Sýni færslur raðaðar eftir dagsetningu með efnisorðinu hjúkrunarheimili. Raða eftir vægi Sýna allar færslur
Sýni færslur raðaðar eftir dagsetningu með efnisorðinu hjúkrunarheimili. Raða eftir vægi Sýna allar færslur

04 mars, 2014

Sólsetur í uppsveitum (2)

Þetta er framhald af þessum pistli.

Það er aðrir færari en ég til að reikna út hver þörfin er fyrir dvalar- og hjúkrunarheimili í uppsveitum Árnessýslu, en Ríkisendurskoðun vann skýrslu um þessi mál 2012 og þar kemur fram að fjölda dvalarrýma á Suðurlandi fækkaði um 43% á milli áranna 2006 og 2011. Það blasir síðan við að öldruðum mun fjölga mjög á næstu árum. Þetta er orðið áhyggjuefni, ekki síst hjá fólki á mínum aldri, tilheyrandi einhverri fjölmennustu kynslóð sem gist hefur þessa jörð: barnasprengukynslóðinni eftir seinni heimsstyrjöld.

Hvað um það, eins og fram kom hjá mér í fyrsta hluta þessara skrifa þá voru íbúar í uppsveitum, sem voru 70 ára og eldri þann fyrsta janúar í fyrra, 294. Á Suðurlandi öllu voru 2011 41.5 dvalarrými á hverja 1000 aldraða (67 ára og eldri). Þá hafði dvalarrýmum fækkað um 43% á 5 árum, en íbúum sem voru 67 ára eða eldri hafði fjölgað um 16% á sama tíma.

Ég ætla ekkert að rökstyðja það frekar, en mér sýnist mikil þörf vera á að byggja upp dvalarheimili fyrir aldraða, í einhverri mynd á þessu svæði okkar. Verkefni af þessu tagi þarf að fara að ræða af fullri alvöru, en mér vitanlega hafa umræður um stofnun af þessu tagi ekki verið fyrirferðarmikil allt frá því horfið var frá íbúðunum sem til stóð að byggja í Laugarási fyrir um 20 árum.

Það er sjálfsagt ýmislegt sem stendur í veginum fyrir því að samfélag sem telur tæplega 3000 íbúa treystir sér ekki til að ráðast í verkið. Ég ætla að vona að stærsta ástæðan sé tregða af hálfu ríkisins, en ég hef séð  (bygging hjúkrunarheimilis í Kópavogi 2010) að hlutur ríkisins í byggingakostnaði sé 85% en hlutur viðkomandi sveitarfélags/sveitarfélaga 15%.
Ef ástæður fyrir því að ekki er unnið að þessum málum er áhugaleysi meðal sveitarfélaganna í uppsveitum þá er það eitthvað sem mikilvægt er að vinna í.

Ég hef fullan skilning á því, að hvert sveitarfélaganna fjögurra í uppsveitum fyrir sig, vilji helst fá dvalar og hjúkrunarheimili sem næst sér, á Flúðum, í Brautarholti eða Árnesi, á Borg eða á Laugarvatni eða í Reykholti. Það verður hinsvegar að byrja á því að meta hvort slíkt er mögulegt. Augljóslega væri það ekki svo, nema eitthvert sveitarfélaganna hreinlega næði verkefninu til sín á meðan hin fengju það ekki.
Það er aðeins einn staður í uppsveitum sem ætti að geta verið nauðsynleg málamiðlun, en það er Laugarás og ástæður þess eru þessar helstar:

a. Sveitarfélögin eiga Laugarásjörðina saman.
b. Heilsugæslustöð fyrir uppsveitirnar er í Laugarási.
c. Það eru til góðar lóðir undir þessa starfsemi í Laugarási.
d. Frá þrem þorpum í uppsveitum er jafn langt í Laugarás, um það bil 25 km. Frá öðrum styttra.

Ef fólk er tilbúið að sættast á það, að besti kosturinn, dvalarrými fyrir aldraða í eigin þéttbýliskjarna, sé ekki raunhæfur, þá verður varla framhjá því litið að Laugarás er sá kostur sem næstur hlýtur að koma.

Ef mönnum (sveitarstjórnarmönnum og þeim sem um véla eða vilja hafa á þessu skoðanir) líst ekki á að byggja upp dvalar- og hjúkrunarheimili í Laugarási, þá langar mig afskaplega mikið að heyra helstu ástæður fyrir því.  Mér finnst alveg kominn tími til, með stórbættum samgöngum, að sveitarfélög í uppsveitum sameininst aftur um að tiltekin grunnþjónusta, sem hvert þeirra fyrir sig á erfitt með að standa undir, verði sett í Laugarás.

