Persónudýrkun er vafasamt fyrirbæri, svo ekki sé meira sagt, en þegar við erum farin að láta heilan stjórnmálaflokk snúast um eina persónu, erum við komin út á harla vafasamar brautir. Í mínum huga er eitthvað bogið við fólk sem sækir inn í slíka flokka. Ætli þetta stefni í að verða þriðju kosningarnar til Alþingis í röð, þar sem ein persóna nær að láta alla umræðu snúast um sjálfa sig?
Ég hneigist til að kenna fjölmiðlum um þetta, að stórum hluta, því varla ropar þessi persóna öruvísi en að úr verði flennifyrirsögn og í kjölfarið logandi samfélagsmiðlar.
Ef um væri að ræða manneskju sem býr yfir einhverjum persónutöfrum, glæsileik, myndugleik, öryggi, manngæsku, mannskilningi, eða bara einhverjum jákvæðum eiginleikum sem myndu geta sannfært mig um að þarna væri á ferð framtíðarleiðtogi þessa örsmáa eyríkis, gæti ég skilið alla umfjöllunina.
Ég sé ekkert birtast mér, þegar mér tekst ekki að snúa mér undan, nema einstakling sem hefur komist í þessa stöðu vegna einhvers annars en hæfni til þess arna, eða gáfna og mér er fyrirmunað að skilja hvað þar er, nákvæmlega við hann sem veldur því að upp undir 10% þjóðarinnar kveðst myndu kjósa flokkinn hans. Því þetta er bara flokkurinn hans - einskis annars. Flokkur þar sem hagsmunir hans og persóna virðast vera það sem skiptir máli.
Það sem er kannski alvarlegast í þessu er, að á meðan hann heldur fjölmiðlum uppteknum við sjálfan sig, fær Flokkurinn að fara sínu fram í skugganum - skugganum þar sem ljósið verður að fá að skína, ef einhver von á að verða fyrir þá sem þurfa mest, til að fá tækifæri til að lifa mannsæmandi lífi. Skugganum þar sem menn "víla og díla" með líf annarra í eigin þágu.
Ábyrgð fjölmiðla er jafnvel meiri en okkur grunar.
Sjálfsupphafnig og persónudýrkun eru eitur í mínum beinum, hvað sem það segir nú um mig, en auðvitað skiptir það ekki máli.
Ég lýk þessu á mynd af þessari persónu, sem dregin er upp af fyrrverandi flokksfélaga hennar:
Eftir hádegi mætti formaðurinn og við það breyttist andrúmsloftið, tillögur voru dregnar til baka og frjálslynt fólk dró sig til hlés. Þarna var ég fyrst var við það að „óþægilegu“ fólki var stuggað frá og einangrað. Allt starfið snerist um að halda línunni, og formaðurinn lagði línuna, ekki grasrótin.
Sama vetur atvikaðist það svo að ég varð sessunautur formannsins í veislu [....]. Sessunautur minn var ekki sá beitti samfélagsrýnir sem ég hafði séð á opinberum vettvangi. Heldur var hann frekar óöruggur og var um sig, þetta virtist mér ekki vera maður sem skeytti mikið um nærumhverfi sitt og hvað þá fólkið sem þar var.
Þetta er mynd sem mér finnst lýsa þeim sem ég sé í fjölmiðlum, þegar mér tekst ekki að snúa mér undan.
Vorið 1974 lauk ég stúdentsprófi af máladeild Menntaskólans að Laugarvatni. Í máladeildum þess tíma voru kennd tungumál og fyrir utan að hafa þekkta fræðimenn sem íslenskukennara (Haraldur Matthíasson, Ólafur Briem og Kristinn Kristmundsson), var ég sérlega heppinn með enskukennarann Björn Inga Finsen, frönsku- og latínukennarann Kristján Árnason og þýskukennarann Vilborgu Ísleifsdóttur. Danskan var kannski ekki jafn metnaðarfull, en ekki fannst mér hún beinlínis óþolandi.
Veturinn eftir stúdentsprófið fékk ég kennarastöðu við Lýðháskólann í Skálholti og fékk þar nokkurskonar eldskírn í því starfi sem kennsla er. Meðal kennslugreinanna var franska og kennslubókin var "Avec plaisir" (Með ánægju).
Það má segja, að það hafi verið á grundvelli þessarar kennslu í Lýðháskólanum, sem ég sættist á að taka að mér viku kennslu í frönsku í forföllum í þrem bekkjum í ML. Þessari viku lauk í dag.
Sennilega var ég beðinn um þetta vegna þeirrar undarlegu áráttu minnar gegnum árin að þurfa sífellt að vera að slá um mig með einhverjum frösum á frönsku eða þýsku (Eitthvað verður maður að nota nám sitt í).
Mér leist nú ekkert sérlega vel á hugmyndina fyrst, en ákvað samt að slá til, dragandi eins mikið úr getu minni til þess arna og mögulegt var, einfaldlega til að skapa sem minnstar væntingar.
Efnið sem fyrir lá var nokkuð vel afmarkað og undirbúið upp í hendurnar á mér og ekki varð annað séð en þetta gæti allt gengið nokkuð bærilega.
Byrjendahópi var mér ætlað að kenna heitin á dögum og mánuðum. Þar komst ég fljótlega að því, að ég kunni talsvert meira en þau (eru búin að læra frönsku í 5 vikur) og óx þar með ásmegin.
Nemendum í þriðja bekk, sem eru í sínum þriðja áfanga í frönsku, var mér ætlað að kenna Passé composé, eða svokallaða samsetta þátíð sem myndast með hjálparsögnunum AVOIR (hafa) og ÊTRE (vera). Einhvernveginn hefur Kristjáni Árnasyni tekist að koma málum svo fyrir í gamla daga að þetta reyndist hreint ekki óyfirstíganlegt og þó ég segi sjálfur frá, þá held ég að aðal frönskukennarinn þurfi ekki nema fínpússa þegar hann kemur aftur til starfa.
Loks var mér ætlað að halda nemendum síðasta hópsins, sem var nýkominn úr viku námsferð til Parísar, að verki við plakatagerð, en það er kennsluaðferð sem ég hélt, í alvöru, að ég myndi aldrei þurfa að sinna. Sjálfsagt hefur hún sínar jákvæðu hliðar, en eins og mér var sagt í kennslufræðinámi fyrrum, þá verður hver kennari að finna þá nálgun að kennslunni sem hentar persónu hans best. Ég er ekki plakatpersóna og það þóttu tíðindi meðal fyrrum samstarfsmanna, þegar ég keyrði "föndurvagninn" um gangana í vikunni.
Loks þykir mér rétt að geta þess að ég var heppinn með nemendur í þessum tímum. Byrjendurnir og ég höfðum eiginlega aldrei átt nein samskipti áður, svo þau voru frekar feimin við mig, eða eitthvað (eikkað/einkað). Ég hafði með sama hætti ekki haft nein kynni af þeim svo þau voru bara svona nafnlaus massi fyrir framan mig, eða þannig. En þetta var í góðu lagi held ég.
Miðhópurinn var skemmtilegur og jákvæður, jafnvel þó rödd heyrðist sem tjáði andúð sína á að þurfa að læra frönsku.
Hópur þeirra sem lengst voru kominn vann sín verk við að klippa og líma og skrautskrifa, rétt eins og fyrir var lagt.
Hreint ágætt bara, en ég held ég muni ekki taka jafn jákvætt að frekari beiðnir um forfallakennslu.
Vorið 2009 vorum við fD á ferð í Rangárþingi og komum við á Tumastöðum í Fljótshlið þar sem Skógræktin hafði og hefur starfsemi, efti því sem ég best veit. Pabbi var heilmikill áhugamaður um skógrækt, enda alinn upp í skóginum á Hallormsstað, og þær voru allmargar ferðirnar sem við fórum með foreldrum okkar á Tumastaði til að kaupa tré á vorin. Af þessum sökum var þetta svona upprifjum fyrir mig að koma þarna aftur.
Þarna var hægt að kaupa aðskiljanlegustu trjátegundir og þetta vorið, vorum við fD í stuði til að prófa eitthvað nýtt; eitthvað sem væri ekki endilega alveg öruggt í ræktun.
Frá Tumastöðum fórum við með tvær trjáplöntur, Ask og Gullregn.
