01 febrúar, 2020

Þorpið í þjóðgarðinum

Framundan munu vera ýmsar breytingar í Bláskógabyggð. Það væri of langt mál að fara út í að tína þær allar saman og því mun ég aðeins fjalla um eina, nokkuð mikla grundvallarbreytingu, sem nú mun vera í vinnslu innan sveitarstjórnar.

Eins og flestum mun kunnugt, verður árið 2020 nýtt til þess að leggja ljósleiðara um sveitarfélagið. Þessi lagnig mun þegar vera hafin, þótt hljótt fari, en í fyrsta áfanga er lögð áhersla á að leggja ljósleiðarann upp á hálendið. Eins og okkur mun öllum vera orðið ljóst, þá er hálendið eitt mikilvægasta umfjöllunarefni sveitarstjórnarinnar þar sem það er grunnurinn að byggð í Bláskógabyggð og talið munu verða flaggskip svæðisins til framtíðar.
Í tengslum við þetta verkefni eru fleiri hugmyndir í vinnslu, sem ætlað er að leysa ýmsan vanda sem steðjað hefur að sveitarfélaginu. Þar stendur ein hugmynd upp úr og hún hefur fallið í góðan jarðveg meðal kjörinna fulltrúa okkar og reyndar ýmissa annarra.

Hugmyndin gengur, í sem stystu máli út á það, að flytja Laugarásbúa á Hveravelli, en með þeirri aðgerð yrðu slegnar allmargar flugur í einu höggi og þessar helstar:
1. Betri nýting á ljósleiðaranum sem verið er að leggja þarna uppeftir og jafnframt þá engin krafa um ljósleiðaralagningu í Laugarás.
2. Þar sem Hveravellir tilheyra Húnavatnshreppi, sem er norðlenskur hreppur, myndi þessi aðgerð létta ýmsum vanda af Bláskógabyggð og einfalda starf sveitarstjórnar. Laugarásbúar yrðu þarna  Norðlendingar og gætu þar með beint kröfum sínum um ýmsa þjónustu til sveitarstjórnar Húnavatnshrepps .
3. Bláskógabyggð myndi hafa ótvíræðan hag af mannlausum Laugarási, meðal annars að því leyti að trjágróðurinn myndi nýtast til kolefnisjöfnunar á svæðinu og myndi þar með draga úr allskyns vistviskubiti þeirra íbúa sem eftir væru í sveitarfélaginu.

Þá er samkomulag í augsýn, milli ríkisins og Bláskógabyggðar, um að þessi flutningur Laugarásbúa á Hveravelli verða á kostnað ríkisins, gegn því að Bláskógabyggð samþykki, fyrir sitt leyti, að hálendisþjóðgarðurinn verði að veruleika.  Þannig gætu báðir aðilar gengið sáttir frá borði, enda tryggt að hinir nýju Hveravallabúar myndu frá störf við gæslu hins nýja þjóðgarðs. Þeir yrðu þjóðgarðsverðir, sem meðal annars sæju um að smala þjóðgarðinn á haustin; koma fénu niður að Gíslaskála. Þar væru þá fjallmenn úr Biskupstungum vera búnir að dvelja nokkra daga í góðu yfirlæti, með gullnar veigar og góða ljósleiðaratengingu.

Jæja þá. 
Þetta kann svo sem að vera draumur einhverra, en hvort af verður mun framtíðin leiða í ljós.
Ég var á þorrablóti eldri borgara í Aratungu í gærkvöldi, þar sem Bræðratungusókn endurflutti skemmtidagskrá sína frá þorrablótinu sem haldið var á sama stað, viku fyrr.
Þarna var fléttað saman umræðum um hálendisþjóðgarð og þjónustukröfum frá Laugarási, þannig að úr urðu pælingarnar sem ég tæpti á hér fyrir ofan.
Dagskráin var afar skemmtileg og ég þakka Bræðratungusókn kærlega fyrir framlag þeirra og svo auðvitað félagi eldri borgara fyrir þeirra þátt í þessu öllu.
Ekki get ég sleppt því að þakka fR fyrir skelegga framgöngu við að kalla fram rómantíska danstónlist eftir að borðhaldi og skemmtiatriðum lauk.

Ég verð bara að vona að fólk hafi lesið alla leið niður. Ef ekki, þá er ég líklega í nokkuð vondum málum.
😅

16 janúar, 2020

FC Kvistur: 0 - FC Sylvaticus: 2

Það þekkjum við Íslendingar, að það er alltaf erfitt að tapa, sérstaklega fyrir Dönum.
Mér finnst líka erfitt að tapa. Ég tapaði í gær og er ekki enn búinn að jafna mig. Ég efast um að ég muni nokkurntíma jafna mig. Hvernig er líka hægt að jafna sig eftir svona nokkuð?

Eins og mörgum, sem þetta lesa, er kunnugt, þá hef ég útbúið hér á pallinum fyrir utan hús, aðstöðu fyrir fugla himinsins og þangað hendi ég fæðu svo þeir megi lifa af íslenskan vetur og geti síðan, þegar  vorar, búið sér til hreiður með eggjum og þannig viðhaldið stofninum og við fengið að njóta sumargleði þeirra.

Pallurinn er minn heimavöllur og það má líta svo á, að allir þeir heimaleikir sem ég á þar, séu vináttuleikir sem enda alla jafna á jafntefli. Einstaka sinnum (reyndar of oft á þessum vetri) sækja mig heim lið sem ég vil ekkert sérstaklega takast á við. Þau hafa hinsvegar verið að færa sig upp á skaftið.

Í gær fór fram á pallinum leikur, sem fór því miður ekki vel, enda reyndist við ofurefli að etja; slíkt að ég þykist góður að hafa ekki farið ver út úr þeim atgangi en raunin varð.
Frá þessu skal nú greint.

Aðstaðan og aðdragandinn.

Pallurinn hér fyrir utan er nokkuð stór, en snjóalög hafa leitt til þess að ég hef grafið stíga að fóðurborðum. Þessir stígar eru reyndar ísilagðir, en það hefur ekki komið að sök. Inni hef ég síðan þessa ágætu CROCS skó, sem ég fer í þegar ég legg leið mína út á pall.
Það er rétt að geta þess að hiti í Laugarási í gær var örlítið yfir frostmarki.
Leikurinn sem fór fram á pallinum í gær, átti aldrei að eiga sér stað, en gestaliðið kom málum þannig fyrir, að hann varð ekki umflúinn

Leikurinn

Völlurinn. Myndin er tekin eftir leikinn og má þarna sjá nokkur merki um atganginn.

Þarna tókust á heimalið og lið gesta. Heimaliðið, sem var auðvitað ég, kalla ég FC Kvistur (sem kallast ÉG hér eftir) og gestaliðið, sem var hagamús sem lék undir nafninu FC Sylvaticus (Hagamús kallast Apodemus sylvaticus á fræðimáli). Þetta lið kallast MÚSIN hér eftir. Þjálfari og eigandi FC Kvists er fD, sem kallast fD hér eftir.

Leikurinn hófst þannig, að við reglubundna skoðun á vellinum sást að MÚSIN var þar mætt til leiks (sjá Fyrri hálfleikur á myndinni). Þar sem framundan var það mál í Kvistholti, að nauðsynlegt taldist að ljúka yrði þessum leik sem fyrst, opnaði ÉG dyrnar út á pall, í þeirri trú að það dygði til sigurs, enda hafði það verið svo fram til þessa. 
En ekki núna.
MÚSIN sat þarna áfram grafkyrr og sinnti sínu; lét eins og ekkert væri, hitaði upp. Við svo búið mátti ekki standa, og eftir leiðbeiningar frá fD tók ÉG mér í snjó í hönd sem ég hnoðaði í snjóbolta. Boltanum henti ég síðan í átt að MÚSINNI. Boltinn lenti í um meters fjarlægð frá markinu og hafði engin áhrif. MÚSIN lét sér aldeilis ekki bregða við þessa árás. Haggaðist ekki. Virtist varla líta upp. Því var það, að ÉG hnoðaði annan snjóbolta og kastaði aftur og nú nær en fyrr, en með nákvæmlega sömu áhrifum.

