11 september, 2019

(Ráð)villtur unglingur með bleika plötu

Sýnishorn af plötubunkanum
Ég er sennilega einn þeirra sem aldrei náði þeirri stöðu á unglingsárum, að verða svokallaður töffari. Ég var bara svona sveitastrákur sem var gegnsýrður af sakleysi og algerlega laus við það spillta umhverfi sem borgarunglingar fengu að upplifa.
Ég var sendur í Héraðsskólann á Laugarvatni upp úr fermingu og þar má segja að ég hafi byrjað að spillast undir handarjaðri jafnaldra sem þegar höfðu marga fjöruna sopið, eða það taldi ég í það minnsta. Þarna voru Suðurnesjamenn talsvert áberandi.
Þriggja vetra dvöl mín í héraðsskólanum færði mig ugglaust nær því að verða maður með mönnum og hvernig má líka annað vera? Aðrir urðu samt meiri menn með mönnum og náðu því að láta reka sig fyrir reykingar eða ólöglegar heimsóknir á kvennavistina. Ugglaust mun ég fjalla meira um þau mál síðar, svona eftir því sem meiri opnun verður í höfðinu á mér, fyrir minningar frá þessum árum.

Höfundur, Laugarástöffari á umræddum tíma. (mynd frá EJ)
Tilefni þessa pistils tengist þessu auðvitað og skýrir nokkuð hve mikið mér er í mun að reyna að vera öðruvísi, reyna að verða maður með mönnum, án þess að langa eitthvað sérstaklega að ná þeim "status" í lífinu. Á táningsárunum er manni mikið í mun að víkja ekki verulega frá því "normi" sem verður til í unglingahópnum sem maður er í, og það felst kannski ekki síst í því að gera eitthvað sem getur orðið til þess jafnaldrnir sjái einhverja ástæðu til að öðlast virðingu fyrir manni og jafnvel taka upp eða aðhyllast það sem maður tekur sér fyrir hendur.

Hvað um það. Héraðsskólaárunum lauk og við tók að flytjast í næsta skóla, menntaskólann. Þarna á milli kom sumarið 1970.

Hinn Laugarástöffarinn á þessum tíma, Pétur Hjaltason.
(Mynd frá EJ)
Það taldist til nokkurra tíðinda þegar Hveratúnsfjölskyldan tók sig til og skellti sér í bæinn. Þarna var drapplitaður Landróver, bensín, heimilisbíllinn. Það tók tvo klukkutíma að keyra til Reykjavíkur yfir Heiðina.
Þetta sumar var haldið í bæjarferð, sem ég man svo sem ekkert eftir, utan eitt atvik, sem ég ætla að fjalla aðeins um hér.

Ég hafði upplifað það í þrjá vetur í héraðsskólanum, þegar menntskælingarnir komu hlaupandi ofan að í hádegismat í mötuneytinu. Þetta var auðvitað til að byrja með hundgamalt fólk, frekar rustalegt, með sítt, úfið hár og hálf druslulegt til fara (staðalmynd auðvitað). Eftir því sem ég færðist nær í aldri, virtist mér útgangurinn á þessu fólki æ eðlilegri, enda í æ meiri mæli farinn að reyna að tileinka mér samskonar lífsstíl.
Innanbúðar í Hljómplötudeild Fálkans 1970.
Það vissi ég, að ég þyrfti að gera mitt til að reyna að verða hluti af þeirri menningu sem beið mín þarna haustið 1970. Eitt að mikilvægasta fannst mér að væri að sýna fram á að ég væri maður með mönnum, sem gæti státað af einhverri lífsreynslu. Auðvitað gat enginn talist lífsreyndur sem ekki þekkti til í Reykjavík, en það var einmitt reynsla sem mig skorti á þessum tíma.
Því var það, að þegar foreldrar mínir þurftu að útrétta eitthvað í miðbænum, ákvað ég að tími væri kominn til að verða sjálfstæður. Ég var látinn út á Laugaveginum þar sem ég vissi að þar væri Hljómplötudeild Fálkans til húsa. Fyrir framan búðina á Laugavegi 24, fór ég út og ákveðið var hvert ég skyldi síðan koma þegar ég hefði lokið erindum mínum.

DENON ferðaplötuspilari eins og á er minnst.
Þegar þarna var komið hafði ég eignast Denon-plötuspilara og ætlun mín var að kaupa hljómplötu sem mögulega gæti fallið í kramið hjá verðandi skólafélögum mínum í ML.
Þegar ég kom inn í þetta musteri hljómplötunnar blöstu auðvitað við rekkar af hjómplötum hvert sem litið var og lifsreyndir Reykvíkingar flettu í óða önn í bunkunum, drógu fram plötur, fótu til afgreiðslumanns og báðu um að fá að hlusta á eitthvað tiltekið, hurfu síðan inn í hlustunarklefa.
Auðvitað sýndi ég þarna af mér fas manns með mönnum og tók til við að fletta í plöturekkunum. Ég ætlaði sko ekki að kaupa plötu með einhverjum sem var á einhverjum vinsældalistum. Það hafði ég lært hjá Denna, í Héró, að troðnar slóðir í þessum bransa væri sko ekki svalt; maður skyldi sko hlusta að eitthvað sem ekki væri allra. Þetta hafði hann sýnt fram á með því að spila Santana daginn út og inn, það væri sko hljómsveit í lagi. Ég náðiekki umtalsverðu sambandi við Santana, en eins og heyra má hér er þetta nú bara ágætt..
Frijid Pink platan góða.

Svo fann ég þessa plötu með hljómsveit sem bar nafnið Frijid Pink í einum rekkanum. Aftaná  henni var lagalisti og þar rak ég augun í "House of the Rising Sun" og ákvað að fá að hlusta á það. Rétti afgreiðslumanninum plötuna og fékk aðgang að tilteknum klefa, settist þar inn og hlustaði á þetta lag, fannst það bara skrambi  gott, fór fram að greiddi fyrir plötuna.

Auðvitað var þetta val mitt á hljómplötu ekki til þess fallið að gera mig að manni með mönnum, þegar upp var staðið. Staða hennar í tónlistarsögunni fer hljótt og mér er til efs, að nokkur sem þetta les, hafi heyrt á hana minnst, en útgáfa Frijid Pink á House of the Rising Sun er bara skrambi góð.

Flutningur Frijid Pink á "House of the Rising Sun"

Kveikjan að því að þessar minningar komu í hugann var vinylplötubunkinn sem ég fann í geymslunni í Kvistholti. Þar á meðal var þessi bleika plata Frijid Pink.