Fljótlega kom í ljós að fD hafði tekið ástfóstri við gullregnið, og það var meira hennar en mitt, Askinn nefnd hún aldrei bara ask, heldur "askurinn þinn" eða jafnvel "þessi askur þinn", sérstaklega eftir að gullregnið hafði veslast upp og drepist, þó svo því hefði verið valinn sérlega hlýlegur og skjólgóður staður. Helsta ástæðan fyrir því að lífið hvarf úr æðum gullregnsins er mér ekki ljós, en hún er skýrari í huga fD: ég á að hafa drepið það með óvarlegum slætti umhverfis það, sem ég neita auðvitað staðfastlega, eins og nærri má geta.
Það getur svo sem vel verið, að ég hafi einhvertíma, af miklum dugnaði og nákvæmni farið með orfið frekar nálægt stofni gullregnsins, en tel af og frá að sú aðgerð hafi orðið því að aldurtila, ekki nema það hafi drepist úr hræðslu við orfið. Ég hef áður fjallað um dauða gullregnsins.
Hvað um það.
Askurinn fékk stað þar sem lóðarhönnunin fyrir um 35 árum gerði ráð fyrir bílastæði. Jarðvegurinn þarna er ansi rýr og því hef ég sett á hann rotmassa á hverju vori, í þeirri von að hann myndi lifa þetta af. Það leit nú ekkert sérstaklega vel út til að byrja með; þetta var bara eins og lítið bambusprik sem stóð þarna upp í loftið. Þannig var þetta í allmörg ár: þegar laufin voru fallin á haustin, stóð bara þetta prik eftir og ég átti ekkert frekar von á að eitthvað gerðist vorið eftir. En, alltaf hef ég getað glaðst yfir bólgnandi bruminu á vorin og nú er ég farinn að sjá aukinn vaxtarhraða. Á þessu sumri sýnist mér hann hafa bætt við sig einum 30 cm.
Þarna stendur Askurinn, eða "þessi askur þinn" nú í haustlitunum og bíður vatrarins. Hægt og rólega hafa blöð hans tekið á sig þennan fagurgula haustlit og hann hefur lofað að lifna á ný næsta vor, en hann hefur í það minnsta gefið það í skyn með því að takast á við lífið af einstakri yfirvegum hingað til.
Nú fer að koma sá tími að ég get ekki lengur fjarlægt bévítans maðkinn sem sækir dálítið á hann og er þessvegna byrjaður að upphugsa aðferðir til að halda honum frá í framtíðinni. Eitt af því sem mér hefur dottið í huga er að setja límborða á stofninn á hverju vori, eins og ég hef sé gert í útlöndum, en ekki veit ég hvor það gæti orðið til að fæla frá ormaskrattana sem sækja á íslensk tré.
Askurinn er að verða dálítill fasti í tilverunni og einn þeirra þátta sem valda því að ég er hikandi við að horfa í aðrar áttir með búsetu. Ég vildi gjarnan geta fylgst með framgangi hans næstu áratugina, en það verður víst að verða sem verða vill.
Í gær skrifaði ég um innflutning á grænmetiog ýjaði að því að mætti gjarnan koma til bætt siðferði.
Út úr greininni mátti auðveldlega lesa að íslensk garðyrkja stæði höllum fæti gagnvart gengdarlausum innflutningi á grænmeti og ávöxtum, ekki síst vegna þess að þeir sem að baki þeirri starfsemi standa, freista þess að leyna uppruna vörunnar, eða í það minnsta hafa ekki hátt um hann. Ég fór inn á vefsíðu fyrirtækis sem er eitt þeirra stórtækustu í sölu á salati af ýmsu tagi í íslenskum verslunum. Ég leitaði að upplýsingum um uppruna þeirrar vöru sem þetta fyrirtæki vinnur lítillega og skolar mögulega með íslensku vatni, en um upprunann fann ég ekki stafkrók.
Ég ákvað að nefna þetta fyrirtæki ekki á nafn, enda um fleiri samsvarandi að ræða og varla réttmætt að taka það eitt út úr þeim hópi. Þar að auki hef ég ekki hugmynd um hvort það flytur inn grænmeti og ávexti frá El Ejido, sem hér er fjallað um í framhaldinu. Þeir geta sjálfum sér um kennt, að skammast sín svo fyrir afurðir sínar og þora ekki að birta upplýsingar um uppruna þeirra.
Ég spyr enn: Hvar er stoltið af uppruna þeirrar vöru sem fyrirtækið selur?
---------------------
El Ejido og þrælahald
El Ejido
Í tengslum við greinina frá í gær, rakst ég á myndskeið sem lýsir grænmetisræktun á suður Spáni, í héraðinu Almeria, sem mörg okkar hafa örugglega gist einhverntíma.
Mynd frá þessu svæði má sjá efst í þessum pistli.
Sú Almeria sem við líklega þekkjum, er lengst til hægri á þeirri mynd. Þarna höfum við unað í sólinni á ströndinni. Notið lífsins í sumarleyfisferðinni okkar. Allt í góðu með það.
Ljósa svæðið á þessari mynd kallast El Ejido. Vegurinn sem liggur í gegnum það er milli 40 og 50 kílómetrar, eða jafn langt og frá Laugarási og ríflega niður á Selfoss.
Ljósi liturinn er engin sólarströnd, heldur "gróðurhús", en þau sjást betur á myndinni hér til vinstri
Eins og nærri má geta, er framleitt þarna gífurlegt magn grænmetis og ávaxta og starfsmennirnir eru, eftir því sem ég hef komist næst, að stórum hluta nútíma þrælar, ólöglegir innflytjendur frá Marokkó.
Eins og nærri má geta er til önnur hlið, sem hagsmunaaðilar halda miklu frekar á lofti. Til að gæta nú að báðum hliðum birti ég hér slóðir á tvö myndskeið. Það fyrra er umfjöllum um þá ágætu starfsemi sem fer fram á El Ejido;
Það vekur athygli mína, að í þessu myndbandi koma nánast eingöngu fram hvítir stafsmenn, oftar en ekki í ábyrgðarstöðum.
Þessi mynd er næstum einn og hálfur klukkutími að lengd og fjallar um aðstæður verkamanna á svæðinu, loftið sem er þrungið daun af skordýraeitri og grunnvatnið sem er að verða uppurið. Efni myndarinnar er kynnt svona:
Today, the
formerly-deserted region of Almeria in southern Spain produces one third of
Europe’s winter consumption of fruits and vegetables and reaps two thirds of
the country’s farm profits. This ‘economic miracle’ in a greenhouse relies on
the labor of nearly 80,000 immigrants, half of whom do not have proper working
papers. In a destroyed environment where the air is vitiated by pesticides and
ground water is running out, the village of El Ejido illustrates, almost to the
point of caricature, this industrial exploitation of men and the land
encouraged by globalization. Driss, Moussaid, and Djibril are day laborers
there, working for a pittance and, as is the case with most of their peers,
without a working contract. They stay in chabolas, small constructions made of
cardboard and plastic, without water or electricity. Near slavery that fills
our plates...
Það er rétt að taka það fram, að þessi mynd var framleidd árið 2006, fyrir 11 árum. Dettur einhverjum í hug að breyting hafi orðið til batnaðar með gífurlegum fjölda flóttamanna undanfarin ár?
"Salat ræktendur á Spáni eru þrælar nútímans, að sögn góðgerðastofnana"
Þessari grein fylgir myndskeið (13 mín) sem sýnir ástand mála í El Ejido.
Nóg um El Ejido.
Hvað kemur þetta okkur við?
Þessi spurning er óhjákvæmileg og eðlileg.
Hvað í ósköpunum kemur okkur það við hér norður í Ballarhafi, hvernig Spánverjar, eða aðrar þjóðir haga sínum málum?
Eru þeir ekki bara að reyna að skapa einhverja vinnu fyrir flóttamennina, sem að öðrum kosti myndu veslast upp og deyja?
Hvað er að því að hagnast lítillega í leiðinni?
Erum við eitthvað skárri?
Er góðærið okkar ekki keyrt áfram að talsverðum hluta með sama hætti?
Erum við kannski fólkið sem hreykir sér og segir: "Guð ég þakka þér að ég er ekki eins og aðrir menn?"
Lifum við kannski eftir einkunnarorðum vitru apanna þriggja?:
Speak no evil, see no evil, hear no evil
Eða erum við eins og litlu börnin sem leiða ekki hugann að því sem er ekki fyrir framan þau?
