30 desember, 2011

Ekki áramótaannáll - miklu meira


Ekki hef ég nennu til að fara að taka saman áramótaannál. Það væri sannarlega gaman, en það er hætt við að ég yrði of persónulegur og of pólitískur til að það gæti orðið læsilegt.

Ég vil í raun aðeins segja eitt þar sem stjórnmálin eru annarsvegar: megi stjórnmálamenn landsins öðlast þann þroska að þeim takist að horfa út fyrir hagsmuni flokka sinna eða sína eigin og til þjóðarinnar, handónýtu og sudurslitnu. Að þeir reyni síðan, þegar þeim áfanga er náð, að lesa í og greina það sem raunverulega hrjáir þjóðina og leiti síðan leiða til að bæta það sem er í þeirra valdi að bæta, t.d. bara með uppörvandi orðum, stuðningi við hvern annan og skilningi á þeim aðstæðum sem uppi eru.

Þar sem ég held að þetta muni ekki gerast, ætla ég ekki að fjalla um það frekar. Komi það sem koma vill.

Eftir því sem tíminn lengist, sem ég geng um þessa jörð, finnst mér að hæðir og lægðir nálgist æ meir. Þó auðsæld hafi verið minni áður fyrr, þá var þó það sem gerðist á þessum síðustu dögum desembermánaðar, ár hvert, einhhvern veginn þrungið spennu, hvort sem það var spennuþrungin biðin eftir að lyklinnum var snúið og dyrnar inn í stofu opnaðar að loknum veislumat á aðfangadaskvöld, eða biðin eftir að árið rynni sitt skeið á gamlárskvöld.

Ég tel mig vera búinn að greina tvær megin ástæður fyrir þessari breytingu:
a. Ég er orðinn eldri, reyndari, yfirvegaðri, rólegri, magnaðri, .... (svona get ég haldið lengi áfram)
b. Líf á Íslandi nútímans gengur út á að það eiga að vera jól, alltaf. Það eru epli allt árið, maður kaupir reykt svínakjöt til að snæða á miðvikudegi, maður fær sér það sem mann langar í þegar mann langar í það, lög unga fólksins voru einusinni í viku og ávallt tilhlökkunarefni, nú gengur fólk með þessi sömu lög unga fólksins í eyrunum nótt sem nýtan dag.
Líf okkar er orðið þannig að spennumómentin eru að hverfa, eitt af öðru - flest verður smám saman venjulegt.

Auðvitað eru margir þættir í lífi okkar sem er ekki hægt að gera hversdagslega. Þetta eru fyrst og fremst þættir sem teljast vera náttúrulegir og ekki er hægt að kaupa, t.d. þegar barn fæðist fæðist. Er það mögulegt að við, sem ráðum okkur varla fyrir taumlausri græðginni og gleypuganginum munum innan skamms finna leiðir til að fitla svo við náttúruna að margt það sem náttúrulegast getur talist, hverfi eins og lög unga fólksins, og verði bara minning hjá ríflega miðaldra körlum og konum.


29 desember, 2011

Capsicums

Tilbúið: char grilled capsicums au pms

Ég þekki ýmis nöfn á þessu fyrirbæri, en paprika er það sem notast er við hérlendis. Tegundarheitið á þessari venjulegu papriku mun vera Capsicum Annuum, en það munu vera til ríflega 30 afbrigði til innan þessarar ættar. Ég hafði, þar til í fyrradag, aldrei heyrt eða sé þetta nafn notað um papriku. Það er þessvegna sem ég fer aðeins yfir þetta.

Þetta átti nú ekki að vera neitt fræðilegt hjá mér, en er til komið vegna þess að ég hef tekið að mér að sjá um forrétt í hátíðarkvöldverði á gamlárskvöld - og raunar einnig stóran hluta aðalréttar einnig. Það er sem sagt mikið sem srtendur til hjá þessum manni.

Forrétturinn sem varð fyrir valinu er þessi: (fékk gagnrýni fyrir að birta ekki uppskriftina að Sörunum, svo ég klikka ekki á uppskriftaleysi aftur)
Ristaðar paprikur, ólífur og Mozzarella í kryddlegi
2 krukkur Char-Grilled Capsicums
60 gr. svartar ólífur
1 stk. (125 gr.) Mozzarella, skorin í teninga
1/4 bolli ólífuolía
1/4 bolli sítrónusafi
2 msk. fersk steinselja
1 tsk. ferskt oregano (eða 1/4 tsk. þurrkað)
1 tsk. ferskt basil (eða 1/4 tsk. þurrkað)
1/2 tsk. fersk salvía (eða 1/8 tsk. þurrkuð)
1/2 tsk. salt
1/8 tsk. pipar
2 hvítlauksrif, fínt söxuð
Setjið paprikurnar, ólífurnar og ostinn í skál. Setjið afganginn af innihaldinu í ílát með loki og hristið vel. Hellið innihaldinu síðan yfir paprikublönduna. Lokið skálinni og geymið í ísskáp í amk. 4 klst.; hrærið nokkrum sinnum í.
Ég fjölyrði ekki um það, en auðvitað fékkst ekki allt sem þarna er nefnt, í höfuðstað Suðurlands, nefnilega aðalatriðið: ristaðar paprikur (char grilled capsicums).
Ég var búinn að ákveða að hafa þennan forrétt og ég breyti ákvörðunum mínum ekki auðveldlega. Því var það að ég gúglaði char grilled capsicums og fann leiðbeiningar um hvernig maður útbýr slíkt. Að upplýsingum fengnum framkvæmdi ég þetta verk í dag. Í grunninn er hér um að ræða að skera papriku í hæfilega bita og skella undir grillið í eldavélinni. Þar er það látið vera uppundir 10 mínútur, eða þar til hýðið er farið að kolast. Allt gekk þetta vel, enda ekki von á öðru þar sem þarna var ég sjálfur á ferð. Reyndar var ekki til rauðvínsedik og ekki heldur venjulegt edik, en það var til rauðvín og það var til balsamik edik. Ég þoli afar illa að eiga ekki nákvæmlega það sem sagt er að eigi að vera í viðkomandi rétti og því var það ekki af fullkomlega fölskvalausri gleði sem ég lauk framkvæmdinni. Ég hef þó fulla trú á að hér sé á ferð forréttur eins og forréttir gerast bestir.

27 desember, 2011

Ég hef heyrt fólk efast

Í gær sáust skilaboð á samskiptasíðum frá fólki sem sat fast hér og þar. Þarna voru t.d. ein  frá manni sem tilkynnti að hann væri fenntur inni á Laugarvatni og öðrum sem var í sömu stöðu undir Eyjafjöllum.

Á sama tíma svifu glitrandi snjókornin úr loftinu yfir Laugarási og bættust við dúnmjóka mjöllina sem fyrir var. Hér er enginn  fenntur inni því hér ríkir lognkyrrðin ein.

Fleiri myndir

Bestu jólakveðjur til ykkar allra sem dveljið á lognminni stöðum. 

Að þessu búnu biðst ég afsökunar á svo ögrandi sendingu. :)

25 desember, 2011

Kórinn var eins og blikkljós

Og að morgni skuluð þér sjá dýrðina Drottins, segir í einum þeirra texta sem farið er með í messum á þessum tíma. Nú er þessi morgunn runninn upp. Reyndar er ekki farið að birta að einhverju ráði, en ljóst að enn gerist Laugarás indælli staður með því að bætt hefur aðeins á hvíta kápuna sem magnar jólastemninguna.

Sem sagt allt gott.

Í gærkvöld gerðist það fyrsta sinni í Kvistholti, að það var slökkt á aftansöng jóla. Ef einhverjum dettur í í hug að þar hafi verið um að kenna karlrembunni í mér þá er rétt að taka fram, að það var ekki ég sem slökkti, þó vissulega væri ég sammála aðgerðinni. Það var betri kostur, messan sem var send út frá Grafarvogskirkju. Ég útskýri ástæður aðgerðarinnar ekki frekar. Það gengi of nálægt persónum.

Messur eiga að vera þess eðlis að maður velti fyrir sé innihaldi og tilgangi jólahátíðarinnar, fremur en forminu og framgöngu "leikaranna". Hlutverk þeirra eru sannarlega vandmeðfarin.

Jæja, svo var eftir, aftansöngur í Dómkirkjunni klukkan 22.00. Þarna var um að ræða síðasta aftansöng af þessu tagi þessa hjá núverandi biskupi.

Ég verð að viðurkenna að allt innihald þessa aftansöngs vék, í mínum huga, fyrir tvennu: 

Annarsvegar beindi biskupinn máli sínu hreint ekki til söfnuðarins í predíkun sinni, sem er grundvallarfeill. Auðvitað vissi ég, sem hef tekið þátt ú upptöku á svona aftansöng, að það er enginn í kirkjunni þegar prédikunin er tekin upp, en þeir sem heima sitja eiga að hafa það á tilfinningunni að í Dómkirkjunni, á Aðfangadagskvöldi, sitji fólk og hlusti á biskup sinn. Þannig, eins og hver maður getur séð, verður þetta allt trúverðugra. Þarna hefði átt að skella eins og þrem, fjórum hér og þar í kirkjunni og láta biskup tala til þeirra, í stað þess að horfa inn í myndavélagraugað, hálf hvíslandi og sendandi frá sér þau skilaboð að fólkið í kirkjunni, fyrir framan hann, skipti hann hreint engu máli.

Hinsvegar var klippinginn á þessum aftansöng einstaklega mikil hrákasmíð, eða þá kannski upptökustjórnin. Í því sambandi nefni ég tvö dæmi:
- Aðalkórinn er að syngja. Þegar tvö erindi eru eftir af sálminum heldur biskup af stað frá altarinu sem leið liggur í predikunarstólinn. Í Dómkirkjunni er gengið upp tröppur bakatil við stólinn til að komast upp í hann, og efst í tröppunum eru síðan dyr sem opnast inn í stólinn. Þegar ríflega eitt erindi er eftir af sálminum sést biskup hefja göngu sína upp tröppurnar. Það sem eftir er sálms er myndavélum beint að kórnum. 
Hvert erindi þessa sálms er talsvert langt og því átti ég von á, að þegar honum lyki, stæði biskup í stólnum, þess albúinn að hefja prédikun sína, en, nei. Þegar myndavél er beint að stólnum, er þar enginn fyrir, en skömmu síðar opnast dyrnar og inn gengur biskup. 
Áttum við að hafa fengið það á tilfinninguna að hann hafi húkt á bak við lokaðar dyr á meðan kórinn kláraði? Kannski að hann hafi verið að hleypa í sig kjarki.

- Skólakór Kársness er ágætur kór og allt í lagi með það, en í þessum aftansöng vakti flug hans inn og út af sviðinu meiri athygli mína en söngurinn. "Now you see him, now you don't" (tilvitnun í heiti á kvikmynf frá 1972, en  þar er fjallað um efnafræðistúdent, minnir mig, sem býr til úða sem gerir þann ósýnilegan sem honum er sprautað á). 

Ég veit alveg hvað þið hugsið, lesendur góðir, við þessan lestur: "Þetta er nú meiri dómadags fúll-á-móti lesningin!". Það er auðvitað alveg rétt, svo langt sem það nær. Þarna er hinsvegar um meira að ræða, eins og hver maður getur ímyndarð sér.

Svo held ég áfram að njóta dýrðarinnar Drottins, á meðan birta jóladagsmorguns færist yfir Laugarás og opinberar fölskvalausa fegurðina.

24 desember, 2011

Jólakveðja úr skugga skötupotts.


Nú á aðfangadagsmorgni er lokasprettur, en þó enginn lokasprettur þar sem ég, í það minnsta, tek aðdragandann að jólum með mínum hætti að mestu. Hendi í Sörur, jú, og dreifi gleði til þeirra sem tekst að píra í gegnum skóginn á dýrðina sem stafar frá ljósakeðjunum gömlu og nýju.  Hefði sjálfsagt getað verið kappsamari við ýmislegt annað, en það er eins og það er, ennþá.
Þá er lokið Þorláksmessu
það eru að koma jól.
Siggi' er ekki' að sinna þessu
Solla á bláum kjól. 
Í gær var Þorláksmessa, eins og flestum ætti að vera kunnugt og þá er tekist á við margrædda Þorláksmessuhefð, en ég er, eins og einhverjum er kunnugt, ekki skötufíkill og hef lönngum haldið því fram að hér væri á ferð skemmd fæðutegund og að át á henni gæfi til kynna einhverja misskilda karlmennskustæla. Ég fékk talsvert góða staðfestingu á þessari skoðun minni, með því að í einum margra útvarpsþátta um skötu greindi viðælandi frá tilurð þessa siðar. Það var beinlínis markmimð fólks að leggja sér til munns skemmdan mat af einhverju tagi daginn fyrir veisluhöld jólanna, til að finna betur muninn á því sem ætt er og óætt. Vestfirðíngar höfðu skötuna, og Austfirðingar einhvern skemmdan fisk eða hákarlsúrgang, sem ekki hefur festst (jú það er hægt að skrifa þetta svona) jafn rækilega í þjóðarsálinni. Það góða við skötuna er, að það er auðvelt að tjá sig um hana.
Á Þorláksmessu þykist ég
þekkjast við barbarana
Skatan hún er skelfileg
skömm er að éta hana
 Nei, ekki vil ég berjast gegn hefðum þjóðarinnar, þessi hefðarmaður sem ég er.  Ég styð fD í því að fá sér skötubarð fyrir/á Þoddlák. Skatan var meira að segja lengi vel tilreidd hér innanhúss, með afleiðingum sem allir geta ímyndað sér. Nú síðustu allmörg ár hefur gamli unglingurinn tekið þátt í skötudýrðinni og jafnframt hefur suðan færst út fyrir hús, öllum hlutaðeigandi til gleði, þó misjafnlega hátt sé haft um það.
Á Þorláksmessu  þrái ég
að þefa af skötupotti.
"Skatan hún er skemmtileg,
skal ei höfð að spotti."
segi ég og glotti.
-----

Nú, meðan vindstyrkur eykst víða um land og fréttir berast að óendanlega forsjálum ökumönnum, sem sitja í bílum sínum á heiðum landsins, nálgast jólahátið.  Hana vér allir prýðum. Ljósin eru komin upp, búið að græja jólatréð: "Fella gervijólatré líka barrið?" var spurt þegar hafist var handa á þessum bæ í gærkvöld.

Allt að verða klárt. 

Ykkur, óþekktu einstaklingar, sem lesið skrif mín hér að jafnaði, og fjölskyldum ykkar, flyt ég hér með von mína um að við öll fáum að njóta gleði, góðs matar, friðar og kannski messu, einhverjir, næstu daga.

Talsverður hluti Kvisthyltinga dvelur erlendis um þessi jól. Til þessa hóps við ég telja 7 fullburða einstaklinga. Sannarlega söknum við fjögur, sem hér dveljum, samvistanna við þau, en með samskiptatækni nútimans verður þetta talsvert auðveldara en það hefði verið fyrir einhverjum áratugum.

Hjónunum í Görlitz og dætrum þeirra tveim og nýju hjónunum í Álaborg og syni þeirra flytur þessi síða bestu kveðjur úr þorpinu í skóginum.

(ef höfundar er ekki getið að meintum kveðskap, þá er hann frumortur og því við mig að sakast að því er varðar bragfeila og mér að hrósa ef tær snilldin lætur á sér kræla)

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...