13 janúar, 2015

Hikstandi nútímalíf

"Þarf þessi snúra að liggja þarna með loftinu og svo niður á gólf?"
Það getur hver og einn giskað hver átti þessa spurningu (sjá hér). Umrædd snúra var í, nýfyrrverandi vinnuaðstöðu fD í kjallaranum. Ég hafði við upphaf internetstenginga fengið símamann til að koma hér og sjá til þess að ég hefði slíkt samband í þá verðandi vinnuaðstöðu minni sem er nú nýfyrrverandi vinnuaðstaða fD.  Vð síðustu hrókeringar innanhúss, sem áður hefur verið greint frá, var þessi snúra allt í einu orðin óþörf, enda wi-fi um allt hús.

"Nei, það er engin þörf fyrir hana lengur", svaraði og sagði svo ekki fleira um það mál, heldur hófst, innan ekki of langs tíma (ég er farinn að átta mig á í stórum dráttum hvenær tími er orðinn of langur) handa við að taka snúruna niður. Það gekk ágætlega að losa hana frá veggnum og þar kom, að ég stóð með dósins fyrir tölvutenginguna í höndunum, opnaði hana og sá fjóra fíngerða víra sem lágu inn í dósina og voru þar festir með einhverjum hætti tveir og tveir. Til þess að ná snúrunni var ekki um annað að ræða en losa hana af vírunum, sem ég gerði, átakalaust með naglbítnum á heimilinu. Nú var snúran laus, utan sá endinn sem hvarf inn í vegg þar sem síma og rafmagnslagnir liggja inn í húsið. Á einu augabragði beitt ég naglbítnum aftur og gat þar með gangið frá snúrunni. Sá endinn sem gekk inn í vegginn hvarf snyrtilega inn í holu sína.
Að þessu þarfaverki loknu hélt ég aftur á efri hæðina og lét fD eftir að halda áfram að bardúsa í nýfyrrverandi vinnuaðstöðu sinni. Þar stendur mikið til, svo ekki sé meira sagt.

Þar sem ég var kominn upp lá leið mín í nýuppgerða dyngju mína til að senda pósta og vinna í vinkonu minni henni Innu. Sú vinna helgast af því, að í dag stundaði heimavinnu, eða fjarvinnu þar sem ekki þótti mögulegt að stunda staðvinnu. Á bak við þessa yfirlýsingu er löng og flókin saga sem ekki verður rakin hér.
"Not connected to the internet" var það fyrsta sem blasti við mér þar sem ég freistaði þess að senda póst, sem ég hafði lokið við að skrifa, þegar aðgerðin sem lýst er hér fyrir ofan hófst. Ég reyndi aftur, og aftur og enn aftur, en það breytti engu. Ég endurræsti allt saman, eins og manni er stundum sagt að gera þegar tölvudót virkar ekki. Ég fór meira að segja inn í "advanced settings" til að leita upp mögulega bilun. Gerði reyndar ekkert þar, þar sem það gæti orðið til þess að ég framkvæmdi eitthvað óafturkræft.
Nú lá fyrir að gera frekari rannsóknir á ástæðum þess að samband náðist ekki við netið eina. Það fólst í að fara í fartölvu á svæðinu og athuga hvort þannig gengi betur. Það reyndist ekki vera.
Ég endurræsti beininn (routerinn) án árangurs. Ég prófaði að hringja í heimasímann, sem einnig var árangurslaust.
Þarna kom það mér í fyrsta skipti í hug að sambandsleysið gæti tengst með einhverjum hætti snúrunni í nýfyrrverandi vinnuaðstöðu fD.
Það fór um mig hrollur og ég fann fyrir ýmisskonar ónotum, aðallega taugatengdum.
"Var ég búinn að klippa í sundur samband heimilisins við umheiminn? Ef svo væri, hvernig átti ég að fara að því að koma því í lag? Væri þá búið með að ég gæti hunsað leikjabeiðnir á Fb í allan dag? Myndi ég ekki geta fylgst með hvað vinir mínir eiga falleg börn? Myndi umræðan um ófarna Parísarför alveg fara framhjá mér? Gæti ég ekki einusinni horft á fréttirnar í sjónvarpinu í kvöld? Hvernig færi þessi dagur eiginlega?"

Með allar spurningnarar í höfðinu fór ég niður í kjallara þar sem fD stóð í stórræðum við að undirbúa nýfyrrverandi aðstöðuna sína fyrir allskyns fínheit, sem verða umfangsmeiri eftir því sem hún dvelur lengur þarna niðri.

Þarna lá fyrir að skrúfa niður plötu, á bakvið hverja er rafmagnsinntakið og símainntakið, en um það snérist málið.  Af ótrúlegri yfirvegun og ævintýralegu innsæi, með flækju af allskyns vírum í höndunum, tókst mér að lifa mig inn í hlutverk símamannsins, rekja vírana sem komu að utan, saman og vírana sem komu að innan einnig. Eftir nokkrar tilraunir tókst mér að festa endana í dósina sem hafði hýst fyrrum tölvutenginu í fyrrverandi aðstöðu minni og nýfyrrverandi aðstöðu fD. Einhver sem býr hér í nágrenni við mig myndi kalla þetta "skítamix" en ég er ekki frá því að allar tengngar um þessar lagnir séu miklu hraðari eftir en áður.
Tölvan tilkynnti eftirfarandi:"CONNECTED TO THE INTERNET", póstarnir voru afgreiddir og Innumálin, fyrstu barnamyndirnar voru skoðaðar, nokkrir leikir hunsaðir og nýjustu tilvitnanir vegna ófarinnar Parísarfarar lesnar. Svo eru það fréttirnar í kvöld.

Mér kom það oft í hug í dag að nútímamaðurinn er kominn út á ansi hálar brautir. Var lífið ekki talsvert miklu öruggara þegar maður sneri tvær stuttar og ein löng, þegar dagblaðið kom í bunkum einusinni eða tvisvar í viku, þegar það var greiða uppi á þaki til að ná útsendingu sjónvarps?
Það eru tveir örmjóir vírar sem tengja þetta heimili við allt annað en beinlínis viðveru í eigin persónu. Mér finnst að það þurfi að vera til varaleið, en ætli það breyti miklu? 

11 janúar, 2015

Mynd frá fimmta áratug síðustu aldar

 Árið 1940 var nánast engin byggð í Laugarási, utan læknishúsið sem var byggt 1936 og gripahús sem tilheyrðu því, enda voru Laugaráslæknar jafnframt með einhvern búskap þar til Helgi Indriðason og Guðný Guðmundsdóttir komu til skjalanna um 1947.
Um 1940 fór eitthvað að gerast því þá voru einhverjir farnir að átta sig á að hverinir gætu nýst til gróðurhúsaræktunar.
Ekki ætla ég að fjölyrða um það hér, enda ekki meginviðfangsefni þessa pistils. Það er hinsvegar myndi sem hér fylgir, Hún er tekin frá læknishúsinu sem stendur efsta á Laugarásnum, á að giska 1946-7. Foreldrar mínir keyptu þá Lemmingsland og gáfu því nafnið Hveratún. Þetta var á fyrri hluta ár 1946. Ég geri fastlega ráð fyrir að móðir mín hafi tekið sig til og rölt með myndavél upp á hæð og tekið myndina, svo senda mætti mynd af slotinu til fjarstaddra ættingja.  Það hefur líklega verið myndavél svipuð annarri hvorri þeirra sem hér má sjá til hliðar því ég man eftir svona forngripum í uppvextinum.
Ég þykist meira að segja muna eftir að önnur hvor þeirra hafi verið notuð enn.

Ég ætla hér að freista þess að gera grein fyrir því helsta sem sjá má á þessari mynd, en vil halda því til haga (til að verja sjálfan mig) að það voru enn 6-7 ár í fæðingu mína þegar myndin var tekin.

Hér er ég búinn að merkja inn á myndina tölur frá 1-17 og svo er bara að sjá hvernig til tekst.

1. Gamli bærinn í Hveratúni - um 60m². Þegar foreldrar míni mættu á svæðið var ekkert eldhús í húsinu. Það var sambyggð við gróðurhús og allur aðbúnaður fremur sérstakur. Meðan verið var að koma íbúðarhúsinu í þolanlegt ástand fengu hjónakornin inni í íbúðarhúsinu í Grósku, sem síðar varð Sólveigarstaðir. Þar voru þau, í það minnsta til húsa þegar þau eignuðust sitt fyrsta barn.

2. Kusuhús, minnir mig að þetta gróðurhús hafi verið kallað. Í öðrum endanum á þessu húsi tel ég að heimiliskýrin Kusa hafi átt samastað. Í mínum huga var hún mannýg. Ekki man ég eða veit hvort folinn Jarpur hafi nokkurtíma átt þarna afdrep, en hann var ofdekraður og gekk svo langt að leggja leið sína einhverntíma inn í bæ, alla leið inn í búr, til að ná sér í bita.

3. Við hliðina á Kusuhúsi var annað gróðurhús, sem ég man ekki hvað var kallað. kannski bara Sigrúnarhús? (leiðr. mun hafa kallast Miðhús)

4. Pallahús. Það fór ekki svo að maður fengi ekki gróðurhús skírt eftir sér. Ég átt mig ekki alveg á hvernig því var öllu háttað, en svo lengi sem ég man eftir mér var hænsnakofi milli íbúðarhússins og þessa gróðurhúss (nr.7).

5. Þarna var byggt gróðurhús sem mig minnir að hafi verið kallað Ástuhús (leiðr. Nýjahús), við hliðina á Pallahúsi.

6. Þar við hliðina, nokkru frá Ástuhúsi reis svo Bennahús, sem var langstærst, sennilega einir 320m². Ég gæti trúað að það hafi verið byggt um eða upp úr 1960, því ég man óljóst eftir byggingaframkvæmdum.

7. Hænsnakofinn sem mér finnst hafa verið þarna frá því ég man fyrst eftir. Ég gegndi hlutverki yfirhænsnahirðis afar lengi.

8. Dælukofi sem ég man óljóst eftir og þá í tengslum við einhver prakkarastrik.

9. Pökkurnarskúr/áburðargeymsla og fleira. Stóð á hverabakkanum milli Ástuhúss og lítils gróðurhúss sem var fyrir neðan þar sem Bennahús kom síðar. Ég minnist þessarar byggingar aðallega fyrir tvennt: Þegar maður var að burðast með tómataföturnar inn í pökkkunarhlutann, sem var sunnan megin og þegar maður tók þátt í að steypa moldarpotta, sem fór fram hinumegin.

10. Lítið gróðurhús, sem mér finnst móðir mín aðallega hafa verið eitthvað að rækta í. Líklega var þar vínberjaplanta og síðan eitthvert blómadót. (leiðr. viðbót: Þarna mun önnur systirin, í það minnsta, stundað ræktun á t.d nellikum, rósum og asparagus).

11. Hér var Þróin steypt á einhverjum tíma, sennilega á fyrir eða um 1960. Hún var nokkuð vinsæl til sundiðkana. Það var skemmtilegast að fara í Þróna þega var nýbúið að hreinsa hana, sem þurfti að gera reglulega þar sem slýmyndum var heilmikil. Hreinsunarstarfið þótti mér afar óskemmtilegt.

12. Ég tel að á þeim tíma sem myndin var tekin, hafi Ólafur Einarsson læknir stundað þarna útirækt, en síðar ræktuðu Hveratúns menn þarna alllengi. Það varð stöðugt erfiðara þar sem húsapuntur gerið æ ágengari.

13. Gróðurhús á vegum Ólafs Einarssonar. Þau voru horfin um 1950 og grunnar þeirra einir eftir.

14. Ólafshús eða Einarshús (man ekki hvort). Ág man eftir að í þessu húsi ræktaði Hjalti Jakobsson eftir að fjölskyldan flutti úr Reykholti í Laugarás. Á einhverjum tíma, líklega eftir að Laugargerði spratt fram, leigðu Hveratúnsmenn húsið og braggann við norðurenda þess. Uppruna braggans veit ég ekki um, en reikna með að hann hafi gegnt hernaðarlegu hlutverki á stríðsárunum.

15. Þarna var bullandi hver (Draugahver?) og ofan í honum voru ofnar. Þeir hljóta að hafa verið notaðir til að hita kalt vatn til einhverra nota. Kalla eftir upplýsingum um það.

16 (rautt). Hveralækur sem rann frá hverunum tveim sem voru nyst á hverasvæðinu, Draugahver og Hildarhver. Lækurinn rann rétt fyrir neðan Þróna og pökkunarskúrinn. Það var mjótt sund milli pókkunarskúrsins (9) og litla gróðurhússint (10). Um þetta sunda var gengið að þrónni og einnig yfir hveralækinn á brú til að komast yfir á ræktunarsvæðið (12). Þarna dansaði maður yfir þessa ræfilslegu brú ansi oft, en þetta var ein af þeim hættum sem maður lærði fljótt að umgangast af virðingu.

16. (gult) (sá þessa talnavillu of seint og nennti ekki að breyta :)).  Skálholtsvegur.

17. Skúlagata.

Afskaplega væri gaman ef einhverjir þeir sem þetta sjá og vita betur en hér hefur verið frá greint, komi þeim upplýsingum til mín. Ekki síst á ég við þær nafngiftir sem fram koma, t.d. á gróðurhúsum og hverum.

Dyngjupúl

Tannstönglavasi
Ég áttaði mig ekki strax á því hvað fD fara að fara þegar hún, upp úr þurru, á laugardagsmorgni, hóf umræðu um að flytja svefnsófann úr dyngju minni niður í kjallara. Þar hlaut að búa annað undir en beinlínis það hún teldi of þröngt hjá mér og þar með skert vinnuumhverfi og síðri aðstaða til að sitja og blogga eða stunda aðra tómstundaiðju.
Það bjó sannarlega annað undir.
Upphafleg hugmynd hennar snérist um það, að í stað sófans, sem færi niður, myndi hún flytjast úr vinnustofunni sinni í kjallaranum og setjast að í minni dyngju og myndi þar með gera hana að sinni.
Ég neita því ekki, að þessari hugmynd tók ég fremur fálega, eins og reyndar hugmyndinni um að flytja sófann yfirleitt. Ég er nefnilega ekki mikið fyrir það að vera sífellt að breyta umhverfi mínu; finnst það virka bara ágætlega. Þar fyrir utan kalla breytingar yfirleitt á aðkomu mína með einhverju tilteknu vinnuframlagi á sviðum sem ég vil sem minnst koma nálægt, einfaldlega vegna þess að það felur í sér erfiðleikastig sem mér hugnast ekki eða er, að mínum mati afar óskemmtilegt og tilgangslaust.

Ég vissi hinsvegar strax og umræðan hófst, hverjar lyktirnar yrðu. Ég hafði þó mitt fram að því leyti, að fD myndi ekki leggja mína aðstöðu undir sig, heldur tæki hún yfir annað herbergi á efri hæðinni, sem hefur haft takmarkað hlutverk siðustu allmörg árin.

Niðurstaðan lá fyrir, og ég var, áður en ég vissi af kominn í hlutverk sem ég hafði ekki séð fyrir þegar ég vaknaði á laugardagsmorgni og sá fyrir mér rólegheita dag. Það þurfti að rífa í sundur sófa og burðast með hann í frumeindum niður í kjallara, þar sem hann mun fá, þegar loksins gefst færi á að reyna að koma honum saman aftur, hlutverk í nýrri svefnaðstöðu fyrir börn og barnabörn í heimsókn, í verðandi, fyrrverandi vinnuaðstöðu fD.

Úr verðandi, fyrrverandi vinnuaðstöðu fD kom ég síðan að flutningi vinnuborðs upp á efri hæð inn í verðandi vinnuaðstöðu hennar og flutningi annars vinnuborðs, sem ég hafði sett upp í verðandi fyrrverandi vinnuaðstöðu fD, þegar ég útbjó mér vinnuaðstöðu þar fyrir ævalöngu. Það vinnuborð (níðþungt) þurfti að skrúfa niður, enda veggfast, og burðast með upp í núverandi vinnuaðstöðu mína, þar sem niður þurfti að taka verðandi fyrrverandi vinnuborð mitt, sem eftir þá aðgerð varð borð án hlutverks (þó eg eigi ekki von á að svo verði lengi). Borðið þunga þurfti ég síðan að setja upp í vinnuaðstöðu minni í stað þess sem tekið hafði verið niður, eftir að ég hafði þurft að aftengja allan tölvubúnað, án þess að vita hvernig ég færi að því að tengja hann allan aftur, sem tókst á endanum undir Spykids II á RUV.

Nú situr fD í nýju vinnuherbergi, sem enn ber keim að fyrrverandi íbúa, sem er löngu fluttur að heiman (glitstjörnur límdar á veggi og loft). Þangað er hún komin með hljómtæki og spilar aríur og dúetta, mundar pensla og heldur því fram að hún þurfi betri lýsingu.

Ég er, þegar upp er staðið ekki ósáttur með að vera kominn með öflugt borð og ágætt pláss, en sannarlega hefði ég viljað vera án allrar þeirrar fyrirhafna sem breytingarnar kölluðu á.

Ég samgleðst auðvitað fD með að þurfa ekki lengur að brölta niður snarbrattan stigann í hvert sinn sem hún fær góða hugmynd.  Nú erum við að komast á þann aldur að við göngum helst ekki niður hann nema kveikja stigaljósið og styðja okkur við handriðið ;).


04 janúar, 2015

Marsipan

Maður þarf endalaust að vera að taka afstöðu til einhvers. Oftast gerir maður það á grundvelli þess sem maður telur vera rétt.  En hvernig kemst maður að þeirri niðurstöðu að eitthvað sé rétt, og að eitthvað annað sé rangt?

Mér finnst marsipanmolarnir í konfektkassanum heldur misheppnuð framleiðsla og hún höfðar ekki til mín. Það mun enginn geta kallað eftir samstöðu minni um að krefjast þess að það verði bara framleiddir marsipanmolar. Ég mun leyfa mér að gagnrýna þá skoðun að marsipanmolarnir séu einu ætu molarnir í kassanum.

Talsmenn marsipanmolanna komust til valda í þessu landi með því að lofa kjósendum því að það yrðu margir frábærir molar í gylltum og silfruðum umbúðum, með alveg nýju marsipanbragði í kössunum ef þeir kæmust til valda. Þeir halda svo áfram að segja þjóðinni að marsipanið sé gott og að við eigum að sýna samstöðu um það. Þeir þola illa raddir sem reyna að halda því fram að marsipan sé vont.

Það var mikið rætt um samstöðu þjóðarinnar í ávörpum fyrirmenna um áramótin.

Kannski verða bara marsipanmolar í konfektkössunum um næstu jól.

30 desember, 2014

Af sprengiþroska

Traustu og öflugu kaupin
Á síðustu árum hef ég komist að þeirri niðurstöðu að mér hafi mistekist að ala upp í börnum mínum áhuga á áramótasprengingum. Fyrir hver áramót hef ég "þurft" að standa í því að velja og kaupa "fíriverk" til að nota til hátíðarbrigða á gamlárskvöld og eitthvað inn í nýársnótt. Aðrir Kvisthyltingar hafa yfirleitt látið sér fátt um finnast:
  • jú-það-er-svo-sem-allt-í-lagi-að-kaupa-eitthvað, 
  • mér-er-alveg-sama, 
  • ég-get-svo-sem-kveikt-í-þessu, 
  • ætli-maður-verði-ekki-að-fara-út-í-dyr-til-að-kíkja-á-þetta-úr-því-búið-er-að-kaupa-það 
Ég átti ekkert von á að á þessu yrði breyting nú og í nauðsynlegri áramótaferð í höfuðborg Suðurlands í dag þurfti ég, eins og venjulega, að minna á að "fíriverkið" væri ókeypt. Þá þegar var fD búin að sjá til þess að komið væri við í sérstakri búð til að kaupa leir.
Þar sem ég stöðvaði Qashqai fyrir utan Björgunarmiðsöðina spurði ég, sem oft áður, hvort farþegarnir ætluðu að bíða í bílnum. Mér til nokkurrar undrunar, þó svo ég léti á engu bera, voru þrennar aðrar dyr opnaðar og allir áramótaheimaverandi Kvisthyltingarnir stigu frá borði og fylgdu mér inn í spengihöllina.

Ég hef það fyrir sið við þessar aðstæður að taka mér stöðu nokkuð frá afgreiðsluborðinu og velta fyrir mér því sem fyrir augu ber og reyna þannig að komast að niðurstöðu um hvað gæti verið við hæfi. Markmið mín, sem ég lét auðvitað ekki uppi við nokkurn mann, voru að trappa mig niður í "fíriverkskaupum" þetta árið, en vanda frekar valið.

Sem fyrr breytti það engu þó ég stæði úti á gólfi og horfði á hillurnar og þar  með nálgaðist ég afgreiðsluborðið í fullvissu um að þar myndu mér verða gefin góð ráð. Á þessu varð engin breyting nú. Ég veit af fyrri reynslu að skoðanir fæ ég ekki upp á yfirborðið frá þeim sem eru með í för. Á því varð ekki breyting nú.

Það varð hinsvegar bylting.

fD-kaupin
Hægra megin við mig, þar sem mæðgurnar stóðu í hnapp heyrði ég eitthvert hvísl og síðan gerðist það, að afgreiðslumaður seildist upp á vegg eftir flugeldapakka. Því næst heyrði ég fD gefa eftirfarandi yfirlýsingu: "Það er svo fallegt nafn á þessari. Ég ætla að fá hana". Þar með náði afgreiðslumaðurinn í Melkorku Mýrkjartansdóttur upp í hillu. "Eigum við ekki líka að kaupa svona löng stjörnuljós?" sagði hún þessu næst, en ekki við mig.  
Þarna var um að ræða einhver ótrúlegustu umskipti sem ég hef reynt í fari fD. Nú sé ég fram á að þurfa ekki framar að hafa áhyggjur að neyða neinn óviljugan til "fíriverkskaupa". 

Sannarlega hafði kaupæði fD ekki áhrif á skýr markmið mín og að ráði afgreiðslumanns festi ég kaup á afar traustum og öflugum sprengjum.

Ég hafði verið búinn að sjá fyrir mér að þetta yrðu áramótin sem Kirkjuhyltingar myndu bera sigur úr býtum, en með leikfléttu fD varð ljóst, að enn eitt árið munu þeir þurfa að hneigja sig í lotningu á brekkubrúninni.
---------------------------------------------

Styrkjum björgunarsveitirnar með því að kaupa "fíriverk" af þeim, en ekki öðrum.

29 desember, 2014

Samtíðin er jafnan verst.

Ég er sjálfsagt ekki einn um það meðal þeirra sem eldri eru á hverjum tíma að telja margt vera verra en það var. Það er algengt viðhorf að tímarnir breytist til hins verra; hver sú kynslóð sem við tekur sé lakar sett að mörgu leyti en þær en á undan hafa farið.
Faðir minn gekk um tveggja vetra skeið (1936-7 og 1937-8) í Menntaskólann á Akureyri. Á þeim tima og einnig eftir að hann kom að S-Reykjum í árslok 1939, skrifaðist hann á við fósturforeldra sína, Sigrúnu og Benedikt Blöndal á Hallormsstað. Það virðast reyndar aðallega hafa verið þau sem skrifuðu, sem má sjá af því að í hverju bréfi þeirra kvarta þau yfir að hafa ekki fengið bréf (á Akureyri var hann á aldrinum 17-19 ára svo það er ef til vill skiljanlegt).
Í bréfum sínum segja þau fréttir að austan og spyrja frétta frá Akureyri. Þau leggja honum einnig lífsreglurnar og veita góð ráð. Þar er margt áhugavert, ekki síst ef það er tengt stöðu mála á okkar tímum. Í bréfi sem hann skrifaði pabba í nóvember 1937 segir Benedikt Blöndal:


Úr bréfi Benedikts
"Annars er einkennilegt hvernig eldra fólkið lítur ávallt á samtíð sína. Hún þykir jafnan verst og æskan og ungdómurinn stórum verri en var í ungdæmi þeirra. Mikil væri sú afturför frá kynslóð til kynslóðar ef þessir dómar hefðu við full rök að styðjast".

Í bréfi í lok árs 1941, en þá er pabbi búinn að vera tæp tvö ár á S.-Reykjum, skrifar Sigrún Blöndal (skólastýra í Húsmæðraskólanum á Hallormsstað):


Úr bréfi Sigrúnar
"Stúlkur eru að búa sig á "ball" út í Ketilsstaði, því ekki hefur maður frið með heimili sitt einusinni á jólunum fyrir þessum strákagörmum sveitarinnar, sem ekki geta látið þessa aumingja sakleysingja í friði og finnst víst eðlilegast að Jesús Kristur byrji frelsunarstarf sitt í sálum þessara ungu stúlkna á "balli"! Þess vegna stilla þeir því upp fáum dögum eftir minningarhátíðina um fæðingu hans! Og dettur ekki í hug, að hann eigi að fæðast í hverju einasta mannshjarta! Það er erfitt að glíma við heimskuna og óþokkaskapinn og barnalegt að hafa nokkurntíma látið sér detta í hug, að maður væri þess megnugur".
Bréf þeirra hjóna staðfesta að mannskepnan er söm við sig á öllum tímum.

Þrátt fyrir þetta ætla ég ekkert að víkja frá þeirri skoðun minni, að þær breytingar sem hafa orðið frá því mín kynslóð óx úr grasi, við undirleik Bítlanna, Rolling Stones, Jethro Tull, Bob Dylan, Joan Baez, The Kinks og svo  mætti lengi telja, séu síður en svo til bóta. Með þessu er ég ekki að halda því fram að ungt fólk nú sé eitthvað lakara að upplagi en það hefur verið á hverjum tíma. Það kann jafnvel að vera talsvert betra.

Umhverfi og uppvaxtarskilyrði barna finnst mér hafa farið verulega versnandi síðastliðin 15-20 ár og hér tíni ég fram nokkrar ástæður fyrir þessari skoðun minni:


  1. Veröldin er orðin miklu flóknari en hún var og þar með meiri óvissa um framtíðina.
  2. Uppeldi fer æ meir fram á stofnunum þar sem börn læra að talsverðum hluta hvert af öðru frekar en af foreldrum sínum. Máltaka á sér því miður stað í of miklum mæli í gegnum samskipti jafnaldra.
  3. Rafrænt umhverfi getur haft neikvæð áhrif á ýmsa þætti sem lúta að mannlegum samskiptum. Foreldrar og börn sogast æ meir inn í þann heim sem tölvur og internet búa þeim til afþreyingar.


Til að vera jákvæður vil ég halda opnum þeim möguleika að hvað sem breytist muni manninum takast að breytast með og ná einhverju jafnvægi við umhverfi sitt á hverjum tíma.
Hver segir líka að það megi ekki segja: "Það var sagt mér að það væri ball í kvöld"?



23 desember, 2014

...og bannið þeim það ekki.

Nei, ég ætla ekki út á þá braut að fjalla um eitt heitasta umræðuefni  þessarar, að mörgu leyti, einkennilegu þjóðar á þessari aðventu. Þetta málefni munum við ekki fá botn í, frekar en svo mörg önnur sem rekur á fjörurnar, rétt eins og öldur á strönd. Öldurnar sogast út aftur og víkja þannig fyrir næstu öldu og þannig koll af kolli. Ég er farinn að bíða eftir málefninu sem okkur tekst að rífast um milli jóla og nýárs.

Ég er kominn á þann aldur að skoðanir mínar falla æ sjaldnar að háværustu skoðunum hverju sinni. Mig grunar að það sé hlutskipti fólks almennt, að þegar það eldist, sprengfullt af áratuga reynslu af lífinu, burðast það með skoðanir sem eru ekki lengur viðurkenndar. Skynsemi þess ræður því líklegast, að það þagnar smám saman og hverfur, hægt og hljótt af sviðinu og lætur þær kynslóðir sem við taka um að gera sömu mistökin og hver kynslóðin af annarri hefur gert gegnum aldirnar.

Ég er farinn að upplifa sjálfan mig í sporum þessara sem eru eldri og teljast þar með reyndari. Ég þarf, starfs míns vegna að vera nokkuð á tánum í þessum efnum, fylgjast með tækniþróun á sviðum sem ég þarf að kunna skil á í vinnunni og reyna að vera nokkurnveginn klár á því hvað er efst á baugi hjá ungu fólki frá degi til dags. Mér finnst það vera forréttindi að vera í aðstöðu til að umgangast ungt fólk daglega, en ég verð jafnframt að viðurkenna að æ oftar átta ég mig ekki á hvað það er að pæla. Ungmenni nútímans eru ljúfar og góðar manneskjur, upp til hópa. Þau eru kurteis og oft jákvæð. Samt geta þau verið ansi gloppótt blessuð, og ég hlýt að velta því fyrir mér hvað veldur. Niðurstöður mínar myndu nægja til að fylla 4 bindi og myndu ekki breyta neinu. Þar koma við sögu ýmsir þættir sem ég tel að hamli innri gerð þeirra og þroska: foreldrar, ofgnóttin, leikskólar, grunnskólar, tækniþróun, afþreyingariðnaðurinn og bara almennt samfélag á hverfanda hveli.

Við erum einstaklega eigingjarnt fólk, Íslendingar og með því á ég við, að við búum okkur til litla heima sem geta verið einstaklingur, eða fjölskylda.  Við verjum síðan þessa örheima okkar með kjafti og klóm ef okkur  finnst á okkur brotið með einhverjum hætti, eða ef okkur finnst að aðrir sinni velferð okkar ekki nægilega.
Við erum síður gagnrýnin á okkur sjálf.
Sannarlega er ég ekki að fjalla hér um þá sem af ýmsum ástæðum þurfa nauðsynlega á aðstoð samfélagsins að halda, heldur hina sem þurfa hana ekki en krefja samfélagið um hana og fylgjast vel með hvort hún er veitt með viðunandi hætti.  Ég er svo illa innrættur (bara stundum), að ég á von á að sá tími renni upp innan skamms, að það verði stofnaðir barnagarðar sem sjá um allt uppeldi barna fólks sem þarf að fá að hvíla sig á kvöldin og nóttunni. Tilvera barnanna er síðan nýtt fyrst og fremst í þeim tilgangi að skapa foreldrunum virðingarstöðu í samfélaginu, kannski til að fara í verslunarmiðstöðvar um helgar (bara á laugardagsmorgnum, því það þarf að fara í tölvuleik eða á feisbúkk, fara á djammið um kvöldið og vera þunnur daginn eftir (og fara í tölvuleik eða á feisbúkk)) og til að fá krúttsprengjukomment á samfélagsmiðlum.

Ég veit að ég er ósanngjarn að flestra mati og ég veit líka að sem betur fer eru flestir foreldrar þannig innréttaðir að þeir leggja mikið á sig til að börnin fái gott uppeldi og verði nýtir og hamingjusamir þjóðfélagsþegnar. En það er til fólk sem virðist fyrst og fremst líta á börn sem tæki til að skapa sér einhverja æskilega stöðu í samfélaginu, en ekki eitthvað sem er það mikilvægasta sem foreldrar geta tekist á við í lífinu; eitthvað sem kostar svita og tár, en leiðir loks til óendanlegs ríkidæmis. Foreldrar mega og eiga að vera stoltir af börnum sínum hvar og hvenær sem er, en þar þarf að koma til jafnvægi milli sýndarmennsku og þess sem er í raun.

Þar með set ég punkt þessu sinni.
Ég óska þeim sem lásu alla leið, gleðilegra jóla og þakka samfylgdina á þessum vettvangi það sem af er ári.


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...