04 september, 2011

Valinn Valur - skúrir í grennd

Í ljósi umfjöllunar um val á leiksýningum taldi ég ekki óeðlilegt að halda sama þema þessu sinni.


Hér er á ferð umfjöllunarefni sem maður á ekkert sérstaklega auðvelt með að fara orðum um. Ég veit ekki hversvegna svo er, en valið stendur á milli þess að þegja og segja. Ég ætla að segja - líklega ekki margt þó.

Það liggur nú fyrir að talsverður meirihluti kjörmanna hefur valið nýjan vígslubiskup í Skálholt. Svo sem ekki margt um það að segja - þetta er sú aðferð sem notuð hefur verið við þetta kjör, þó mér finnist ekki óeðlilegt að þeir, sem játa þá trú sem þarna er um að ræða og sem eiga lögheimili í Skálholtsbiskupsdæmi, hafi rétt til að velja þennan svæðisbiskup. Það er ekki svo og því ekki ástæða til að eyða orðum að því frekar.

Allir vita nú um það öldurót sem kirkjan hefur verið að ganga í gegnum á undanförnum árum, færri (nema þeir sem hafa lesið þennan kima veraldarvefsins að staðaldri) við um það öldurót sem sem hefur farið fram í smærri skömmtum hér í uppsveitum, í nágrenni Skálholts. Ég ætla ekki að halda því fram það þar séu allir sáttir enn.

Þeir voru ekki fáir, sem óskuðu þess í aðdraganda þessa vígslubiskupskjörs, að nú myndi kirkjan sýna það áræði og sáttavilja, að fara nýjar leiðir. Það var fyrir hendi vonin um að kirkjan myndi gera sitt til að ná aftur takti við umhverfi sitt. Það gerði hún auðvitað ekki. Status quo þar á bæ.

Vissulega óska ég nýjum vígslubiskupi alls hins best í sínu starfi og hef ekki ástæðu til að draga í efa hæfni hans. Sannarlega hafði hann jafn mikinn rétt á að sækjast eftir embættinu og aðrir og er örugglega vel að því kominn. Ég er hinsvegar síður sáttur með það að kirkjan, sem ég hef ekki enn komið í verk að yfirgefa, af einhverjum undarlegum ástæðum, skuli ætla að halda áfram að loka sig af í  kirkjukimanum. Kimar eru til þess fallnir að draga úr færni til að sjá  heildarmyndina. Það er ekki síst þess vegna sem ég tel að hin ólýðræðislega aðferð við vígslubiskupskjör eigi að víkja.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...