Þessi plötufundur kveikti einnig á minningu um það sem gerðist þegar ég, hróðugur eftir plötukaupin, steig út úr verzlun Fálkans á Laugarvegi 24, sumarið 1970. Þar sem ég stóð á gangstéttinni fyrir utan, uppgötvaði ég að ég vissi ekki í hvora áttina ég ætti að fara. Ég prófaði að ganga í aðra áttina og síðan í hina og svo aftur og enn aftur, en var engu nær. Einn, villtur í 80.000 manna stórborginni. Ástandið var ekki efnilegt og ég hygg að þessi reynsla sé helsta ástæða þess að ég man nokkuð glöggt eftir heimsókn minni í Hljómplötudeild Fálkans.
Ég man enn léttinn þegar ég sá drapplitaðan Landróverinn birtast, en þá hafði staðið yfir einhver leit að mér. Pabbi ráðlagði mér þarna, að sveitamannasið, að ég skyldi alltaf vera klár á kennileitum þar sem ég væri staddur á ókunnum slóðum. Það hef ég reynt að gera síðan.

Vinsældalistinn árið 1970

Edison Lighthouse - 'Love Grows (Where My Rosemary Goes)' 
Lee Marvin - 'Wand'rin Star' 
Simon & Garfunkel - 'Bridge Over Troubled Water' 
Dana - 'All Kinds Of Everything' 
Norman Greenbaum - 'Spirit In The Sky' 
England Football World Cup Squad "70" - 'Back Home' 
Christie - 'Yellow River' 
Mungo Jerry - 'In The Summertime' 
Elvis Presley - 'The Wonder Of You' 
Smokey Robinson & The Miracles - 'The Tears Of A Clown' 
Freda Payne - 'Band Of Gold' 
Matthews Southern Comfort - 'Woodstock' 
Jimi Hendrix Experience - 'Voodoo Chile' 
Dave Edmunds Rockpile - 'I Hear You Knocking'

--------------------------------------------
Þar sem ég hyggst ekki verða mér úti um plötuspilara fyrir Vinyl plötur, liggur nú fyrir að losna við bunkann. Þarn er vísast mörg perlan sem verður barist um.

08 september, 2019

Retró rómantík

Rómantík í Þórsmörk í lok áttunda áratugarins (Mynd ÁS).
Stundum hef ég fengið að heyra það að ég sé órómantískur. Ég er jafnvel skilgreindur þannig út frá þeim skilningi þess sem leggur þetta mat á persónu mína, að rómantík felist í einhverri tiltekinni *múshí, múshí* framkomu af minni hálfu; framkomu sem felur þá í sér eitthvað það sem amerísk lágmenning er iðin við að halda að okkur.
Ég hafna því hinsvegar ávallt að ég sé ekki rómantískur. Skilningur minn á hugtakinu er þá allt annar en að ofan greinir og ég virðist upplifa rómantík samkvæmt þeim skilningi æ meir eftir því sem tímar líða.
Samkvæmt mínum skilningi á hugtakinu rómantík, þá er það tilfinning þar sem hlýjar minningar um fortíðina dúkka upp í textum eða á myndum.
Meiri rómantík í Þórsmörk (Mynd ÁS)
Það var til dæmis ekkert rómatískt á sínum tíma, við það þegar ég var að keyra að vorlagi á Laugarvatn í vinnuna og undir hælinn lagt hvort ég kæmist yfir hvörfin í veginum, svo ekki sé nú talað um áhættuferðir í blindbyl í febrúar eða mars, á hvítri, mökkryðgaðri volvódruslu. Nú upplifi þetta hinsvegar sem rómantík - hluta þeirra sögu sem ég er búinn að lifa. Minningarnar um þessi ævintýri eru hlýjar, vegna þess að ég komst óskaddaður frá þeim, upplifði mig jafnvel sem nokkurskonar hetju, sem lagði flest í sölurnar til að sinna því starfi sem ég var ráðinn til (fyrir lélegt kaup, jafnvel).

Rómantík í Bláa hellinum. (mynd PMS)
Nei, rómantíkin felst í minningum og þá þeim minningum sem maður á, sem ekki geta verið almenningseign. Það er, til dæmis, að mínu mati, harla lítið rómantískt við að skella sér til Tenerife og syngja íslenska slagara með hinum Íslendingunum í sundlaugargarðinum á síðkvöldum.  Það verður hinsvegar að teljast ofurrómantískt atvik, þegar Skálholtskórinn fór í siglingu í sjóræningjaskipi á spegilsléttu Adríahafinu við sólarlag. Það er rómantískt, eftir á, að braska við að byggja yfir sig hús, rómantískt að komast yfir erfiða þröskulda í lífinu, rómantískt að hringja í Matthildi um miðja nótt þegar yngsti sonurinn tilkynnti um að nú væri hans tími kominn, rómantískt að fara í hópferð garðyrkjubænda í Þórsmörk, rómantískt að villast í Glasgow með alla fjölskylduna í fyrstu utanlandsferðinni saman, eða sigla í árabát inn í Bláa hellinn á Caprí, rómatík að minnast allra þeirra sem maður hefur lifað með súrt og sætt, en sem nú eru horfnir af sjónarsviðinu..
Allt þetta og svo miklu meira breytist í hlýjar minningar, sem jafngilda rómantík, að mínu mati og hananú.

Rómantík við húsbyggingu (Mynd DÞ)
Sennilega getur eitthvað af því sem ég hef talið hér að ofan flokkast sem svona *múshí, múshí*  í ströngum skilning og með einbeittum vilja, en því hafna ég jafnharðan.

Rómantíkin felst oftar en ekki í einhverju sem var, frekar en því sem er og rómantíska stund er ekki hægt að skipulegga. Hún þarf að vera óundirbúin, bara spretta fram.

Þá er ég búinn að afgreiða rómantíkina.




02 september, 2019

Hugmynd, teikning, veruleiki.

Í janúar á síðasta ári, fyrir um 20 mánuðum. gerði ég það að gamni mínu að teikna upp svæði við brúarsporðinn þar sem ætlunin væri að útbúa bílaplan og koma upp söguskiltum. Nú standa þessi fínu skilti þarna á rúmgóðu plani. Skiltin meira að segja á sama stað og teikningin sýnir.

Auðvitað hugsa ég með mér, að ég hljóti að vera einhverskonar snillingur, en það er nú bara til heimabrúks og þá er undir hælinn lagt hvort nokkur tekur undir nema minn eigin hugarheimur, sem er mér í rauninni alveg nóg. Það eru ef til vill bara örlög mín að upplifa einn með sjálfum mér þá ljúfu tilfinningu að finnast ég vera snillingur. 

