28 ágúst, 2011

Menningarstarf á fésbók.

Kannski er ég hrokafullur (já, örugglega), en þá verður bara að hafa það, en:
Hvert er markmiðið með svona  "könnun"?
Hvað fær fólk til að taka þátt svona "könnun"?
Hvað verður um niðurstöðurnar úr svona "könnun"?

Svar þátttakenda við þessum surningum yrði líklega:
"Ef þú þolir þetta ekki, hvað ertu þá að þvælast hingað. Fésbókin er vettvangur fyrir fólk eins og okkur. Við eigum líka rétt á að lifa og tjá okkur!"

Þá myndi ég auðvitað segja:
"Mikið rétt, ég skil ekkert í sjálfum mér."

Og þar með myndum við öll halda áfram í ólíkar, en samt svipaðar áttir. 

Svona er nýjasta dæmið um svona könnun:

Hvaða ráðherra myndir þú kjósa að færi frá strax.


Öll ríkisstjórnin
        Jón Bjarnason
        Steingrímur Jóhann Sigfússon

        Jóhanna Sigurðardóttir 
Svandís Svavars 
Djöfull er þessi könnun vangefinn. 
Össur Kína og ESB lover 
Leggja niður ríkisvaldið. 
Nei hættu nú alveg, ekki þetta Davíð 
út með alla þingmenn og banna þá og þeirra fjölskyldur á þing! 
Pétur Jóhann Sigfússon 
Lára Davíð "Seðlabankastút" Oddson taka við sem einræðisherra 
Burt með alla komma og ESB-sinna 
I couldnt care less 
Út með það gamla, ekkert nýtt inn í staðinn. 
Stútum þeim öllum 
Engin þeirra allir mjög góðir. 
Nobody 
Guðmundur Steingrímsson 
Hitler gerði ein stór mistök!! hann átti að útrýma kommum en ekki gyðingum :) 
Árni Brynjólfur
öll ofangreind 
Pabbi Völu Grand 
Enginn skoðunn

Nú er ekkert að gera nema merkja við í samræmi við skoðun sína, nú eða bara bæta við valmöguleika. Sérlega þægilegt og gefandi.

Hvað leynist bak við orðin?

Til að leiðrétta þann mögulega misskilning á ástandi mínu og stöðu almennt, sem komið hefur fram í framhaldi af því sem ég skráði hér, lýsi ég því yfir að ég er í aldeilis ágætis ámigkomulagi og ekkert það hefur gerst í mínu lífi sem gefur tilefni til að hafa áhyggjur af mér á einn eða neinn hátt. Þvert á móti dunda ég mér við það þetta haustið, að njóta lífsins á besta stað á Íslandi í frítíma mínum, sinna áhugaverðri vinnunni minni með mörgu ágætis fólki, bíða þess að þriðja barnabarnið skelli sér í heiminn, kynna mér nýju, fínu linsuna, sem ég var að fjárfesta í og svo framvegis.

Ég get lofað fólki því, að ef eitthvað skyldi verða raunverulega að hjá mér þá mun ég ekki einu sinni ýja að því á þessum síðum, enda þær ekki ætlaðar til slíks af minni hálfu.

Auðvitað þakka ég þeim sem hafa áhyggjur af velferð minni, en biðst um leið afsökunar á að hafa ekki talað nægilega skýrst á áðurnefndum  texta, en ég hef nú þann háttinn á þegar ég sest við þessa iðju, að segja hlutina ekki alltaf hreint út, heldur oft með talsvert óbeinum og dulúðugum hætti til þess að lesendur fái tækifæri til að rýna á milli línanna, sem er góður siður.

Svo er það.
Síðan er haldið áfram.

27 ágúst, 2011

Canon EF 4,0-5,6/70-300 L IS USM

... er mín.
Heimur í hundsauga.

Nú hefst tímabil þar sem henni verður beitt af krafti.

Maður er nú stundum sérstakur.

21 ágúst, 2011

Þar sem skil verða í framrás tímans

Mín eigin krækiber
Það er haustáferð á þessum sólríka sunnudegi.
Svöl lognkyrrðin ilmar af fullþroskuðum afurðum sumarsins.
Ég fylgdi fD í berjamó í gær, ekki til að fara að handtína bláber eins og hún, heldur til að tínutína krækiber með það að markmiði að borða þau bara algerlega óunnin.
Ber ku vera holl.
Ég er í hollustunni núna.
Reykurinn liðast ekki lengur upp af pallinum með reglulegu millibili.
Kröftugar gönguferðir eða golfæfingar orðnar dagleg iðja.
Brjáluðum lyfjakúr er nýlokið.

Það urðu nokkur tímamót í vor þegar mér settur stóll fyrir dyr í vissum skilningi.
Nei, ég var ekkert á útleið - fjarri því. Það þurfti bara að tryggja enn betur, nauðsynlegt langlífi mitt.
Því skellti ég mér í hollustuna.
Mér hefur nú alltaf fundist hún fremur óáhugaverð; ekkert nema einhver sjálfspynding.
Ekki það að mér hafi ekki fundist fólkið í hollustunni líta vel út - þvert á móti. Mér hefur bara fundist hún snúast of oft um einhvers konar trúaratriði. Ofsatrúað fólk hugnast mér ekki. Mér finnst meðalhófið vera best þegar upp er staðið.
Hvaða gagn og gaman er í lífi sem gengur út á það að neita sér um allt sem hugurinn girnist og gott þykir?
Mannskepnan dvelur örskotsstund úr eilífðinni sem ógnarsmátt sandkorn á þessu leiksviði sem jarðvistin er.
Argast þarna og þvargast eins og hún skipti einhverju máli.
Hverfur síðan.

Það er rétt, að með hollum lífsháttum líður manni betur, en það má samt ekki líta framhjá því að ýmislegt það sem óhollt er, kryddar lífið og gerir það í mörgum tilvikum, þess virði að standa í að lifa því.

Hóf er best í öllu.

Það eru nokkur tímamót núna - um tíma í það minnsta.
Í fyrsta sinn frá því ég hóf ævistarfið af fullum þunga árið 1979 (hafði reyndar þar áður sinnt slíku starfi veturinn 1974-75) mun ég ekki leiðsegja æskufólki um dýrðarveröld enskrar tungu á komandi vetri. Þessi tímamót kalla fram blendnar pælingar, allt frá hugsuninni: "Jæja, er þetta þá bara búið?" - upp í : "Úff hvað ég er feginn. Þau skilja mig ekki lengur hvort sem er - og ég ekki þau."  Formlega er framhald þessa máls í vinnslu og aðeins um að ræða hlé á þessum hluta starfsins.
Nokkur tilhlökkun gerir vart við sig. Hvernig verður lífið án þessa vettvangs til að láta ljós sitt skína?

Fínt er.

14 ágúst, 2011

Hlutlaus frásögn af flugferð

Það er miðvikudagsmorgunn, 3. ágúst 2011. Klukkan er rétt rúmlega átta að morgni í rananum á Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þarna ganga þau fD og hP með handfarangur sinn sem leið liggur út að hliði 15 þar sem þeirra bíður flugvél á vegum IE, sem er 'on time' eins og það heitir á flugmáli, og sem á að hefja sig á loft kl. 08:40 frá Keflavík og lenda í Kaupmannahöfn kl. 13:40 að staðartíma. Þau fD og hP eiga síðan tengiflug með Norwegian flugfélaginu sem fer frá Kaupmannahöfn kl 15:25 að staðartíma, til Álaborgar. Þarna er sem sagt klukkutími og fjörutíu og fimm mínútur milli þess sem vél IE á að lenda  og vél Norwegian á að taka á loft. Þá ber þess að geta að þar sem um innanlandsflug er að ræða, er frestur til innritunar þar til hálftíma fyrir flug.

Þetta eru aðstæðurnar miðað við að allt sé samkvæmt áætlunum.

Kl. 0825 - Farþegum er hleypt úr biðsal niður í annan biðsal. Fyrir utan stendur farkosturinn.
Kl. 0835 - Farþegar fá að ganga út í vélina (5 mín í áætlaðan brottfarartíma).
Kl. 0850 - Farþegar í stórum dráttum komnir í vélina - (fD og hP sitja þannig að þau heyra vel orðaskipti flugþjóna sín í milli.) Enn vantar 2-10 farþega - talningarmanneskjan var ekki viss, svo talning var framkvæmd aftur.
Kl. 0905 - Vel slompaður eldri karlmaður kemur í vélina. Annað gerist ekki.
Kl. 0925 - Flugstjóri tilkynnir að beðið sé eftir pappír vegna hleðslu vélarinnar og segir að þegar hann er kominn, sé ekkert að vanbúnaði að leggja í hann.
Kl. 0945 - Flugstjórinn tilkynnir að nú sé pappírinn að koma og það sé ekkert annað en skella sér í loftið. Maður kemur inn í vélina með pappír í hönd og fer fram í flugstjórnarklefann, síða út aftur. Vélinni er lokað. Ekkert frekar gerist.
Kl. 0955 - vélinni er ýtt frá flugstöðinni og er síðan ekið alllanga leið þar til tekið er á loft um kl 10:00. Í flugtaki tekur að leka vatn yfir hP þar sem hann situr og veltir fyrir sér hvernig bregðast skuli við þessari stöðu sem upp er komin. Bráðfyndinn flugþjónn segir að sturtan sé bara bónus.

Þetta ferli hafði það óhjákvæmilega í för mér sér að ekki er flogið frá Kaupmannahöfn kl 15:25, enda voru þau fD og hP þá að bíða eftir töskum á færibandi.
Álaborgarbúandi Kvisthyltingurinn fór í að breyta flugmiðum. Breytingin kostaði DKK1240, sem var þá  beint fjárhagslegt tap vegna seinkunar á brottför IE frá Keflavík.

Hér er auðvitað hægt að upphefja hávaða, en tilgangur með slíku væri fyrst og fremst að losa sig við einhverjar frústrasjónir - annað hefði það ekki í för með sér.
Það virðist ljóst að farþegar hjá IE eru búnir að aðlaga sig því að vélar þess fari bara einhverntíma af stað, sem er auðvitað erfitt fyrir þá sem kjósa að halda sig við þær tímasetningar sem farið er af stað með.

Flugið með Norwegian til og frá Álaborg var eins og best verður á kosið - tímasetningar stóðust og vélarnar voru nýjar og gott fótapláss. Ég get mælt með því flugfélagi.

27 júlí, 2011

Orð tvö

Ég skellti hér inn í gær lagi sem kom út í janúar árið 1968 (upplagt að smella og hlusta meðan lesið er), þegar ég var nýskriðinn yfir á fimmtánda árið - sem sagt á því aldursskeiði þar sem allt var að gerast, í það minnsta svona hið innra.

Þó ég hafi nú ekki verið neitt sérstaklega að gefa það út, að mér hafi fallið nokkuð vel við aðra tónlist en þá sem flutt var af hljómsveitum eins og Jethro Tull, Deep Purple, Cream, King Crimson eða Santana, á þessum tíma, þá er því ekki að neita að í mér var til og er kannski enn, strengur sem lætur hana sér vel líka.

Ástæða þess að ég skellti þessu þarna inn var það sem á undan er gengið og sem ég ætla ekkert að fjalla um. Í framhaldi af því er farið að glitta í löngu tímabæra umræðu um það hvernig þessi blessaða þjóð hefur verið að þróa samskiptahætti sína undanfarin ár.

Þó svo texti þessa lags hafi kannski ekki mikið beinlínis með það að gera, sem ég er að vísa til, þá fjallar hann um orð, en þau eru augljóslega talsvert mikilvægt þegar við menn eigum samskipti okkar í milli.

Ég lærði það, líklega á svipuðum tíma og Bee Gees voru að eyða gróðanum af laginu góða, að það skiptir máli hvernig maður tjáir sig. Hver sá sem setur eitthvað frá sér í með orðum, er jafnframt að senda út einhverja tiltekna mynd af sjálfum sér. Hér er afskaplega nýlegt dæmi um mann sem er að tjá sig í framhaldi af bloggskrifum:
Mig hefur oft langað að segja þér það og nota tækifærið núna.
Þú ert viðbjóðslegur aumingi sem bókstaflega allt hugsandi fólk getur ekki annað en fyrirlitið.
Ég vorkenni foreldrum þínum fyrir þau mistök að hafa ekki drekkt þér í fæðingu.
En foreldrar þínir stigu náttúrulega ekki í vitið heldur.
Einhverjir kunna nú að segja að hér sé bara um að ræða orð, og að ekkert sé meira um það að segja. Þó svo ég verði að viðurkenna (ég er bara í því að viðurkenna núna) að  orðbragð eins og þarna, er hætt að hafa nokkur áhrif á mig, þá er þarna ekki settur neinn fyrirvari um að hér sé á ferðinni grín, eða kaldhæðni, sem leiðir mann til að álykta sem svo að hér sé á ferðinni fúlasta alvara. Maður veltir fyrir sér hvort sá sem skrifar og bloggskrifarinn eigi einhverja sögu saman sem þarna er verið að gera upp. Hvað fær fólk til að senda texta af þessu tagi frá sér?  Ég, sem lesandi textans mynda mér óðara skoðanir á ýmsu í fari þess sem skrifar, t.d. :

a. Hér er ekki hamingjusamur einstaklingur á ferð.
b. Þessum einstaklingi get ég ekki tekið mark á.

Í raun og veru getur vel verið að allt sem maðurinn segir sé hægt að rökstyðja, þó svo draga megi það í efa, en skiptir það einhverju máli?

Látum vera munnsöfnuðinn sem tíðkast í opinberum skrifum fólks eins og hér fyrir ofan. Orð eru misdýr og skipta mismiklu máli. Þó við teljum okkur geta metið það hvenær orð skipta máli og hvenær ekki, þá er ekki víst að svo sé. Fyrirmyndir þeirra sem eru á svipuðum aldri og ég var þegar Bee Gees voru að græja lagið sitt, geta, með orðfæri sínu, hvort sem er í orði eða rituðu máli, valdið einhverju ófyrirséðu.
Mér er nú fokking sama. Hvern fjandann kemur mér það við? Drullastu til að skilja það, að ég segi það sem mér sýnist, hvernig sem mér sýnist og hvenær sem mér sýnist. It's a free country, you know!"
Ætli séu ekki tvær stéttir fólks sem bera hvað mesta ábyrð á þeirri umræðuhefð sem hér hefur þróast (fyrir utan auðvitað tækniþróunina): stjórnmálastéttin og fjölmiðlastéttin.

Það kann að vera að ég nenni að skoða það betur síðar. (Ég fokking díla við það þegar það passar mér)

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...