10 september, 2011

Öskumistursferð

Nýja Hvítárbrúin séð frá Bræðratungukirkju (stækka? - smella)

Útsýnið vestur yfir er ekki amalegt
Fleiri myndir úr þessari laugardagsöskumistursbílferð

09 september, 2011

Rolla í laugvetnskum skógi

Tiltölulega andlitsfrítt lamb í laugvetnskum skógi.


Það er sannkölluð réttastemning á Laugarvatni á þessum haustmánuðum. Þegar ég kem í vinnuna á morgnana tekur yfirlætislaust og afslappað jarmið á móti mér, gamalærnar spásséra um hlöðin og garðana, gönguferð um skóginn vekur upp í manni hungrið í safaríkt lambakjöt.
Laugarvetningar eru löngu hættir að ergja sig á þessum heimalningum sínum, þeir líta svo á að hvert blómaker sem sleppur, sé sigur. Aðdáunarverður eiginleiki, þetta rólyndislega og jafnvel, á einhvern óútskýranlegan hátt, jákvæða viðhorf til fjárins, sem hefur tamið sér þetta sérstaka nábýli við íbúana.

Einn og einn heyri ég að vísu nefna það, að til þess að breyta stöðunni sé ekki um annað að ræða en skjóta bæði gamalærnar og lömbin. Það verði bara að drífa í því.

Svo er sagt að eigandinn hlæi bara að öllu saman - en það get ég ekki staðfest.
Posted by Picasa

06 september, 2011

Ætti ég að fá mér umboð fyrir hlauphellur?

Það hefur komið í ljós, að gúmmíhellurnar sem nú er nánast búið að þekja alla barnaleikvelli með, eru ekki jafn öruggar og af hefur verið látið. Ég get nefnt dæmi um að barn hafi dottið ofan úr rennibraut eins og sjá má má meðfylgjandi mynd, og fengið talsvert stóran rauðan blett á ennið.
Dæmi um hættulega rennibraut

Fyrir nú utan það, auðvitað, að svona rennibraut er stórhættuleg, það er hægt að finna þarna hengingarhættu, fallhættu, brothættu og hrunhættu án þess að leita lengi, þá er orðið nauðsynlegt að hyggja betur að undirlagi leikvalla.
Ég hef nú hafið leit að framleiðanda hlauphellna, sem þurfa að vera í það minnsta 15 cm þykkar. Ég tel að ég muni geta hagnast vel á innflutningi slíkra hellna í ljósi vaxandi meðvitundar foreldra um allar þær hættur sem liggja í leyni fyrir börnum þeirra, hvar sem þau stíga niður fæti eða eiga leið um.  Ennfremur tel ég að það geti orðið góður grundvöllur fyrir framleiðslu á 40cm háum rennibrautum með lyftu, enda eru tröppur upp í rennibrautir ávísun á fótbrot, handleggsbrot eða útbrot.

Það er okkar, foreldranna og fullorðna fólksins að tryggja að börnin okkar, börn samfélagsins, geti með engu móti átt það á hætti að skaðast þannig að gráti geti valdið. Það er ekki gott að meiða sig.
5 cm þykkar hlauphellur,
sem augljóslega duga ekki

(Ef einhver skyldi taka þetta ógurlega alvarlega þá þykir mér það leitt, en bendi á að þetta er sett fram í hálfkæringi og með fullri virðingu fyrir þeim sem hafa átt börn sem hafa slasast. Það breytir samt ekki þeirri skoðun minni, að börn eigi að / verði að læra að takast á við hættur í umhverfi sínu. Það verða alltaf hættur. Það verður að læra að þær eru fyrir hendi.)

04 september, 2011

Rollur á beit á menntaskólatúninu

Ég var á ferð með nýju linsuna mína í dag, en á hana hefur verið minnst lítillega áður.  Meðal annars stillti ég mér upp hjá Spóastöðum og smellti af mynd af Laugarvatni. Það var þá sem það rann upp fyrir mér hvílíkan grip ég er með á EOSnum :)

Hér er fyrst öll myndin:

Síðan er það klipptur bútur úr henni.


