05 apríl, 2020

Kannski er þetta kennslustund

Þegar maður vaknar klukkan fimm að morgni, þá er það ekkert endilega aldurstengt.
Það hvín í húsinu og dynkir heyrast þegar hver hviðan á fætur annarri lætur hálfrar aldar trjágróðurinn hneigja sig í lotningu fyrir kennaranum eina, náttúrunni og óskoruðu valdi hennar yfir öllu því smáa sem staldrar við á jörðinni skamma stund af eilífinni, en hverfur síðan, eins og sandkorn sem aldan skolar af stöndinni, eitthvert út í óravíddir hafsins. Kemst að því að það skiptir í raun svo ógnar litlu þegar upp er staðið.

Hverfur.

“Life's but a walking shadow, a poor player,
That struts and frets his hour upon the stage,
And then is heard no more. It is a tale
Told by an idiot, full of sound and fury,
Signifying nothing.” 
W. Shakespeare - "Macbeth"

Sljór farandskuggi er lífið, leikari 
sem fremur kæki á fjölunum um stund 
og þegir uppfrá því, stutt lygasaga 
þulin af vitfirringi, haldlaust geip, óráð 
sem merkir ekkert. 
(þýðing Helgi Hálfdánarson)


Ætli ég hafi ekki byrjað að finna fyrir þeirri tilfinningu fyrir svona tveim áratugum, að mannkynið væri á vegferð, sem hlyti að ljúka með einhverjum afgerandi hætti. Mér hefur fundist við vera kominn inn í einhvern spíral, sem flytur okkur æ hraðar að einhverjum þeim endapunkti sem er óhjákvæmilegur, eftir að hann hefur á annaðborð náð að grípa okkur með sér. 

Ég hef átt í nokkrum erfiðleikum með að geta mér til um hvar þetta ferðalag okkar myndi enda: ferðalag sem hefur einkennst að stöðugt meiri fjarlægð okkar frá náttúrunni. Sannarlega höfum við notað hana óspart í okkar þágu, litið á hana sem hráefni til að búa til heim sem er fullur af græðgi, óhófi og sjálfsupphafningu. Stöðugt hraðar og hraðar, höfum við lifað og stöðugt hraðar tekið og notað það sem við eigum ekki. Þetta höfum við gert í okkar þágu og á kostnað þess sem leyfir okkur að dvelja hér skamma stund. 
Við erum vanþakklátur hópur. 
Við erum með afbrigðum  eigingjarn og sjálfselskur hópur. 
Við höldum að við séum "kóróna sköpunarverksins".
Við erum hinsvegar svo ógnarlítil og varnarlaus þegar upp er staðið.


Ef það er nú svo, að þessi spírall hefur fært okkur að einhverjum endapunkti; punkti þar sem náttúran segir: "Hingað og ekki lengra", hvað tekur þá við?

Ég held að flest okkar veltum fyrir okkur á þessari stundu, sem er í rauninni ómælanlegur hluti af tímanum, hvað tekur við þegar þessari áminningu linnir; þegar kennarinn mikli hefur sett okkur stólinn fyrir dyrnar og tilkynnt okkur, að nú sé nóg komið af græðginni, óhófinu og sjálfsupphafningunni.  
Mér finnst þetta vera óhjákvæmilegar vangaveltur. 
Hvert ætlum við að fara eftir að við höfum náð þessum botni? Liggur leiðin aftur til baka, í ákveðinni auðmýkt og viðurkenningu á því, að við höfum verið á rangri leið? Liggur leiðin kannski áfram í fullvissu þess að við séum ekki komin á neinn fokking botn? 

Þetta er tími til að staldra við og, að minnsta kosti, velta vöngum smá stund. 
Erum við  kannski komin svo langt frá náttúrunni að við sjáum ekkert samhengi?  
Er það kannski svo að við viljum ekki sjá og viljum ekki heyra? Erum við orðin svo stór upp á okkur og mikl með okkar, að við sjáum okkur sjálf, hér og nú, sem það markverðasta sem jörðin hefur fengið að njóta frá því hún myndaðist? 

Ég vona að framundan sé tími sem við nýtum til að endurhugsa tilveruna í heild sinni. 
Við þurfum að staldra við og velta svo ótalmörgu fyrir okkur. 
Við þurfum helst að geta sætt okkur við, að við höfum gengið of langt og höfum nú fengið alvarlega áminningu frá kennaranum.  
Við vitum ekki hvort þetta er síðasta áminningin áður en okkur verður vísað úr skólanum. 
Það er ekki þess virði að komast að því.



Stöldrum nú við - fyrir framtíðina.  (Gabríel, Júlía, Emilía og Rakel)

01 apríl, 2020

Ný þjónustumiðstöð

Það er ekki hægt að halda því fram að stjórnendur Bláskógabyggðar hafi setið auðum höndum að undanförnu. Þegar mest af starfseminni í Aratungu lagðist af þegar Covid-19 faraldurinn skall á hélt starfsemin áfram, en með öðrum hætti. Fólkið sem starfar á skrifstofunni hélt áfram að stýra sveitarfélaginu með fjarfundabúnaði, auk þess sem því gafst færi á að ráðast í verkefni sem þóttu orðin brýn, en sem ekki hafði unnist tími til að sinna fyrr en við þessar fordæmalausu aðstæður.

Eitt þeirra verkefna sem hafa eiginlega hvílt eins og mara á sveitarfélaginu, hafa orðið að víkja fyrir öðru, var að koma upp þjónustumiðstöð við íbúa í neðri hluta sveitarinnar, frá Spóastöðum að Helgastöðum. Það hefur sýnt sig undanfarin ár, að talsverðar óánægju hefur gætt meðal íbúa á þessu svæði með þá þjónustu sem sveitarfélagið hefur innt af hendi við þá. Sveitarfélaginu mun vera mikið í mun að sinna öllum íbúum eins vel og kostur er, og hefur tekið það nærri sér að hafa ekki geta sinnt þessum hluta sveitarfélagsins sem skyldi. Í framhaldi af þessari stöðu mála kom upp sú hugmynd innan sveitarstjórnar, að setja upp þjónustumiðstöð í Laugarási og fljótlega fannst þar afar hentugt húsnæði til þess arna: aflagður vatnsveitukofi skammt austan brúarinnar yfir Hvítá.  Þegar veirufaraldurinn skall á, var síðan gripið tækifærið og hafin vinna við að innrétta þessa nýju miðstöð, sem ekki lætur mikið yfir sér, en er ótrúlega rúmgóð og skemmtileg, eftir að brotið var gat á milli dælukofans og vatnstanksins. Þessi vinna hefur verið unnin að einum starfsmanni í einu og hafa þeir unnið á vöktum til að takast mætt að ljúka verkinu fyrir vorið.


Helstu verkefni þjónustumiðstöðvarinnar verða þessi:
- eftirlit með snjóruðningi á opnum svæðum á veturna og með slætti á opnum svæðum á sumrin. Þarna er ætlunin að bæta mjög í frá því sem verið hefur, jafnvel ryðja gangstíga allt að 15 sinnum á hverjum vetri, og að slá vikulega í stað mánaðarlega.
- umsjón með söguskiltum við brúna og vinna að útvíkkun þeirrar hugmyndar, þannig að á þessu svæði gæti orðið til þjónustukjarni, enda sjálfsagt talið að nýta sem best þá innviði sem þarna eru komnir, t.d. með því að byggja ofan á vatnsveitukofann, eða núverandi þjóðnustumiðstöð og skapa þar  rými fyrir veitingastað að aðra slíka starfsemi.
- á þjónustumiðstöðinni verður loks starfrækt kvörtunarþjónusta, en á opnunartíma miðstöðvarinnar verður þarna starfsmaður sem tekur ljúflega við kvörtunum íbúa á svæðinu og ekki nóg með það, því með vorinu verður settur upp kassi utan á húsinu þar sem hægt er að koma á framfæri kvörtunum hvenær sem er sólarhrings. Búist er við að þetta verði einn viðamesti þátturinn í starfi miðstöðvarinnar.

Þjónustumiðstöðin verður opnuð formlega í dag kl. 16 og eru allir íbúar á svæðinu boðnir velkomnir til hátíðarinnar, en hvattir til að halda tilskilinni fjarlægð sín á milli. Þarna verður spritt, einnota hanska og grímur, sem fólk getur nýtt sér að vild.
Opnunarhátíðin verður í umsjá oddvita, sveitarstjóra og sviðsstjóra framkvæmda- og veitusviðs og verður boðið upp á heitt kakó, kleinur og flatkökur  með hangikjöti.

Þar sem veður er enn nokkuð vetrarlegt er fólk hvatt til að klæða sig vel.

-------------------------------------------

UPPFÆRT:  
Þessi færsla, sem var útbúin þann 1. apríl, 
var í tilefni þess dags.

28 mars, 2020

Súrdeigsmóðirin

Súrdeig, fyrir bakstur
Fá orð hef ég heyrt oftar undanfarin misseri en "súrdeigsmóðirin", ekki "súrdeigsmóðir", heldur kemur þetta orð aldrei fyrir nema með ákveðnum greini. Ég þarf auðvitað ekki að taka það fram, að aldrei er minnst á neinn "súrdeigsföður" í þessu sambandi og reikna með að það orð sé ekki til í íslensku máli. Líklega heitir þetta fyrirbæri "súrdeigsmóðir" vegna að að þessi grunnur af súrdeigsbakstri elur stöðugt af sér afkvæmi sem bandað er með einhverjum hætti við einhverjar mjöltegundir sem síðan eiga að verða að brauði. Ég treysti mér alveg til að halda því fram, að "súrdegsfaðir" sé alveg jafn mikið réttnefni á þessu fyrirbæri, af sömu ástæðu. Ég tla samt ekki að fara að gera neitt mál úr því.

Ætli sé ekki rétt að ég byrji á að viðurkenna, að ég veit harla fátt um súrdeigsbakstur, þó svo hann hafi verið harla áberandi umræðuefni hér í Kvistholti, lengi.  Þetta hófst, að mig minnir, í tengslum við hugmyndir um mögulegt glútenóþol hér á bæ og í framhaldi af því pælingar um þær slæmu afleiðingar sem ger, af einhverju tagi, getur haft í för með sér. Þá varð eindregin niðurstaða um, að allt svokallað "hvítt hveiti" væri nánast verk djöfulsins og því var það bannfært. Í staðinn er ekki notað annað mjöl við þennan bakstur en rúgmjöl og heilhveiti, eða annað mjöl sem mun teljast hollara en allt sem hollt er.. Loks er rétt að geta þess, að sykur í sambandi við brauðbakstur, hefur nú lengi verið bannvara.

Súrdeigsbrauð að bakast

Þar með fór af stað súrdeigsbakstursnámið, sem staðið hefur óslitið í 2-3 ár. Þessi námsferill hefur átt sína góður daga og slæmu. Ætli heildarniðurstaðan geti ekki orðið sú, að flestar þeirra aðferða við að baka súrdeigsbrauð, sem er að finna á samfélagsmiðlum, vefsvæðum eða á upplýsingafundum, sé rangar, með einhverjum hætti, eða í það minnsta verulega brenglaðar og/eða ónákvæmar. Heyrt hef ég til dæmis talsverða umfjöllun um hvort "súrdeigsmóðirin" eigi að fá að blómstra í loftleysi eða óvarin fyrir veðri og vindum, eða hvort eigi að geyma hana í kæliskáp eða við stofuhita, eða jafnvel þvottahússhita. Þessi óvissa hefur leitt af sér nokkurt angur, en áfram er haldið, aðferðir þróaðar og ræddar. Ræddar, án þess ég sé miklu nær, í rauninni. Harla oft eru uppskriftir og aðferðir lesnar upphátt, sennilega í tilraun til að virkja áhuga minn, en þar sem ég hef, fyrir talsvert löngu, greint sjálfan mig með athyglisbrest (ADD) á ríflega miðlungs háu stigi, hefur hugur minn oftar en ekki leitað á önnur mið fljótlega eftir að lesturinn hefst, hverju sinni.

Súrdeigsbrauð eftir bakstur

Þar sem ég hef ekki rekist á vísindarannsóknir, þar sem óvéfengjanleg niðurstaða er um, að "hvítt hveiti" sé beinlínis skaðlegt, hef ég ekki sannfærst um, að rétt sé að kasta því úr í ystu myrkur og að rétt sé að fjarlægja það með öllu úr búrinu.
Ég hef fengið að njóta ákveðins skilning á sérvisku minni þegar kemur að "hvítu hveiti", sem ég tel vera mjöltegund sem er ekki síður viðurkennd í mannheimi en rúgmjöl og heilhveiti, eða haframjöl.  Það er nefnilega svo að hér á bæ þykir gott að eiga flatkökur í frystinum og þær því bakaðar með reglulegu millibili. Vissulega er það ekki einfalt mál, enda eru þá bakaðar tvær tegundir, svona "þíns" og "míns", þar sem í "mínum" flatkökum fær hvítt hveiti að njóta sín með eðlilegum hætti, en að öðru leyti, eða í hinni tegundinni, er ekki að finna örðu af þeirri mjöltegund. 

