08 nóvember, 2008

Ætti ég að taka mér egg í hönd?


Kannski fá mér bara tómata (innflutta).
Hér er um að ræða dálítið merkilega togstreitu, væntanlega til komna vegna aldurs og þroska. Ég ákveð í það minnsta að svo sé. 
Fregnir berast af því að fólk sé farið að kasta eggjum og tómötum í Alþingishúsið og það liggur við að mig langi að slást í hópinn. 
Væri ég ca 35 árum yngri núna, myndi ég ekki hika við að tjá hug minn til allrar vitleysunnar, með því að skjótast í höfuðborgina að tjá þar skoðanir mínar. 

Ég á mér reyndar nokkra fortíð sem mótmælandi misréttis og hernaðarbrölts, þó svo ég reikni ekki með að þeir sem þekkja mig nú, eigi auðvelt með að ímynda sér að slíkur rólyndismaður sem ég er, hafi nokkurntíma látið það hvarfla að sér að henda eggjum eða þramma um með mótmælaskilti. Það er nú samt raunin.

Ætli það sé ekki fyrst og fremst hlutskipti þeirra sem yngri eru að mótmæla á torgum. Við hin eigum þá væntanlega að skrifa greinar og tala á fundum. Kannski eigum við bara ekkert að vera að mótmæla neitt, þar sem staða mála er okkur að kenna. Við erum búin að vera að kjósa aftur og aftur yfir okkur landsstjórn sem hefur tekist að leiða okkur þessa ólukku leið. 
Við völdum okkur fulltrúa - þess vegna getum við engum kennt um nema okkur sjálfum.

Ekkert á ég eggið
engu breyta kann.


Fastir punktar

Það er nú ekki hægt að segja að ég hafi eytt stórum hluta ævinnar fjarri fæðingarstaðnum. Ætli ástæðu þess megi ekki einna helst rekja til þess að ég hef hvergi rekist á þann stað annan, sem er betur fallinn til búsetu. Vissulega hafa komið upp hviður við og við, sem hafa falið í sér einhverskonar þrá eftir því sem ekki er, hverju sinni. Þetta er auðvitað hin sígilda hugsun sem bærist með okkur mönnunum, um að það geti verið að við séum að missa af einhverju; að með því að búa alltaf á sama stað, séum við að misnota þá möguleika sem lífið hefur upp á að bjóða. Þetta er vissulega pæling sem á rétt á sér, en það verður þá jafnframt að velta fyrir sér hvað þarf að vera til staðar til að manni finnist lífinu vel varið.

Mér dettur þetta í hug eftir enn eina heimsóknina á æskuheimilið þar sem margumræddur, gamli unglingurinn, er til húsa og segist fara allt upp í þrisvar á dag í göngutúra úti á stétt. 
Í morgun voru þar fyrir tveir aðrir fastir punktar í tilverunni sem blasir við í Laugarási. Þessir punktar eiga heimili að Lindarbrekku, fluttu þangað um 1950 með eitt ungabarn. Settust þar að á brekkubrúninni og hafa alið þann aldur sinn síðan. Þau og börn þeirra hafa alla tíð talist til samferðamanna okkar og eru, að ég held þau einu í Laugarási sem hafa átt hér heimili  alla mína ævitíð (fyrir utan auðvitað eldri systur mínar tvær og gamla unglinginn). Það liggur við að mér líði eins og sögulegum grip.

Fastir eru punktar og fagurt er líf
fjarri er kreppan og allt hennar kíf.
Ekkert er betra en auðna og von
allt þetta segir hann Páll Skúlason.
(nokkuð fyndinn núna :))




04 nóvember, 2008

Reitt fólk

Á þessum degi hef ég hitt fólk sem endranær, sem er fjarri því að vera ánægt með stöðu mála í þessu samfélagi. Reiðin hefur verið að gerjast með þessari þjóð, sem er þekkt af því að láta ekki tilfinningar sínar í ljós í umtalsverðum mæli. Nú virðist hún vera að brjótast fram af síauknum þunga með ofyrirsjáanlegum afleiðingum. Mér þætti það í meira lagi undarlegt ef það tekst, þessu sinni, að þagga niður í íbúum þessa lands.

Ég get ekki neitað því að mín reiði er einnig farin að láta á sér kræla, en mér finnst ekki augljóst hvert á að beina henni. Um þessar mundir hamast gerendur í þessum óþverramálum við að benda hver á annan. Hver og einn hefur hag af því að ljóstra upp um skuggalegt athæfi hinna.

Það er smám saman að koma í ljós að tengsl milli fólks í fjármálageiranum, stjórnmálum og löggæslu í þessu landi eru miklu meiri en maður hefur ímyndað sér. Þegar það liggur fyrir eykst enn vantraust á allt það sem gert er til að komast að hinu sanna um aðdragandanum að þessum hörmungum.

Mér sýnist að það verði ekki friður í þessu landi fyrr en erlendir aðilar verða settir í að hreinsa þennan flór. Fólkið verður vonandi ekki sátt fyrr en það hefur verið gert.


Það var milt veður í dag. Rigningin lamdi á þökin og jörð skalf. Obama fór að kjósa, en Makkinn er ekki búinn ennþá.  Allt silast þetta einhvernveginn áfram.
Fólkið ljær reiðinni vængi.

02 nóvember, 2008

Sunnudagsmorgunn, og lífið...


Þó það hafi komið hér fram einhverjum sinnum, að endurtekin tilvik hafa sýnt fram á að ég er engan veginn kominn að fótum fram, þá er reyndin sú að ákveðnir þættir daglegs lífs bera þess keim, að ég er enginn unglingur lengur. Ekki svo að skilja að það sé endilega sérlega eftirsóknarvert hlutskipti. 
Sú var tíð, að maður gat sofið fram undir fjögur á sunnudegi án þess að blikna, ekki síst ef það var dansleikur með Mánum í Aratungu kvöldið og nóttina áður (þá hófust dansleikir á kristilegum tíma, svona um kl 21.30).
Nú er auðvitað öldin önnur.
Það var ekki dansleikur í gærkvöldi, ekki einu sinni með Geirmundi, eða harmónikkusveit Húnaþings í Hótel Hvítá (sem sumir kalla enn Iðufell, sláturhúsið eða jafnvel gróðurhúsið).
Ég sprett upp eins og gormur upp úr hálf átta og enn dimmt utandyra, rigningadroparnir lemjandi þakið. Ég stend mig meira að segja að því að hugsa fremur jákvætt um svona morgna. Þeir eru upphaf nýs dags sem felur í sér tækifæri, eins og allir dagar. 
Við svona aðstæður hugsa ég mér gott til glóðarinnar að koma frá ýmsu því sem ekki hefur komist í verk, ekki síst því, sem snýr að námskeiðinu mínu í almannatengslum, en ef ekki væri fyrir þessa morgna væri staðan ekki sú nú, að ég stefni á að ljúka diplómanámi í opinberri stjórnsýslu um jól. Ekki laust við að ég sé tiltölulega sáttur við það.
Starfs mín vegna þarf ég einnig sð sinna ýmsu sem lýtur að vinnunni á mánudegi, en oftar en ekki, í ljósi þess að hér eru vanir menn á ferð, er það afgreitt tiltölulega hratt (en vel).

Það er gott að nota morgna sem þennan til að hugleiða um lífið og tilveruna, en margoft hefur verið sýnt fram á að hugurinn er mest vakandi og heilinn móttækilegastur að morgni, þó tilraunir mínar til að sannfæra svefndrukkna unglingana á hverjum tíma um, að svo sé, hafi í 100% tilvika mistekist. Viðbrögð þeirra við þessari speki minni eru svipuð viðbrögðum Geirs og Davíðs við þeirri hugmynd að rétt geti verið að endurskoða yfirstjórn Seðlabankans (reka þann síðarnefnda). 

Það blasir við höfuðborgarferð á þessum degi og stefnir í að ryðguð raddböndin fái lítillega að liðka sig seinnipartinn.

Á sunnudagsmorgni er sannlega fátt sem oss truflar,
og sjálfsagt er ekkert sem breytt getur neinu um það.



01 nóvember, 2008

Skyldu þeir skjótann?