Þarna var það orðið ljóst að ÉG yrði að fara út í beinskeyttari aðgerðir, ef einhver von ætti á vera til þess að sigur ynnist innan tímamarka. ÉG varð að fara út á völlinn og freista þess að ná sigri í meira návígi. ÉG fór í Crocs skóna og steig út. Í því bar svo við, að fD hvarf af hliðarlínunni og hélt til dyngju sinnar og varð þar með ekki vitni að því sem nú fór í hönd. Kannski var það eins gott.

ÉG, sem sagt, steig út á pallinn og gekk, með nokkuð ógnandi hljóðum í átt að MÚSINNI, sem lét sig atferli mitt litlu skipta, rétt eins og ÉG væri ekki þarna. ÉG velti eitt augnablik fyrir mér, hvort  andstæðingurinn væri ef til vill bæði blindur og heyrnarlaus, svo rólegur var hann, þar sem ÉG nálgaðist með svo ógnandi tilburðum sem þarna var um að ræða.
Við svo búið mátti ekki standa og þar sem ég var kominn í um það bil meters fjarlægð, án þess að MÚSIN léti sig það nokkru skipta, ákvað ég að grípa til aðgerðar sem myndi endanlega gera út um leikinn.
Nú var það svo, eins og áður hefur komið fram og sést á myndinni af vellinum, að hann var ísi lagður og hiti rétt yfir frostmarki. ÉG var íklæddur Crocs plastskóm. Við þessar aðstæður ákvað ÉG að sparka snjó úr nálægum skalfi í átt til MÚSARINNAR og þar með gera út um leikinn.  Ég er viss um að hver sá sem þetta les, getur ímyndað sér hvað gerist, þegar maður í plastskóm ætlar að taka vítaspyrnu á ísilagðri tjörn. Um það gilda einföld eðlisfræðilögmál. Áður en ÉG gat hugsað málið til enda, tókst ÉG á loft og lenti síðan á bakinu á vellinum.
ÉG hafði þarna fengið á mig nokkuð dramatískt mark og þar með lauk fyrri hálfleik, ...... nema MÚSIN hefði gefið leikinn og horfið til síns heima út í skógi. Við þær aðstæður hefið leiknum verið lokið, með sigri mínum - eða ekki.
Þegar ÉG hafði komist að því, að ÉG var óbrotinn; lemstraður, en óbrotinn, fór ég að líta í kringum mig, þar sem ég lá á bakinu á miðjum velli. Ég vonaði sannarlega  að MÚSIN hefði þara gefið leikinn, en sú von brást. Það var eins og hlakkaði í henni (túlkun mín) þar sem hún stóð undir húsveggnum og horfði á mig. Stóð þarna hreyfingarlaus og naut þess að hafa fellt þennan Golíat svo eftirminnilega. Naut þess að hugsa með sjálfri sér sem svo, að og það geti verið skynsamlegt að gera frekar minna en meira. Naut þess, að .......
ÉG neita því ekki, að þarna var adrenalínflæðið í líkama mínum það mikið orðið, að það fjarlægði það litla sem eftir var af yfirvegun og skynsemi, en þess í stað rann á mig vígamóður. ÉG stökk á fætur, ef hægt er að kalla það því nafni þegar um er að ræða karlmann á mínum aldri. Stóð síðan ógnandi andspænis MÚSINNI sem hló að óförum mínum við vegginn (sjá Síðari hálfleikur á myndinni).
ÉG var þess albúinn að grípa til hvaða ráða sem var til að gera út um þennan leik. Því var það, að ég, í fjarveru eiganda og stjórnanda liðsins, fD, gekk þungum, en ákveðnum skrefum í átt að skellihlæjandi MÚSINNI. Þar sem ÉG var kominn næstum að borðinu (sjá mynd) lét ÉG vaða í aðra, enn öflugri vítaspyrnu en í fyrra skiptið ...... með enn dramatískara falli, beint á bakið, svo úr mér varð allur vindur.  ÉG komst að því, þegar ég náði andanum aftur, að enn var ég óbrotinn, en nokkuð lemstraðri en eftir fyrra fallið.  Sem fyrr leit ég rannsakandi í kringum mig. Komst fljótt að því, að þar var enga MÚS að sjá. Hafði hún flúið af vettvangi og játað sig sigraða, kannski? 
Nei, hún hafði stigið af vellinum, ósigruð.  Þið sem hafið horft á hnefaleika vitið, að þegar annar aðilinn í þeim leik liggur blóðugur á gólfinu, hefur hinn að öllum líkindum sigrað. Það var þannig þarna.
Þjálfarinn og eigandinn beið mín þegar ÉG gekk af velli og fór úr Crocs skónum við hliðarlínuna, Hann lét sér fátt um finnast. Hafði ekki fylgst með leiknum, en greina mátti allnokkra óánægju með þetta ótrúlega tap á heimavelli.
Nú bíð ÉG eftir að félagaskiptaglugginn opni.

Lexían: Sagan um Davíð og Golíat er sönn.
 

13 janúar, 2020

Um veður og færð

Dýragarðurinn Slakki í vetrarbúningi (janúar 2020)
Þar sem ég sit hér á meðan dimm og köld vetrarnóttin breytist smám saman í kaldan og óvissuþrunginn vetrardag, er svo sem ekkert að frétta. Ég sé að pallgestirnir mínir eru byrjaðir að koma sér fyrir í trjánum, þess albúnir að taka flugið niður á borð til að hefja matarhátíð dagsins. Það er víst hægt að kalla það verkefni þeirra ýmsum nöfnum, en í sem stystu máli snýst það um það, að reyna að ná sér í nægilega mikið af fæðu í magann til að lifa af til næsta dags. Þetta eru fuglar himinsins og þeir lifa bara fyrir einn dag í einu; morgundagurinn er ekki til í þeirra huga.

Síðdegið og morgundagurinn eru hinsvegar til í mínum huga. Ég hamast við að afla mér upplýsinga um hvað er framundan, þyrstur í að fá sem gleggstar upplýsingar um hvað bíður mín hérna í í lognværum Laugarási. Sannarlega  finnst mér gott til þess að vita, að ég þarf ekki að komast neitt; hugsa hinsvegar til þeirra sem þurfa að vega og meta hvort þeir komast í vinnuna og ef þeir skyldu komast þangað, hvort þeir komast aftur heim. Útlitið fyrir þetta fólk er óvíst og samt ekki. Það fólk sem kemst líklega í vinnuna hér í uppsveitum, þarf að öllum líkindum að dvelja á vinnustaðnum sínum fram á morgundaginn, í það minnsta.

Ég þekki þetta. Ég þekki þessar aðstæður. Eins og einhver sagði einhverntíma: "Been there, done that".
Það fljúga í gegnum hugann vetrarmorgnar, jafnvel áratugi aftur í tímann, þegar ég þurfti að fara í vinnuna til að freista þess að kenna fróðleiksþyrstum ungmennum um Shakespeare, eða eitthvað í þá veruna, vetrarmorgnar þegar þar var logn í Laugarási, svo sem, en ég heyrði hvininn í trjátoppunum og vissi að þetta yrði tvísýnt, sem síðan varð oft raunin. Skálholtsbrekkan ófær, ófært við Spóastaði, eða Svínavatn eða Apavatn. Jafnvel blindöskuþreifandi bylur, svo ekki sást út úr augum.
Ég er bara harla feginn að þessir tímar eru frá, því það blundar nefnilega ekki í mér björgunarsveitarmaðurinn, sem finnst nokkuð áhugavert að takast á við óblíð náttúruöfl.

Vangaveltur um vetrarfærð leiða að sjálfsögðu hugann að  því, hvernig samfélagið styður við það fólk sem þarf að komast af heimilum sínum til vinnu, eða skóla, eða til að sinna öðrum mikilvægum erindum, þegar vetrarveður ganga yfir.

