26 mars, 2020

Við erum öll í þessu saman

Það er rétt, sem sagt er að gagnvart þessari veiru stöndum við öll jafnfætis. Hún spyr ekki um stöðu okkar, aldur, kyn eða skoðanir. Hún sér bara lífveru sem er líkleg til að aðstoða sig við að lifa af.
Við erum öll óvarin ef við komumst í tæri við hana, þó hún virðist hafa mismikil áhrif á okkur.
Við erum sem sagt öll í þessu saman og það eru hagsmunir okkar allra að vel takist að vinna bug á þessum ófögnuði.  Við þurfum að bera ábyrgð á hegðun okkar, okkar vegna og vegna annarra.

Það virðist óhjákvæmilegt, að þessi faraldur muni hafa áhrif á samfélagið, sem við eigum kannski erfitt að gera okkur grein fyrir. Efnahagsleg áhrif verða víst gífurleg. Það er ekki jafn ljóst hver önnur áhrif verða, en þau verða sennilega síst minni.

Ég hef áhyggjur af efnahagslegu áhrifunum vegna þess, að þar stöndum við nefnilega ekki öll saman.
Í bók sinni Animal Farm var slagorðinu "Öll dýrin eru jöfn" breytt í "Öll dýrin eru jöfn, en sum dýr eru jafnari en önnur".  Það er nákvæmlega þetta sem ég leyfi mér að hafa áhyggjur af við þær aðstæður sem uppi eru.
Til að freista þess að draga úr því áfalli sem stendur nú yfir og mun víst ekki batna á næstu mánuðum, eða jafnvel árum, er gripið til víðtækra efnahagslegra aðgerða: "fordæmalausra" aðgerða til að bregðast við "fordæmalausum" aðstæðum. Við eðlilegar aðstæður myndi ég vera sáttur við það að forystumenn þjóðarinnar hafi brugðist við með svo afgerandi hætti. Tugum eða hundruðum milljarða verður varið í að takast á við þetta verkefni, svo skaðinn sem blasir við, verði heldur minni en hann hefði orðið ella. Við erum öll í þessu saman og þessvegna eigum við öll saman að greiða þann kostnað sem þetta hefur í för með sér.  Á yfirborðinu er þetta allt hið besta mál. Nú eiga öll dýrin í skóginum að vera vinir. Þegar stóráföll í samfélaginu skella á, er talið rétt, að við öll tökum sameiginlega á okkur þann kostnað sem af hlýst. Við eðlilegar aðstæður væri ég bara harla sáttur við það.

Þetta er sennilega ekki rétti tíminn fyrir úrtöluraddir, því ekki veitir okkur af að standa saman í gegnum þessar "fordæmalausu" aðstæður. Nú er tíminn þar sem gagnrýni er ekki vel þegin. Gagnrýni á þessum tímum er litin hornauga. Við fylkjum okkur að baki forystufólki okkar, trúum því og treystum, að það sé fyrst og fremst að hugsa um hag okkar allra. 

Ég viðurkenni, hér og nú, að traust mitt til forystufólks okkar fauk út í veður og vind fyrir rúmum áratug og það þarf mikið að koma til, áður en það öðlast traust mitt aftur.  Ég er jafn sannfærður um það í dag og ég varð eftir síðasta stóráfall sem þjóðin þurfti að taka á sig, að orðin sem sögð eru, loforðin sem gefin eru og reglurnar sem settar hafa verið, eiga sér undirtexta, sem má síður koma fram í dagsljósið.

Í áföllum er mikilvægt að við stöndum öll saman - fylgjum reglunum, því það er okkur fyrir bestu. Þetta gerum við ótrúlega vel sem þjóð. Við munum gera það einnig nú. Kannski verður samstaðan enn meiri nú en áður, vegna þess að við er að fást óvin, sem gerir engan greinarmun á fólki.
Hvað gerist síðan þegar fer að ganga betur? 
Munum við öll standa saman þá?  
Það held ég, því miður ekki. Mér finnst ekki ólíklegt að sum dýrin muni koma bara harla vel út úr þessu efnahagslega og að þau sömu dýr, muni koma sér hjá því að bera þá bagga sem þjóðinni er ætlað að taka á sig; finna leiðir til að komast undan því að greiða til samfélagsins það sem þeim ber, með réttu. 

Traust hverfur auðveldlega, en það kostar blóð, svita og tár að endurvinna það. Það hefur forystufólki okkar og viðskiptajöfrum ekki tekist enn, og ég efast um að þau hafi í raun áhuga á því. Þau vita sem er, að það er auðvelt að hafa okkur þar sem það best hentar þeim.

Ég leyfi mér að vona að áhyggjur mínar reynist ekki á rökum reistar og að eftir að veiran er horfin munum við standa uppi jafnari en reyndin hefur verið.  Tökumst fyrst á við COVIÐ-19 af einurð og festu.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...