Ég gæti haldið áfram lengi, en ætli það breyti nú miklu.
Við höldum áfram að kaupa grænmetið okkar sem búið er að þvo úr íslensku vatni, við höldum áfram að dásama fataverslanir sem geta selt ódýr föt vegna þess að það fórst fyrir að greiða starfsfólkinu í verksmiðjunum einhver laun að ráði, eða þá vegna þess að börn eru svo ódýr starfskraftur.
Ég yrði ekki hissa á því, ef innan ekki langs tíma komi að uppgjöri á þessum málum. Fólk er fólk og æ fleiri munu átta sig á því, að sú misskipting gæða sem viðgengst, er óþolandi.
Einn viðmæælandinn í greininni í "The Guardian" sem hlekkur er á hér ofar segir:
Bændurnir vilja bara ómenntað, meðfærilegt vinnuafl sem
kostar helst ekki neitt. Aðeins einn þáttur þessarar greinar hagnast, en það er
stóru fjárfestarnir. Það eru landbúnaðarfyrirtækin sem sigra.
Fjármagnseigendurnir sigra. Mannúðin eða mennskan er þannig drepin.
Fólk mun bregðast við þessu. Þú getur slegið mig einusinni
utanundir. Ef þú reynir það aftur mun ég bregðast við og þú verður þá að drepa
mig. Það er það sem mun gerast.
Fólk vill bara ekki heyra. Það vita allir að þetta kerfi
er við líði. Það er þrælahald í Evrópu.
Við hliðið inn í Evrópu er þrælahald ástundað.
Við búum við svokallað frelsi, líklega meira frelsi en flestar þjóðir.
Frelsið er vandmeðfarið, en það er með það eins og kommúnismann: hugsjónin eða hugmyndin er frábær, en mannskepnan býr ekki yfir þroska til að raungera hana eins og hún er hugsuð.
Ég hef vístáður nefnt þetta umfjöllunarefni og þá var tilefnið engispretta sem varð að leikfélaga barna í leikskóla einum á höfuðborgarsvæðinu og þótti bara heldur "krúttleg". Mörg önnur dæmi um svipað hafa ratað í fjölmiðla, en aldrei verið gert neitt stórmál úr þeim. Allavega ekki jafn stórt og þegar ekki fannst kjöt í kjötbökunni hérna um árið, eða þegar þurfti að fjarlægja öll brúnegg úr stórmörkuðum.
Ég velti því fyrir mér hversvegna gallaðar vörur fá svo misjafna athygli eftir því hvort þær eru innlendar eða erlendar. Enn sem komið er hef ég aðeins eitt svar: Neikvæð umræða um innflutningsvörur þjónar ekki hagsmunum innflutningsverslunar. Er það mögulega svo, að stærstu innflytjendurinir og dreifendurnir stýri því hvað fjallað er um í fjölmiðlum á þessu landi? Hvað vitum við, þetta venjulega fólk um það hvað liggur að baki umfjöllun fjölmiðla? Getum við yfir höfuð treyst nokkru sem þar kemur fram, vegna þess að það er allt meira og minna litað af hagsmunum eigendanna?
Ég veit þetta ekki.
Ég veit hinsvegar að íslensk garðyrkja á mjög undir högg að sækja í stórverslunum vegna þess að þar hefur innflutt grænmeti, samskonar og það sem einnig er framleitt hér, náð yfirhöndinni svo um munar.
Hversvegna er íslenskt grænmeti komið í þennan skammarkrók?
Aðrir vita það sjálfsagt betur en ég og stór hluti neytenda vill fremur íslenskar garðyrkjuafurðir en erlendar,. þó þær sé því miður dýrari en þær innfluttu, af þrem ástæðum, fyrst og fremst:
1. Þær eru íslenskar.
Við, sem þjóð eigum að vera sjálfum okkur næg í matvælaframleiðslu og með óheftum innflutningi gröfum við undan möguleikum okkar til sjá þjóðinni fyrir matvælum, ef og þegar á þarf að halda.
2. Þær eru einfaldlega miklu ferskari, nýrri og ómengaðri en innfluttar afurðir, sem við þar að auki vitum ekkert um meðhöndlun á.
3. Kolefnisspor þeirra er rétt um helmingur kolefnisspors innfluttra afurða.
Hér er um að ræða einn mikilvægasta þáttinn, svona ef maður reynir að horfa kalt á málið.
Á sama tíma og íslenskt salat, sem ræktað er í gróðurhúsum sést varla í stórverslunum, blasa þar við ótaldir hillumetrar að erlendu salati.
Sannarlega eru salatpokarnir rækilega merktir með heitum íslenskra fyrirtækja, eins og Hollusta eða Hollt og gott. Í smáa letrinu kemur uppruninn síðan fram. Ég hef fyrir því fulla vissu, að fjölmargir, ef ekki flestir, telja að þarna séu um íslenska vöru að ræða og kemur á óvart þegar ég hef bent á hið gagnstæða. Ég tel að þarna sé verið að blekkja neytendur, eins og svo oft áður.
Ef þessi fyrirtæki væru stolt af vörunum sínum og uppruna þeirra, myndi upprunalandsins vera getið með stóru letri á umbúðunum svo væntanlegir kaupendur gætu valið á eðlilegum forsendum:
Splunkunýtt frá Spáni
Íðilfagurt frá Ítalíu.
Makalaust frá Marokkó
Hvar er stoltið?
Þetta salat var ræktað og skorið einhversstaðar við einhverjar aðstæður, með einhverjum áburði eða vökvun, með einhverjum lyfjum, af einhverjum. Það eina sem við fáum að vita um þetta er, að það hefur (stundum) verið skolað með íslensku vatni.
Þetta salat var flutt, jafnvel yfir hálfan hnöttinn í flugi, í það minnsta frá einhverju landi á meginlandi Evrópu.
Ég er löngu búinn að átta mig á því, að þau fyrirtæki sem flytja inn grænmeti til að keppa við hið íslenska, hafa einungis það í huga að ná sæmilegum arði út úr innflutningnum. Sum hafa ekki einu sinni fyrir því að þvo það úr íslensku vatni, áður en það lendir á borði okkar. Við bregðumst bara hreint ekki við þessu. Jú, jú, það finnst rottuungahræ í salati. Frá þessu er sagt í einum litlum fjölmiðli og síðan ekki söguna meir. Er innflytjandinn ekki kallaður til ábyrgðar? Það er ekki svo.
Mér varð hugsað til þessa í morgun þegar ég sá, annarsvegar rottuhræið og hinsvegar frásögn af því að í landinu sem hreykir sér af frelsi og hreysti, í fylkinu Flórída, er fólki bannað að setja sólarrafhlöður á þök húsa sinna, til að framleiða vistvæna orku, vegna þess að öflugir talsmenn orkufyrirtækis hafa séð til þess að lög eru í gildi sem banna fólki að framleiða eigin raforku.
As pointed out by the Miami New Times, Florida Power and Light (FPL) – a major supplier of electricity to the state – has invested heavily in lobbying state lawmakers to disallow residents from powering their own homes with solar power panels. In fact, thanks to the current laws, it is illegal to do so; you have to connect any solar panels to your local electric grid.
Það þarf ekki að fjölyrða um það, en þarna eru það hagsmunir fyrirtækja, sem hafa áhrif inn í stjórnkerfið, sem ráða för, en ekki það sem kemur almenningi vel.
Það sama tel ég að megi segja um stöðu mála á þessu landi. "Fólk þarf að geta treyst því að það verði gengið í málin og þau leyst fyrir það". Einhvernveginn svona orðaði formaður Flokksins þetta fyrir nokkrum dögum.
Ef við viljum búa við frelsi, þurfum við að búa yfir siðferðiskenndinni sem óhjákvæmilega verður að vera með í för. Án siðferðiskenndar er ekkert frelsi, svo einfalt er það.
Guðjón Arngrímsson, Maðurinn sjálfur og
Þorkell Ingimarsson. Mynd frá: Eiríki Jónssyni
Mér varð hugsað til baka, til áttunda áratugs síðustu aldar í gær þar sem ég lá í jörðinni með allar myndavélagræjurnar í kringum mig í moldaarflaginu. Þannig hefur ástandið ekki ávallt verið.