Snjóruðningstæki rennir í gegnum Laugarás í febrúar 2018.
Sú breyting sem hefur orðið á vetrarþjónustu veganna hér í uppsveitum á síðustu áratugum er slík, að jaðrar við að tala megi um byltingu.  Áður fyrr (nú tala ég eins og maður sem man tímana tvenna) voru vegheflar sendir á vegina, aðallega til að mjólkurbílar kæmust leiðar sinnar, kannski tvisvar eða þrisvar í viku.  Það kom meira að segja að það var ekki einu sinni reynt að ryðja vegi. Þegar heflarnir fóru hinsvegar um og plægðu sig í gegnum ófærðina, ruddu þeir snjónum út í kant og þar mynduðust  hryggir sem tryggðu það að allt varð kolófært skömmu síðar.
Þetta var þá og núna erum við hér, með stóra trukka sem æða í gegnum ófæra vegi og þeyta mjöllinni langt út fyrir veg. Þeir keyra um á heilmikilli ferð og geta því rutt margfalt það sem vegheflarnir réðu við á sama tíma í gamla daga.

Í dag gerum við allt aðrar kröfur til vetrarþjónustu en áður. Við viljum að öllum helstu vegum sé haldið opnum, ekki síst vegna þess að við erum miklu hreyfanlegri en áður; sækjum vinnu hér og þar. Þurfum að geta treyst á að komast leiðar okkar þegar þess er nokkur kostur. Þessu hefur verið mætt vel, víða.

Þá er komið að kaflanum, eða efninu.

Vetrarþjónusta Vegagerðarinnar 2019.(af vef Vegagerðarinnar) 

Ég er nú ekki að ljóstra upp um neitt leyndarmál, þegar ég greini frá því, að Vegagerðin telur ekki þörf á að senda snjóruðningstæki á veginn milli Reykja á Skeiðum og Spóastaða á þriðjudögum og laugardögum. 
Þann 1. janúar 2019 voru íbúar í Laugarási 121,
sem þýðir að viðmið Vegagerðarinnar er rangt.
Ég læt liggja milli hluta hvernig mokstri er háttað aö öðru leyti hér í uppsveitum, en efast ekki um, að það fólk sem býr í grennd þeirra er vel að daglegum mokstri komið.  Mér hefur fundist og finnst enn, að það sé algerlega ótækt, að Skálholtsvegurinn skuli látinn ómokaður tvo daga í viku og lít á það sem hreina mismunun. Mér hefur skilist að moksturstíðnin sé ákveðin út frá umferðartalningu af einhverju tagi. Það sé með öðrum orðum excel skjal sem segir til um hvort mokað skuli hér í gegn rétt eins og allt í kringum okkur. 

Ég leyfi mér að nefna hér fernt* sem rök fyrir því, að hér ætti ekki síður að moka daglega, en annarsstaðar hér í kring:
1. Auðvitað vitum við öll, að það fólk sem stundar vinnu frá Laugarási, þarf ekkert síður að komast til vinnu  en  annað fólk sem sækir vinnu utan heimilis. Þeim fjölgar stöðugt, sem svona háttar til hjá.
2. Í Laugarási er heilsugæslustöð fyrir  uppsveitir Árnessýslu. Veikindi eða slys spyrja ekki um vikudaga.
3. Hér eru stór garðyrkjubýli sem eru háð því að koma vörum á markað og rekstrarvörum af ýmsu tagi heim. 
4. Þannig háttar til að útfarir flestra uppsveitamanna eru gerðar frá Skálholtsdómkirkju. Fyrir því er rík hefð hér eins og víða til sveita, að útfarir fari fram á laugardögum.

Ég hvet sveitarstjórn til að kippa þessu í liðinn. 
Vegagerðin er stofnun sem horfir á excelskjöl. Sveitarstjórn er pólitískt fyrirbæri, sem hefur það mikilvæga hlutverk, meðal annarra, að skapa sem bestar aðstæður fólks innan síns áhrifasvæðis. Hún á ekki að lesa bara excelskjöl.

Í dag er mánudagur og því mokstursdagur á Skálholtsvegi. Enn sit ég við skriftir.
Hér var ruðningstæki að renna í gegn kl 13.30.
Það var ekki ófært í morgun, svo því sé haldið til haga, en er þetta sá tími sem mokstur á sér stað að jafnaði á þessum vegi? Ef svo er, þá finnst mér það vera fyrir neðan allar hellur.

Svo vil ég gjarnan að þessu verði kippt í liðinn:

Brot úr dagskrá á þorrablóti Skálholtssóknar í janúar, 2019.
---------------------
VIÐBÓT:
* Tvennt í viðbót er full ástæða til að nefna:

5. Allmikil ferðaþjónusta er í Laugarási og gestir geta átt hingað leið á hvaða degi vikunnar sem er.
6. Börn í Laugarási þurfa að komast í grunn- og leikskóla, eins og önnur börn. Vissulega er skólaakstur á ábyrgð sveitarfélagsins, en foreldrar leikskólabarna flytja sjálfir sín bön í leikskólann, jafnt á þriðjudögum sem aðra daga. 

Fleira mætt ugglaust tína til, en það ætti nú að vera óþarft.


04 janúar, 2020

Aldarminning tvö (2)

Til  forna mun hafa varið sagt, að fjórðungi brygði til móður, fjórðungi til föður, fjórðungi til fósturs og fjórðungi til nafns. Ekki ætla ég að kveða upp úr um það hvort á þessu er eitthvað  byggjandi, hinsvegar get ég fullyrt, eftir kynni mín af fjölmörgu ungu fólki gegnum tíðina, að áhrif þess umhverfis sem það sprettur frá, eru ótvíræð. Ég tel að í uppeldinu og umhverfinu klæðist börnin hjúp sem myndar þá mynd sem þau gefa af sér út í umhverfið. Það þarf síðan oft að fletta af ysta hjúpnum til að finna þá raunverulegu persónu sem undir býr.

Ég er hér að gera tilraun til að koma í orð einhverjum fljótandi minningum um tengdaföður minn sem fæddist austur í Skaftafellssýslu fyrir nákvæmlega einni öld.  Mig grunar að hann myndi ekki taka skrifum af því tagi sem hér er um að ræða, fagnandi, hefði hann eitthvað um þau að segja, en eins og hver maður getur ímyndað sér, þá er hann harla varnarlaus, eins og staðan er.

Líf Þorvaldar Runólfssonar, sendibílstjóra, fór aldrei hátt út á við og ætli hann hafi ekki viljað hafa það þannig? Maður veit ekki, svo sem. Maður veit aldrei fyllilega hvað bærist með fólki; hvaða vonir eða hvaða þrár.
Var líf Valda það líf sem hann hefði helst kosið sér? Sannarlega hef ég ekki hugmynd um það og karlinn hefði síðastur manna farið að tjá sig um eitthvað slíkt - hefði í það minnsta hnusað aðeins ef spurður. Hann tilheyrði þeim stóra hópi sinnar kynslóðar sem ekki var mulið undir í æsku. Þegar æskunni lauk tók síðan við að vinna  og  bjarga sér. Mér er ekki kunnugt um hvernig skólagöngu hans var háttað, en tel þó, að hún var ekki löng. Brauðstritið, sem svo hefur verið kallað, tók við af æskunni á tímum þar sem skyldurnar voru mikilvægari en réttindin.

Hvernig brauðstritið hófst fer af fáum sögum. Mér skilst að hann hafi lagt leið sína snemma á suðvesturhornið til eldri bræðra sinna sem þangað voru þá farnir og farið að vinna með þeim. Mér finnst ég hafi heyrt að til að byrja með hafi það verið fiskvinnsla suður með sjó.
Þar kom að hann kynntist jafnöldru sinni, Guðbjörgu Petreu Jónsdóttur, skagfirskri mær, rétt rúmlega tvítugur og þau festu ráð sitt í júní 1944. Hann gekk dóttur hennar, henni Pálínu Skagfjörð (Pöllu), í föður stað og þau gerðu sér hreiður í hálfgerðum óbyggðum, á Álfhólsvegi 17 í Kópavogi. Þar reistu þeir bræður, hann og Þorsteinn, parhús á tveim hæðum, sem fjölskyldurnar fluttu í 1947 (mögulega fyrr, en fasteignaskrá nefnir þetta ártal). Þetta hús varð síðan aðsetur beggja með fjölskyldum sínum út ævina.

Sendibíllinn og fjölskyldubíllinn.
Y271 var ávallt skráningarnúmerið.
Þegar ég fór að koma þarna við sögu um miðjan áttunda áratuginn, var Valdi búinn að stunda sendibílaakstur lengi. Bíllinn sem hann átti var af einhverri ókennilegri tegund, sem hafði verið yfirbyggð. Þar áður veit ég til að hann ók Volkswagen rúgbrauði, sem var einnig fjölskyldubíllinn á bænum.

Fram að mínum tíma í tengslum við fjölskylduna, sá ævi þeirra Valda og Bubbu bæði ljós og skugga. Alvarleg veikindi Valda, líklega um 1960, sem urðu til þess að hann var fluttur á sjúkrahús í Danmörku þar sem hann þurfti að dveljast talsvert lengi, lögðust þungt á fjölskylduna, en þá voru dæturnar þrjár, sem komu í heiminn 1952, 1954 og 1956, komnar til sögunnar, auk Pöllu.  Eftir að Valdi kom síðan heim aftur tóku við bjartari tímar, held ég, því þegar ég kom til sögunnar virtist ekki skorta neitt. Það var nú samt ekki svo, að aukinni velmegum fylgdi vaxandi flottræfilsháttur. Fjarri fór því. Bæði unnu hjónin á Álfhólsveginum utan heimilis, hann keyrði sinn sendibíl og hún afgreiddi í verslun.
Áttræður
Um miðjan áttunda áratuginn urðu nokkur tímamót þegar Valdi keypti nýjan Ford Econoline, rauðan, sjálfskiptan, sem var skýrt merki um batnandi hag. Það var þó örugglega ekki til að gera sig eitthvað meira gildandi í samfélaginu, sem þessi endurnýjun atvinnutækisins átti sér stað. Ég held að það hafi verið miklu frekar að tímarnir í bílskúrnum við viðgerðir á þeim gamla hafi verið orðnir heldur margir. Hann tók sig nú bara vel út á nýja Fordinum, sá gamli.

Valdi var mikill sóldýrkandi og lá út á grasflöt hvenær sem færi gafst og árlega leyfðu þau sér þann munað að skjótast til Kanarí í nokkrar vikur og alltaf á sama hótelinu, sem ég man ekki nafnið á (Broncemar?), en sem er vel þekkt meðal systranna.

Áttatíu og sex
Einhvern veginn varð það úr, þegar þau skruppu í eina þessara ferða, að Valdi treysti mér fyrir Fordinum til sendibílaaksturs. Ég átta mig ekki enn á því hvernig honum datt þetta í hug, en mögulega að hluta til, til að viðhalda tengslum við fastakúnnana. Einn þeirra var Ríkið, eða ÁTVR og annar Háskólabíó.
Ekki ætla ég að fjölyrða um þessar vikur sem ég ók sendibíl á Sendibílastöðinni Þresti. Þetta var afar sérkennileg lífsreynsla. Keyrandi með áfengi í veitingahús og kvikmyndaspólur þvers og kruss og þess á milli að bíða eftir túr. Ég er í rauninni alveg hissa á að ég skyldi hafa komist tjónlaust í gegnum þennan tíma, en ekki heyrði ég þann gamla kvarta yfir að ég hefði laskað einhver viðskiptasambönd.

Meðal þess sem hann sagði frá, þegar gegndarlaus spillingin í landinu kom til umræðu, var það þegar forseti Íslands fór af landi brott í opinberum erindagjörðum og við tóku handhafar forsetavalds: forsætisráðherra, forseti Alþingis, forseti hæstaréttar. Þá brást það ekki að handhafarnir fylltu á bílskúrana hjá sér og kjallarann, enda gátu þeir keypt áfengi á kostnaðarverði þann tíma sem þeir sinntu embættisskyldum forsetans. Flugvél forsetans var varla komin í loftið þegar pantanir um sendibílsfarma tóku að berast. Sérstaklega nefndi hann einn handhafann í þessu sambandi og sá lenti síðar í vondum málum vegna "söfnunaráráttu" sinnar á áfengi. Þetta blöskraði þeim gamla mjög.

Árið 2000 þegar Bubba varð áttræð.
Dæturnar f.v. Palla, Auður, Dröfn og Sóley
Það var svo sem ýmislegt sem honum blöskraði, ekki síst spilling sem tengdist embættismönnum ríkis og sveitarfélaga (sem sagt Kópavogs).

Ég held ég að segja megi, að saman hafi farið orð og athafnir hjá Þorvaldi Runólfssyni. Allt prjál eða flottræfilsháttur, var eitur í hans beinum. Hann klæddi sig eins og honum þótti þægilegast og lét sig ekki hafa það að fara í jakkann sinn nema við hátíðlegustu tækifæri, utan heimilis. Mannfagnaðir voru honum fremur lítt að skapi og var varla kominn á staðinn þegar hann fór að hafa orð á því að þetta væri nú orðið gott og bjóst til heimferðar. Í hans huga var allur "óþarfi" óþarfur. Hann myndi örugglega teljast öfgaminimalisti nú til dags. Nytsemishyggja virtist honum í blóð borin.

Ég hef lengi velt fyrir mér hvort það eru uppeldisaðstæðurnar eða hreinlega erfðir, sem birta mér enn þann dag í dag ýmislegt úr fari tengdaföður míns, í dætrum hans. Ég sé honum allavega nokkuð reglulega bregða fyrir.

Mér reyndist sá gamli alltaf vel hvað sem öðru líður, þó sannarlega hafi henn ekki verið allra. Í honum bjó talsverður sérvitringur og hann fór sínu fram eftir því sem fært var.

Valdi lést þann 15. mars, 2007 og útför hans var gerð í kyrrþey frá Kópavogskirkju.

Ég læt hér fylgja í lokin minningargrein sem ég skrifaði á sínum tíma.

Hann lifði Bubbu sína í eitt og hálft ár, hann tengdafaðir minn. Síðustu mánuðirnir hjá honum voru í erfiðari kantinum. Veikindi hans á haustmánuðum gengu nærri honum og á þeim tíma var nokkrum sinnum svo komið að læknar töldu að vegferð hans yrði ekki lengri. Daginn eftir eitt slíkt tilvik sat sá gamli hinn rólegasti í rúminu sínu og gæddi sér á slátri. Það má segja að þetta lýsi lífshlaupi hans nokkuð. Hann hafði á yngri árum tekist á við lífshættuleg veikindi oftar en einu sinni, en hafði þá ávallt sigur, þótt afleiðingarnar settu mark sitt á lífsgæði hans að ýmsu leyti til æviloka.
Þessi öldungur sem nú er genginn var nú dálítið sérstakur; fór sínar eigin leiðir og hafði ákveðnar skoðanir á flestum málum. Hann var ekkert sérstaklega mannblendinn og var gjarnan fyrstur til að kveðja þegar mannfagnaðir af einhverju tagi voru annars vegar. Honum var hins vegar mikið í mun að hafa samband við og heyra fréttir af dætrum sínum og fjölskyldum þeirra. Það var okkur fjölskyldunni mikið gleðiefni að hann skyldi treysta sér til að koma austur í sveitir á afmælistónleika Egils Árna í febrúar síðastliðnum. Þar lék hann við hvern sinn fingur í helgarleyfi af spítalanum.
Valdi var stefnufastur maður og honum var mjög annt um sjálfstæði sitt gagnvart öllu og öllum. Sjálfsagt á það að einhverju leyti skýringar í því að hann missti föður sinn 15 ára og þurfti að standa á eigin fótum að miklu leyti upp frá því.
Það kom þó að því að hann gerði sér grein fyrir að hann þurfti að reiða sig á aðstoð annarra. Þá var hann óþreytandi að láta vita af því að hann væri hættur að hafa skoðanir á hlutum og segði bara já við öllu. Þetta held ég að hafi aðallega verið á yfirborðinu; hann hélt áfram að hafa sínar skoðanir þó svo hann þyrfti að lúta því sem aðrir sögðu í meira mæli. Að mörgu leyti held ég líka að honum hafi þótt það gott að geta treyst á aðra til að sjá um daglegt amstur.
Það er meðal fyrstu minninga minna af Valda þegar hann lýsti því yfir við mig hvað hann hlakkaði til að hætta að vinna og geta farið að gera ekki neitt. Formlega stóð hann sig vel í því þegar þar að kom. Formlega já, en hann fann sér þó alltaf eitthvað til dundurs svo lengi sem honum entist til þess þróttur. Hann þurfti að dytta að ýmsu heima fyrir og hann naut þess í botn að geta flatmagað í sólskýlinu sínu fyrir utan hús þegar vel viðraði. Sólin var þeim hjónum báðum kær og á efri árum, svo lengi sem þeim entist heilsa til, skelltu þau sér í sólarlandaferðir í skammdeginu.
Nú eru þau bæði horfin af sjónarsviðinu, Valdi og Bubba. Arfur þeirra til framtíðarinnar eru afkomendurnir og skarinn sá sér til þess að um ókomin ár muni sporin sem þau mörkuðu á strönd eilífðarinnar varðveitast.
----------

Ég ákvað að skrifa það sem ég hef skrifað hér, algerlega án utanaðkomandi áhrifa. Reikna með að mögulegt sé að hér sé fjallað um Þorvald Runólfsson með öðrum  hætti en það fólk sem betur þekkti hann, telur rétt vera og satt. Ég er sannfærður um að ég mun fá orð í eyra ef ég hef, í einhverju, farið hér með staðlausa stafi. Reynist svo vera, mun ég lagfæra jafnharðan eða jafnvel bæta við einhverju sem mér hefur láðst að nefna. Ég geng meira að segja svo langt að hvetja afkomendur Valda til að bæta við einhverjum atvikum eða sögum sem væri gaman að láta fljóta hér með.






31 desember, 2019

...og aldrei það kemur til baka

Er lífið eins og brún lagterta?
Einhvernveginn tekst tímanum sem liðinn er, alltað að koma til baka í einhverju formi. Það flýr í rauninni enginn fortíð sína, því hún býr innra með honum. Þarna inni býr þekking og reynsla, bæði um það sem fortíðin gaf og tók. Hún gaf okkur lífið sem leiddi okkur á þann stað sem við erum nú á þessu gamlárskvöldi. Hún tók frá okkur fjölmargt samferðaferðafólk og einnig ýmislegt sem gekk úr sér eftir því sem nýtt og þægilegra kom í staðinn. Hún gaf okkur tækifærin sem við gripum og nýttum okkur og tók frá okkur tækifærin sem við nýttum ekki.  Hún gaf okkur flestum börn og barnabörn, sem við getum glaðst yfir og verið stolt af og tók frá okkur tækifærin til að njóta þess að fylgjast með afkomendum okkar blómstra.
Það er nefnilega þannig, í núinu sem við lifum, að við hugsum ekki nægilega um það, að á morgun verður þetta nú orðið að fortíð okkar; fortíð sem við mögulega lærum síðan ef - eða ekki.

Það ætti að vera tími og tækifæri um áramót til að velta þessu samhengi öllu fyrir sér.

Áður en ég fer lengra með þessar vangaveltur mínar, kýs ég að láta bara af þeim og fara að hugsa um núið smá stund og taka kannski upp þráðinn aftur á morgun.  Ég þykist nokkuð viss um það, að við getum öll glaðst með sjálfum okkur, yfir því sem við höfum vel gert á lífsgöngunni, og jafn viss er ég um, að við sjáum eftir ýmsu því úr fortíðinni sem við gerðum eða gerðum ekki. Þannig er þetta nú bara.

Þar með þakka ég ykkur, sem hafið látið svo lítið að kíkja á þetta blogg mitt, endrum og sinnum, fyrir heimsóknirnar. Ég óska þess, okkur öllum til handa að árið 2020 verði ár endurskoðunar og ár lærdóms af því sem liðið er og uppbyggingar í kjölfarið.

Gleðilegt ár.

28 desember, 2019

Aldarminning tvö (1)

Bræðurnir frá Heiðarseli, ásamt móður sinni,
líklegast um miðjan þriðja áratug síðustu aldar.
Ég hef áður haft orð á því hve stutt er í raun síðan aðstæður venjulegs fólks voru svo gjörólíkar því sem nútímamaðurinn þekkir, að það er nánast erfitt að gera sér það í hugarlund. Fólkið sem ól mig og jafnaldra mína af sér fæddist á 10-15 ára tímabili í kringum 1920 og ólst upp milli tveggja heimstyjalda. Það var ekki nóg með að við venjulegar aðstæður væri barningnur við að hafa nóg í sig og á, heldur bættist heimskreppan við, til að flækja lífið enn. Baráttan fyrir lífinu var hörð á allt öðrum mælikvarða en nokkurt okkar sem nú lifir, getur hugsað sér.

Í byrjun árs 1920, nánar tiltekið þann 4. janúar fæddist hjónunum Sigurbjörgu Þórarinsdóttur og Runólfi Guðmundssyni að Heiðarseli á Síðu, fimmti sonurinn, sem reyndist verða síðasta barn þeirra. Synirnir fjórir sem fyrir voru Gísli (8 ára), Þorsteinn (6 ára), Ólafur (5 ára) og Guðmundur Þórarinn (1s árs). Yngsti sonurinn hlaut nafnið Þorvaldur.

Heiðarsel er í um 6 km aksturfjarlægð frá þjóðvegi 1, en ekinn er Lakavegur, framhjá Hunkubökkum. Þetta þykir nú ekki mikil vegalengd nú til dags, en var allnokkur spölur á þeim tíma sem hér um ræðir. Sjá mynd (smella til að stækka).


Frá Heiðarseli á Síðu 2011. Þrjár systur fóru þangað í nokkurskonar pílagrímaferða með viðhengjum sínum. Þarna var einhver húsakostur, en greina mátti rústir af eldri byggð. Systurnar eru f.v. Pálína (1942 - 2013), Sóley (1952) og Dröfn (1956). Vegna búsetu í gömlu höfuðborginni var fjórða systirin Auður (1954) ekki með í för þessari.

Sigurbjörg fæddist í Þykkvabæjarklaustursókn 1884 og lést 1980,  95 ára. Runólfur fæddist á Hnappavöllum í A-Skaftafellssýslu 1870 og lést 1933, 62 ára.
Gísli, elsti sonurinn fórst í Víkurfjöru í apríl 1932, tvítugur að aldri, Ólafur, þriðji sonur hjónanna lést 1939, 28 ára og næstyngsti sonurinn lést í bílslysi 1943, 25 ára að aldri.
Þó ég viti fátt með einhverri vissu um það hvenær Sigurbjörg hvarf frá Heiðarseli, geri ég ráð fyrir að það hafi verið í kjölfar þess að Runólfur lést. Ég veit að hún bjó í Hveragerði einhvern tíma og eyddi síðustu árunum á elliheimilinu Grund.

Sigurbjörg lifði til hárrar elli og tveir synir hennar náðu einnig góðum aldri. Þorsteinn lést 1991, 77 ára að aldri og Þorvaldur lést 2007 og varð 87 ára.