Auk þessa legg ég til að sveitarfélög í uppsveitum Árnessýslu sameinist. Það er löngu tímabært.

01 mars, 2014

Sólsetur í uppsveitum (1)


Svokallaðar uppsveitir Árnessýslu telja 4 sveitarfélög: Hrunamannahrepp með 784 íbúa þann 1. janúar 2013, Skeiða- og Gnúpverjahrepp með 504 íbúa, Bláskógabyggð með 897 íbúa og Grímsnes- og Grafningshrepp með 422 íbúa.  Þetta þýðir að þann 1. janúar 2013 var heildarfjöldi íbúa í uppsveitum 2607. Af þessum 2607 voru 514 60 ára eða eldri, 270 karlar og 244 konur.  239 voru 70 ára eða eldri.  Það er auðvitað alltaf hægt að leika sér með tölur  og velta fyrir sér hver fjöldi þeirra sem verður á eftirlaunaaldri verður eftir 10 ár. Það ætla ég ekki að gera og tel að þær tölur sem ég hef nefnt hér gefi nokkuð skýra vísbendingu um þann fjölda sem verður á þeim aldri, á hverjum tíma, sem þeir þurfa að huga að einhverjum úrræðum vegna síðustu ára sinna í jarðlífinu.
Fyrir þá 239 sem voru 70 ára eða eldri þann 1. janúar 2013 sýnist mér að þessi úrræði séu fyrir hendi þegar að þeim tíma kemur, að fólk þarf meiri þjónustu vegna aldurs:

Bláskógabyggð:  12 íbúðir (4 á Laugarvatni og 8 í Reykholti).
Hrunamannahreppur: 6 íbúðir
Skeiða- og Gnúpverjahreppur:  4 hjúkrunarrými og 8 dvalarrými.

Þegar þetta allt er talið saman sé ég ekki betur en það sé pláss fyrir, að hámarki (miðað við að 2 séu hverri íbúð, sem ekki er endilega raunin) 44 einstaklinga sem ekki þurfa á stöðugri hjúkrun eða umönnun að halda og 4 sem þurfa að njóta stöðugrar hjúkrunar.  Þar með eiga 48 einstaklingar, að hámarki, kost á þjónustu í til þess ætluðu húsnæði.

Sem betur fer eiga margir þess kost að dvelja heima hjá sér æviloka, annað hvort vegna þess að þeir halda góðri heilsu til síðasta dags, eða þá að þeir eiga kost á umönnun fjölskyldu sinnar og/eða starfsmanna á vegum velferðarþjónustu.  Aðrir eiga það ekki.
Íbúar uppsveitanna sem þurfa meiri þjónustu en hægt er að veita heima við, þurfa nú margir að flytja á dvalar- eða hjúkrunarheimili utan síns heimasvæðis. Þar getur verið um að ræða Selfoss, Hveragerði, Stokkseyri, Eyrarbakka, Hellu, Hvolsvöll og jafnvel Vík eða Kirkjubæjarklaustur.

Fyrir nokkru skrifaði ég pistla hér og hér þar sem ég benti á fyrrverandi sláturhúsið í Laugarási sem heppilegan stað til að setja á stofn heimili af þessu tagi. Ég ætla svo sem ekki að endurtaka þá pistla hér, heldur halda aðeins áfram með málið, en ég hef engin viðbrögð fengið við þegar skrifuðum pistlum, enda kannski ekki von með þann fjölda lesenda sem ég hef hér.

Það svæði sem er skyggt með rauðu er umrætt land. það hallar lítillega í átt að Hvítá og við blasir Hvítárbrúin, Vörðufell, Hestfjall og jafnvel Ingólfsfjall. Í nokkurra metra fjarlægð er síðan Heilsugæslustöðin. Mér finnst að það sé alveg kominn tími til að hreyfa aftur við hugmyndum um einhverskonar dvalarheimili fyrir aldraða í Laugarási. Slíkar hugmyndir voru langt komnar um miðjan 10. áratuginn: búið að teikna byggingar, skipuleggja svæði og byggja sýningarhús, sem nú stendur í Vesturbyggð 4. Ég veit ekki nákvæmlega á hverju steytti þá, en tal að þar hafi sundurlyndisfjandinn verið á ferð.  Nú sjá menn hverju hann fær áorkað. Lítið hefur þokast í þessum málum hér í uppsveitum síðan.
Hér til vinstri er úrklippa úr Litla-Bergþór frá 1994 þar sem fjallað var um  þjónustuíbúaðakjarnann sem fyrirhugaður var. Vissulega voru þarna á ferð aðrar hugmyndir en ég er að ræða hér, en einhver stærstu rökin sem fram voru færð snérust um nálægðina við heilsugæsluna.
Íbúðakjarnanum var ætlaður staður þar sem RKÍ rak sumardvalarheimili fyrir börn á sjötta og sjöunda áratugnum. Hér til hægri má sjá loftmynd þar sem heimilið er merkt með rauðu, þjóðvegurinn með gulu og Hvítá með ljósbláu.




Hér til vinstri er það land sem RKÍ hafði fyrir barnaheimilið. Það er í skjólgóðri kvos með afar gott útsýni yfir Hvítá í átt að Vörðufelli, Hestfjalli og fleiri fjöllum í fjarska. Fyrir framan þetta land er Dýragarðurinn Slakki, þar sem er líf og fjör.

Þriðji möguleikinn á lóð fyrir dvalar- og hjúkrunarheimili í Laugarási er að finna fyrir norðan heilsugæslustöðina. Ég sýni það á myndinni hér til hægri..

Svo held ég áfram næst.








12 mars, 2013

Ég lýsi áhyggjum mínum

Ég lýsti fyrir nokkru þeirri skoðun minni hér í þessum tiltölulega áhrifalitla miðli mínum, að það væri sannarlega vel athugandi að breyta sláturhúsinu hér í Laugarási í dvalar- og hjúkrunarheimili. Viðbrögðin eru kannski að gerjast ennþá, en þau hafa nú ekki verið neitt yfirþyrmandi, eftir því sem ég veit best.
Þessa skoðun mína lét ég ekki í ljós að ástæðulausu:
Í fyrsta lagi er hér hin ágætasta heilsugæslustöð sem má alveg við því að eflast enn meir og skapa enn fleiri störf.
Í öðru lagi er varla hægt að ímynda sér fegurri stað fyrir starfsemi af þessu tagi með útsýni yfir Hvítá og glæsilega hengibrúna, svo ekki sé nú minnst á Vörðufell.
Í þriðja lagi vegna þess að það styttist í að stór hópur fólks hér í uppsveitum þurfi að fara að huga að sólarlagsárunum.
Í fjórða lagi stefnir í að stór hluti þessa fólks þurfi ekki að flytjast nema nokkur hundruð metra þegar þar að kemur. Þannig er því nefnilega háttað, að íbúar hér í Laugarási gera orðið fátt nema eldast og hafa flestir misst getuna til að skapa nýtt líf með beinum hætti (utan auðvitað að sá fyrir grænmeti og blómum). Líf þeirra snýst æ meir um að njóta friðsældarinnar sem fylgir vaxandi aldri. Vissulega gefst þeim færi, flestum, á að umgangast ungviðið sem börnin þeirra færa þeim í sívaxandi mæli, en svo er hinsvegar í pottinn búið að þessi börn með barnabörnin virðast ekki sjá framtíð sína fyrir hugskotssjónum hér, væntanlega vegna þess að ekki er á vísan að róa með örugga atvinnu sem gefur af sér viðunandi laun - í það minnsta er ástæðan örugglega ekki eitthvert óhrjálegt þorpskríli, því slíku er hreint ekki til að dreifa, þvert á móti er vandfundinn hlýlegri og vinalegri staður en "Þorpið í skóginum".

Lausleg skoðun mín, sem stenst vonandi skoðun, hefur leitt í ljós að yngsta barnið í Laugarási er að verða 13 ára. Ég hef látið hugann reika á bæina sem hér er að finna (ef vel er að gáð) og sé fyrir mér að stærstum hluta íbúa á sextugs eða sjötugs aldri, jafnvel þaðan af eldri. Eftir 10-20 ár verður allt þetta fólk komið á dvalarheimilisaldur, ef því endist aldur.

Sjálfsagt eru margar ástæður fyrir þessari íbúaþróun og ég get haft mínar skoðanir á því. Þar vil ég auðvitað t.d. nefna, að hér er ekki grunn- eða leikskóli, sem er ekki augljós skýring þar sem samskonar íbúaþróun virðist eiga sér stað í Laugardalnum. Þá dettur mér í hug ástæða, sem ég hef nefnt áður og lýtur að meðvitaðri eða ómeðvitaðri stefnumörkun sveitarfélagsins Bláskógabyggðar eftir sameininu hreppanna þriggja ssem mynda sveitarfélagið. Það virðist jafnvel enn vera svo, að þar á bæ sé mikið lagt upp úr því, til að halda bæði Tungnamönnum og Laugdælingum í góðum fíling (afsakið orðskrípið); að tryggja að hvorki Laugarvatn né Reykholt missi spón úr aski. Á niðurskurðartímum má því ímynda sér að hagur Laugaráss hafi verið fyrir borð borinn. Ekki ætla ég sveitarstjórnarmönnum að ástunda slíkt viljandi, en ég fæ ekki varist þeirri hugsun að þetta hafi verið að gerast, í það minnsta ómeðvitað. Ég vona að einhverjir séu tilbúnir að mótmæla þessari skoðun kröftuglega.