Hvað um það. Hugmyndin að söguskiltunum spratt út úr höfðum Iðumanna, en það samheiti um fjölskylduna á Iðu, í víðum skilningi, hefur verið notað svo lengi sem ég man eftir mér. Í ljósi þjóðfélagsbreytinga, þar sem konur virðast ekki lengur vera menn, má reikna með að framvegis verði alltaf talað um Iðufólkið og síðan vísað til þess sem ÞAU, þó svo málfræðin segi okkur að nota ÞAÐ um fólk. Allar þessar krókaleiðir í þessum skrifum hjá mér, breyta því ekki, að Iðumenn eiga þessa ágætu hugmynd skuldlausa og sem nú er orðin að veruleika, með minni aðkomu og sannarlega aðkomu og stuðningi talsvert margra annarra.


Söguskiltin eru einskonar virðingarvottur, þar sem þess er freistað að halda til haga tímanum sem er liðinn og minna okkur á það, að við erum ekki neitt, nema vegna þess sem var. Það veitir sannarlega ekki af því á tímum þegar mannskepnan glatar í æ rikari mæli tengslum við uppruna sinn í einhverju hvirfilæði. (Orð sem verður til í ljósi bylsins sem nú ógnar vinunum í vestri).

Hvað svo sem má segja um þetta allt saman, þá er það nú í rauninni ekki það eina sem ég vildi sagt hafa, hér og nú.

Efri myndina birti ég í janúar á síðasta ári. Þar fylgdi inngangur um fyrirhuguð sögu- eða upplýsingaskilti, en svo hélt ég áfram svona:
Þá rak ég augun í gamla vatnsveitukofann. Þar væri, að lágmarki hægt að koma upp hverfispöbb 📷 :) (sem örugglega myndi mælast vel fyrir), galleríi, safni af einhverju tagi, nú eða bara einhverju skemmtilegu. Svo er hægt að hugsa kofann (og vatnstankinn á bakvið sem neðri hæð veitingastaðar, með einstaklega fögru útsýni yfir ána og brúna og fjallið. Efst á hólnum gæti verið útisvæði/pallur sem væri á einstökum stað. Það má láta sig dreyma, en það þarf að útbúa bílastæði. Það er allavega ljóst.
Vatnsveitukofinn stendur þarna enn og framtíð hans er jafn óljós og fyrr. Sannarlega leyfi ég mér að ítreka það sem ég þarna sagði, en finnst rétt að geta þess jafnframt, að ég hyggst ekki verða þátttakandi í því að byggja þarna upp hverfispöbb, gallerí, eða veitingahús með útsýnispalli. Mér finnst samt hugmyndin vera góð, og verði henni hrint í framkvæmd, mun ég sannarlega minna á hver átti hana, skella mér á pöbbinn, njóta góðrar máltíðar og setjast síðan út á útsýnispallinn, umvafinn logninu í Laugarási um leið og ég virði fyrir mér eina ferðina enn fegurðina sem við blasir..

30 ágúst, 2019

María, María fæddist við Hvítárbrú


Í tímaritinu Útiveru, árið 2004 var grein um Sigurð Þórarinsson, jarðfræðing sem Sigurður Bogi Sævarsson skrifaði. Þar vitnaði hann til greinar eftir Sigurð Steinþórsson um Sigurð Þórarinsson sem birtist í Andvara 1985. Hér er það sem segir um þetta í Andvara:

Uppruni Þórsmerkurljóðs við Hvítárbú
„Þórsmerkurljóð" Sigurðar varð til í Grímsvötnum skömmu fyrir 1960, og segir Halldór Ólafsson, vinur og aðstoðarmaður Sigurðar í mörg ár, þannig frá tildrögum þess: 

Halldór hafði ekið manni að Hvítá hjá Iðu, þar sem verið var að smíða brúna, og sátu menn þar að gleðskap. Með brúarmönnum voru þrír þýzkir stúdentar, sem komið höfðu gangandi norðan Kjöl, og sungu þeir þýzkan söng sem Halldór minnir að héti „Des Zigeuners freuliche Leben" og hafði að viðkvæði „faria, faria". Brúargerðarmenn höfðu ort sönginn upp á íslenzku, og var þetta upphafið:

Krýsuvíkin er vondur staður, faría, faría,
þangað fer enginn óvitlaus maður, faría, faría,
 og nam Halldór lag og kvæði. 
Viku síðar lágu þeir Sigurður veðurtepptir í Grímsvötnum og tvímenntu í koju. Var Sigurður lasinn og lá mest og mókti, en eitt kvöldið vildi Halldór gleðja hann og sagði: „Nú skaltu læra skemmtilegt lag sem ég heyrði um daginn" og söng fyrir hann ljóð brúarvinnumanna. Morguninn eftir vakti Sigurður Halldór og var þá búinn að yrkja „Þórsmerkurljóð". Taldi Halldór að Þórsmörkin hefði verið honum ofarlega í huga því hann var rétt kominn úr ferð þangað með Ferðafélaginu.

Lagið sem þýsku stúdentarnir sungu kallast reyndar „Lustig is das Zigeunerleben“, er barnasöngur eða slagari og textinn er svona á þýsku:
Lustig ist das Zigeunerleben
Lustig ist das Zigeunerleben,
Faria, fariaho.
Brauchen dem Kaiser kein Zins zu geben,
Faria, fariaho.
Lustig ist's im grünen Wald,
Wo des Zigeuners Aufenthalt.
Faria, faria, faria, faria,
Faria, fariaho.
Sollt uns einmal der Hunger plagen,
Faria, fariaho.
Tun wir uns ein Hirschlein jagen,
Faria, fariaho.
Hirschlein, nimm dich wohl in acht,
Wenn des Jägers Büchse kracht.
Faria, faria, faria, faria,
Faria, fariaho.
Sollt uns einmal der Durst sehr quälen,
Faria, fariaho.
Gehn wir hin zu Wasserquellen,
Faria, fariaho.
Trinken das Wasser wie Moselwein,
Meinen, es müßte Champagner sein.
Faria, faria, faria, faria,
Faria, fariaho.
Mädchen, willst du Tabak rauchen
Faria, fariaho.
Brauchst dir keine Pfeif zu kaufen
Faria, fariaho.
Greif in meine Tasch' hinnein
Da wird…



Það var Sigurður Bogi Sævarsson sem benti mér á þessa skemmtilegu tengingu Þórsmerkurljóðs við byggingu Hvítárbrúar.
Kannski við ættum að skella einhverjum viðeigandi texta við þetta lag og taka það upp sem þorpssöng í Laugarási.

Þú ert ljúfur og léttur staður
Laugarás, Laugarás
enginn fer frá þér heilvita maður
Laugarás, Laugarás.
...og svo framvegis.

12 ágúst, 2019

Glæpakvendið

Hún sat þarna í svörtum Chevrolet og fylgdist með okkur þegar við ókum framhjá afleggjaranum. Klukkan var hálfsjö að morgni rétt fyrir austan Grindavík og við á leið eftir Suðurstrandarvegi í átt til Þorlákshafnar, en það er um sextíu kílómetra spotti. Ætlun okkar var að koma við í Krýsuvík, en þangað hafði fD ekki komið í einhverja áratugi. Það kann að teljast undarlegur ferðatími uppsveitafólks, að vera á þessari leið á þessum tíma, en við vorum að koma frá flugvellinum þar sem við höfðum skilað af okkur dóttur og barnabörnum í flug og hugðumst breyta aðeins til með leiðina heim. 
Hún var með þykkt, ljóst hár og í dökkum fötum, líklegast leðurgalla. Sat þarna í þessum svarta bíl og leit í átt til okkar þar sem við brunuðum framhjá. Ég var nú svo sem ekkert að velta þessum bíl eða konu sérstaklega fyrir mér fyrst í stað, nema kannski í það augnablik sem það tók mig að velta fyrir mér að þetta væri líklega ekki alveg venjulegt.

Eftirför

Eftirförin hófst þar sem rauði krossinn er.
Það var ekki fyrr en þegar við ókum upp Siglubergsháls, sem leið liggur norðan Festarfjalls, að mér varð litið í baksýnisspegilinn. Þá sá ég hvar svarti bíllinn ók í humátt á eftir okkur í um 200 metra fjarlægð, sem þurfti svo sem ekki að vera neitt óeðlilegt, en samt sem áður fór ég að fylgjast með honum og tók smám saman eftir því að fjarlægðin milli bílanna hélst óbreytt hvort sem ég ók hraðar eða hægar. Þá byrjaði ég að velta þessu öllu fyrir mér. Stór,svartur, amerískur bíll, ljóshærð, leðurklædd kona við stýrið, fyrir klukkan sjö að morgni á fáförnum vegi.  Hversvegna hélt hún sama hraða og ég?  Beið okkar einhverskonar fyrirsát á þeim 50 kílómetrum sem framundan voru til Þorlákshafnar? Myndi hún láta til skarar skríða á einhverjum fyrirfram ákveðnum stað? 

Minkurinn

Við þessar aðstæður kom mér í hug atvik úr barnæsku þegar ég þurfti að ganga í niðamyrkri milli gamla bæjarins í Hveratúni og þess nýja, en það er ekki nema 50-60 metra vegalengd. Þá fór ég allt í einu að ímynda mér, að það væri minkur að elta mig og tók til fótanna. Skelfingin óx síðan með hverju skrefi. Auðvitað var enginn minkur að elta mig, en ímyndunaraflið var sannarlega í góðu lagi. 
Ég komst að því þarna, að enn var ímyndunaraflið ekkert farið að ryðga og ég tók eftir því að ósjálfrátt var ég farinn að auka hraðann. Svarti bíllinn hélt samt bilinu óbreyttu.

Farðu framúr!

Ég prófaði að hægja ferðina til að gefa konunni kost á að fara fam úr og bruna sína leið í austurátt, inn í sólarupprásina, en það virkaði ekki, hún hélt sömu fjarlægð milli bílanna.  Nú var svo komið, að ég nefndi þennan svarta bíl við fD, en það varð til þess að hún fór líka að fylgjast með svarta bílnum. Við vorum meira að segja farin að ræða ýmsa möguleika varðandi það sem þarna gæti veið um að ræða, til dæmis að bak við einhverja hæðina framundan biði okkar fyrirsát úr undiheimum Reykjavíkur, eða þá að í svarta bílnum leyndust fleiri en ljóshærða konan og að á ákveðnum tímapunkti myndu þau láta til skarar skríða, taka fram úr og loka veginum áður en þau gerðu árás.

Engin Krýsuvík

Meðan á þessum pælingum stóð birtist afleggjarinn að Krýsuvík skyndilega, en hraðinn á okkur var slíkur að ég hefði ekki náð að hægja á tímanlega, til að taka beygjuna inn á hann nema nauðhemla, sem leit ekki vel út og hefði getað kallað fram skyndiárás glæpahyskisins í svarta bílnum. Þó svo fD hefði óskað þess að fá að skoða Krýsuvík, loksins, eftir að áratugir höfðu liðið frá því hún kom þangað síðast í sunnudagsbíltúr með foreldrum sínum, lagðist hún gegn því að ég sneri við til að hægt yrði að uppfylla drauminn.  Meðan við komumst að þeirri niðurstöðu, að halda bara áfram án heimsóknar í Krýsuvík, hafði ég dregið talsvert úr ferðinni. Það hafði konan á svarta bílnum einnig gert, sem varð til þess að enn styrktist grunur minn um að ekki væri allt með felldu.

Bjargar trúin?

Framundan urðum við, með góðu eða illu, að ná einhverjum áfangastað þar sem fólk væri fyrir, en um slíkt var ekki að ræða fyrr en í Vogsósum eða Strönd, að því er við töldum og þangað voru rúmlega 20 kílómetrar í gegnum auðnina. Vegurinn gaf fullt tilefni til þess og ég jók því hraðann (eins og þegar meintur minkur hafði elt mig forðum), í þeirri von að glæpamennirnir eða kókaínfíklarnir væru í svarta bílnum, en væru ekki að undirbúa fyrirsát.
Enn hélt konan á svarta bílnum sömu fjarlægð. Ekkert annað gerðist og það var nokkur léttir þegar Strandarkirkja birtist framundan.

Hringt í lögreglu?

Áttum við að leita ásjár hjá fólkinu sem þarna býr klukkan sjö að morgni? Hvað áttum við að segja við það?  Niðurstaðan af þeirri umræðu, sem reyndar var ekki umræða nema í hugasfylgsnum, var að freista þess að ná til Þorlákshafnar, sem nú var í um 20 kílómetra fjarlægð. Það var áhætta, en með því myndum við forðast að lenda í vandræðalegu samtali við ókunnugt fólk um glæpamenn sem væru á hælunum á okkur. Mér hafði ekki einu sinni komið til hugar að benda fD á að hringja í lögregluna þegar eftirförin stóð sem hæst, en sannarlega hefði það símtal geta orðið nokkuð skondið, svona eftir á að hyggja.

Björgun í augsýn

Eftir því sem við nálguðumst Þorlákshöfn fannst okkur að líkur á því að á okkur yrði framinn glæpur, minnkuðu með hverjum kílómetranum. Líkurnar urðu sáralitlar þegar Þorlákshöfn tók að blasa við og hurfu endanlega þar sem við ákváðum að beygja af hringtorginu inn í bæinn, meðan konan á svarta bílnum renndi út úr torginu í norðurátt.
Léttir.
Leið okkar lá inn í sofandi Þorlákshöfn með fánum og blöðrum skrýdd hús og garða og götur. Framundan var hamingjudagur í þessu bæjarfélagi.

Ótti við auðnina

Ég hef velt nokkuð fyrir mér hversvegna þessi ljóshærða kona í svörtum stórum jeppa, beið okkar á þessum afleggjara við Grindavík klukkan hálf sjö að morgni og elti okkur síðan þessa 50 km. leið til Þorlákshafnar.  Ég get ímyndað mér margar ástæður fyrir þessu, en ég tel að sú sem er líklegust myndi ekki beinlínis falla í kramið á þessum tímum og læt því vera að upplýsa um það mat mitt.

--------------

Þessi saga byggir nokkuð lauslega á sönnum atburðum. 

03 ágúst, 2019

Úr Kvisthyltinga óvissum tíma

Krækiber á Þengilseyri
Það fór ekki svo að Wintris maðurinn fyllti ekki aftur út í skjáinn og örugglega ekki í síðasta skipti. Þetta er maðurinn sem mér sýnist að muni leiða íslenska þjóð á næstu árum. Foringi okkar, hinn flekklausi, sem þarf stöðugt að berjast gegn öfundarfólki sínu, en mun sannarlega hafa betur að lokum. Það er styttra í þau lok en margur hyggur. Það varð mér enn ljósara þar sem ég, vegna þess að ég nennti ekki að gera neitt annað, sat fyrir framan RUV frá því eftir fréttir til klukkan átta á mánudögum, þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum. Á föstudögum, laugardögum og sunnudögum þakkaði ég almættinu fyrir að  þurfa ekki að þjást yfir "Sumrinu".

Bláber á Þengilseyri
Það eru alltaf tímamót um verslunarmannahelgi, þegar fólk fer að tínast úr sumarleyfum og verslanirnar byrja að hamast við að auglýsa skólahitt og skólaþetta. Ég er smám saman að losna undan fiðringnum sem fór alltaf um mig á þessum tíma, þegar vetrarstarf mitt blasti við: fyrst undirbúningurinn og síðan móttaka unglingahópsins sem mætti til vetrarvistar á Laugarvatni. Ég þarf ekki að fjölyrða um það að það voru forréttindi að fá að taka þátt í þessu starfi og vera hluti af þessum hópi. Að sama skapi er ég ósköp feginn að vera stiginn út úr þessu umhverfi.
Allt á sinn tíma.
Ég veit sannast sagna ekki hvort mér tækist að eiga í uppbyggilegum samskiptum við unga fólkið sem leggur leið sína á Laugarvatn á þessu hausti og ég efast einnig um að mér liði vel í hópi unga samstarfsfólksins sem innan skamms mætir til undirbúnings fyrir vetrarstarfið.

Skálholt
Það væri löng saga að fjalla um ástæður þessa og sennilega engum til gagns. Ég held að hver kynslóð sjái umhverfi sitt með ólíkum hætti og breytingarnar þessi árin eru hraðari en þær hafa nokkurntíma verið í mannkynssögunni. Ég vona að manninum auðnist að höndla þennan hraða, en ég efast stundum.

Verslunarmannahelgin boðar breytingar í lífstaktinum. Framundan eru haustmánuðirnir sem áður einkenndust af uppskeru garðávaxta, göngum, réttum og sláturtíð. Ætli við megum ekki búast við mótmælum við helstu sláturhús landsins á þessu hausti.
Hvítárbrú hjá Iðu
Október og nóvember eru alla jafna biðtími, sem verslanir nýta æ betur til að æsa okkur upp fyrir gjöfulasta tíma kapítalismans.
Desember fer í undirbúning fyrir fæðingardag frelsarans: tónleikar, jólahlaðborð, verslunarferðir og streitu. Svo taka við öll hátíðahöldin, sem hafa æ minna með kristna arfleifð okkar að gera, nema kannski svona að nafninu til. Loks fögnum við nýju ári með ýmsum hætti.
Svona hefur það verið og svona verður það í stórum dráttum. Furðu fastar skorður þrátt fyrir allt og allt.

Hundur, maður og álftir við Böðvarssker.
Við Kvisthyltingar höfum átt undarlegt sumar; sumar óvissu, eftirvæntingar og rólegheita með lúsmýskryddi við og við. Sumar yfirvofandi umbreytinga.

Eitt er það sem hefur verið frekar fastur punktur í tilveru minni síðustu mánuði og sem verður afhjúpað um miðjan þennan mánuð, ef allt gengur upp. Um er að ræða verk sem mér finnst skipta talsvert miklu máli fyrir þetta svæði og ég er sannfærður um, að þar er um að ræða gott verk og glæsilegt.  Ekki neita ég því samt, að þetta verk er þess eðlis að lítið má út af bera til að það uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar eru til verka af þessu tagi. Ég sannfæri sjálfan mig jafnóðum um að þetta fari vel og að ef ég hefði ekki gert þetta, hefði það sennilega ekki verið gert, í það minnsta ekki á næstunni.
Innan skamms verður upplýst frekar um hvað hér er um að ræða.

Komandi vika verður lífleg í Kvistholti, með tveim ungum Álaborgarbúum, sem hyggjast efla hér íslenskukunnáttu sína og færni ásamt því að viðhaldi kynnum sínum af ömmu og afa í þessum landshluta. Það verður nú eitthvað og er tilhlökkuknarefni.

Grágæsafjölskyldur á Hvítá





29 júlí, 2019

Fyllirí og þynnka

Einstaklingarnir á þessari mynd eru óþekktir og bara teknir
af internetinu.
Sú var nú tíð, að ég, eins og flestir jafnaldrarnir, komumst á aldur til að fara á sveitaböll. Mánaböllinn voru málið á þeim tíma. Þessi böll voru sannarlega engin teboð og fljótandi, vímugefandi efni sáu til þess að nánast algleymi var náð, hömlur hurfu og allt varð einhvernveginn einfaldara og auðveldara.  Þetta hefði bara verið ansi gott ef ekki hefði verið fyrir daginn eftir. Já, meira að segja hann ég á minningar um slíka daga. Þessir dagar hefðu aldrei átt að koma. Ilmurinn af lambslærinu í ofninum um hádegisbil var varð nú aldeilis ekki til að bæta líðanina. 
Sá tími kom, að ég fór að læra. Ég lærði það, að líklega var alsæla of mikillar notkunar fljótandi, vímuorsakandi efna, of dýru verði keypt. Ég lærði, að þar var betra að vera laus við hörmungar dagsins eftir.
Einhver kanna að velta fyrir sér hverskonar játningastuð ég er nú kominn í og ég mun upplýsa það í næstu málsgrein.

Við  erum að upplifa breytingar á veðurfari í heiminum og höfum ekki hugmynd um hvenær eða hve langt þær ganga. Við erum sauðdrukkin og njótum allra dásemdanna sem tækni og vísindi með tilstyrk kapítalismans, auglýsingamennsku og ímyndarsköpunar, hafa fært okkur.
Þetta er svo frábært.
Við eigum þessa jörð og við megum gera hvað sem okkur dettur í hug við hana.
Fokk bara einhverju kjaftæði um að við séum að eyðileggja hana!
Hvernig er líka hægt að halda slíku fram - dásemdar blíða dag eftir dag, hvert hitametið á fætur öðru slegið. Ísland er orðið Paradís á þessari jörð.  Gerum bara það sem hugurinn girnist og hendum einhverjum krónum í einhvern trjáræktarsjóð, sem einhverjir þykjast hafa reiknað út að geti kolefnisjafnað sukkið. Við getum líta látið einhverja aura renna í skurðalokunarsjóð, sem einhverjir þykjast hafa reiknað út að geti nánast bara bjargað þessu öllu.
Samviskuna get ég grætt 
og gefið henni sitthvað inn...
(Páll Ólafsson)
Vandinn við þetta allt saman er, að það er engin vissa fyrir neinu. Það er eintóm óvissa og það eru bornar fram upplýsingar og getgátur þvers og kruss. Eftir sitjum við í blíðunni, svokölluðu og njótum dásemdanna, við sem viljum ekki, eða nennum ekki að velta fyrir okkur alvarleika þess sem mögulega er framundan. 
Við þessi eldri, þjökuð af velmegun síðustu áratuga, kunnum að hugsa sem svo (vegna þess að við erum ansi sjálfhverf mörg hver) að þetta reddist meðan við erum ofar moldu.  Það er mögulega eina gáfulega niðurstaðan þegar upp er staðið. Okkar aðgerðir við að flokka endalaust til að draga úr stækkun ruslahauganna, breytir sennilega ekki svo miklu þegar upp er staðið.
NASA Earth observatory
Mig grunar, að þær aðgerðir sem mannkynið verður að grípa til, ef því á annað borð auðnast að grípa til annarra aðgerða en orðavaðals, séu svo  umfangsmiklar, að þær muni koma aldeilis við okkur.  Ef við erum ekki tilbúin til að draga úr lífsgæðum svo um munar, er ekki við öðru að búast en að illa fari - einhverntíma. Loftslagsvísindamenn lýsa undrun sinni á hraða þessarar hlýnunar, sem bendir til að þeir viti fátt um hvað framundan er. Ég fæ það stundum á tilfinninguna að við séum á litlum bát á stórfljóti sem ber okkur niður stöðugt þrengri farveg í átt að fossinum við enda gljúfursins.

Það sem fyllir mig ekki síst þessari svartsýni er, að í stað þess að velja til forystu fólk sem er tilbúið að kvelja okkur til breyttra lífshátta, á öllum sviðum, leiðum við trúða og vanvita í æ meira mæli til valda. Helst nógu gamla til að þeir þurfi ekkert að kvíða því að jörðin verði óbyggileg meðan þeir lifa.

Já, ég sit hér í svitakófi, 24°C hita í Kvistholti og blæs og fnæsi. Ég á mér von um að raus af þessu tagi eigi sér enga stoð, en það er einmitt sú hugsun sem er vísasta leiðin til ..... jæja.

Meðan veðurfræðingurinn á RUV heldur áfram að tala um hitametin sem BLÍÐU, er ástæða til að hafa áhyggjur.

Patrýið er að byrja að verða þreytt og núna er spurningin hvernig ilmurinn af lambslærinu á morgun fer í okkur.

Byrjum hinsvegar á því að velja okkur leiðtoga á þessari jörð sem eru nógu sterkir til að kvelja okkur til að snúa af þessari braut. Það held ég að sé eina leiðin.
------------------------------------------------------------------------------


Þetta var sem sagt svona dæmigerður orðavaðall, sem engu breytir víst. 
Svo er spurning hvort ég skelli mér ekki í að viðhalda yfirstandandi lífsstíl með öllu því sem honum fylgir.

21 júlí, 2019

Ég, pákuleikarinn

19. aldar páka (ketiltromma) Þvermál 65 cms og hæð 68 cm.
Mér kom eftirfarandi í hug í gær þar sem ég ásamt félögum mínum í Skálholtskórnum tókum þátt í að flytja kantötur eftir Bach, m.a. BWV 169, á tónleikum í Skálholtsdómkirkju. 

The thing Jesus really would've liked would be the guy that plays the kettle drums in the orchestra. I've watched that guy since I was about eight years old. My brother Allie and I, if we were with our parents and all, we used to move our seats and go way down so we could watch him. He's the best drummer I ever saw. He only gets a chance to bang them a couple of times during a whole piece, but he never looks bored when he isn't doing it. Then when he does bang them, he does it so nice and sweet, with this nervous expression on his face. 
(J.D. Salinger: The Catcher in the Rye) 
Holden Caulfield, sem er aðalpersónan og sögumaður í skáldsögunni, er hér að lýsa því hvað honum finnst um pákuleikarann í hljómsveit sem hann hefur oft hlustað á áður.  Hann segir efnislega: Jesús hefði sannarlega kunnað við náungann sem lék á pákurnar. Hann er besti trommuleikari sem ég hef nokkurntíma séð. Hann fær bara að slá í trommurnar nokkrum sinnum allt verkið, en honum virðist aldrei leiðast þegar hann er ekki að slá. Þegar hann fær að slá þá gerir hann það svo einstaklega vel og blítt, og virðist vera dálítið taugaóstyrkur þegar hann gerir það.

Það var einhvern veginn svona sem mér fannst þetta vera í gær, þar sem þáttur minn og hinna "pákuleikaranna" var ekki stór, en samt leiddist okkur ekkert og þegar kom að okkur, fluttum við það sem okkur hafði verið úthlutað, svo einstaklega vel. Mögulega hefði mátt greina örlítinn taugaóstyrk í andlitsdráttum okkar. Holden Caulfield hefði líkað vel við okkur held ég.

