengið í þeim efnum og alloft kom það fyrir að hún fór fram á það að ég léti af þessu, sem mér tókst auðvitað ekki, en reyndi kannski að vanda mig aðeins meira. Þannig má segja að hún hafið haldið mér á mottunni að vissu leyti og orðið til þess að ég vandaði mig aðeins meira í þessum efnum.
Eftir að Veiga hafði lokið námi í ML tók frekara nám við, en þó hún hafi þarna horfið úr daglegu umhverfi mínu, frétti ég af henni við og við, bæði vegna þess að hún leysti móður sína stundum af, dag og dag og einnig í gegnum samfélagsmiðil, eins og algengt er nú til dags.
Á liðnu hausti var allt á fullu hjá Veigu og kærastanum hennar, við að standsetja nýja íbúð. Framundan spennandi tímar.
Þeim tímum var ekki ætlað að verða að veruleika. Eftir sitjum við með spurningar sem ef til vill eiga sér ekki svör.
Þrátt fyrir að allar ytri aðstæður séu nýjum gróðri hagfelldar, þá getur ýmslegt óvænt komið upp, sem enginn getur séð fyrir og enginn gert neitt við.
Þannig er það með samning okkar við lífið.
Á móti fáum við að njóta þess að vera til, lifa, setja mark okkar á umhverfi okkar, þann tíma sem okkur er ætlaður. Þannig má segja að við lifum áfram þótt við deyjum: minningin um okkur, líf okkar og afrek, lifir áfram í huga þeirra sem halda áfram.
Svona pælingar eru nú ekki mikil huggun, heldur bara pælingar; tilraun til að setja ótímabært dauðsfall í eitthvert samhengi.
Von mín er auðvitað sú að fjölskyldu Veigu megi takast að komast í gegnum þetta stórviðri og finna leiðina áfram. Ég hef fulla trú á að svo geti orðið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli