27 júlí, 2011

Orð tvö

Ég skellti hér inn í gær lagi sem kom út í janúar árið 1968 (upplagt að smella og hlusta meðan lesið er), þegar ég var nýskriðinn yfir á fimmtánda árið - sem sagt á því aldursskeiði þar sem allt var að gerast, í það minnsta svona hið innra.

Þó ég hafi nú ekki verið neitt sérstaklega að gefa það út, að mér hafi fallið nokkuð vel við aðra tónlist en þá sem flutt var af hljómsveitum eins og Jethro Tull, Deep Purple, Cream, King Crimson eða Santana, á þessum tíma, þá er því ekki að neita að í mér var til og er kannski enn, strengur sem lætur hana sér vel líka.

Ástæða þess að ég skellti þessu þarna inn var það sem á undan er gengið og sem ég ætla ekkert að fjalla um. Í framhaldi af því er farið að glitta í löngu tímabæra umræðu um það hvernig þessi blessaða þjóð hefur verið að þróa samskiptahætti sína undanfarin ár.

Þó svo texti þessa lags hafi kannski ekki mikið beinlínis með það að gera, sem ég er að vísa til, þá fjallar hann um orð, en þau eru augljóslega talsvert mikilvægt þegar við menn eigum samskipti okkar í milli.

Ég lærði það, líklega á svipuðum tíma og Bee Gees voru að eyða gróðanum af laginu góða, að það skiptir máli hvernig maður tjáir sig. Hver sá sem setur eitthvað frá sér í með orðum, er jafnframt að senda út einhverja tiltekna mynd af sjálfum sér. Hér er afskaplega nýlegt dæmi um mann sem er að tjá sig í framhaldi af bloggskrifum:
Mig hefur oft langað að segja þér það og nota tækifærið núna.
Þú ert viðbjóðslegur aumingi sem bókstaflega allt hugsandi fólk getur ekki annað en fyrirlitið.
Ég vorkenni foreldrum þínum fyrir þau mistök að hafa ekki drekkt þér í fæðingu.
En foreldrar þínir stigu náttúrulega ekki í vitið heldur.
Einhverjir kunna nú að segja að hér sé bara um að ræða orð, og að ekkert sé meira um það að segja. Þó svo ég verði að viðurkenna (ég er bara í því að viðurkenna núna) að  orðbragð eins og þarna, er hætt að hafa nokkur áhrif á mig, þá er þarna ekki settur neinn fyrirvari um að hér sé á ferðinni grín, eða kaldhæðni, sem leiðir mann til að álykta sem svo að hér sé á ferðinni fúlasta alvara. Maður veltir fyrir sér hvort sá sem skrifar og bloggskrifarinn eigi einhverja sögu saman sem þarna er verið að gera upp. Hvað fær fólk til að senda texta af þessu tagi frá sér?  Ég, sem lesandi textans mynda mér óðara skoðanir á ýmsu í fari þess sem skrifar, t.d. :

a. Hér er ekki hamingjusamur einstaklingur á ferð.
b. Þessum einstaklingi get ég ekki tekið mark á.

Í raun og veru getur vel verið að allt sem maðurinn segir sé hægt að rökstyðja, þó svo draga megi það í efa, en skiptir það einhverju máli?

Látum vera munnsöfnuðinn sem tíðkast í opinberum skrifum fólks eins og hér fyrir ofan. Orð eru misdýr og skipta mismiklu máli. Þó við teljum okkur geta metið það hvenær orð skipta máli og hvenær ekki, þá er ekki víst að svo sé. Fyrirmyndir þeirra sem eru á svipuðum aldri og ég var þegar Bee Gees voru að græja lagið sitt, geta, með orðfæri sínu, hvort sem er í orði eða rituðu máli, valdið einhverju ófyrirséðu.
Mér er nú fokking sama. Hvern fjandann kemur mér það við? Drullastu til að skilja það, að ég segi það sem mér sýnist, hvernig sem mér sýnist og hvenær sem mér sýnist. It's a free country, you know!"
Ætli séu ekki tvær stéttir fólks sem bera hvað mesta ábyrð á þeirri umræðuhefð sem hér hefur þróast (fyrir utan auðvitað tækniþróunina): stjórnmálastéttin og fjölmiðlastéttin.

Það kann að vera að ég nenni að skoða það betur síðar. (Ég fokking díla við það þegar það passar mér)

Engin ummæli:

(Ráð)villtur unglingur með bleika plötu

Sýnishorn af plötubunkanum Ég er sennilega einn þeirra sem aldrei náði þeirri stöðu á unglingsárum, að verða svokallaður töffari. Ég var...