Það sem hefur verið að gerast nýtt í Laugarási á undanförnum árum, fyrir utan frábært starf á nokkrum garðyrkjustöðvum við að þróa áfram og efla sig og garðyrkjuna, er uppbygging sumarhúsa. Á því hefur þó orðið hlé frá hruni en fyrir það var varla selt hérna neitt nema til vel stæðra einstaklinga sem voru að kaupa sér sumarhús. Þetta er allt hið ágætasta fólk, en mér er til efs að það efli byggðina og skjóti einhverjum rótum hér þannig að lífvænlegra teljist fyrir fólk sem sækist eftir að flytja hingað til að finna lífsviðurværi.

Ég á eftir að nefna eina hugmynd í málefnum Laugaráss, en hún er einfaldlega sú, að núverandi íbúar haldi bara áfram að búa í húsunum sínum, en sláturhúsinu verði breytt í stúdíóíbúðir fyrir umönnunaraðila, sem færu síðan á milli íbúanna og sinntu vaxandi þörf þeirra fyrir þjónustu.

Jamm, þetta var svona hugmynd.


23 janúar, 2013

Eldri borgara í sláturhúsið

Ætli ég verði ekki að biðjast velvirðingar á svo skelfilegri fyrirsögn, en mér fannst bara að hún hlyti að vekja nokkra athygli, enda er hún alveg sannleikanum samkvæm ef það er lesið sem á eftir kemur.

Ég hef áður fjallað um hótelabæinn Laugarás, en hér hefur verið starfrækt hótel með þrem mismunandi nöfnum frá því sláturhúsið var selt fyrir allmörgum árum. Hér var fyrst Hótel Iðufell en við af því tók Hótel Hvítá og s.l. sumar kallaðist það Hótel Laugarás.

Ekki veit ég það fyrir víst, en mér skilst að banki eigi nú þetta stóra hús sem stendur á bakka Hvítár, rétt fyrir neðan glæsilega Hvítárbrúna. Þetta hús er nú, að því er virðist, yfirgefið. Á hressingargöngu okkar fD um helgina síðustu létum við verða af því að láta gönguleiðina liggja um hlaðið á sláturhúsinu (það hefur aldrei verið kallað annað hér í Laugarási). Við létum meira að segja verða af því að leggja andlit að rúðu hér og þar.

Í þann mund er athugun okkar á aðstæðum lauk, smellti fD fram þeirri hugmynd þarna væri kjörinn staður til að koma upp dvalar- og hjúkrunarheimili. Auðvitað er það hárrétt athugað. Húsnæðið er tilbúið að hluta til og enginn vafi á að þarna væri að að útbúa ágætan stað til að eyða síðustu æviárunum. Þar fyrir utan myndi starfsemi af þessu tagi styrkja mög heilsugæslustöðina sem er í 500 metra fjarlægð, svo ekki sé nú talað um þorpið sjá´lft, sem sannarlega veitir ekki af að fara að þróast áfram.

Ætli séu ekki eitthvað um 15-20 ár síðan hrepparnir sem stóðu að Laugaráslæknishéraði fóru af stað með metnaðarfullar hugmyndir um byggð fyrir eldri borgara á svipuðum slóðum og barnaheimili Rauða krossins stóð á sínum tíma. Þessar hugmyndir voru komnar svo langt, að það var búið að byggja sýningarhús. Samstaðan um verkefnið brast og ekkert varð úr þessu, því miður.

Ég beini því hér með til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og sveitarfélaganna í uppsveitum Árnessýslu, að þessir aðilar sameinist um að húsið verði keypt og það síðan aðlagað að þörfum dvalar- og hjúkrunarheimilis fyrir aldraða.

Auðvitað hangir fleira á spýtunni og það lýtur ekki síst að því hve nærri mér sjálfum pælingar um heimili af þessu tagi eru nú. Fyrir utan gamla unglinginn hann föður minn, þá veit ég um fjölmarga eldri borgara af svæðinu hér í kring sem hafa þurft að flytjast á Selfoss, Stokkseyri, Hveragerði eða Hellu þegar sá tími hefur komið. Það hjúkrunarheimili sem mér vitanlega starfar nú í uppsveitunum er á Blesastöðum, en það hýsir fremur fáa einstaklinga, að mér skilst.
Þar fyrir utan lít ég auðvitað svo á að ekki sé ráð nema í tíma tekið með mig, kominn á þennan aldur.

Ég skal styðja við að þessi hugmynd fái framgang, eins og mér er unnt.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...