Ekki hef ég nennu til að fara að taka saman áramótaannál. Það væri sannarlega gaman, en það er hætt við að ég yrði of persónulegur og of pólitískur til að það gæti orðið læsilegt.
Ég vil í raun aðeins segja eitt þar sem stjórnmálin eru annarsvegar: megi stjórnmálamenn landsins öðlast þann þroska að þeim takist að horfa út fyrir hagsmuni flokka sinna eða sína eigin og til þjóðarinnar, handónýtu og sudurslitnu. Að þeir reyni síðan, þegar þeim áfanga er náð, að lesa í og greina það sem raunverulega hrjáir þjóðina og leiti síðan leiða til að bæta það sem er í þeirra valdi að bæta, t.d. bara með uppörvandi orðum, stuðningi við hvern annan og skilningi á þeim aðstæðum sem uppi eru.
Þar sem ég held að þetta muni ekki gerast, ætla ég ekki að fjalla um það frekar. Komi það sem koma vill.
Eftir því sem tíminn lengist, sem ég geng um þessa jörð, finnst mér að hæðir og lægðir nálgist æ meir. Þó auðsæld hafi verið minni áður fyrr, þá var þó það sem gerðist á þessum síðustu dögum desembermánaðar, ár hvert, einhhvern veginn þrungið spennu, hvort sem það var spennuþrungin biðin eftir að lyklinnum var snúið og dyrnar inn í stofu opnaðar að loknum veislumat á aðfangadaskvöld, eða biðin eftir að árið rynni sitt skeið á gamlárskvöld.
Ég tel mig vera búinn að greina tvær megin ástæður fyrir þessari breytingu:
a. Ég er orðinn eldri, reyndari, yfirvegaðri, rólegri, magnaðri, .... (svona get ég haldið lengi áfram)
b. Líf á Íslandi nútímans gengur út á að það eiga að vera jól, alltaf. Það eru epli allt árið, maður kaupir reykt svínakjöt til að snæða á miðvikudegi, maður fær sér það sem mann langar í þegar mann langar í það, lög unga fólksins voru einusinni í viku og ávallt tilhlökkunarefni, nú gengur fólk með þessi sömu lög unga fólksins í eyrunum nótt sem nýtan dag.
Líf okkar er orðið þannig að spennumómentin eru að hverfa, eitt af öðru - flest verður smám saman venjulegt.
Auðvitað eru margir þættir í lífi okkar sem er ekki hægt að gera hversdagslega. Þetta eru fyrst og fremst þættir sem teljast vera náttúrulegir og ekki er hægt að kaupa, t.d. þegar barn fæðist fæðist. Er það mögulegt að við, sem ráðum okkur varla fyrir taumlausri græðginni og gleypuganginum munum innan skamms finna leiðir til að fitla svo við náttúruna að margt það sem náttúrulegast getur talist, hverfi eins og lög unga fólksins, og verði bara minning hjá ríflega miðaldra körlum og konum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli