23 júlí, 2016

Vanþróuð víkingaþjóð

Um aldamótin fylgdi ég nemendahópi í heimsókn til vinaskóla í Bæjaralandi í Þýskalandi og þar áttum við ágætan tíma og nutum gestrisni Þjóðverja.  Einn dagur heimsóknarinnar fór í rútuferð í skóg nálægt landamærunum við Tékkland, sem ég man ekki lengur hvað heitir. Þarna var um að ræða skóg sem fékk að þróast algerlega án aðkomu mannsins; tré uxu af fræi og féllu þegar sá tími kom. Fallin tré lágu síðan þar sem þau féllu og hurfu með tímanum aftur til jarðarinnar til að af henni gætu vaxið ný tré.
Þarna gegum við um þennan villta skóg dagspart og gerðum ýmislegt. Einn þáttur dagskrárinnar fólst í því að nemendunum var skipt í tvo hópa, Íslendingar í öðrum og Þjóðverjar í hinum. Hóparnir fengu í hendur spegla og áttu síðan að keppa í því hvorum gengi betur að ganga um skóginn þannig, að þátttakendur héldu speglunum fyrir framan sig eins og sjá má á myndinni. Með þessum hætti sáu þátttakendur upp í trjákrónurnar og himininn.
Það kom í ljós, að mig minnir, að Íslendingaliðinu gekk betur.
Í spjalli við kennara Þjóðverjanna á eftir sagði hann mér hver tilgangur leiksins hefði verið, nefnilega sá, að staðfesta þá kenningu að Íslendingar væru tengdari náttúrunni en Þjóðverjar. 

Ég ætla hreint ekki að þvertaka fyrir, að við þessar upplýsingar varð ég nokkuð hugsi og það örlaði á því sem kalla mætti móðgun. Það var auðveldlega hægt að túlka þessa kenningu sem svo, að þar sem styttra væri síðan Íslendingar komu út úr torfkofunum væru þeir skemmra á veg komnir og þar með síður þróaðir en Þjóðverjar (og þá væntanlega aðrar vestrænar þjóðir) að flestu leyti og í grunninn með vanþróaðri heila.
Auðvitað var þetta ekki lagt svona upp af kennaranum, heldur þannig að það væri jákvætt að vera nær náttúrunni. Það breytti hinsvegar ekki því hvernig ég sá þetta fyrir mér.

Síðan gerðist það nokkrum dögum síðar, að einn nemandinn úr mínum hópi kom að máli við mig í talsverðu uppnámi eftir að þýskur félagi hans hafði upplýst hann um að heilinn í Íslendingum væri vanþróaðri en Þjóðverjum.   Auðvitað varð niðurstaða um að gera ekkert veður úr þessu, enda varla auðveld umræða sem það fæli í sér. Við ákváðum bara að við vissum betur og þar við sat.

Mér hefur oft orðið hugsað til þessa spegilleiks síðan.
Var þetta kannski bara rétt hjá Þjóðverjunum?
Er kannski of stutt síðan við komum út úr torfkofunum?
Ráðum við við að halda í við þær þjóðir sem byggja á lengri þróunarhefð?
Erum við kannski ennþá víkinga- og veiðimannasamfélag sem er að þykjast vera eitthvað annað, uppblásin af minnimáttarkennd? (hádújúlækÆsland?)

WE ARE THE VIKINGS, HÚ!!
Æ, ég veit það ekki.

Svo er það hin hliðin á peningnum.

Er viðhorf útlendinga til okkar með þeim hætti sem ég lýsti hér að ofan?
Líta þeir á okkur sem skemmra á veg komin á flestum sviðum, kannski bara hálfgerða villimannaþjóð, þar sem lög og regla eru bara til hliðsjónar og siðferðileg álitamál eru ekki mál?
Skýrir það að einhverju leyti margumrædda og óvirðandi hegðun einhverra ferðamanna?  Kannski líta þeir svo á að þeir séu komnir til landsins sem leyfir þér allt.

Ég bið þá lesendur, sem mögulega taka efasemdir mínar um söguþjóðina nærri sér, afsökunar.

Ég held svo bara áfram að efast.


07 júlí, 2016

Einn komma fimm kílómetrar um álfabyggð

MYND 1 -
Aðal gönguleiðin á Vörðufell (um það bil)
Þegar við gengum á Vörðufell í (eld)gamla daga fórum við aðra leið en nú. Þá var lagt af stað frá sumarbústaðnum sem er beint á móti Iðu (sjá mynd 2) - ég í það minnsta. Leiðin lá í gegnum stórgrýtisbelti í miðri hlíðinni, sem var auðvitað því stórfenglegra sem göngufólkið var lágvaxnara. Ekki held ég að við höfum endilega verið að ganga á fjallið, kannski frekar að heimsækja þann ævintýraheim sem þessir klettar (eða stórgrýti) var.
MYND 2
Ljósasta minning mín frá einni slíkri gönguferð átti sér stað þegar ég var líklega í kringum 10 ára. Ekki þori ég samt að fullyrða það.  Við fórum þarna uppeftir, nokkrir strákar á líkum aldri (man ekki eftir að það hafi verið stelpur í hópnum).  Gott ef við vorum ekki í feluleik eða einhverjum slíkum á milli klettanna, en þar voru ótæmandi möguleikar á að láta sig hverfa. Það var farið að líða á dag og framundan að halda aftur heim. Við stóðum nokkrir í lok leiks, austan megin við stóran klett. Hliðin sem að okkur snéri var slétt og lóðrétt, hefur verið svona 3-4 m á hæð.
Það sem þarna birtist okkur greiptist síðan í hugann. Fyrir framan klettinn voru steintröppur sem lágu niður á við, að timburhurð í því sem kalla má "rómönskum" stíl.  Hurðin var járni slegin, lamir, umbúnaður og lokur.
Þarna stóðum við um stund og hver hlýtur að hafa hugsað sitt. Það gæti verið gaman að banka á dyrnar. Hvað ætli gæti gerst?
Niðurstaðan varð, í ljósi þess að við höfðum allir heyrt og lesið um álfa, að við vorum fljótir niður af fjallinu og heim, því ekki höfðum við hug á að ganga í björg.

Mörgum árum seinna átti ég leið um þetta svæði og reyndi að finna steininn sem ég bar í huganum, en leitin bar engan árangur. Ég efast oftast um að ég hafi séð þennan álfabústað, en samt aldrei nægilega mikið til að ég hendi þessu atviki í glatkistu minninga.  Kannski var var þetta bara eitthvað sem varð til í ævintýragjörnum barnshuganum. Hver veit?  Kannski getur einhver þeirra sem þarna voru með mér vottað að eitthvað líkt því sem ég lýsti, hafi átt sér stað.

Á 63. aldursári gekk ég á Vörðufell í gær ásamt fD og uG. Ekki reyndist gangan sú neitt sérstaklega auðveld, en við vörðuna hvarf öll þreyta. Ég hafði unnið sigur á sjálfum mér. Leiðin niður var lítið auðveldari, en talsvert öðruvísi erfið, þó.
Ofan af fjallinu opnast  einstök sýn yfir Laugarás, auðvitað, en ekki er síður magnað að sjá hvernig árnar fjórar: Tungufljót, Hvítá, Stóra-Laxá og Brúará sameinast ein af annarri áður en Hvítá leggur leið sína niður í Flóa, þar sem hún tekur Sogið til sín og breytist í Ölfusá.  Þá er fjallahringurinn auðvitað yfirmáta glæsilegur.



Smella á myndirnar til að stækka þær.


VIÐBÓT





01 júlí, 2016

Þorpið teiknað

"Um holt og hól" Dröfn Þorvaldsdóttir 2016
Það vita það ef til vill sumir, að undanfarin ár hef ég dundað mér við það í verkföllum og frístundum, að safna saman efni um Laugarás. Það bætist stöðugt við, en þó hægar en skyldi, ef til vill.
Eitt af því sem ég lít á sem hluta af þessu verkefni, er að teikna upp kort af  þorpinu. Það verk er nú hafið og nánast hver stund milli knattspyrnuleikja og heilsubótargöngutúra, hefur farið í þetta að undanförnu.  Við verkið notast ég við AI (Adobe Illustrator), mikið töfratæki, ekki síst þegar ég verð búinn að ná almennilegum tökum á því. Þarna er hægt að setja upp teikningu sem er lagskipt, þannig á á einu laginu eru bara vegir, á öðru íbúðarhús, þriðja gróðurhús, fjórða eitthvað sem er horfið, og svo framvegis. Svo get ég slökkt á þessum lögum eftir því sem hentar. Þetta er skemmtileg iðja.

Hér fyrir neðan má sjá stöðu þessa máls nú.
Ég notaðist við:
- loftmynd frá Loftmyndum ehf.,
- kortið sem Bjarni Harðarson birti hér fyrir nokkru og sem Atli Harðarson teiknaði,
- loftmynd af Laugarási (okt. 1966)
- skipulagstillögu vegna sláturhússlóðarinnar

Ég er ekki að birta þetta hér bara að gamni mínu, heldur þætti mér vænt um að fá ábendingar og það sem réttara má teljast og tillögur að nýjum lögum sem skella má inn á kortið.

Ég tek það fram, að lóðamörk eru ekki nákvæm þar sem mér finnst þáu ekki vera aðalatriði í þessu samhengi. Það væri þó gaman að geeta haft þau sem réttust og ég treysti því að kunnugir bendi mér á  það sem rétt telst vera.


Hér fyrir neðan er svo, til gamans, hluti úr kortinu, þar sem ég er búinn að setja inn tillögu um skipulag sláturhúslóðarinnar.


Veit einhver hvort lóðin var seld núverandi eigendum ásamt reitnum sem er austan vegarins?


28 júní, 2016

Sumarið kemur í haust - vonandi

"Svo ólík, en samt eins" - Dröfn Þorvaldsdóttir (2016)
Það skall á vetur í október 2008. Hann hefur staðið síðan. Vetur í íslensku þjóðlífi. Því er ekki að neita, að það hefur komið hláka við og við og þá aðallega vegna utanaðkomandi áhrifa. Það hafa einnig komið slæmir frostakaflar, sérstaklega vorið 2013. Þá lá við alkuli, en síðan minnkaði frostið aðeins næstu árin vegna flugvélafarma frá suðlægari slóðum og ekki síst í mars 2016, þegar öflug lægð með uppruna lengst suður í Atlantshafi út af ströndum Suður-Ameríku, reið yfir þjóðina. Það hlýnaði verulega og sólin yljaði rækilega í kjölfarið. 
Því er hinsvegar ekki að neita að sumum hlýnaði meira en öðrum. Það má segja að vorkomunni væri misskipt á landslýð.

Það má halda því fram, að þann 25. júní og dagana þar í kring, hafi orðið þáttaskil þegar þjóðin kvaddi veturinn endanlega.  Þann 27. reið sannkölluð hitabylgja yfir þjóðina; hitabylgja sem allir fengu að njóta. Ekki gera spár ráð fyrir öðru en veður haldist með ágætum í einhverja mánuði. Helst er gert ráð fyrir að það geti brugðið til beggja vona í október. Þá verða enn veðraskil, ef að líkum lætur. Vonir standa þó til að þá muni sumarið loksins festa sig í sessi og ein þjóð í landinu geti gengið saman um ókomna tíð, með sól á himni, blóm í haga, ást í hjarta; sameinuð til móts við nýjar áskoranir á öllum sviðum. 
-------------------
Skelfing er það undarlegt hvað forsetakjörið síðastliðinn laugardag og ítrekuð stórafrek knattspyrnulandsliðsins geta nú lyft manni í hæðir.  Jú, ég gaf frá mér hljóð nokkrum sinnum í gærkvöld þegar hápunktarnir áttu sér stað. Það varð ítrekað rof milli mín og sófans. 
fD hrópaði ekki.
Jú það væri gaman að skjótast til Parísar, en ætli mig skorti ekki nennu til.  
Lélegt. 

24 júní, 2016

Seríos áskorunin

"Börn í leik" Dröfn Þorvaldsdóttir (2015)
Þar sem  ég hef ákveðið að blanda mér ekki í mismislita umræðuna sem á sér stað um Brexit, forsetakosningar eða EM, hef ég þessu sinni valið mér að fjalla í stuttu máli, auðvitað, um börn og foreldra (aðallega feður, að mér sýnist).
Ef ekki fæddust nein blessuð börn væri mannkynið sannarlega í djúpum skít - en það fæðast börn. Reyndar eru íbúar svokallaðra þróaðra þjóða, sem mér sýnist að, að mörgu leyti megi kalla úrkynjaða (þetta var illa sagt og vanhugsað - kannski), komnir að þeirri niðurstöðu, að börn séu til vandræða fremur en eitthvað annað.  Í það minnsta fækkar börnum meðal þessara þjóða og ég ætla ekki að hætta mér út í vangaveltur um ástæðurnar, þó á þeim hafi ég vissulega ótæmandi úrval skoðana.


Hversvegna ætti fólk að eignast börn, yfirleitt?
Varla fyrir slysni, enda hægur vandi að skipuleggja barneignir á þessum tímum.
Ég get alveg tínt til nokkrar mögulegar ástæður.

1. Meðfædd þörf mannskepnunnar, eins og annarra dýra, að geta af sér afkvæmi. Það er reyndar ekkert meira um það að segja. Örugglega góð og gild ástæða.

2. Krafa stórfjölskyldunnar (ekki síst mæðra, ímynda ég mér) um að fjölgun eigi sér stað. Með öðrum orðum, utanaðkomandi þrýstingur. "Er eitthvað að? Geturðu ekki átt börn?"

3. Þörf samfélagsins til að til verði einstaklingar til að standa undir samfélagi framtíðarinnar. Það verður að búa til framtíðar skattgreiðendur til að halda hjólunum gangandi, standa undir efnahagslegum vexti. Það þurfa alltaf að vera til neytendur framleiðslunnar. Einhvernveginn  þarf að borga fyrir heilbrigðisþjónustu, ævikvöld foreldranna og annað það sem hver kynslóð þarf að geta  staðið undir.

4. Þrýstingur jafnaldra. Allir vinirnir eru búnir að eignast börn og birta dásemdar myndir af á þeim á samfélagsmiðlum. Þessar myndir tjá endalausa hamingju foreldranna. "Þetta er frábært! Ætlar þú ekki að fara að koma með eitt?"

5. Sú hugmynd að börn séu stöðutákn. Þau sýna fram á að foreldrarnir eru færir um að fjölga sér og sjá fyrir sér og sýnum. Foreldrar og börn njóta virðingar umfram þá sem einhleypir eru eða barnlausir.

6. Krydd í tilveru hverrar manneskju. Sá tími kemur að djammið um hverja helgi fullnægir ekki lengur þörfinni fyrir merkingarbært líf. Tákn um það að einstaklingurinn er orðinn fullorðinn og maður meðal manna. Nýr taktur í lífið.

Ég gæti örugglega haldið lengi áfram að skella fram mögulegum ástæðum fyrir barneignum fólks. Það má segja að allar ástæðurnar sem ég taldi hér fyrir ofan tengist með ýmsum hætti og að þannig ráði oftast ekki ein ástæða umfram aðrar. Ég held því hinsvegar fram, að þegar ákvörðun er tekin um að eignast barn, ráði ástæða númer þrjú minnstu.

Hvað um það, barn er getið og það fæðist, eftir dálítið dass af bumbu- og/eða fósturmyndum á facebook. Það er hægt og bara harla auðvelt, að deila hamingju foreldranna með öðrum, og hversvegna þá ekki að gera það?

Það er okkur öllum ljóst, að öllum foreldrum finnst sitt barn fallegast og best. Því ekki að fá staðfestingu á því? Það er alltaf gott að fá hrós. Við höfum öll þörf fyrir það.  Við þekkjum öll slíkt hrós: "AWWWW", "Dúllan", "Þetta krútt" og svo framvegis.

Sumum er þetta ekki nóg, og ganga lengra.  Það má jafnvel segja, að hrósþörfin verði að fíkn, að gleðin og hamingjan vegna krúttsins verði æ mikilvægari eftir því sem það verður fyrirferðarmeira.
Það verður smám saman ekki nóg að birta krúttmyndir með fyrirsjáanlegum viðbrögðum. Það þarf meira.
Þá koma oftar en ekki til hugmyndaríkir pabbar. Dæmin felast í myndunum sem hér fylgja.

Er rétt að líta á börn sem leikföng, eða nota þau í því samhengi?  Því verður hver að svara fyrir sig, en í stóra samhenginu, sem felst í lið númer þrjú hér fyrir ofan, held ég nú að leikfangsvæðing barna geti verið nokkuð varasöm. Hlutverk foreldra er að skila af sér einstaklingi sem þeir eiga ekki og hafa aldrei átt, nema kannski í orði kveðnu. Það er sannarlega í góðu lagi að þeir njóti þess að eignast barn og njóti samvistanna við það. Foreldrarnir mega hinsvegar ekki líta framhjá þeirri staðreynd að litla krúttið vex og þroskast út frá því umhverfi sem það fæddist inn í og ólst upp í.

Ég get svo haldið áfram og fjallað um aðkomu samfélagsins og ábyrgð þess, en ég nenni því eiginlega ekki að svo komnu máli.




17 júní, 2016

Íslendingar að léttast?

Ég neita því ekki að á síðustu mánuðum finnst mér eins og það hafi verið að léttast upplitið á þessari þjóð; þjóðinni sem fagnar í dag á þjóðhátíðardegi. Mér hefur fundist áhugavert að velta fyrir mér hvað gæti valdið þessari breytingu og að sjálfsögðu fann ég nógu góða skýringu, fyrir mig í það minnsta. Ég reikna ekki með að skýringin henti þó öllum, en hver sem hún er í raun, þá tel ég að þjóðin sé að nálgast eitthvert jafnvægi aftur, eftir næstum 15 ára óstöðugleika.

1. kafli  Bláeyg þjóð
Til að gera langa sögu stutta, hefst skýring mín á Hrunadansinum (hrundansinum) í kringum gullkálfinn, sem lyktaði með margumræddu hruni.

2. kafli Reið þjóð
Þetta fjármálahrun og þjóðarhrun neyddi okkur til að hugsa margt í lífi okkar upp á nýtt. Tveim stjórnmálaflokkum var aðallega kennt um hvernig komið varog í kosningum komust þeir flokkar til valda sem síður voru taldir hrunvaldar. Það máttu allir vita, að verkefnið sem sú ríkisstjórn stóð frammi fyrir jaðraði við sjálfsmorð. Þjóð, sem áður hafði lifað í vellystingum með fjármagni sem engin innistæða hafði verið fyrir, var hreint ekki sátt við allan þann niðurskurð sem hér varð. Það risu upp lukkuriddarar í forystu fyrir flokkana sem hafði verið kennt um hrunið, sem töldu sig vita betur en stjórnvöld og lögðu sig fram um að rýra trúverðugleika þeirra. Þrátt fyrir miklar árásir og niðurrif ásamt innbyrðis átökum, tókst þessari stjórn að skapa grunn að endurreisn.  Sú vinna varð henni dýrkeypt.

3. kafli  Reið og bláeyg þjóð
Þjóðin var ekki sátt. Í kosningum, 4 árum eftir hrun voru það lukkuriddararnir sem báru sigur úr býtum. Sögðust myndu ganga frá vondu hrægömmunum sem ógnuðu þjóðinni. Sögðust myndu afturkalla allar vondu ákvarðanirnar sem ræstingafólkið hafði tekið. Áttu varla orð yfir hve lélegt ræstingafólkið hefði verið og þjóðin, sem auðvitað var enn ósátt við hvernig farið hafði, var búin að gleyma. Þjóðin man ekki langt, enda er það það sem brennur á skinninu hverju sinni sem ræður ákvörðunum hennar.
Með lukkuriddurum hófst, að þeirra sögn, hin raunverulega endurreisn. Þeir gerðu fátt annað en setja hvert heimsmetið af öðru með frábærum ákvörðunum sínum, að eigin sögn.  Svo kom í ljós að þeir voru ekki allir þar sem þeir höfðu verið séðir. Þeir höfðu ekki komið hreint fram.

4. kafli  Reið þjóð með opin augu.
Þjóðin fór að sjá hlutina í meira samhengi en áður. Efnahagurinn tók að batna, reyndar mest hjá þeim sem síst höfðu þörf á. Reiðiöldur risu þegar flett hafði verið ofan af hluta þess sem falið hafði verið. Aðal lukkuriddarinn neyddist til að segja af sér og hvarf af vettvangi. Þá fyrst fannst mér ég verða var við að það færðist meiri ró yfir þjóðlífið og umræðuna. Þetta ástand finnst mér hafa fest sig betur í sessi eftir því sem vikurnar hafa liðið.

5. kafli Sátt þjóð?
Ég veit ekki hve langan tíma það tekur þessa þjóð að verða sátt við hlutskipti sitt. Nú er meiri von til þess, en oft áður, að hún nálgist einhverskonar sátt.  Stærsta merkið um það virðist mér vera að hún hyggst hafna, í komandi forsetakosningum, hugmyndinni um forystumann á Bessastöðum, af því tagi sem verið hefur. Hún virðist vilja hafa á þeim stað einhvern sem kveðst vilja vera raunverulegt sameingartákn þjóðarinnar. Sá sem hefur nú setið á Bessastöðum í tvo áratugi, er um margt merkilegur forseti, sem á margskonar fögur eftirmæli skilin, en hann er þeirrar gerðar að í stað þess að sameina þjóðina, stuðlaði hann að sundrungu hennar á margan hátt.
Í haust verða svo kosningar, nema það verði ekki kosningar.  Ég hef nokkra trú á því að þær kosningar muni endurspegla meiri sátt meðal þessarar örþjóðar en verið hefur um langa hríð.
Ég vona að þjóðin hafni lukkuriddurum sem segjast munu gera allt fyrir alla. Við vitum að það er ekki mögulegt.  Megi okkur auðnast að kjósa til valda öfl sem vilja gera eitthvað fyrir alla, jafnt.

Þessa dagana er þrennt sem elur á bjartsýni minni fyrir hönd íslenskrar þjóðar:

1. Knattspyrna (sem meira að segja fD er farin að sýna örlítinn áhuga á, reyndar ekki í verki, heldur með óljósum viðbrögðum sem benda til þess að þjóðarstoltið sé að bera knattspyrnuandúðina ofurliði)
2. Handknattleikur
3. Forsetakosningar

Hafir þú komst alla leið hingað í lestrinum  
óska ég þér gleðilegrar þjóðhátíðar.


Við lifum viðsjárverða tíma í okkar góða landi nú um stundir og í ár er kosningaár og er því hætt við að inn á svið landsmála skeiði pólitískir lukkuriddarar með fullar skjóður loforða og tillagna. 
Úr fundargerð aðalfundar Lífeyrissjóðs Tannlæknafélags Íslands, 
sem haldinn var þann 20. maí 2016 




01 júní, 2016

Önnur sýn


Ég hef stundum velt því fyrir mér hve óheppinn ég er að vera uppi á sama tíma og tiltekið fólk  sem hefur mikil áhrif á daglegt líf þessarar þjóðar. Ég hef stundum þráð það að vera uppi á einhverjum öðrum tíma, þar sem þeir sem hefjast til valda í samfélaginu myndu búa yfir meiri mannskilningi, meiri hógværð, meiri víðsýni, meiri virðingu fyrir meðborgurum sínum en raunin hefur verið. Jafnharðan hef ég áttað mig á því, að sennilega heyrir það alltaf til undantekninga að leiðtogar þjóða, eða kjörnir leiðtogar yfirleitt, búi yfir þessum kostum. Væntanlega er það vegna þess að við viljum geta speglað okkur í sterkum leiðtoga, óbilgjörnum, sem stendur í lappirnar, lætur ekki kúga sig, og þar fram eftir götunum.  Ætli leiðtogar megi sýna veikleika eða kærleik? Við viljum líklega ekki svoleiðis fólk við stjórnartaumana.
Mér hefur verið hugsað til þessa, eina ferðina enn, undanfarna daga af tvennu tilefni.