Þorvaldur Runólfsson
Eins og alltaf er gert í sakamálaþáttum, þá þarf að kynna til sögunnar þær persónur sem um er að ræða og setja þær í samhengi við aðrar persónur og aðstæður. Þetta þreytist ég ekki á að leggja áherslu á þegar ég sé að í nágrenni mínu er farið að gæta óþolinmæði um framvindu mynda af þessu tagi.
Þennan texta set ég hér inn til að minnast tengdaföður míns, en eins og áður hefur komið fram þá verður öld liðin frá fæðingu hans þann 4. janúar, næstkomandi.
Í síðari hluta þessara skrifa ætla ég að freista þess að fjalla um manninn meira út frá því hvernig hann kom mér fyrir sjónir og reyndist okkur í þau 30 ár sem leiðir okkar lágu saman. Ég veit að með því mun ég líklega þurfa að feta vandfarinn stíg til að halda líkunum á því að systurnar þrjár sjái ástæðu til að segja mér til syndanna eða setja mér stólinn fyrir dyrnar.


26 desember, 2019

Hún rís víst

Nú erum við komin framhjá því heilagasta og tökumst á við fyrsta daginn þagar maður má fara að gera eitthvað, yfirleitt, annað en belgja sig út af mat, sofa eða lesa, nú eða sinna andlegum málefnum af einhverju tagi.
Kvisthyltingar hafa átt hin rólegustu jól fram til þessa, enda ekkert fjölmenni í kotinu, þó segja megi að fiðruðum fjölskyldumeðlim hafi vel tekist að hafa ofan af fyrir fólkinu.

Við hefðum sannarlega getað sinnt kristilegum verkefnum í meiri mæli en raunin var; létum nægja að þenja raddböndin í jóladagsmessu í gær. Þar lýsti sóknarpresturinn því yfir, að Skálholtskórinn væri besti kirkjukór á landinu. Stór orð, en það er fjarri mér að draga í efa að hann hafi þarna hitt naglann á höfuðið. Mér þykir sýnt að eftir þessa yfirlýsingu prestsins hafi kórfélagar gefið allt sitt í sönginn sem fylgdi, í það minnsta tel ég tenórana þrjá hafa lagt sig fram um að staðfesta hana.

Sóknarpresturinn hafði einnig allmörg orð um einsöngvarann í messunni, Maríu Sól Ingólfsdóttur, sem um þessar mundir stundar nám í Den Haag í Hollandi. Ég get tekið undir það sem hann lét sér þarna um munn fara, enda reyndist söngur Maríu Sólar sérlega fagur og bar þess vitni  að hún heldur áfram að eflast.

Annað sem bar til tíðinda, eða ekki, áður en jólamessan í Skálholtsdómkirkju hófst var, að klukkur kirkjunnar hljómuðu óvenjulega, en þeim fækkar ört sem heyrt hafa þær hringja oftar en ég. Það var eins og bæri meira á einhverjum dynkjum en bjölluhljóm. Hvað þarna er um að ræða veit ég hreint ekki, en finnst nú að einhver þar til bær ætti að athuga hvort líkur séu a að önnur klukka fari að falla úr sæti sínu og brotna á gólfinu.
Klukkuvirkið er mannaverk og slík verk eru ekki eilíf.
Í gær var algert logn í Skálholti, sem telja má til tíðinda, og veður milt..

Það má segja að þessi jólamessa, sem eitt sinn var aðalguðþjónustan á jólum í Skálholti, hafi verið á ljúfari nótunum. Kirkjugestir voru 23  og 12 voru kórfélagarnir sem sungu og þar vantaði engan tenór.


Nú er, sem sagt, mesta helgin frá og framundan veraldlegri hluti hátíðahalda þessara síðusta daga ársins. Ekki á ég sérstaklega von á að við Kvisthyltingar munum ganga hratt um gleðinnar dyr þessa daga, nema ef til vill hið innra. Eins og margir landsmenn, þurfum við að gera upp við okkur hversu langt rétt er að ganga við sprengingar þegar nýja árið gengur í garð.
Við getur tekið þann pól í hæðina að freista þess eitt árið enn, að leggja Kirkjuhyltinga að velli að þessu leyti, en við getum líka lagt okkar lítilvæga lóð á vorgarskálina til að auka líkurnar á að jörðin okkar verði byggileg til framtíðar. Þarna takast á tvenn mikilvæg sjónarmið: það sem leggur áherslu á augnablikið og svo það sem fjallar um hið óendanlega samhengi hlutanna, þar sem við erum minni en smæsta sandkornið á ströndinni. Hvað verður ofan á veit ég ekki enn, en væntanlega munu Kvisthyltingar komast að sinni niðurstöðu um þetta mál, eins og önnur - það næst alltaf einhver niðurstaða. Kannski munum við bara standa út á palli og segja: "Þarna er ein á Sólveigarstöðum" eða "Það er aldeilis skothríðin í Auðsholti" eða "Ætli þau séu ekki heima í Kirkjuholti?" Hver veit?
Hvað sem við gerum, þá rennur þetta ár sitt skeið, hverfur í aldanna skaut og kemur aldrei til baka - ár sem hefur verið eitt hið undarlegasta í sögu okkar. Meira um það síðar, ef að líkum lætur.



19 desember, 2019

Jaðarsett sameiningartákn (5 - lok)

Þetta er framhald pistla með sama nafni nr. 1 - 4. 
Skortur á samstöðu hér í uppsveitum varð til þess að byggingu Hvítárbrúar hjá Iðu seinkaði. Samstaða á svæðinu varð til þess að Hvítárbrú hjá Bræðratungu var byggð. Í hreppsnefnd Biskupstungnahrepps tók ég þátt í því að berjast fyrir þeirri brú. Ég hefði sannarlega viljað fá hana annarsstaðar, en við gerðum okkur grein fyrir því, að ef brestur fyndist á samstöðu, yrði ekkert af byggingu hennar, eða að henni yrði frestað um óákveðinn tíma.
Það var samstaða í uppsveitum um staðarval fyrir læknissetur í Laugarási á sínum tíma. Kannski var sú staðsetning mistök, eftir á að hyggja.

Ég minnist þess í aðdraganda kosninga um sameiningu uppsveitahreppanna á 10. áratugnum að þeir voru nokkrir sveitarstjórnarmennirnir sem voru henni andvígir, þó þeir hefðu ekki hátt um það í aðragandum, allavega ekki opinberlega. Þeir fór þá annaðhvort þá leið að lýsa þeirri skoðun sinni að réttast væri að sameina sýsluna alla (svona til að drepa málinu á dreif) eða þá að þeir segðu sem svo: "Við eigum bara að vinna saman!".  Vinna saman, já. Vettvangurinn til .þessarar samvinnu var og er sjálfsagt að einhverju leyti enn, í gegnum oddvitanefndina, sem varð til þegar hrepparnir sameinuðust um eign sína á Laugarásjörðinni. Þar hafa þeir unnið saman, sjálfsagt að mörgum sveitaþrifamálum, ekki efast ég um það.

Rétt fyrir 1990:
Aftar f.v. Axel Sæland, Þorvaldur Skúli Pálsson, Sigurbjörn Þrastarson,
Guðni Páll Sæland, Egill Árni Pálsson, Eva Sæland, Gunnur Ösp
Jónsdóttir, Inga Dóra Pétursdóttir, Bergþóra Kristín Benediktsdóttir.
Fremri f.v. Elín Ingibjörg Magnúsdóttir, Guðný Rut Pálsdóttir,
Guðný Þórfríður Magnúsdóttir.
Það sem ég sé fyrst og fremst sem annmarka á þessari samvinnu hreppanna er, að uppbygging staðbundinnar, opinberrar þjónustu á svæðinu virðist vera í skötulíki, þar sem hrepparnir fjórir þurfa að koma sér saman um hana, en það virðist reynast þrautin þyngri, þar sem allir leggja þar fram sína þéttbýlisstaði (að Laugarási undanskildum, auðvitað) sem upplagða lausn.  Ég sé þetta ágæta sveitarstjórnarfólk fyrir mér hummandi og ha-andi yfir þessu og ekki verður neitt úr neinu. Auðvitað veit ég ekki hvernig þetta gengur fyrir sig, en svona blasir þetta nú við mér. Á sama tíma sitjum við uppi með uppbyggingu þjónustu fyrir okkur, utan uppsveitanna.