Valinn Valur - skúrir í grennd

Í ljósi umfjöllunar um val á leiksýningum taldi ég ekki óeðlilegt að halda sama þema þessu sinni.


Hér er á ferð umfjöllunarefni sem maður á ekkert sérstaklega auðvelt með að fara orðum um. Ég veit ekki hversvegna svo er, en valið stendur á milli þess að þegja og segja. Ég ætla að segja - líklega ekki margt þó.

Það liggur nú fyrir að talsverður meirihluti kjörmanna hefur valið nýjan vígslubiskup í Skálholt. Svo sem ekki margt um það að segja - þetta er sú aðferð sem notuð hefur verið við þetta kjör, þó mér finnist ekki óeðlilegt að þeir, sem játa þá trú sem þarna er um að ræða og sem eiga lögheimili í Skálholtsbiskupsdæmi, hafi rétt til að velja þennan svæðisbiskup. Það er ekki svo og því ekki ástæða til að eyða orðum að því frekar.

Allir vita nú um það öldurót sem kirkjan hefur verið að ganga í gegnum á undanförnum árum, færri (nema þeir sem hafa lesið þennan kima veraldarvefsins að staðaldri) við um það öldurót sem sem hefur farið fram í smærri skömmtum hér í uppsveitum, í nágrenni Skálholts. Ég ætla ekki að halda því fram það þar séu allir sáttir enn.

Þeir voru ekki fáir, sem óskuðu þess í aðdraganda þessa vígslubiskupskjörs, að nú myndi kirkjan sýna það áræði og sáttavilja, að fara nýjar leiðir. Það var fyrir hendi vonin um að kirkjan myndi gera sitt til að ná aftur takti við umhverfi sitt. Það gerði hún auðvitað ekki. Status quo þar á bæ.

Vissulega óska ég nýjum vígslubiskupi alls hins best í sínu starfi og hef ekki ástæðu til að draga í efa hæfni hans. Sannarlega hafði hann jafn mikinn rétt á að sækjast eftir embættinu og aðrir og er örugglega vel að því kominn. Ég er hinsvegar síður sáttur með það að kirkjan, sem ég hef ekki enn komið í verk að yfirgefa, af einhverjum undarlegum ástæðum, skuli ætla að halda áfram að loka sig af í  kirkjukimanum. Kimar eru til þess fallnir að draga úr færni til að sjá  heildarmyndina. Það er ekki síst þess vegna sem ég tel að hin ólýðræðislega aðferð við vígslubiskupskjör eigi að víkja.

Val og ekkival

"Veldu bara einhverjar," segir fD, eftir að hafa skrollað yfir upplýsingar um leiksýningar vetrarins í stærstu leikhúsunum tveim.

Menningarleysi, eða kannski skortur á athafnasemi þegar menningarneysla er annarsvegar, hefur verið eitt af áhyggjuefnunum á þessum bæ undanfarin ár. Því hefur sú hugmynd skotið upp höfðinu á hverju hausti, að fjárfesta í áskriftarkortum leikhúsanna. Aldrei hefur umræðan um slíka fjárfestingu komist lengra en á þessum morgni í upphafi september. Ég var nú áðan kominn inn á svæði þar sem lítið var annað að gera en smella á leikverk sem ég kysi að sjá. Ég gerði það ekki.

Það er sannarlega góð hugmynd (í ljósi þess hvernig ég er innréttaður) að fara að stunda menningarviðburði vegna þess að ég er búinn að borga fyrir. Auðvitað er það vitlaus forsenda fyrir slíku, en gæti orðið til þess að efla þennan tvímælaust mikilvæga þátt mennskunnar.