S.l. laugardag brautskráðum við 44 nýstúdenta frá Menntaskólanum að Laugarvatni. Af þeim náðu allmargir afar góðum árangri, meðal þeirra Guðbjörg Hrönn Tyrfingsdóttir frá Ljónsstöðum í Sandvíkurhreppi, en hún hlaut næst hæstu fullnaðareinkunn sem gefin hefur verið við skólann frá upphafi. Ég er nú ekki að segja frá afreki Guðbjargar til að mæra hana neitt sérstaklega, enda held ég að hún kunni mér litlar þakkir fyrir þessi skrif. Ég er hinsvegar að benda á eiginleika sem ég tel að megi vera meira áberandi meðal þessarar þjóðar og sem endurspeglast í eftirfarandi færslu sem stúlkan skellti á Fb:
Efst í huga er þakklæti til allra sem fögnuðu deginum með mér, og þeirra sem voru á einhvern hátt hluti af fjögurra ára skólagöngu minni við Menntaskólann að Laugarvatni. Enginn er eins og hann er bara í út í bláinn og þið eigið hvert og eitt sinn þáttinn í því að ég er eins og ég er í dag og hef afrekað það sem ég hef afrekað. Ég hef ekki gert neitt í lífinu algerlega upp á eigin spýtur.  Ef þið eruð stolt af mér, verið þá í leiðinni stolt af sjálfum ykkur og ykkar þætti í mér. Svo vona ég að ég eigi einhverja góða þætti í ykkur líka.
 Þar sem ég las þetta, komu óðar upp í hugann "sterku" leiðtogarnir okkar, sem líta á sig nánast sem ómissandi, óskeikula hálfguði, sem hafa verið skapaðir í einhverju tómarúmi.  Mér finnst, svo sanngirni sé nú gætt, að við eigum stjórnmálamenn í þessu landi sem líta hlutverk sitt í "þjónustu við þjóðina" einmitt sem þjónustu, búa yfir nægu siðferðisþreki til að viðurkenna að þeir eru ekki fullkomnir, eru tilbúnir að sjá aðrar hliðar á málum en sína eigin, geta sett sig í spor annarra. Þegar ég skanna sviðið á Alþingi koma nokkur nöfn upp í hugann: Katrín Jakobsdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Oddný G. Harðardóttir, Óttarr Proppé, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og svo óvænt sem það kann að hljóma, Sigurður Ingi Jóhannsson. Ég nefni þetta fólk sem dæmi og byggi þetta val algerlega á því hvernig það hefur virkað á mig. Það kann að vera að ég lesi það með röngum hætti. Ég er einnig viss um að meðal Alþingismanna eru fleiri af sama toga.
Það er líka margir af hinum toganum á þingi. Ég gæti auðvitað nefnt slatta, en kýs að láta það liggja milli hluta.

Hitt tilefnið sem varð til þess að ég ákvað að setjast í þessi skrif var viðtal við ísfirskan nýstúdent í Kastljósi á RUV:
Isabel Alejandra Díaz út­skrifaðist úr Mennta­skól­an­um á Ísaf­irði á laug­ar­dag með hæstu ein­kunn allra nemenda í ís­lensku. Hún tók við sérstökum verðlaunum af því tilefni og skartaði íslenskum þjóðbúningi; 20. aldar upphlut sem hún saumaði og gerði sjálf. Í áratug bjó hún við stöðugan ótta um að verða vísað úr landi af íslenskum stjórnvöldum. Í Kastljósi í kvöld sagðist hún þakklát Ísfirðingum og samfélaginu sem hjálpaði henni.
Það var ekki aðeins að málefnið sem Isabel fjallaði um væri áhugavert og umhugsunarvert, heldur bar framkoma henna vitni um mikinn þroska og víðsýni og málfarið með afbrigðum gott. Þarna var ekki orðafátæktinni eða beygingarvillunum til að dreifa.

Ég vona að þessar stúlkur og annað ungt fólk af sama tagi, sem áður en varir tekur við þessu samfélagi okkar, fái að njóta sín, sem mótvægi við forystumenn af því tagi sem mér finnst offramboð á.
Ég hef sannarlega oft, með sjálfum mér og við fD, jafnvel í litlum hóp, tjáð svartsýni mína á framtíð þjóðarinnar, vegna einhvers sem hefur birst mér í fari ungs fólks.
Ég er óðum að draga í land með það allt saman og vona að ég fái tækifæri til að draga stöðugt meira í land.

Þessi pistill er nú kannski ekki alveg í þeim tíl sem ég er vanur að viðhafa, en ég tel mig mega þetta líka.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...