Það sem við gerðum á þessum tónleikum var að flytja þrennt eftir  J.S.Bach og allt mjög stutt: Slá þú hjartans hörpu strengi, Ó höfuð dreyra drifið og síðan síðasta hlutann af kantötunni sem kallast BWV169, sem tók um mínútu í flutningi. Samtals mun flutningur þessara pákuleikara hafa tekið um 5 mínútur af þessum klukkutíma tónleikum.
Vissulega var hlutverk okkar ekki stórt, en ef litið er til þess, að á hverju ári sendum við her manns utan til að vera fulltrúar okkar í Evrópusöngvakeppninni með sitt þriggja mínútna lag, þá ætti nú ekki að vera stóra málið að skjótast í Skálholt með fimm mínútna framlag. Unndirbúningurinn fyrir þessar fimm mínútur telst auðvitað í tugum klukkustunda, svo þegar upp er staðið ..... já.

Tilvitnunin á myndinni hægra megin á engan veginn að vísa til framgöngu þeirra sem fluttu hinar 55 mínúturnar af umræddum tónleikum. Öll voru þau aðdáunarverð: það rauk úr fingrum organistans Jóns Bjarnasonar og Hildigunnur Einarsdóttir, mezzosópran geislaði í gegnum sinn þátt. Það sama má segja um aðra hljóðfæraleikara. 


Svo heldur þetta áfram í dag og auðvitað allt Guði til dýrðar. 😅

12 júlí, 2019

Ekki henda fornum afrekum

Bækur eru vinsælar þegar kemur að því að veita verðlaun eða viðurkenningar fyrir góðan árangur af einhverju tagi og þá aðallega fyrir afrek á sviði menntunar. Þetta er gert vegna þess að bækur geyma þekkingu og menningu, fyrir utan að vera eigulegir gripir, sem fara vel í bókahillum.
Það sem hér verður ritað virkar sjálfsagt sem sjálfshól af minni hálfu og það verður þá bara að hafa það. Ég hef fengið slatta af árituðum bókum gegnum tíðina, langmest vegna einhverra lítilla sigra í námi. Mér þótti vænt um að fá þessar viðurkenningar og hef geymt þessar bækur síðan, en af einhverjum orsökum hef ég ekki lesið nema brot af þeim.
Nú stend ég frammi fyrir því að grisja bókaskápa og kemst að því, sem ég svo sem vissi fyrir, að það er meira framboð af gömlum bókum en eftirspurn, sem þýðir ekkert annað en það, að stærstur hluti bókanna hverfur ofan í tunnu og gæti með heppni endað sem klósettrúlla. Þetta er nánast átakanleg tilhugsun, en fátt við því að gera, víst.

Ég er viss um, að við ákvarðanir um hvaða bækur í Kvistholti fá þetta hlutskipti, hafa ýmsar gamlar viðurkenningabækur lent í tunnum. Ég hef samt reynt að fylgjast með því sem flokkað er til förgunar, til þess að leyfa bókum af þessu tagi að fá lengra líf. Ég þykist samt viss um að þær munu þegar sá tími kemur fá sömu örlög og hinar.

Ég sé sjálfan mig reyndar ekki fyrir mér, sitjandi í leisíbojnum mínum í ellinni, blaðandi í gömlum viðurkenningum. Þær eru viðurkenningar fyrir eitthvað sem var, einhverjar litlar vörður á lífsleiðinni, sem höfðu fyrst og fremst gildi þá.

Tólf ára pjakkurinn sem fékk þessa bók um Örn Arnarson fyrir að vera nokkuð góður í stafsetningu, var á sínum tíma glaður og stoltur yfir því að reynast góður á einhverju sviði og ég er ekki frá því að þessi litla bók hafi haft áhrif langt inn í framtíð hans.


Bókina hef ég aldrei lesið, frekar en flestar þeirra bóka sem mér hafa verið gefnar við svipuð tilefni síðar.  Mér finnst það ekki bera vott um vanþakklæti þar sem ég lít á svona bækur sem tákn eða eigulegan grip, sem minnir mann kannski á það sem eitt sinn var, en ekki endilega til þess ætlaðar að verða lesnar upp til agna. Ef sá væri tilgangurinn yrðu sennilega þau Arnaldur og Yrsa vinsælli til viðurkenninga.

Tólf ára pjakkurinn man nokkuð vel eftir þessum kennara, Sigurði Ágústssyni frá Birtingaholti. Hann var gamall og góður kall sem maður bar virðingu fyrir. Myndin af því þegar hann var að kenna okkur smíði í kjallaranum í Aratungu, undir kaffisalnum, og missti fingur í vélsög, hverfur einhvern veginn ekki úr huganum. Hún er þarna hvort sem hún er rétt, eða til komin vegna umhverfissmits á þeim tíma sem þetta gerðist.

Þarna var ég ekkert að velta fyrir mér hvernig á því stóð að Sigurður var að kenna í Reykholtsskóla, né heldur hvaðan hann var, eða hvað hann var.  Það var ekki fyrr en talsvert seinna.
Ekki finnst  mér ólíklegt að samnemendur mínir margir hverjir muni miklu betur en ég ýmislegt um þennan ágæta karl.

Svona getur ein lítil bók komið af stað allskyns hugreninngum og upprifjunum, bók sem aldrei hefur verið lesin þó hún beri þess merki að hafa verið handfjötluð talsvert. Það kom aðallega til þegar þurrkað var úr bókahillunum í Kvistholti; hver bók tekin og ryksuguð, af mis mikilli vandvirkni, eins og verða vill stundum.


01 júlí, 2019

Varnarleysi dauðans

Við getum varast það sem við sjáum og höfum reynslu af. Þetta líf okkar snýst að talsverðum hluta um að sneiða hjá þeim hættum sem felast í að eiga líf á þessari jörð. Það plaga okkur sjúkdómar, við eigum á hættu að slasast eða láta lífið í hvert skipti sem við hreyfum okkur.  Við notum  allskyns hættuleg efni til að gera gönguna um þennan táradal léttbærari, setjum ofan í okkur hitt og þetta sem við hefðum betur sleppt. Svona er þetta bara og við sættum okkur við það, svo lengi sem við gerum okkur grein fyrir þeim hættum sem allsstaðar er að finna. Ef maður fer svo að ofhugsa málið, þá blasir það við að það er nánast kraftaverk að við höldum lífi til lengdar. 

Á jörðinni lærir fólk á hverjum stað að takast á við hætturnar sem þar er að finna og lifi með þeim. Sumsstaðar eru þessar hættur algengari og líklegri til að valda því skaða. Annarsstaðar eru þær fátíðari og súa staða uppi að maður getur verið nokkuð viss um það, að ef allt gengur eftir sem ætlað er, þá eru meiri líkur en minni á því að maður ná að ljúka eðlilegri ævilengd miðað við kyn og allt annað sem ævilengt fólks ræður.