Það kom ekki til af góðu að ég lá þarna og þakkaði mínum sæla fyrir að ekki hefði farið ver.
Aðdragandinn að þeirri stöðu sem þarna blasti við mér, var sú ákvörðun mín að gera það sem ég hef lengi ætlað mér: ganga norður í Skálholtsása og líta nánasta umhverfi mitt frá aðeins öðru sjónarhorni.
Ég gekk norður að Smiðjuhólum og stillti þar upp tækjum og tólum áður en ég hóf að smella af, eins og ég kunni best (reyndist svo hafa gleymt að taka hristivörnina af, sem kom ekki í ljós fyrr en ferðin var afstaðin). Þessi staður er merktur með X á myndinni sem fylgir.
Eftir að hafa lokið mér af þarna, tók ég saman og lagði leið mína í vestur, þar sem ég taldi að útsýnið til norðurs og vesturs yrði betri og sú var raunin. Því næst lá leiðin í suður, en ég hafði í hyggju að taka nokkrar myndir af hæðinni sem er á móts við heimreiðina að Skálholtskirkju og Skálholtsskóla.
Ég sá fljótlega, að þarna á milli var rafmagnsgirðing með tveim strengjum, sem ég myndi þurfa að komast yfir með dótið. Það er stundum rafmagn á rafmagnsgirðingum, en oftar ekki. Ég ákvað að það væri ekki og það reyndist auðvitað rétt vera. Þegar ég var kominn yfir girðinguna, við suðurenda skógræktar sem þarna er, tók við fremur óárennilegt svæði og þar sem ég stóð þegar nánast á öndinni eftir að hafa klöngrast áreynslumikið um móana í Skálholtsásum, ákvað ég að snúa til baka, fara aftur yfir girðinguna og síðan yfir hana þar sem göngufærið myndi verða vinsamlegra.
Þar með kom ég að girðingunni þar sem merkt er O á myndinni. Ekki taldi ég að erfiðara gæti orðið að fara til baka yfir þessa rafmagnslausu rafmagnsgirðingu og hafði því ekki fyrir því að losa mig við búnaðinn áður en yfirferðin hæfist, en hún fólst í því að klofa yfir efri vírinn, en hann var í hóflegri hæð og girðingin slök. Hægri fóturinn komst yfir, vandræðalaust, en þá var sá vinstri eftir.
Allt gekk það eins og ætlunin var, þar til kom að skónum, en vírinn flæktist með einhverjum hætti í honum (gæti lýst þessu með ítarlegri hætti, en það yrði of langt mál). Það skipti engum togum að allt jafnvægi hvarf og í stjórnleysi líkamans hlunkaðist ég til jarðar þannig að hægra hné tók við öllum mínum þunga þar sem ég lenti í moldarflagi, einn til tvo sentimetra frá grjóthnullungi.
Knattspyrnan
Mynd frá Eiríki Jónssyni
Hefði grjóthnullungurinn tekið við hnénu, hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum.
Þarna lá ég svo um stund og hugleiddi öll þau ef sem þarna voru uppi.
Hvað hefði til dæmis gerst ef hnéð hefði lent á grjóthnullungnum?
Þarna voru einir fimm tímar í að fD kæmi úr vinnu, en hún var eina manneskjan sem hafði grun um hvert ég hygðist leggja leið á þessum morgni.
Hvað ef fD myndi síðan telja að ég hefði bara orðið svo hugfanginn að umhverfinu, að ég hefði ákveðið að eyða bara deginum þarna í ásunum? Þarna var ég, liggjandi í moldarflaginu, kominn í nánast núvitundarástand, utan það ef til vill, að ör andardrátturinn og hraður hjartslátturinn gaf allt aðra vísbendingu.
Hrokafullir nemendur að fara að spila körfubolta
við kennara., 1974 Mynd frá EJ
Allt gekk eins og best varð á kosið eftir þetta, en myndavélin hafði lent ásamt mér í flaginu og bar þess nokkur merki.
Þessi pistill er ekkert um þessa gönguför í Skálholtsása, heldur það sem eitt sinn var. Ég er viss um að einhverjum sem þetta les, kunni, í ljósi lýsingarinnar hér að ofan, að koma á óvart þegar ég greini frá þeirri staðreynd að fyrir einhverjum árum var ég afrenndur íþróttamaður.