Ég er enn þeirrar skoðunar að uppsveitahrepparnir eigi að sameinast og setja af stað öfluga vinnu að skipulagi svæðisins í heild. Það er, í mínum huga, ekki nokkur þörf á fjórum sveitarstjórnum og fjórum sveitarstjórum til að stýra þessum 3000 hræðum sem búa á svæðinu.
Í ljósi þess, að mér hefur ekki virst margt vera að gerast á þessu svæði, sem til er komið vegna samvinnu sveitarfélaganna, er ég smátt og smátt að komst á þá skoðun, að best færi á því, að Árnessýsla verði sameinuð í eitt sveitarfélag. Það er fyrst og fremst vegna þess að með núverandi fyrirkomulagi missum við hvort sem er allt sem heitir opinber þjónusta, beina leið niðurúr.

Að sjálfsögðu beinist gagnrýni sú sem ég hef sett fram hér, ekki að því sveitarstjórnafólki sem reynir að vinna vel, hvert fyrir sinn hrepp. Gagnrýnin snýr að þeirri stöðu sem við búum við, sem kristallast ekki síst í þeirri stöðu sem Laugarási hefur verið komið í, á svæðinu.

Ég leyfi mér að birta aftur myndina sem ég setti fram á grundvelli talna frá Hagstofunni, um þróun íbúafjölda í þorpunum í Biskupstungum, Laugardal og síðar í Bláskógabyggð, frá 1990 til dagsins í dag. Þessi þróun hefði ekki átt að verða - finnst mér.



ps. fyrir þau sem telja að með þessum skrifum mínum sé ég að skara einhvern eld að eigin köku, eða þá að um sé að ræða einhverja tegund sjálfstæðisbaráttu Laugarásbúa, segi ég þetta:

Ég er í þeirri stöðu að fyrra atriðið getur vart lengur átt við um mig. Varðandi síðara atriðið, er rétt að geta þess að hér er ekki um að ræða niðurstöður af baráttufundum í Laugarási, heldur bara það sem sprottið hefur fram úr fingurgómum þess sem þetta ritar, meðan smáfuglarnir tína í sig kornið fyrir utan gluggann.

Gleðileg jól!
þú sem last alla leið hingað. 
😀

13 desember, 2019

Jaðarsett sameiningartákn (4)

Framhald pistla með sama nafni, nr. 1, 2 og 3.

Ef við ímyndum okkur nú, í einhverskonar tölvuleik (svoleiðis leikir eru til), að við ættum að skipuleggja landssvæði þannig, að allir hlutar svæðisins fengju að njóta sín og að svæðið væri til þess fallið að draga til sín fleiri íbúa og öflugri starfsemi. Það vææri einnig gefið, að svæðið væri láglaunasvæði og það væri okkar hlutverk að efla það þannig að það yrði eftirsótt til búsetu. Það væri gefið að á svæðinu byggju 3000 manns, þetta væri dreifbýlissvæði með 7 stöðum þar sem byggð væri þéttari.

Þarna þyrftum við að taka tillit til ýmissa þátta, t.d. aðstæðna á  hverjum stað og staðsetningar, Við þyrftum að velta fyrir okkur hverskonar uppbygging á svæðinu kæmi sér best á hverjum stað. Það vill kannski svo til, að ef svæðið er skoðað í heild, eru þessir staðir misjafnlega heppilegir fyrir mismunandi starfsemi.
Á myndinni hér efst er ég búinn að teikna upp ímyndað svæði til að vinna út frá.

Ég ætla að byrja á að velta fyrir mér þeim þáttum þar sem mikilvægt er að allir íbúarnir á svæðinu hafi sem bestan aðgang og gef mér það, að það sé skilyrði í leiknum að við megum aðeins hafa einn þátt af hverju innan svæðisins. Þá vaknar spurningin: Hvar væri heppilegast að setja niður grunnskólann, stjórnsýsluna, félagsþjónustuna, heilsugæsluna, lögreglustöðina eða heimili eldri borgara, til dæmis? Auðvitað myndi ekki vefjast fyrir mér að staðsetja grunnþætti af þessu tagi. Hvað með þig?
Hinir staðirnir henta sannarlega vel fyrir ýmislegt annað: ferðaþjónustu, jarðrækt, iðnað og  framleiðslufyrirtæki af ýmsu tagi, allskyns starfsemi sem byggði að þeim mannauði eða náttúrulegum aðstæðum sem til staðar væru.

Fjölskyldan í Hveratúni, 1960
Ef við gefum okkur nú, svona til að gera leikinn dálítið erfiðari, að staðirnir sem ég kalla 2 - 7 hafi talsvert sjálfstæði, en hafi með sér einhverja ákveðna samvinnu um ýmis mál, og að jafnvel vinni sumir þeirra meira saman eða aðrir, til að styrkja stöðu sína á svæðinu.

Gefum okkur, til að bæta enn í, að staðirnir 2 - 7  ráði yfir og jafnvel eigi stað nr. 1.  Væru það þá eftir sem áður hagsmunir þeirra, að efla þann stað? Kæmi það sér ef til vill svæðinu í heild best?  Hvað myndi verða um svæðið, ef þeir sem héldu um stjórnartauma á hverjum stað, myndu einbeita sér að því að hugsa fyrst og fremst um hagsmuni síns staðar, eða kannski freista þess að ná samkomulagi við þann stað sem næstur er, um alla helstu þætti sem á svona svæði þurfa að vera?
Ef við gefum okkur að okkar svæði þurfi að keppa við nágrannasvæði um fólk og uppbyggingu, hvernig færi svæðið út úr þeirri samkeppni? Myndum við tapa þeim leik?
Ég held það.


Ég ætla að hætta í þessum leik og fara að huga að þáttum í lífi mínu sem meiri ástæða er til að ætla að ég geti haft áhrif á.







12 desember, 2019

Gylfi læknir

Þorpshátíð í Laugarási 2003.
Þar sýndu Gylfi og Rut að þau voru samhent hjón. 
Árið 1984 var heilmikið örlagaár í lífi okkar Kvisthyltinga; árið þegar næstelsti sonur okkar greindist með  með hættulegan sjúkdóm, árið þegar við eignuðumst einu dóttur okkar og árið sem við fluttum í nýbyggt húsið okkar í Laugarási, sem við höfðum þá gefið nafnið Kvistholt.
Ég ætla ekki að draga í efa, að Laugarásbúar hafi fagnað komu okkar, en mig grunar að þeir hafi fagnað enn meir nýja lækninum, Gylfa Haraldssyni, sem settist að í Launrétt 2 þá um haustið, ásamt fjölskyldu sinni. Þá var þegar tekinn til starfa á heilsugæslustöðinni, maðurinn sem átti eftir að vera samstarfsmaður Gylfa í áratugi, Pétur Skarphéðinsson.
Í hönd fóru einhverjir heilsufarslega öruggustu áratugir í sögu Laugaráslæknishéraðs. Um þetta hef ég fjallað áður. 
Þar með er ég hreint ekki að gera lítið úr hluta annarra þeirra lækna sem hér hafa starfað. Þeirra hlutskipti, flestra, var hinsvegar lengst af að vera einir ábyrgir fyrir því víðfeðma héraði sem Laugaráslæknishérað var og er.

Ég þekkti Gylfa nú ekki svo vel að ég treysti mér til að fara eitthvað út í að leggja mat á persónueinkenni hans. Hann virkaði þannig á mig, með rólyndislegu fasi sínu, að þar færi maður sem maður gat treyst, tók á málum af yfirvegun, fjallaði um þau hægri og djúpri röddu, leysti málin eins og hann taldi best hæfa hverju tilviki, rétt eins og manni finnst að læknar eigi að gera.

Gylfi var virkur í félagsstarfi af ýmsu tagi í Biskupstungum. Hann var mikill Lions maður, sat í ýmsum nefndum innan Ungmennafélags Biskupstungna, í sóknarnefnd Skálholtssóknar og tók þátt í innansveitarpólitíkinni, svo eitthvað sé nefnt.

Þorpshátíð í Laugarási 2003. Gylfi með feðgunum
Skúla Magnýssyni og höfundi.
Það er örugglega ekki einfalt að vera á daginn læknirinn sem gægist inn í sál og líkama sjúklingsins og sitja síðan með honum á nefndarfundi um kvöldið. Þetta er kannski  eins og að vera tvær manneskjur í einni, en vera samt ein manneskja. "Annars má ég ekkert segja um starf mitt sem læknir, er bundinn algerri þagnarskyldu", sagði Pétur, samstarfsmaður Gylfa, í viðtali í Litla Bergþór. Mér varð stundum á að hugsa með sjálfum mér, að það gæti verið fróðlegt (ef ég væri þannig þenkjandi) að kíkja inn í hugarheim þessara félaga, eftir ríflega þrjátíu ára samskipti þeirra við sjúklinga á þessu svæði.

Þegar Gylfi lét af störfum hygg ég að hann hafi þegar verið farinn það finna fyrir þeim veikindum sem hann þurfti síðan að kljást við. Manni fyndist það nú bara réttlátt að fá að lifa mörg góð ár með fjölskyldu sinni, eftir að starfsævinni lýkur. Slíkt réttlæti er víst ekki til.  Gylfi þurfti að glíma við vanheilsu alveg frá starfslokum. Hann lést annan desember og útför hans er gerð frá Neskirkju í dag.

Eftir situr fjölskylda hans, konan hans sem var honum stoð og stytta, Rut Valtýsdóttir, börnin sem hann eignaðist með fyrri konu sinni, Höllu Arnljótsdóttur, þau Þröstur Freyr og Guðbjört og fóstursynirnir, synir Rutar, en sá yngsti þeirra, Hreiðar Ingi ólst upp hjá Gylfa og Rut að mestum hluta.
Fjölskyldan, sem Gylfi skilur eftir sig er mikið sómafólk og vitnisburður um það sem Gylfi stóð fyrir og sýndi ávallt af sér gagnvart sjúklingum sínum og samstarfsfólki.


06 desember, 2019

Jaðarsett sameiningartákn (3)

Afmælisveisla hjá Gróu Kristínu Helgadóttur í janúar 1956
- tel ég víst
Þetta er framhald að tveim pistlum sem sama nafni.

Jón í Vorsabæ var umdeildur meðal Laugarásbúa, sem voru að stórum hluta sjálfstæðir garðyrkjubændur, sem voru ekkert áfjáðir í að láta utanaðkomandi yfirvöld segja sér hvað þeim væri fyrir bestu. Ég held nú samt, að Laugarásbúar eigi Jóni margt að þakka og ég held að hann hafi borið hag þessa vaxandi þéttbýlis mjög fyrir brjósti. Einhvernveginn finnst mér, þó ekki hafi ég handbær einhver gögn þar um, að Skeiðamenn hafi í gegnum tíðina verið einna jákvæðastir hreppanna gagnvart Laugarási og uppbyggingu þar.

Á níunda áratugnum gerðu Biskupstungnahreppur og Laugaráslæknishérað með sér samning, sem ég á enn eftir að sjá, þar sem hreppurinn tók að sér flest það sem að Laugarási laut. Oddvitanefndin hefur þó ávallt verið í bakgrunninum. Hvernig málefni Laugaráss voru, hafa verið og eru rædd á þeim vettvangi, veit ég svo sem ekki, en þykist þess fullviss að frá því Biskupstungnahreppur fékk verkefnið í hendur, hefur ekki verið unnið af neitt sérstökum krafti eða metnaði að uppbyggingu í Laugarási. Ástæður fyrir því fara varla á milli mála, að minnsta kosti ekki í höfðinu á mér.

Þegar tilraun var gerð til sameiningar uppsveitahreppanna á tíunda áratugnum, voru auðvitað þeir sem töldu enga þörf á sameiningu því það væri svo mikil samvinna milli þessara hreppa. Þessi samvinna átti sér ekki síst stað í gegnum sameiginlegt eignarhald þeirra á Laugarásjörðinni.  Laugarás var snertiflötur hreppanna, nokkurskonar sameiningartákn. Oddvitarnir hittust reglulega á grundvelli þessarar sameiginlegu eignar sinnar og fluttu þar inn hugmyndir og tóku þaðan með sér hugmyndir. Ég hlakka til að kynnast innihaldi  fundargerða oddvitafundanna og þar með, að hve miklu leyti umfjöllunarefni þeirra tengdist eða tengist Laugarási. Þessir fundir voru og eru enn, eftir því sem ég best veit, haldnir í nafni Laugaráshéraðs.

Starfsfólk í Krossinum sumarið 1959.
Mynd: Matthías Frímannsson
Vissulega hafa verið rekin hér fyrirtæki og stofnanir, sem eiga það þó sameiginlegt, á staðsetning þeirra var ákveðin annarsstaðar en í stjórnkerfi uppsveitanna. Sláturfélag Suðurlands byggði hér og rak sláturhús frá 1964 - 1988, Rauði kross Íslands - Reykjavíkurdeild byggði hér og rak sumardvalarheimili fyrir Reykjavíkurbörn frá 1952 - 1971.  Sláturfélagið valdi staðinn vegna þess að hann er miðsvæðis í uppsveitunum og Rauði krossinn valdi staðinn vegna þess að formaðurinn átti hér sumarhús og taldi staðinn henta vel fyrir starfsemina.  Slátrun var lögð af vegna fækkunar sauðfjár og Krossinn hætti starfsemi vegna lélegs húsakosts og breyttra viðhorfa til barnauppeldis.

Ég hugsa að það hafi verið þegar farið var af stað með verkefnið Laufskála, sem áttu að vera íbúðir, eða íbúðaklasi fyrir eldri borgara, að ég áttaði mig endanlega á að ekkert væri sjálfgefið þegar spurning væri uppi um uppbyggingu í Laugarási. Það kom á daginn, að hugur fylgdi ekki máli, enda raddir sem töldu byggð af þessu tagi betur komna í einhverju hinna þorpanna. Það var gefið út, minnir mig, að íbúðirnar hafi reynst alltof dýrar og áhugasamir þessvegna hætt við. Látum það vera. Það var byggt eitt sýningarhús og síðan ekki söguna meir.

Það hafa lengi verið uppi hugmyndir um uppbyggingu í Laugarási sem myndi styrkja heilsugæslustöðina og þar hefur helst verið horft til dvalar- og/eða hjúkrunarheimilis fyrir eldri borgara.  Jón í Vorsabæ nefndi þetta í viðtalinu við tímaritið Sveitarstjórnarmál, sem ég birti í síðasta pistli. Ég hef reynt að færa rök fyrir þessu, ítrekað, á þessum vettvangi, án þess að vart hafi orðið nokkurra viðbragða.

Svo birtist þetta allt í einu í Sunnlenska, í mars 2013:


Ég minnist þess ekki að þetta hafi hreyft neitt sérstaklega við mér, enda bara nefndarsamþykkt. Um framhaldið eftir hana, veit ég ekkert.

Ári síðar  birti Sunnlenska svo þetta:

Ég neita því ekki, að ég varð undrandi, en fyrst og fremst glaður, þar sem ég hef mikla trú á áhrifamætti kvenfélaganna, ekki síst þegar um væri að ræða það sem mannlegt er.  Þarna er það tiltekið að öll kvenfélögin hefðu samþykkt að skora á sínar sveitarstjórnir að vinna að þessu. Þessi atlaga kvenfélaganna dó drottni sínum þegar umræðan fór af stað innan sveitarfélaganna.
Það næsta sem fram kom um þessi mál, var í viðtali MHH við nýjan oddvita Hrunamannahrepps á Bylgjunni, í fyrra:




Ætla þetta sé nú ekki orðið í lengra lagi. Þvi geri ég hlé á þessum skrifum þar til næst.



Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...