13 janúar, 2018

Sameinaðir stöndum vér, en ......

Það er ýmsar ástæður fyrir því að ég ákvað að fjalla lítillega um sameiningarmál í uppsveitim Árnessýslu.  Þær eru auðvitað bæði persónulegar og sögulegar.
Á þessu ári eru 20 ár síðan gerð var alvarleg tilraun til að sameina uppsveitirnar í eitt sveitarfélag.
Það kann að vera að margir viti fátt um stærstu tilraun sem gerð hefur verið á þessu svæði og ég ætla að reyna að varpa örlitlu ljósi á hana, frá mínum bæjardyrum.  Þá ætla ég að ljóstra upp hver skoðun mín er á þeim sameiningum sem orðið hafa síðan og loks upplýsa um skoðun mína á því sem ætti að gerast næst.
Ég sat í minnihluta í hreppsnefnd Biskupstungnahrepps frá 1995-8.

1998 Sameiningin sem átti að verða.
Árið 1998 fór fram kosning um sameiningu allra sveitarfélaganna 8 í uppsveitum Árnessýslu í tveim umferðum.
Önnum kafinn, 23. maí, 1998
23. maí  var kosið um sameiningu allra hreppanna, en íbúar Grafningshrepps og Gnúpverjahrepps felldu fyrir sitt leyti. Þessir hreppar áttu það sameiginlegt að njóta umtalsverðra tekna af virkjunum og því að vissu leyti skiljanlegt að þeir skyldu fella tillöguna.
Fimm hreppanna, ákváðu að endurtaka kosninguna þann 27. júní. Grímsneshreppur tók ekki þátt í þeirri kosningu, enda búinn að ákveða að sameinast Grafningi.
Niðurstaðan í þetta sinn varð sú, að íbúar Skeiðahrepps felldu tillögu um að sameinast Þingvallasveit, Laugardal, Biskupstungum og Hrunamannahreppi.

Með þessari niðurstöðu var úti um þessa tilraun, og fátt í stöðunni annað en hvíla málið. Þessi niðurstaða var mér mikil vonbrigði, ekki síst vegna þess að ég hafði átt sæti í framkvæmdanefndinni sem undirbjó kosninguna. Mér fannst og finnst enn, vera fremur fátækleg og boruleg rök sem færð voru fram gegn þessari sameiningu.

Sameiningarnar í framhaldinu
Þann fyrsta júní 1998 sameinuðust Grímsneshreppur og Grafningshreppur og mynduðu sveitarfélagið Grímsnes- og Grafningshrepp.
Árið 2002 var samþykkt sameining Þingvallasveitar, Laugardals og Biskupstungna* þannig, að úr varð Bláskógabyggð og einnig var á þessu ári samþykkt sameining Skeiðahrepps og Gnúpverjahrepps, þannig að úr varð Skeiða- og Gnúpverjahreppur.

Ég var andvígur þessari takmörkuðu sameiningu sem varð með tilurð Bláskógabyggðar og er raunar enn þó það skipti svo sem ekki máli úr þessu.  Ekkert gerði ég til að beita mér gegn henni hinsvegar, enda hættur afskiptum af sveitarstjórnarmálum. Fyrir afstöðu minni voru tvær megin ástæður: sameiningin væri of lítið skref til að úr yrði sæmilega stöndugt eða öflugt sveitarfélag, sem mér finnst hafa orðið raunin.
Hin ástæðan reyndist einnig eiga við rök að styðjast, því miður. Ég sá fyrir mér að með sameiningunni myndi öll orka sveitarstjórnar fara í að reyna að skapa traust milli Laugdælinga og Biskupstungnamanna. Annað yrði látið sitja á hakanum. Þarna er um að ræða að halda þyrfti ákveðnu jafnvægi milli Laugarvatns og Reykholts.  Þá fengu Þingvellir sinn fulltrúa í sveitarstjórn, með röðun á lista. Eftir situr Laugarás, sem hefur fengið það hlutverk að verða hálf utanveltu í þessu máli öllu.

Hvað um það, það hefur lítið upp sig að gráta það sem liðið er en það er allt í lagi að halda því til haga.

Hvernig verður framtíðin?
Á undanförnum mánuðum hafa aftur farið af stað þreyfingar um sameiningu í Árnessýslu. Þá ber svo við, að Bláskógabyggð skilar auðu, sem ég hef svo sem ekki séð nein rök fyrir, enda ekki verið að eltast við þau.


Mér finnst mikilvægt að gerð verði atlaga að því aftur að sameina.  Þar kemur tvennt til greina:
- sameining uppsveitanna, eins og reynt var 1998
- sameining Árnessýslu, sem verður stöðugt áhugaverðari kostur í mínum huga. Það er kominn tími til þess, að við sættum okkur við að Selfoss verði miðstöð stjórnsýslunnar. Það er alveg komið nóg af þessu smákóngasamfélagi í uppsveitunum. Hvert framfaramálið á fætur öðru er drepið vegna þess að allir vilja fá allt til sín.

