24 september, 2017

Askurinn

Vorið 2009 vorum við fD á ferð í Rangárþingi og komum við á Tumastöðum í Fljótshlið þar sem Skógræktin hafði og hefur starfsemi, efti því sem ég best veit.  Pabbi var heilmikill áhugamaður um skógrækt, enda alinn upp í skóginum á Hallormsstað, og þær voru allmargar ferðirnar sem við fórum með foreldrum okkar á Tumastaði til að kaupa tré á vorin. Af þessum sökum var þetta svona upprifjum fyrir mig að koma þarna aftur.

Þarna var hægt að kaupa aðskiljanlegustu trjátegundir og þetta vorið, vorum við fD í stuði til að prófa eitthvað nýtt; eitthvað sem væri ekki endilega alveg öruggt í ræktun.

Frá Tumastöðum fórum við með tvær trjáplöntur, Ask og Gullregn.

Fljótlega kom í ljós að fD hafði tekið ástfóstri við gullregnið, og það var meira hennar en mitt, Askinn nefnd hún aldrei  bara ask, heldur "askurinn þinn" eða jafnvel "þessi askur þinn", sérstaklega eftir að gullregnið hafði veslast upp og drepist, þó svo því hefði verið valinn sérlega hlýlegur og skjólgóður staður. Helsta ástæðan fyrir því að lífið hvarf úr æðum gullregnsins er mér ekki ljós, en hún er skýrari í huga fD: ég á að hafa drepið það með óvarlegum slætti umhverfis það, sem ég neita auðvitað staðfastlega, eins og nærri má geta.
Það getur svo sem vel verið, að ég hafi einhvertíma, af miklum  dugnaði og nákvæmni farið með orfið frekar nálægt stofni gullregnsins, en tel af og frá að sú aðgerð hafi orðið því að aldurtila, ekki nema það hafi drepist úr hræðslu við orfið.
Ég hef áður fjallað um dauða gullregnsins.

Hvað um það.
Askurinn fékk stað þar sem lóðarhönnunin fyrir um 35 árum gerði ráð fyrir bílastæði. Jarðvegurinn þarna er ansi rýr og því hef ég sett á hann rotmassa á hverju vori, í þeirri von að hann myndi lifa þetta af. Það leit nú ekkert sérstaklega vel út til að byrja með; þetta var bara eins og lítið bambusprik sem stóð þarna upp í loftið. Þannig var þetta í allmörg ár: þegar laufin voru fallin á haustin, stóð bara þetta prik eftir og ég átti ekkert frekar von á að eitthvað gerðist vorið eftir. En, alltaf hef ég getað glaðst yfir bólgnandi bruminu á vorin og nú er ég farinn að sjá aukinn vaxtarhraða. Á þessu sumri sýnist mér hann hafa bætt við sig einum 30 cm.

Þarna stendur Askurinn, eða "þessi askur þinn" nú í haustlitunum og bíður vatrarins. Hægt og rólega hafa blöð hans tekið á sig þennan fagurgula haustlit og hann hefur lofað að lifna á ný næsta vor, en hann hefur í það minnsta gefið það í skyn með því að takast á við lífið af einstakri yfirvegum hingað til.

Nú fer að koma sá tími að ég get ekki lengur fjarlægt bévítans maðkinn sem sækir dálítið á hann og er þessvegna byrjaður að upphugsa aðferðir til að halda honum frá í framtíðinni. Eitt af því sem mér hefur dottið í huga er að setja límborða á stofninn á hverju vori, eins og ég hef sé gert í útlöndum, en ekki veit ég hvor það gæti orðið til að fæla frá ormaskrattana sem sækja á íslensk tré.

Askurinn er að verða dálítill fasti í tilverunni og einn þeirra þátta sem valda því að ég er hikandi við að horfa í aðrar áttir með búsetu. Ég vildi gjarnan geta fylgst með framgangi hans næstu áratugina, en það verður víst að verða sem verða vill.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...