Ísland er tiltölulega hættulaust land, þannig séð. Hér eru ekki mikil hætta á að óargadýr verði þér að aldurtila, hryðjuverkaárasir fátíðar, fárviðri heyra til algerra undantekninga, veðurfar almennt bara vel þolanlegt og laust við ógnir af einhverju tagi. Það má  eiginlega segja að Ísland sé eitt besta land heims til að búa á um þessar mundir, eða allavega þar til .......

Allt þetta sem ég er búinn að segja hér fyrir ofan er auðvitað ekkert nema almennt kjaftæði, þó auðvitað sé það allt satt, en með því er ég að reyna að búa til samhengi við meginefni þessa pistils, bévítans (nú eða bara helvítis) LÚSMÝIÐ.

Hvernig má það vera að svona kvikindi séu yfirleitt til?  Hversvegna geta þau þá ekki allavega verið af stærð sem maður ræður við?
Nei, yfir fréttum eitthvert kvöldið fyrir nokkrum vikum fórum við að taka eftir örsmáum kvikindum sem flögruðu í kringum okkur Kvisthyltinga. Í okkar huga var þetta bara það sem við höfum kallað MOR (sbr. það er morandi í flugum). Þar er um að ræða örsmáar flugur sem eru algengar t.d. í gróðurhúsum, sem valda engum skaða öðrum en þeim að vera pirrandi.
Daginn eftir kom svo í ljós að þarna hafði ekki verið saklaust mor á ferð, heldur margumrætt lúsmý.  Ég hefði fengið meira að kenna á því en fD og pælingar voru uppi um að það tengdist blóðflokki, án þess að nokkur þekking lægi fyrir um það.

Lúsmý (mynd Karl Skírnisson)
Þarna þurfti að grípa til aðgerða ef ekki ætti að fara ver. Í þessum heimshluta er ekki um að ræða aldalanga þekkingu á að takast á við svona kvikindi, svo það var fylgst grannt með ráðleggingum á öllum tiltækum miðlum þar sem jafnfram voru birtar hryllingsmyndir af afleiðingum nætursvefns fólks sem hafði sofið nakið ofan á sænginni sinni við opin glugga í þessu sumarhitum. Það var allvega ljóst, að það var ekki viturlegt.

Framvegis var tekið á að ráð í Kvistholti að loka öllum dyrum og gluggum þegar kvöldaði. Það er gengið á allt sem opnanlegt var í húsinu að minnsta kosti tvisvar. Síðan var kvöldinu og nóttinni eytt í svitakófi, enda húsið með eindæmum vel einangrað.  Þetta var tekið til bragðs vegna þessara örsmáu kvikinda sem láta sér ekki nægja að drekka blóðið úr manni, heldur þurfa einnig að sprauta í mann einhverju ensími í leiðinni.

Það telst ekki nóg að loka öllum opnanlegum götum á húsinu, því þegar kvöldar úða Kvistholtshjónin yfir sig skordýrafælum og bera á sig sig einhver efni til að takast á við kláðann af því sem komið er og fylgjast síðan grannt með því hvort örsmáar flugur sjáist einhversstaðar í umhverfinu.

Svona er þetta búið að ganga fyrir sig og gekk sæmilega þar til eitt kvöldið, þegar lokunin virðist hafa átt sér stað of seint, eða þá að einhver glugginn hafði gleymst. Þá gerðist það sem sjá má á myndinni hér efst.

Lúsmý felur í sér óþolandi skerðingu á lífsgæðum og er, eins og svo margt annað sem þarf að kljást við þessi árin, hvar sem er á þessari jörð, afleiðing loftslagsvár eða hamfarahlýnunar.
Má ég þá frekar biðja um frostavor,  rigningarsumur, sumarið sem aldrei kom, og allt það.



Laugarási ljúfast er að búa‘ í
lognið elskar hvern þann sem hér er.
Þar með talið þetta árans lúsmý
sem þyrst í blóð mitt sækir, því er ver.

En lúsmýið má leika sér í friði
ég læt það ekki fjötra huga minn.
Ekki mun ég liggja á mínu liði 
og læt það finna að ég er tilbúinn.

17 júní, 2019

Af útvöldum og öðrum

Lífið gerist æ óbærilegra eftir því sem hitinn, lognið og linnulaust sólskinið umvefur allt. Hverjum dettur eiginlega í hug að kvarta yfir slíku? Ekkert mál að opna bara alla glugga og útidyr og hleypa þannig inn í húsið örlitlum svala, leyfa honum að kyssa kinn og draga þannig úr ótæpilegri svitamyndun líkamans. Ekkert mál, ef það væri nú bara hægt.
Undanfarnar vikur hefur faraldur að svokölluðu lúsmýi kallað á að öllum dyrum og gluggum væri kyrfilega lokað um leið og ljósaskiptin nálgast, en það hefur talist vera og reynst vera í lagi, að lofta hressilega út á daginn. Svitakófið átti kvöldið og nóttin.
Það var dásamlegt á þessum fagra þjóðhátíðarmorgni, þegar maður fagnar, í það minnsta innra með sér, 75 ára afmæli lýðveldisins, að opna alla glugga og allar útudyr, sitja síðan í tiltölulegum svalanum og hugsa um allt það sem lýðveldinu hefur fylgt gegnum áratugina.
"Var þetta mús?" spurði fD þar sem ég skaust út í dyrnar að pallinum með EOS-inn og stóru linsuna mína.  Ekki veit ég hvernig hún dró þá ályktun að þessi aðgerð mín gæti bent til þess að ég hefði séð mús á pallinum, en sú var þó raunin. Hún hafði náð sér í bita af eplahýði sem hinir útvöldu í umhverfi okkar í Kvistholti, fuglar himinsins, höfðu leyft að hljóta af veisluborði sínu. Þarna sat hún og nartaði í hýðisbitann í sakleysi sínu, en ekki lengi, þó það lengi að ég náði einni hálfmynd.
"Já, en hún er þarna langt fyrir utan pallinn" svaraði ég sem auðvitað lét mér ekki detta í hug annað en segja sannleikann.
"Lokaðu dyrunum!" hljómaði skipunin sem ekki varð missikilin. Henni fylgdu svo nokkur vel valin orð í garð músa.
Nú hefur öllum dyrum verið lokað, en gluggar eru opnir þar til lúsmýið fer á kreik þegar á líður.

Hvað á maður eiginlega að gera við þessa náttúru altt í kringum mann?
Flytja í blokk?

Lesendum óska ég gleðilegarar þjóðhátíðar. Það ólgar reyndar í mér þörfin til að tjá mig um lýðveldið, landið og þjóðina á þessum degi, en ég mun geyma það þar til síðar.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...