Súrdeigsbrauð eftir bakstur

Nú eru nýjar vendingar, eftir nýjar upplýsingar og niðurstöðu beðið í ofvæni. Bæði uppgötvaðist einhver tiltekin ný aðferð við svona bakstur og einnig hefur hafist samráð og samanburður milli landa, en  yngsti sonurinn, sem dvelur í Álaborg um þessar mundir, í góðu yfirlæti, í kórónusmituðu konungsríkinu Danmörku, tók upp á því að freista þess að baka súrdeigsbrauð og snerti með því einhvern streng í hjarta móðurinnar, sem fékk þar með að njóta áhugamáls síns með öðrum.  Nú gengur á með spjalli um súrdeigsbrauðabakstur, útlit, bragð og áferð, þvert yfir hafið.

Það er rétt að geta þess, að mér var bakað brauð af þessu tagi fyrir nokkru, þar sem "hvítt hveiti" fékk að koma við sögu. Þetta brauð hef ég síðan nýtt mér með reglubundnum hætti og kann bara hreint ekki illa við gripinn.

Þegar þetta er ritað er nýbakað súrdeigsbrauðið komið úr ofninum og bíður smökkunar og "súrdeigsmóðirin" sem gaf af sér til brauðgerðarinnar bíður hlýðin í skálinni sinni eftir því að ala af sér næsta súrdeigsbarn.

Súrdeigsmóðirin

26 mars, 2020

Við erum öll í þessu saman

Það er rétt, sem sagt er að gagnvart þessari veiru stöndum við öll jafnfætis. Hún spyr ekki um stöðu okkar, aldur, kyn eða skoðanir. Hún sér bara lífveru sem er líkleg til að aðstoða sig við að lifa af.
Við erum öll óvarin ef við komumst í tæri við hana, þó hún virðist hafa mismikil áhrif á okkur.
Við erum sem sagt öll í þessu saman og það eru hagsmunir okkar allra að vel takist að vinna bug á þessum ófögnuði.  Við þurfum að bera ábyrgð á hegðun okkar, okkar vegna og vegna annarra.

Það virðist óhjákvæmilegt, að þessi faraldur muni hafa áhrif á samfélagið, sem við eigum kannski erfitt að gera okkur grein fyrir. Efnahagsleg áhrif verða víst gífurleg. Það er ekki jafn ljóst hver önnur áhrif verða, en þau verða sennilega síst minni.

Ég hef áhyggjur af efnahagslegu áhrifunum vegna þess, að þar stöndum við nefnilega ekki öll saman.
Í bók sinni Animal Farm var slagorðinu "Öll dýrin eru jöfn" breytt í "Öll dýrin eru jöfn, en sum dýr eru jafnari en önnur".  Það er nákvæmlega þetta sem ég leyfi mér að hafa áhyggjur af við þær aðstæður sem uppi eru.
Til að freista þess að draga úr því áfalli sem stendur nú yfir og mun víst ekki batna á næstu mánuðum, eða jafnvel árum, er gripið til víðtækra efnahagslegra aðgerða: "fordæmalausra" aðgerða til að bregðast við "fordæmalausum" aðstæðum. Við eðlilegar aðstæður myndi ég vera sáttur við það að forystumenn þjóðarinnar hafi brugðist við með svo afgerandi hætti. Tugum eða hundruðum milljarða verður varið í að takast á við þetta verkefni, svo skaðinn sem blasir við, verði heldur minni en hann hefði orðið ella. Við erum öll í þessu saman og þessvegna eigum við öll saman að greiða þann kostnað sem þetta hefur í för með sér.  Á yfirborðinu er þetta allt hið besta mál. Nú eiga öll dýrin í skóginum að vera vinir. Þegar stóráföll í samfélaginu skella á, er talið rétt, að við öll tökum sameiginlega á okkur þann kostnað sem af hlýst. Við eðlilegar aðstæður væri ég bara harla sáttur við það.

Þetta er sennilega ekki rétti tíminn fyrir úrtöluraddir, því ekki veitir okkur af að standa saman í gegnum þessar "fordæmalausu" aðstæður. Nú er tíminn þar sem gagnrýni er ekki vel þegin. Gagnrýni á þessum tímum er litin hornauga. Við fylkjum okkur að baki forystufólki okkar, trúum því og treystum, að það sé fyrst og fremst að hugsa um hag okkar allra. 

Ég viðurkenni, hér og nú, að traust mitt til forystufólks okkar fauk út í veður og vind fyrir rúmum áratug og það þarf mikið að koma til, áður en það öðlast traust mitt aftur.  Ég er jafn sannfærður um það í dag og ég varð eftir síðasta stóráfall sem þjóðin þurfti að taka á sig, að orðin sem sögð eru, loforðin sem gefin eru og reglurnar sem settar hafa verið, eiga sér undirtexta, sem má síður koma fram í dagsljósið.

Í áföllum er mikilvægt að við stöndum öll saman - fylgjum reglunum, því það er okkur fyrir bestu. Þetta gerum við ótrúlega vel sem þjóð. Við munum gera það einnig nú. Kannski verður samstaðan enn meiri nú en áður, vegna þess að við er að fást óvin, sem gerir engan greinarmun á fólki.
Hvað gerist síðan þegar fer að ganga betur? 
Munum við öll standa saman þá?  
Það held ég, því miður ekki. Mér finnst ekki ólíklegt að sum dýrin muni koma bara harla vel út úr þessu efnahagslega og að þau sömu dýr, muni koma sér hjá því að bera þá bagga sem þjóðinni er ætlað að taka á sig; finna leiðir til að komast undan því að greiða til samfélagsins það sem þeim ber, með réttu. 

Traust hverfur auðveldlega, en það kostar blóð, svita og tár að endurvinna það. Það hefur forystufólki okkar og viðskiptajöfrum ekki tekist enn, og ég efast um að þau hafi í raun áhuga á því. Þau vita sem er, að það er auðvelt að hafa okkur þar sem það best hentar þeim.

Ég leyfi mér að vona að áhyggjur mínar reynist ekki á rökum reistar og að eftir að veiran er horfin munum við standa uppi jafnari en reyndin hefur verið.  Tökumst fyrst á við COVIÐ-19 af einurð og festu.

20 mars, 2020

Minna

"Ég hefði ekki átt að hlusta á þig", voru orð sem  ég fékk að heyra áðan, þegar í ljós kom, að það var ekki nema botnfylli af barbekjú sósu til á bænum. Ég hafði svarað því, aðspurður í verslun í morgun, að ég hefði séð slíka sósu inni í eldhússkáp. Þar með var ekki keypt barbekjkú sósa í þessari kaupstaðarferð. Auðvitað legg ég til að það verði gert gott úr þessu, sett bara meira af öðru kryddi, farnar nýjar leiðir, fundið nýtt bragð. Ég á það gjarnan til, reyndar, að stinga upp á að setja vel af chili í aðskiljanlega rétti og fæ sjaldnast undirtektir sem talist gætu jákvæðar. 