Auk þess legg ég til að byggt verði dvalar- og hjúkrunarheimili í Laugarási. 

-------------------------


* Í nóvember kusu íbúar í Grímsnes- og Grafningshreppi, Þingvallahreppi, Laugardalshreppi og Biskupstungnahreppi um sameiningu þessara fjögurra hreppa. Íbúar í Grímsnes- og Grafningshreppi fellu tillöguna.  Í kjölfarið varð það niðurstaða í sveitarstjórnum þeirra þriggja sem höfðu samþykkt, að hefja viðræður um sameiningu, sem lyktaði með því að kosið var til sveitarstjórnar í sameinuðu sveitarfélagi í maí 2002. 

Ég læt fylgja tvær bókanir úr fundargerðum hreppsnefndar Biskupstungnahrepps frá byrjun árs 2002:



Fundur hreppsnefndar Biskupstungnahrepps 30. janúar, 2002
Ákvörðun um sameiningu sveitarfélaga, Biskupstungnahrepps, Laugardalshrepps og Þingvallahrepps. Hreppsnefnd samþykkir sameiningu Biskupstungnahrepps við þau tvö sveitarfélög sem einnig samþykktu sameiningu viðkomandi sveitarfélaga í almennri kosningu, 17. nóvember 2001 í samræmi við 91. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Hreppsnefnd telur að með sameiningu sveitarfélaganna verði til ný sóknarfæri með sterkari stjómsýslu í stærri heild. Möguleikar aukast á betri nýtingu fjármuna og uppbyggingar í nýju sveitarfélagi. Það samstarf sem verið hefur á milli viðkomandi sveitarfélaga er staðfest með sameiningunni. Í ljósi vaxandi rekstrarkostnaðar sveitarfélaga verða þau að leita leiða til hagræðingar m.a. með aukinni samvinnu. Framundan eru krefjandi verkefni fyrir nýja sameiginlega sveitarstjórn að ná fram hagsæld og árangri þannig að hið nýja sveitarfélag geti áfram boðið upp á þjónustu sem íbúar geta verið stoltir af hér eftir sem hingað til. Sameiningin fékk afgerandi kosningu í sveitarfélögunum eða yfir 70%. Hreppsnefnd samþykkir sameininguna einhuga. Samþykkt að Margeir Ingólfsson og Sveinn A. Sæland fari með umboð hreppsnefndar í þeim sameiginlegu verkefnum og ákvörðunum sem vinna þarf að fram að kosningum.



Fundur hreppsnefndar Biskupstungnahrepps 13. febrúar, 2002

Ákvörðun um sameiningu sveitarfélaga. Lögð fram eftirfarandi fundargerð framkvæmdahóps sveitarfélaga, frá 4. febrúar 2002, sem ákveðið hafa sameiningu að vori komanda þ.e. Þingvallahrepps, Laugardalshrepps og Biskupstungnahrepps. Samkvæmt því samþykkir framkvæmdahópurinn eftirfarandi og mun leggja niðurstöður fyrir viðkomandi hreppsnefndir til endanlegrar staðfestingar: Að undangenginni almennri kosningu, 17. nóvember 2001 og með vísan til 2. mgr. 91. gr. og 95. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 er hér með staðfest að sameining Biskupstungnahrepps, Laugardalshrepps og Þingvallahrepps í eitt sveitarfélag hefur verið ákveðin. Sameining framangreindra sveitarfélaga í eitt sveitarfélag skal taka gildi 9. júní 2002. Hið sameinaða sveitarfélag skal taka yfir allt það land, sem nú tilheyrir áðurgreindum þremur sveitarfélögum. Ibúar hinna þriggja sveitarfélaga skulu vera íbúar hins sameinaða sveitarfélags. Eignir, skuldir, réttindi og skyldur, sem tilheyra þessum þremur sveitarfélögum skulu falla til hins sameinaða sveitarfélags. Skjöl og bókhaldsgögn allra sveitarfélaganna skulu afhent hinu sameinaða sveitarfélagi til varðveislu. Sérstök athygli er vakin á eftirfarandi: Kosning sveitarstjórnar hins sameinaða sveitarfélags skal fara fram þann 25. maí 2002, sbr. 96. gr. Sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Kjósa skal sjö fulltrúa í sveitarstjórn hins nýja sveitarfélags, sbr. 1. mgr. 12. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Sveitarstjórnirnar þrjár kjósa sameiginlega þrjá fulltrúa í yfirkjörstjórn og þrjá til vara. Kjörstjómir þær sem kosnar voru í upphafi yfirstandandi kjörtímabils skv. 14. gr. laga um kosningar til sveitarstjóma nr. 5/1998 skulu vera undirkjörstjómir við kosningarnar. Samhliða sveitarstjórnarkosningum verður kosið um nafn hins nýja sveitarfélags samkvæmt tillögum framkvæmdanefndar sem áður skal auglýsa eftir hugmyndum á nafni hins nýja sveitarfélags.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...