03 ágúst, 2019

Úr Kvisthyltinga óvissum tíma

Krækiber á Þengilseyri
Það fór ekki svo að Wintris maðurinn fyllti ekki aftur út í skjáinn og örugglega ekki í síðasta skipti. Þetta er maðurinn sem mér sýnist að muni leiða íslenska þjóð á næstu árum. Foringi okkar, hinn flekklausi, sem þarf stöðugt að berjast gegn öfundarfólki sínu, en mun sannarlega hafa betur að lokum. Það er styttra í þau lok en margur hyggur. Það varð mér enn ljósara þar sem ég, vegna þess að ég nennti ekki að gera neitt annað, sat fyrir framan RUV frá því eftir fréttir til klukkan átta á mánudögum, þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum. Á föstudögum, laugardögum og sunnudögum þakkaði ég almættinu fyrir að  þurfa ekki að þjást yfir "Sumrinu".

Bláber á Þengilseyri
Það eru alltaf tímamót um verslunarmannahelgi, þegar fólk fer að tínast úr sumarleyfum og verslanirnar byrja að hamast við að auglýsa skólahitt og skólaþetta. Ég er smám saman að losna undan fiðringnum sem fór alltaf um mig á þessum tíma, þegar vetrarstarf mitt blasti við: fyrst undirbúningurinn og síðan móttaka unglingahópsins sem mætti til vetrarvistar á Laugarvatni. Ég þarf ekki að fjölyrða um það að það voru forréttindi að fá að taka þátt í þessu starfi og vera hluti af þessum hópi. Að sama skapi er ég ósköp feginn að vera stiginn út úr þessu umhverfi.
Allt á sinn tíma.
Ég veit sannast sagna ekki hvort mér tækist að eiga í uppbyggilegum samskiptum við unga fólkið sem leggur leið sína á Laugarvatn á þessu hausti og ég efast einnig um að mér liði vel í hópi unga samstarfsfólksins sem innan skamms mætir til undirbúnings fyrir vetrarstarfið.

Skálholt
Það væri löng saga að fjalla um ástæður þessa og sennilega engum til gagns. Ég held að hver kynslóð sjái umhverfi sitt með ólíkum hætti og breytingarnar þessi árin eru hraðari en þær hafa nokkurntíma verið í mannkynssögunni. Ég vona að manninum auðnist að höndla þennan hraða, en ég efast stundum.

Verslunarmannahelgin boðar breytingar í lífstaktinum. Framundan eru haustmánuðirnir sem áður einkenndust af uppskeru garðávaxta, göngum, réttum og sláturtíð. Ætli við megum ekki búast við mótmælum við helstu sláturhús landsins á þessu hausti.
Hvítárbrú hjá Iðu
Október og nóvember eru alla jafna biðtími, sem verslanir nýta æ betur til að æsa okkur upp fyrir gjöfulasta tíma kapítalismans.
Desember fer í undirbúning fyrir fæðingardag frelsarans: tónleikar, jólahlaðborð, verslunarferðir og streitu. Svo taka við öll hátíðahöldin, sem hafa æ minna með kristna arfleifð okkar að gera, nema kannski svona að nafninu til. Loks fögnum við nýju ári með ýmsum hætti.
Svona hefur það verið og svona verður það í stórum dráttum. Furðu fastar skorður þrátt fyrir allt og allt.

Hundur, maður og álftir við Böðvarssker.
Við Kvisthyltingar höfum átt undarlegt sumar; sumar óvissu, eftirvæntingar og rólegheita með lúsmýskryddi við og við. Sumar yfirvofandi umbreytinga.

Eitt er það sem hefur verið frekar fastur punktur í tilveru minni síðustu mánuði og sem verður afhjúpað um miðjan þennan mánuð, ef allt gengur upp. Um er að ræða verk sem mér finnst skipta talsvert miklu máli fyrir þetta svæði og ég er sannfærður um, að þar er um að ræða gott verk og glæsilegt.  Ekki neita ég því samt, að þetta verk er þess eðlis að lítið má út af bera til að það uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar eru til verka af þessu tagi. Ég sannfæri sjálfan mig jafnóðum um að þetta fari vel og að ef ég hefði ekki gert þetta, hefði það sennilega ekki verið gert, í það minnsta ekki á næstunni.
Innan skamms verður upplýst frekar um hvað hér er um að ræða.

Komandi vika verður lífleg í Kvistholti, með tveim ungum Álaborgarbúum, sem hyggjast efla hér íslenskukunnáttu sína og færni ásamt því að viðhaldi kynnum sínum af ömmu og afa í þessum landshluta. Það verður nú eitthvað og er tilhlökkuknarefni.

Grágæsafjölskyldur á Hvítá





Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...