"Nú lifum við fordæmalausa tíma", þreytast alþingismennirnir ekki á að endurtaka, í síbylju, á Alþingisrásinni. Vissulega er það rétt og ég held að við séum nú öll að verða búin að átta okkur á því og endurtekningar þar með óþarfar. Allt sem maður upplifir þessa daga er fordæmalaust (fordómalaust - segja nýyrðasmiðir). Allt umhverfi manns er með nokkrum ólíkindum. Í kaupstaðarferð í morgun mættum við 5 bílum milli Laugaráss og Selfoss, það var aldeilis engin umferð á Selfossi og andrúmsloftið í matvöruverslun, sem hefur opið milli 9 og 10, sérstaklega fyrir eldri borgara og þá sem veikir eru fyrir, var starfsfólkið með grímur fyrir andlitum og latex hanska á höndum. Viðskiptavinirnir sárafáir og gerðu sitt besta til að forðast nánd hver við annan. Brostu kannski hálf vandræðalega, eða kinkuðu kolli. Fólk sprittaði sig inn og fólk sprittaði sig út.
Þetta er í rauninni til fyrirmyndar, í ljósi stöðu mála.
Ég bíð þess þó að fram spretti Trumpistanskir vanvitar og geri ástandið verra en það þarf að vera. Nokkra sér maður reyna fyrir sér í íslenskum samfélagsmiðlum, en mér sýnist tilraunir þeirra flestra vera kæfðar í fæðingu.


Það fer ekki á milli mála, að við erum búin að búa til samfélag, sem gengur varla til lengdar nema við kaupum hluti eða þjónustu, meira með hverju árinu sem líður. Það fer heldur ekki á milli mála, að við getum verið án stórs hluta þeirra hluta og þjónustu sem við kaupum, án þess að lífsgæði okkar skerðist að marki (gætu jafnvel batnað umtalsvert). 
Mér finnst kominn tími  til að við lifum hægar. Látum duga, t.d. að fara ekki til útlanda nema einu sinni á ári, eða jafnvel annahvert ár, jafn vel bara enn sjaldnar. Stefnum að því að eiga símana okkar í það minnsta í 5 ár, förum ekki út að borða nema kannski einusinni í mánuði og svo fram eftir götunum.
Ef við gerum þetta nú öll, hvað þá?  Hvað verður um verslanirnar, veitingastaðina, flugfélögin, símaframleiðendur og allan þann fjölda fólks sem byggir lífsviðurværi sitt á störfum í þessum geirum og öðrum svipuðum?  Þar stendur hnífurinn í vorri kú, nefnilega. Kapítalisminn byggir, að stórum hluta, á því að við dundum okkur við það, daginn út og inn, að kaupa af og selja hvert öðru, vörur og þjónustu. Því meira sem við kaupum og seljum, því betra fyrir hagvöxtinn og því "þægilegra" lífi lifum við. Ég hef reyndar afar lengi velt fyrir mér, hvenær hagvöxturinn verður kominn upp í þak og getur ekki hækkað lengur. Hvað gerist þá? 
Getum við dregið úr þessari neyslu án þess að samfélagið hrynji með tilheyrandi hörmungum? Ég velti því óhjákvæmilega fyrir mér hvort mögulegt geti verið að endurskapa samfélag manna, þannig að þeir verði sjálfum sér nægari, geri minni kröfur til efnislegra gæða, losni við þann klafa sem græðgin leggur á þá. Ég á erfitt með að ímynda mér þann veruleika, eins og maðurinn er samsettur, en aldrei skyldi maður segja aldrei. Út úr þessu veirutímabili kemur líklega annaðhvort eitthvað verulega gott, eða eitthvað verulega slæmt.
Gott: Allt samfélag manna fer í hægari takt og nægjusamari. Umhyggja fólks fyrir öðrum vex, svo og skilningur þjóða í milli. Fólk vinnur skemur og þar með skapast atvinnutækifæri fyrir fleiri, börn fá að njóta meiri samvista við foreldra, heimsbyggðin sameinast í því að bjarga jörðinni frá tortímingu.
Slæmt: "Mannkynslausnarar", fólk sem segist hafa öll svörin, ná að fóta sig enn frekar (varla á bætandi), með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir heimsbyggðina alla.

Kannski er þetta bara allt bull, sem ég set hér fram, hver veit? Ég er nú farinn að nálgast þann aldur sem greinir á milli þess að mega hafa skoðun og mega það ekki.

"Lokaðiðru ekki olíulokinu?" Þessi orð voru sögð í þann mund er við renndum í hlað í Kvistholti eftir kaupstaðarferðina. Ég fyllti bifreiðina af eldsneyti á Selfossi áður en við héldum heim á leið. Í ljós kom, sem sagt, að ég hafði ekki skrúfað olíulokið í og ekki skellt lokinu fyrir. Auðvitað hefði fD átt að taka eftir þessu strax, líta í baksýnisspegilinn, en ekki þegar við vorum búin að aka 40 km. Kannski er að verða eins komið fyrir henni og mér.

Við erum í stöðu sem er ekki ósvipuð samskiptum eyruglunnar og smáfuglanna hér fyrir utan í gær. Hún sat í tré og leitaði færis. Þeir tóku áhættuna af því að renna sér inn á pallinn, tína nokkur korn upp í sig, áður þeir drifu sig, allir í hóp, í skjól í næsta tré. Uglan sat hin rólegasta og lyngdi augum, fylgdist grannt með, beið eftir færi. Samstaða þeirra litlu varð til þess, að hún fékk aldrei færi á þeim. Ég skil nú betur mikilvægi þess fyrir garðfuglana, að vera stöðugt á verði - vara sig.




19 mars, 2020

Eyrugla í Kvistholti

Þetta set ég hér inn til geymslu

Það má kalla daginn í gær "Dag uglunnar", en í birtingu kom í ljós, að eyrugla sat á matarborðinu þar sem venjulega eru smáfuglar, sem uglan þessi nýjir sem fæðu, alla jafna. Sagan um þessa uglu stóð fram á kvöld, en hvað hún síðan gerði eftir að myrkur varskollið á, er ekki vitað, og að morgni þessa dags var hún horfin.

Eftirfarandi tvo texta skráði ég með myndum sem ég setti inn á Facebook.

Fyrri textinn: (MYNDIR)

Þegar ég kom mér fram úr í morgun, þá morgunskíman var vart greinanleg, tók ég eftir breytingu á fóðurborðinu hér fyrir utan gluggann hjá mér. Við nánari skoðun reyndist vera um að ræða uglu, en slíkan fugl sem þennan hef ég aldrei séð, berum augum. Þarna sat hún grafkyrr og þegar ég fór alveg að glugganum, leit hún á mig nokkuð yfirlætislega, en brást ekki við að öðru leyti.
Það tók að birta og enn sat þessi nýi pallgestur grafkyrr og ég var farinn að draga þá ályktun, að eitthvað hlyti að ama að, svo ég sendi skilaboð á fuglafræðinginn okkar (Tómas Grétar Gunnarsson). Hann taldi að annarsvegar væri eitthvað að, eða þá að hún væri bara nýbúin að ná sér í æti á pallinum, fugl eða mús. Ef fugl, þá ætti að sjást fiður í nágrenninu - sem ekki sást.

 
Hann benti mér á að athuga hver viðbrögð hennar væru ef ég nálgaðist, þannig að ég opnaði dyrnar og kíkti út fyrir, þá í um þriggja metra fjarlægð. Hún leit á mig nokkra stund, fremur letilega, en hóf sig síðan til flugs og sveif inn í skóginn. Það merkilega var, að engan heyrði ég vængjasláttinn. Það var, að öllum líkindum mús, sem að sögn hefur verið gleypt í heilu lagi. Þessi vitneskja olli ekki sorgarviðbrögðum hér innan dyra.
Það þarf ekki að fjölyrða um það, að EOS-inn var á lofti þann rúma klukkutíma sem uglan sat hér fyrir utan og hann var farinn að hitna talsvert.

Síðari textinn: (MYNDIR)

Ef þú ert ekki búin(n) að fá nóg að Eyruglu í dag:
Þessi ugla hefur, að því er virðist, tekið ástfóstri við Kvistholt, líklegast er þar um að ræða matarást.
Hún kom aftur á svæðið upp úr miðjum degi og sat aftur á matarborðinu. Ég fældi hana reyndar þaðan, en ekki fór hún langt: upp í næsta tré, sat þar og naut þess að leyfa hundslappadrífunni að lenda á andlitinu.
Möguleg, fljúgandi, fórnarlömb hennar fóru smám saman að reyna sig við kornið og fræið, og

 gerðust æ frakkari. Þegar svo var komið fór uglan að glenna upp skjáina og fylgdist grannt með.
Þar kom, þegar stór hópur snjótittlinga og auðnutittlinga og nokkurra svartþrasta, sat að snæðingi, að hún lét vaða, sveif í boga yfir matstaðinn og síðan inn í Sigrúnarlund, án þess að verða nokkuð ágengt.
Nú er þessi ugla orðin "persona non grata" hjá fD og hefur þannig bæst í hóp hagamúsanna.
Þegar þetta er ritað, er uglan aftur búin að stilla sér upp í trjágrein ca 10m frá matarborðinu, og hrærist ei - augun galopin og vakandi.
Fyrir utan gluggann minn koma og fara hundruð mögulegra kvöldverða.




10 mars, 2020

Aftur til genginna spora

Í gær lá leið mín á Laugarvatn, þar sem ég eyddi næstum 40 vetrum ævi minnar. Mér finnst dálítið merkilegt að hugsa til þess, verð ég að segja. Þetta voru þrír vetur í héraðsskólanum, fjórir í menntaskólanum sem nemandi og 31 ár við þá stofnun sem starfsmaður.  Ég get varla sagt að ég hafi komið í húsnæði menntaskólans frá því ég gekk þaðan út og inn í eftirlaunaárin fyrir þrem til fjórum árum (fer eftir því hvernig er talið). Fyrir því eru aðallega tvær ástæður: annarsvegar vildi ég ekkert vera að trufla starfsemi skólans með einhverri beinni eða óbeinni afskiptasemi og hinsvegar nennti ég eiginlega ekki að keyra þessa leið sem ég hafði ekið tvisvar á dag að vetri í um 30 ár - það var bara komið gott.  En hvað um það.

Það var ágætlega tekið á móti mér og ég gat nánast gengið þar um sali eins ég hefði aldrei farið. Þarna mættu mér gömul andlit og einhver ný. Flest er óbreytt hið ytra, en mig grunar, að hið innra hafi ýmislegt tekið nokkrum stakkaskiptum. Ég hygg, að sögur af mér og fleiri starfsmönnum fortíðar, kryddi frímínútur við og við á kennarastofunni og kalli fram nokkur bros, enda liðinn sá tími þegar kennarar sátu við kennaraborðið, eða skrifuðu á töfluna. Liðinn sá tími, þegar ramminn um nám og kennslu var nánast greyptur í stein - skóli hófst að morgni kl. 08.15 og við tóku 5, 40 mínútna kennslustundir með 10 mínútna frímínútum á milli, til kl. 12.15, þegar nemendur flykktust í matsalinn í hádegisverð. Kl 13.00 hélt skóladagurinn síðan áfram eftir sama kerfi. 
Á kennarastofunni
Það má kannski líkja þessu við það þegar við nutum þess að hafa bara eina útvarpsrás, sem allir hlustuðu á.  Upp er runninn tími föndurvagnsins og risaskjásins, tími vinnustunda, símats og verkefnamiðaðs náms, tími mats og endurmats og innra mats og funda.  Tími óreiðu og agaleysis, eða tími sköpunar og frelsis? Ég veit það ekki, svei mér þá. Allavega öðruvísi tími. Ég verð víst að viðurkenna, að samfélag nútímans kallar á breytt menntakerfi, öðruvísi nálgun. Það er víst ekki lengur mitt að hafa skoðun á því hvort gengið er til góðs þessa götu fram eftir veg.
Það er svo bágt að standa’ í stað, og mönnunum munar
annaðhvurt aftur á bak ellegar nokkuð á leið.
Hvað er þá orðið okkart starf í sex hundruð sumur?
Höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg?
(úr kvæðinu Ísland, eftir Jónas Hallgrímsson) 
Í Baldurshaga
Ég kom á kennarastofuna undir hálf tíu, þegar, samkvæmt því sem venja var, átti að standa yfir kennsla. Þar stóð þá yfir einkynja samræðustund, sem ég gekk inn í, rétt eins og ég hefði aldrei farið neitt. Kaffið beið á könnunni, móttökurnar hlýjar. Þarna voru dansæfingar efst á baugi í spjallinu sem átti sér stað, umfram jafnvel covid19.  Enn, sem svo oft áður fór ég ósjálfrátt að bera saman kennarastofuna 1986 og kennarastofuna nú. Óorðanleg, nánast, er sú breyting sem orðin er á.

