02 september, 2011

Kvíði í haustóttum ramma

Það er nú aldeilis hreint ekki svo, að veturinn hafi einhver áhrif á það hvernig sálartetrinu vegnar. Hann er bara eitthvað sem skapar fjölbreytini í lífshlaupi manns þar sem áherslurnar breytast og margt er meira að segja talsvert skemmtilegra en það sem sumartíminn hefur í för með sér. Ó, nei. Það er ekki komandi vetur sem veldur fyhrirsögninni þessu sinni heldur sú staðreynd, að Hið háa Alþingi er að koma saman.

Ekki á ég von á að þar setjist menn niður, frekar en fyrri daginn, til að leiða þjóðina (sem er eins og hún er) fram á veg.

Ekki á ég von á að þar setji menn hagsmuni þjóðarinnar (sem er eins og hún er) ofar þrengri hagsmunum einhverra afla, eða sínum eigin.

Ekki á ég von á að sjá tvo stjórnmálamenn úr mismunandi stjórnmálaflokkum, setjast fyrir framan sjónvarpsvélarnar og ræða mismunandi leiðir og vera jafnvel sammála inn á milli.

Ekki á ég von á að fjölmiðlar hafi þroskast þannig, að þeir skoði mál ofan í kjölinn, leiti skýringa, velti upp flötum, efist jafnvel um að upphrópanirnar séu sannleikurinn einn.

---------

Mér á að finnast það óendanlega þægilegt að setjast niður fyrir framan sjónvarpið klukkan hálf sjö á kvöldin til að fylgjast með fyrstu sjónvarpsfréttunum, þar sem sagðar eru fréttir af því helsta sem er á seyði í samfélaginu. Mér á síðan að finnast það afskaplega mikið tilhlökkunarefni að skipta hálftíma síðar yfir á hinar sjónvarpsfréttirnar, sem eiga að segja fréttir af því helsta sem er á seyði í samfélaginu.

'Á seyði' er margt annað en rán, glæpir, ásakanir, hótanir eða annað það sem er til þess fallið að draga fólk niður. Ég vil líka fá upplýsingar um það sem er verið að gera sem er skynsamlegt og uppbyggilegt og kemur þjóðinni (sem er eins og hún er) til góða. Fréttir mega skilja eftir von í brjósti fólks. Von um að það sé ljós við enda ganganna.

Ég kvíði vetrinum vegna þess að ég á ekki von á öðru en bölmóðurinn haldi áfram með óendanlega mistækum fjölmiðlum og ótrúlega framsýnilausum stjórnmálamönnum.
Hér er dæmi um fréttir sem mega gjarnan hverfa.

Mánudagur - hádegi:
Formaður stóra flokksins, kallar ritara litla flokksins fífl.
Mánudagur - kvöld:
Ritari litla flokksins kallar formann stóra flokksins ótrúlegan hálfvita.
Þriðjudagur - morgunn:
Talsmaður undraflokksins tekur undir með ummælum ritara litlaflokksins um formann stóra flokksins og bætir því við að formaður stóra flokksins sé gerspilltur og geðvondur.
Og svo framvegis - nenni ekki lengra, en svo deyr fréttin vegna þess að hún var í rauninni ekki frétt, heldur aumkunarverð tilraun einstaklings, nú eða flokks, til að upphefja sig á kostnað einhvers annars - og vekja auðvitað jafnframt athygli á sér, því athygli fá menn ekki nema með sensasjón.

Önnur séría frétta, sem sannarlega er ekki til þess fallin að auka við bjartsýni og efla með þjóðinni (eins og hún nú er) baráttuþrek.
Sería af þessu tagi hefst með því að ráðherra greinir frá einhverju sem jákvætt getur talist á vegferðinni út úr kreppunni. Ég heyri þetta og verð bjartsýnni. Kaupi mér jafnvel linsu og efli þar með hagvöxtinn.

Það er varla að ég nái út í búð, hvað þá að mér takist að kaupa linsuna, áður en leiðtogi stjórnarandstöðuflokks kynnir til sögunnar allt aðra hlið á málinu, þar sem fyrir f´réttin er kölluð bull og vitleysa, sem samstundi dregur mann aftur niður í ólukkans bjartsýnisskortinn.

Ef ég ætti rödd sem næði eyrum þeirra sem véla um málefni þjóðarinnar, þá myndi ég vilja segja þeim að þjóðin (eins og hún nú er) er ekki eign einhvers flokks og enginn flokkur er þess umkominn að tala í nafni hennar. Þjóðin þarf hinsvegar á því að halda að sannfærast um að það sé lífvænlegt í þessu landi, það séu ekki allir að flytja til Noregs. Það sé hellingur að góðu fólki sem vinnur baki brotnu að því að efla og styrkja þær undirstöður sem kvarnaðist úr árið 2008.

Það er hinsvegar alveg ljóst, að það er nú að verða kominn tími á að þeir sem ábyrgðina báru, axli þá ábyrgð með réttu. Þá verður þjóðin (eins og hún nú er) sátt og skundar sennilega bara á Þingvöll og treystir ný heit.



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...