Þarna var ég á kafi í körfuknattleik, knattspyrnu (markvörður) og blaki.
En, svona er þetta.
Nu er ég bara afrenndur í einhverju öðru.
Þannig er nú með lífið.
Skólalið Héraðsskólans á Laugarvatni 1970
Mynd frá EJ
Jæja, nú virðast tugir þúsunda Bandaríkjamanna ætla að koma saman og skjóta fellibylinn Irmu niður.
Þetta eru auðvitað óendanlega fáránlegar fyrirætlanir, en ég brást nú samt við þessum fregnum með svipuðum hætti og ýmsu öðru sem fréttist frá landi hinna frjálsu og hugrökku.
Við nánari skoðun virðist svo sem ungum mamnni hafi eitthvað leiðst og ákveðið að stofna hóp á Facebook, sem hefur það markmið að hvetja fólk til að koma saman beita skotvopnum sínum (sem nóg er víst til af) á þetta ógnvænlega fyrirbæri.
Í alvöru talað finnst mér hreint ekki ólíklegt að einhverjir muni stilla sér upp þarna þegar fer að hvessa og hefja skothríð. Þetta fólk gerði Donald Trump að forseta. Hversvegna ætti það ekki að skella sér í að skjóta niður fellibyl?
Stærra mál
Ef maður trúir því að maður búi í stórfenglegasta landi jarðar, ("The greatest country on Earth"), hversvegna ætti maður að að sætta sig við það að náttúruöflin fái að fara sínu fram óhindrað?
Líklega er þetta þó hluti af miklu stærra máli og sennilega þarf ekki að leita út fyrir íslenska landhelgi til að finna svipaðan hugsunarhátt. Það sama má væntanlega segja um flest önnur lönd á öllum tímum. Munurinn núna er sá, að mínu mati, að smám saman er sá hluti mannkyns sem veit fátt og skilur ekkert, að verða fjölmennari og valdameiri en hinn, sem veit og skilur eitthvað.
Ef maður áttar sig t.d. ekki á því hvað það er sem veldur fellibyljum, hvers eðlis þeir eru, hvert umfang þeirra er, eða bara hvað þeir eru, þá er allt eins líklegt að maður trúi, ef einhver segir manni það, að það sé hægt að fara út í garð og skjóta hann niður.
Ég hugsa að það verði kannski ekki næst þegar gýs á þessu landi, en sennilega í ekki svo fjarlægri framtíð, að fólk telji sig þess umkomið að setja tappa í eldfjöll, eða að minnsta kosti varpa sprengum á þau. Þá verður líklega vísað til þess þegar hraunið sem rann í Vestmannaeyjum 1973 var stöðvað með því að sprauta yfir það vatni, eða þegar Jón Steingrímsson, eldklerkur stöðvaði hraunstrum frá Skáftáreldum 1783, í frægri eldmessu sinni.
Maðurinn er smám saman að byrja að trúa því, að hann sé almáttugur, þó hann sé ekki merkilegri en smásætt rykkorn á eilífðaströnd alheimsins. Hann er smám saman að missa sjónar á öllu samhengi við það sem er, var og verður. Lifir í núinu í örheimi sínum og stekkur þaðan á allt það sem birtist í tölvum eða símum sem hann telur vera satt og rétt, en er í raun að stórum hluta hrein steypa.
Ég viðurkenni fúslega, að með því sem ég hef sagt hér, er ég líklega full svartsýnn á samferðamenn mína, en hvað á maður svo sem að halda?
Unga manninum leiddist og bjó til hóp á Facebook. Á skömmum tíma safnaði hann 26000 nöfnum fólks sem ætlar að skjóta niður fellibyl. Þessi hópur rataði á skömmum tíma inn á alþjóðlega fréttamiðla.
Stofnandi hópsins var, að eigin sögn, að grínast, en hve margir trúa því raunverulega að hann búi yfir fullnægjandi staðfestingu á því að það sé hægt að skjóta niður fellibyl? Væru einhverjir Íslendingar tilbúinir að trúa því að með því að varpa sprengjum í eldgíg sé hægt að stöðva eldgos?