Ég var þarna kominn til að inna af hendi lítið verkefni, sem ég vissi nánast ekki nákvæmlega hvert var. Fékk að nýta nýtt og glæsilegt fundarherbergi, sem kallast víst frekar Baldurshagi en Baldursból.  Mér finnst það síðarnefnda lýsa umræddu herbergi betur, reyndar, en það er ekki mitt að hafa skoðun á því.  Þarna inni var allt nýtt: fundarstólar, fundarborð og risaskjár á vegg, sem hægt er að nýta með snertingu, tölvumús eða lyklaborði.

Þarna í Baldurshaga fletti ég í gegnum myndasöfn og leiftur frá liðnum tíma stukku fram, hvert á fætur öðru. Verkefni mitt þarna á Laugarvatni tengdist nefnilega vali á myndum sem síðan eiga að nýtast í tilteknum tilgangi, eða þannig.  Margar voru myndirnar og margar skemmtilegar og vel unnar, enda ....... jæja, förum ekki þangað.

Húsþing
Þar sem ég sat við þetta verkefni var bjöllunni hringt 2x3 sinnum, sem hefur, svo lengi sem elstu menn muna þýtt að kallað er á húsþing. Húsþing er vettvangur sem skólameistari notar til að fara yfir ýmis mál við nemendur, oftast í upplýsingaskyni og til hvatningar á einhverjum sviðum. Ég lét húsþingið ekki framhjá mér fara, þó það sem fjallað var þar um, komi mér ekkert við.

Skólameistari á skaflinum
Þarna hefur skólameistari stillt sér upp frá því skólahúsið var tekið í notkun, en það sér ekki enn á tröppunni.  Stundum hefur honum verið mikið niðri fyrir, stundum verið kátur og glettinn, stundum ávítandi og stundum spekingslegur, allt eftir tilefninu hverju sinni.

Ekki varð ég var við nemendur á þessum degi, utan einn eða tvo sem sátu í sófa og nokkra sem gengu framhjá Baldurshaga og inn í herbergi við hliðina, sennilega til að vinna að einhverju verkefni. Þar fór ekki mikið fyrir þeim, eitt og eitt "fokk" heyrði ég þó, en annað ekki merkingarbært.

Eftir að hafa tínt fram slatta af myndum taldi ég verkefninu lokið, utan það að mig vantaði mynd af skólameistara fyrir framan stofnunina, en slíka mynd hafði ég ekki fundið í myndasafninu.  Þar með dró ég hann upp á skafl og smelli nokkrum myndum. Ég kann ekki við að setja þær bestu hér, en læt honum eftir að ákvarða hver örlög þeirra verða.

Ég held að það sé manni hollt að kíkja svona í heimsókn á gamlan vinnustað og vökva þannig rætur sem annars myndu visna og deyja.




27 febrúar, 2020

Allir á sviði í uppnámi

Til að taka af allan vafa þá er hér ekki um að ræða leikdóm, þannig séð, heldur bara lítilmótlegar hugrenningar Kvisthyltings, sem nálgast það að teljast genginn í hóp eldri borgara, eða eftirlaunaþega. Ef til vill er það einmitt besta ástæðan til að taka mark á þessum skrifum, enda ekkert fólk sem uppi er á hverjum tíma sem býr yfir þeirri reynslu og yfirsýn sem einmitt fólkið sem hefur lagt að baki svo marga áratugi lífs.

Hér er fjallað um leiksýningu Leikdeildar Ungmennafélags Biskupstungna í Aratungu. Verkið sem um ræðir, ber heitið "Allir á svið" og er komið höfði náunga að nafni Michael Frayn, en það var Gísli Rúnar Jónsson sem þýddi og staðfærði. Leikstjóri er Ólafur Jens Sigurðsson. Leikarar eru 9 og hver um sig leikur tvö hlutverk. Sem nærri má geta eru ýmsir aðrir sem að þessu verki koma.

"Fjallað um", já. Við getum alveg kallað það það.
Við fD fylgjumst vel með fréttum og vitum nánast frá mínútu til mínútu hvað er á seyði í veröldinni. Af þessum sökum vissum við í gær, að veiran væri að öllum líkindum á leið til landsins. Við fylgjumst ekki bara  með fréttum, heldur erum við með eindæmum ábyrg gagnvart okkur sjálfum, ekki síður en öðrum.  Við skulum halda því fram að þekking okkar og ábyrgð hafi ráðið því að við ákváðum að skella okkur á þessa leiksýningu leikdeildarinnar í gærkvöld frekar en síðar.

"Allir á svið" er verk í þrem þáttum, þar sem sá fyrsti gerist á tækni- eða lokaæfingu á verkinu: "Nakin á svið". Strax þarna fann ég  fyrir ákveðnum óróleika. Mátti ég búast við þessum sveitungum mínum spígsporandi, jafnvel klæðalausum á sviðinu í Aratungu? Þeirra vegna og mín gerðist það svo auðvitað ekki, en saga hefði það verið til næsta bæjar.
Í þessum þætti gerist auðvitað margt skrítið og skemmtilegt, enda skrattast leikararnir milli hlutverka sinna og hlutverkanna sem þeir eru að leika og stundum erfitt að gera sér grein fyrir hvort um leik er að ræða eða leikleik.
Svo kemur annar þáttur sem gerist mánuði síðar, þegar verið hefur verið flutt allvíða og farið að reyna talsvert á samstarfið, svo ekki sé meira sagt. Þessi þáttur gerist baksviðs meðan verkið er leikið á bakvið leiktjöldin.
Þriðji þáttur, lokaþátturinn gerist síðan á lokasýningu í Aratungu einum og hálfum mánuði eftir frumsýningu. Þarna er nokkuð farið að bera á þreytu leikendanna og listrænn metnaður hefur vikið fyrir ýmsu öðru, þ.e. listrænn metnaður leikaraanna sem eru í hlutverkum leikaranna, ef það skildi skiljast.

Það skal ég segja ykkur, að ég ætla ekki að fara að fjalla um frammistöðu einstakra leikara í þessu verki. Þeir stóðu sig allir með ágætum og komu sínum hlutverkum og hlutverkahlutverkum ágætlega til skila. Framsögn var skýr og góð. Einn leikarnna mótaði, með eftirminnilegum hætti, einskonar ofursjálf úr sjálfum sér í loka þættinum og ég læt fólk um að reyna að velta fyrir sér hver það skyldi nú hafa verið.

Fernt vil ég segja til viðbótar:

1. Á þessum tíma árs (mánuður frá þorrablóti) hafa ákveðnir andlitsvöðvar fengið of mikla hvíld og sannarlega tími kominn til að nota þá. Ég er með harðsperrur í andlitinu í dag.

2. Þetta leikverk er sannarlega ekki til þess fallið að dregnar séu af því djúpar ályktanir eða yfir því sé vöngum velt fram og til baka. Það hefur í rauninni bara einn tilgang: að kalla fram bros og hlátur. Það reynir ekki einusinni að vera eitthvað annað.

3. Ef einhver lítur á tengingu mína milli COVID-19 verunnar og daglegra ákvarðana okkar fD, sem raunveruleika þann sem við búum við, þá er það misskilningur og þessi tenging  eingöngu sett fram til að búa til smá stofudrama.

4. Það er aðdáunarvert að leggja á sig alla þá vinnu sem liggur að baki svona uppsetningu, með tilheyrandi álagi á fjölskyldur þátttakenda og þá sjálfa. Fyrir þetta er ekki greitt með peningum. Hvaða máli skipta peningar svosem í þessu samhengi.

Ég þakka fyrir mig, ekki síst vegna þess að nú er margt orðið svo miklu bjartara og léttara en það var.


Þetta er hlekkur að Facebooksíðu leikdeildarinnar, en þar má alltaf sjá upplýsingar um þær sýningar sem eru framundan.


25 febrúar, 2020

Ógnin

Það fer nú ekki hjá því að maður hugsi ýmislegt þessa dagana. Eitt af því sem engan veginn virðist vera hægt að leiða hjá sér, er COVID 19 eða Corona veiran, sem á að hafa komið fyrst á sjónarsviðið í Wuhan borg í Kína. Nú blasir það við, að við fáum þennan gest í heimsókn og hvað þá?
Vegna óljósra svara frá yfirvöldum um við hverju er að búast, fer ekki hjá því, að ímyndunaraflið fari á flug. Þegar það gerist þá er þar yfirleitt gert meira úr en minna.

Þar með víkur sögunni að viðbúnaði Kvisthyltinga, ef eða þegar veiran hefur útbreiðslu sína um bæi og sveitir. Ég óttast ekki að fD muni ávallt vera vel vakandi gagnvart mögulegum smitleiðum, en hún hefur nú í tvígang varað við mögulegu hættuástandi.
Í fyrra sinnið vorum við á heilsubótargöngu þegar bifreið nam staðar hjá okkur og þar sem bílrúðan var dregin niður komu í ljós fjórir Asíubúar, sem þurftu að spyrjast til vegar. Ég fór auðvitað í að leiðbeina fólkinu eins og maður gerir, en það fólst meðal annars í að sína þeim á korti í símanum sem þau voru með, hvaða leiðir lægju hvert. Símaskjáir eru ekki stórir og því beygði ég mig inn í bílinn til að átta mig betur og til að geta sýnt betur hvað var hvað. Þá heyrði ég sagt fyrir aftan mig: "Ekki fara svona nálægt!". Þarna hafði fD umsvifalaust áttað sig á því að mögulega væri þarna um að ræða fólk frá Wuhan og því engin ástæða til annars en halda öruggri fjarlægð. Þetta hafði mér ekki komið til hugar, en komst ekki hjá því, í framhaldinu, að velta fyrir mér hvort þarna hefði ég kannski, mögulega, hugsanlega smitast.
Í síðara skiptið sem fD sýndi af sér samsvarandi árvekni, var við innkaup í stórmarkaði á Suðurlandi. Reyndar minntist hún ekki á það við mig fyrr en við vorum sest út í bíl að loknum innkaupum, að í búðinni var fjöldi Asíubúa og hún mun hafa gert sitt til að forðast að lenda í of miklu návígi við þá. Ég hafði nú ekki einusinni tekið eftir því að í versluninni væru Asíubúar.

Það má taka þessari yfirvofandi ógn af ákveðnu kæruleysi, segja sem svo að þetta sé nú bara eins og hver önnur flensa, sem langflestir ná sér af og því sé engin ástæða til að gera neinar sérstakar ráðstafanir.
Það má líka fara alveg yfir á hinn kantinn: loka sig bara inni í Kvistholti þar til þetta er frá. Það myndi meðal annars fela í sér að sleppa kóræfingum, enda gætu einhverjir kórfélagar, eða ættingjar þeirra verið nýkomnir frá Tenerife eða Ítalíu. Sleppa einnig leiksýningu ungmennafélagsins. Þetta gæti líka falið í sér að skjótast út í apótek til Þrúðu, með þykkan trefil fyrir vitunum, til að athuga hvort þar væri ekki hægt að kaupa öruggar andlitsgrímur.  Þá gæti þetta falið í sér að reikna út hvenær dags fæstir fara út að versla og mæta síðan galvaskur með grímuna og sjá til þess að vera aldrei í minna en tveggja metra fjarlægð frá næsta manni og þvo síðan allar vörur þegar heim væri komið og spritta á sér hendurnar.

Það er sannarlega eitthvað verulega óþægilegt við það að vita af einhverri áður óþekktri veiru á sveimi í umhverfi sínu, en sennilega eru nú viturlegustu viðbrögðin einhver millileið milli öfganna sem ég tæpti á hér fyrir ofan.  Það kemur í ljós hvað verður með þessa veiru sem er að setja veröldina á annan endann. Samskipti þjóða í milli eru hinsvegar orðin með þeim hætti, að ég held að engar mögulegar varúaðrráðstafanir muni geta komið í veg fyrir að hún berist þangað sem hún berst.

Ég hyggst einbeita mér að því að ylja mér við tilhugsunina um að eftir fremur rysjóttan vetur muni vorið smám saman hafa sigur. Svo hef ég alltaf fD til að vera vakandi fyrir þeim ógnum sem mögulega má finna í umhverfinu.

16 febrúar, 2020

Logn

Það er alltaf rok á Selfossi, en þar er einnig stundum logn.
Ég er alltaf í góðu skapi, en get þó stundum orðið fúll og reiður.
Hann er alltaf sígjammandi, þessi hundur, en það er þó hreint ekki rétt.
Þetta barn er afskaplega fallegt, nema þegar það fer að grenja.
Ísland er fegursta land í heimi, en geymir samt ljótleika af ýmsu tagi.

Það er nefnilega þannig, að það er háttur okkar mannanna að alhæfa um hluti, bæði þá sem okkur finnst fallegir og góðir og þá sem við álítum ljóta og vonda. Svona er þetta nú bara, hvort sem okkur líkar betur eða verr.
Ég hef, svo dæmi sé tekið, í gegnum tíðina, átt það til að vísa til Laugarvatns sem "rokrassgats", sem er auðvitað alhæfing, enda býr sá staður yfir mörgum ágætum eiginleikum og þar hef ég meira að segja upplifað indælt logn. Ég hef verið ófeiminn við að nefna samanburð á Laugarvatni og Laugarási við Laugvetninga og hef komið inn hjá þeim, með endalausum endurtekningum, reyndar, hugmyndinni um að í Laugarási væri alltaf logn, sem væri þá andstæða þess sem mætti mér, þegar ég kæmi til vinnu á Laugarvatni.