Hversvegna smellti ég ekki á leikverkin áðan?
Jú, fyrir því eru nokkrar ástæður, sem ég er staðráðinn í að líta framhjá þegar ég læta vaða í málið á eftir:
a. Hvort á ég að velja Borgarleikhúsið eða Þjóðleikhúsið? Hvaða fyrirframhugmyndir hef ég um þessar stofnanir? Finnst mér að Þjóðleikhúsið sé meira svona "mitt" leikhús, sem landsbyggðarmanns? Finns mér Borgarleikúsið kannski hafa fram að færa áhugaverðari sýninga svona heilt yfir? Er ég hreinlega fordómafulllur í garð annars hússins?

b. Það þarf að kaupa tvö kort og alltaf á sömu sýningarnar (ég sé okkur fD ekki fara að kaupa áskriftarkort á mismunandi sýningar). Í sambandi við það heyrði ég setninguna sem er hér efst. Ég veit nú alveg hvernig það verður - eða þykist vita það.
Ég smelli á einhverjar sýningar.
"Nú, valdirðu þessa? Mig langar nú eiginlega ekkert að sjá hana."
Kannski er ég að mála skrattann á vegginn, en maður þarf að hugsa hlutina til enda, þegar kemur að því að festa fé sitt í einhverju.

c. Reglurnar um kaup á þessum leikhúskortum hljóða upp á að maður þurfi að velja 4 sýningar af tilteknum lista. Þetta kallar auðvitað á rannsóknarvinnu af minni hálfu. Sum verkin er verið að sýna áfram frá fyrra leikári, önnur eru splunkuný. Það er komin tiltekin reynsla á þau fyrrnefndu - þau eru sýnd áfram vegna þess að þau voru sótt á síðasta vetri, hljóta þar með að vera nokkur góð. Þau síðarnefndu eru ný og ég hef ekkert nema það sem sagt er um þau í kynningarritum, en þar er eðlilega ekkert verið að draga úr hástemmdum lýsingarorðum um ágæti þessara verka. Kannski maður endi á einhverri blöndu, t.d. 2 ný og 2 sem eru í framhaldssýningu.

d. Það er þetta með sýningardaga. Við kaup á kortinu þarf ég að velja sýningarnúmer. Val af þessu tagi hlýtur nú að verða harla handahófskennt, enda liggja sýningardagar ekki fyrir og maður verður að fylgjast með hvenær viðkomandi sýningarnúmer verður á dagskrá og raða síðan lífi sínu umhverfis það. Vissulega er hægt, ef þannig stendur á, að finna nýjan dag með aðstoð miðasölunnar.

Það er að mörgu að hyggja ef maður ætlar í vegferð af þessu tagi.
Megi leikhúsárið verða gefandi og vel skipulagt.

02 september, 2011

Kvíði í haustóttum ramma

Það er nú aldeilis hreint ekki svo, að veturinn hafi einhver áhrif á það hvernig sálartetrinu vegnar. Hann er bara eitthvað sem skapar fjölbreytini í lífshlaupi manns þar sem áherslurnar breytast og margt er meira að segja talsvert skemmtilegra en það sem sumartíminn hefur í för með sér. Ó, nei. Það er ekki komandi vetur sem veldur fyhrirsögninni þessu sinni heldur sú staðreynd, að Hið háa Alþingi er að koma saman.

Ekki á ég von á að þar setjist menn niður, frekar en fyrri daginn, til að leiða þjóðina (sem er eins og hún er) fram á veg.

Ekki á ég von á að þar setji menn hagsmuni þjóðarinnar (sem er eins og hún er) ofar þrengri hagsmunum einhverra afla, eða sínum eigin.

Ekki á ég von á að sjá tvo stjórnmálamenn úr mismunandi stjórnmálaflokkum, setjast fyrir framan sjónvarpsvélarnar og ræða mismunandi leiðir og vera jafnvel sammála inn á milli.

Ekki á ég von á að fjölmiðlar hafi þroskast þannig, að þeir skoði mál ofan í kjölinn, leiti skýringa, velti upp flötum, efist jafnvel um að upphrópanirnar séu sannleikurinn einn.

---------

Mér á að finnast það óendanlega þægilegt að setjast niður fyrir framan sjónvarpið klukkan hálf sjö á kvöldin til að fylgjast með fyrstu sjónvarpsfréttunum, þar sem sagðar eru fréttir af því helsta sem er á seyði í samfélaginu. Mér á síðan að finnast það afskaplega mikið tilhlökkunarefni að skipta hálftíma síðar yfir á hinar sjónvarpsfréttirnar, sem eiga að segja fréttir af því helsta sem er á seyði í samfélaginu.

'Á seyði' er margt annað en rán, glæpir, ásakanir, hótanir eða annað það sem er til þess fallið að draga fólk niður. Ég vil líka fá upplýsingar um það sem er verið að gera sem er skynsamlegt og uppbyggilegt og kemur þjóðinni (sem er eins og hún er) til góða. Fréttir mega skilja eftir von í brjósti fólks. Von um að það sé ljós við enda ganganna.

Ég kvíði vetrinum vegna þess að ég á ekki von á öðru en bölmóðurinn haldi áfram með óendanlega mistækum fjölmiðlum og ótrúlega framsýnilausum stjórnmálamönnum.
Hér er dæmi um fréttir sem mega gjarnan hverfa.

Mánudagur - hádegi:
Formaður stóra flokksins, kallar ritara litla flokksins fífl.
Mánudagur - kvöld:
Ritari litla flokksins kallar formann stóra flokksins ótrúlegan hálfvita.
Þriðjudagur - morgunn:
Talsmaður undraflokksins tekur undir með ummælum ritara litlaflokksins um formann stóra flokksins og bætir því við að formaður stóra flokksins sé gerspilltur og geðvondur.
Og svo framvegis - nenni ekki lengra, en svo deyr fréttin vegna þess að hún var í rauninni ekki frétt, heldur aumkunarverð tilraun einstaklings, nú eða flokks, til að upphefja sig á kostnað einhvers annars - og vekja auðvitað jafnframt athygli á sér, því athygli fá menn ekki nema með sensasjón.

Önnur séría frétta, sem sannarlega er ekki til þess fallin að auka við bjartsýni og efla með þjóðinni (eins og hún nú er) baráttuþrek.
Sería af þessu tagi hefst með því að ráðherra greinir frá einhverju sem jákvætt getur talist á vegferðinni út úr kreppunni. Ég heyri þetta og verð bjartsýnni. Kaupi mér jafnvel linsu og efli þar með hagvöxtinn.

Það er varla að ég nái út í búð, hvað þá að mér takist að kaupa linsuna, áður en leiðtogi stjórnarandstöðuflokks kynnir til sögunnar allt aðra hlið á málinu, þar sem fyrir f´réttin er kölluð bull og vitleysa, sem samstundi dregur mann aftur niður í ólukkans bjartsýnisskortinn.

Ef ég ætti rödd sem næði eyrum þeirra sem véla um málefni þjóðarinnar, þá myndi ég vilja segja þeim að þjóðin (eins og hún nú er) er ekki eign einhvers flokks og enginn flokkur er þess umkominn að tala í nafni hennar. Þjóðin þarf hinsvegar á því að halda að sannfærast um að það sé lífvænlegt í þessu landi, það séu ekki allir að flytja til Noregs. Það sé hellingur að góðu fólki sem vinnur baki brotnu að því að efla og styrkja þær undirstöður sem kvarnaðist úr árið 2008.

Það er hinsvegar alveg ljóst, að það er nú að verða kominn tími á að þeir sem ábyrgðina báru, axli þá ábyrgð með réttu. Þá verður þjóðin (eins og hún nú er) sátt og skundar sennilega bara á Þingvöll og treystir ný heit.



Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...