Ég neita því ekki, að mér þykir nokkuð vænt um, að Laugvetningar og reyndar fjölmargir aðrir hafa, gegnum árin, fengið þá mynd af Laugarási, að þar væri mikil gróðursæld og lygnt. Þetta telst vera ímyndarsköpun. 

Já, svo kom einhver öflugasta lægð sögunnar yfir landið fyrir nokkrum dögum, með þeim afleiðingum að gamlar aspir (sennilega milli 70 og 80 ára - mig minnir að ösp verði að jafnaði ekki nema 40-50 ára - er ekki viss þó) með tiltölulega veikt rótarkerfi, lögðust á hliðina. Það er auðvitað leitt að svona hafi farið, en segja má, að það sé einmitt öspin sem hefur valdið þeirri veðursæld sem við fáum að njóta í Laugarási. Sannarlega eru ýmsir sem vilja halda því fram, að hún sé nánast illgresi, en það er nú samt henni að þakka að ekki hafa orðið meiri skaðar af veðri Í Laugarási en raun ber vitni. Sú var tíð, áður en öspin náði að mynda það skjól sem orðið er, að þegar suðaustan stormar geisuðu, varð oft mikið tjón á gróðurhúsum. Vissulega varð tjón nú, sem án aspanna hefið orðið miklu meira, ef að líkum lætur.


Þó svo það komi ein og ein djúp lægð yfir landið og hreyfi við trjátoppunum í Laugarási, þá víla ég ekki fyrir mér að halda á lofti þeim sannleik, að það er alltaf logn í Laugarási.

Svo má auðvitað halda því til haga, að það eru til fleiri tegundir af logni, en veðurfarslegt logn. 

11 febrúar, 2020

Talað í tómið

"Útvarp Reykjavík, Útvarp Reykjavík. Klukkan er sjö. Nú verða sagðar fréttir. Fréttirnar segir Jón Múli Árnason". Hvert skyldi ég nú vera að fara með svona upphafi? Það er auðvitað góð spurning.
Þannig er, að einusinni var ég yngri; ólst reyndar upp við það, að það var bara ein útvarpsstöð sem sá okkur fyrir fréttaefni og svo kom Tíminn í bunkum með mjólkurbílnum tvisvar í viku eða svo.  Þá treystum við því einhvernveginn, að þær fréttir og sú umræða sem okkur stóðu til boða, væru sannleikanum samkvæmar. Hvort þær voru það í raun, hef ég ekki hugmynd um.
Hundruð þúsunda Ölfusáa hafa runnið til sjávar síðan og margt hefur gerst.  Við tók, smátt og smátt, einhverskonar kapítalískt frelsi, sem er búið að koma okkur í vægast sagt ótrúlega stöðu.

Tvennt á undanförnum dögum varð svo til þess, að ég ákvað að reyna að koma þessu heim og saman í hausnum á mér. Annarsvegar Söngvakeppnin sem fram fór s.l. laugardagskvöld og sem ég lét mig hafa að sitja yfir og meira að segja fD líka.. Hinsvegar eftirmál Óskarsverðlaunahátíðar sem gærdagurinn flutti okkur.

Ég hef engar athugasemdir við að við vöndum val okkar á fulltrúum í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöða, og ég fagna því, eins og landsmenn flestir, að íslenskt tónskáld skuli hafa hlotið Óskarsverðlaun fyrir tónlist sína í kvikmynd. Málið snýst ekki um það.

Skyldi ég vera sá eini sem upplifði fimmfalda endurtekningu á framlögum í söngvakeppninni eins og einhverja tegund af móðgun? Mér fannst eins og væri verið að gera lítið úr mér sem manneskju með augu og eyru.

Skyldi ég vera sá eini sem fannst umfjöllun fjölmiðla um Óskarsverðlaunin ganga úr hófi fram í gær? Þeir byrjuðu að segja mér það snemma morguns að okkar fulltrúi hefði hlotið Óskarsverðlaun og síðan í öllum fréttatímum það sem eftir lifði dags á öllum miðlum. Það voru ekki bara fréttirnar á ljósvakmiðlum sem greindu frá þessu, heldur líka allir mögulegir þættir allan daginn. Ég neita því ekki að ég fékk það á tilfinninguna, að þessi umfjöllun snérist ekki um neytndur miðlanna eða Óskarsverðlaunahafann, heldur þá sjálfa. "Sjáiði bara hvað við erum góð í að fjalla um þetta! Erum við ekki með betri vinkil á þetta en hinir fjölmiðlarnir!?"

Kannski var þetta allt bara vegna þess að það var bara ekkert annað í fréttum. Ekki veit ég það, enda engir fjölmiðlar til að segja mér frá því, því þeir voru í öðru.

Kannski var þetta einhver eðlislæg minnimáttarkennd okkar Íslendinga.

Kannski er ég bara óhóflega mikill fjölmiðlaneytandi, sem ólst upp við að hlusta á alla fréttatíma.

Það sem fór kannski síst í mig var, að tiltekinn hópur í samfélaginu virðist eigna sér þetta tónskáld; það sé fulltrúi hans, en ekki annarra Íslendinga.

Nei, þótt segja megi að athyglisgáfa mín fari minnkandi, þá meðtók ég það, eftir eina endurtekningu á föstudagskvöldið, hverskonar tónlist var borin á borð fyrir mig í söngvakeppninni. Ég skildi það kl. 07.00 á mánudagsmorgun, að íslenskt tónskáld hefði hlotið Óskarsverðlaun í Hollywood og fagnaði því með sjálfum mér - sem Íslendingur (Ég fann reyndar ekki hjá mér þörft til að tjá mig um það á samfélagsmiðlum). Í framhaldi af þessari vitneskju hefði verið fínt að sjá mynd af verðlaunaafhendingunni um kvöldið og síðan viðtal kannski daginn eftir.

Þegar upp er staðið snýst þessi blástur minn ekki um endurtekningarnar á laugardagskvöldinu eða á mánudaginn, heldur um lítilsvirðandi endurtekningar á sömu fréttunum, yfirleitt, rétt eins og gert sé ráð fyrir að maður hafi jafn öflugt minni og músarskott. Ég er hinsvegar alveg sáttur við fréttir heilu dagana þar sem um er að ræða einhverja framvindu mála, t.d. að landrisið sem var 3.2 cm sé orðið 3.3.

Jæja, þá er það frá.
Best að fara að halda áfram með lífið.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...