...Það er ekki gott að segja. Í rauninni yrði ég ekki undrandi. 
Þegar fólk er opinskátt farið að bera hann saman við merkustu foystumenn í lífi þessarar, að eigin mati, guðsblessuðu og veraldarinnar stærstu og mestu, þjóðar, þá bendir allt til að það komi upp spurningin um hve margir lífdagar bíða hans. 
Ég velti því fyrir mér, árangurslaust, hvernig á því getur staðið, að í flestum löndum heims myndi hann rúlla upp þessum kosningum sem framundan eru. En ekki meðal sinnar eigin. Hvað er það í karakter þessa bræðslupotts ólíkra þjóðabrota sem veldur því að þar er allt annað uppi á teningnum. 
Er þessi þjóð úr einhverjum tengslum við þann raunveruleika sem aðrar þjóðir á jarðarkringlunni upplifa? 
Ef svo er, hversvegna skyldi það vera að mín þjóð sækir svo margt þarna vestur eftir? 
Er mögulegt að minnimáttarkennd okkar sé slík, að við getum ekki leitað annað að fyrirmyndum? 
Er afleiðingin af þessu sú raunveruleikafirring, sem við höfum verið að gera okkur sek um undanfarin ár, með alþekktum afleiðingum?

Allt eins líklegt.

Þjóðar vorrar þotuliðið góða
þykir ekki eftirbreytnivert.
Ísafold er ekki, meðal þjóða.
æðislega frábær eða sperrt.



28 október, 2008

Langþreyttur á lygimálum

Hver lýgur best?
Er það útrásavíkingurinn, sem lýsir sig ábyrgðarlausan?
Er það Seðlabankastjórinn, sem lýsir sig og bankann (af því að þeir eru einn) ábyrgðarlausa?
Er það forsætisráðherrann, sem lýsir sig og flokkinn sinn ábyrgðarlausa?
Er það utanríkisráðherrann, sem lýsir sig og flokkinn sinn ábyrgðarlaus?
Er það viðskiptaráðherra, sem lýsir sig og flokkinn sinn ábyrgðarlausa?
Er það fjármálaráðherrann, sem lýsir sig og flokkinn sinn ábyrgðarlausa?
Er það framsóknarformaðurinn, sem lýsir sig og flokkinn sinn ábyrgðarlausa?
Eru það hinir flokksformennirnir, sem lýsa sig og flokkana sína ábyrgðarlausa?
Eru það þingmenn úr öllum flokkum, sem lýsa sig og flokkana sína ábyrgðarlausa?

Er það kannski bara ég sem er ábyrgur? 
Ég keypti EOS og meira að segja linsu. Ég keypti PS-P640 og ég keypti Xtrail.

Vissulega er mikilvægt að fylgjast með fréttum og ég get varla sagt að ég missi af einu einasta orði. Ég er hinsvegar kominn að þeirri niðurstöðu eftir allan lygavaðalinn sem okkur, borgurum þessa lands er boðið upp á dag eftir dag  - og nótt líka, að ég trúi engum.  Ef ég trúi engu sem ér sagt, þá er ég væntanlega bara í vondum málum.

Við Íslendingar erum saklausir ljúflingar. Það vefst ekki fyrir aðalleikurum í því sjónarspili sem nú gengur yfir (með saklausari andlit en nýfætt barn), að sannfæra okkur um að þeir beri ekki ábyrgð á því hvernig komið er. 
Þegar þá þrýtur rök fyrir máli sín nota þeir þekkta aðferð: það var eitthvað miklu stærra sem olli þessu. 

Ætli ég láti þetta ekki duga eftir lygaþvæluna (að mínu mati) sem veltist yfir landslýð í fréttatímum á þessu kvöldi.

Stöndum saman - hættum að trúa.

Ljúfsár er lygatrúin.

26 október, 2008

Bögglast með fésbók

Ég held að það sé að verða ár síðan  að Berlínarmaðurinn hvatt til þess að menn stofnuðu aðsestur á fyrirbærinu 'FACEBOOK'. Ég er að mörgu leyti forvitinn maður og tel mig þar að auki ekki fordómafullan og meira að segja all nýungagjarnan. Þessvegna var að að eg fór að þessum ráðum og síðan hef ég birst þarna í öllu mínu veldi, safnandi 'vinum' héðan og þaðan. Það er nefnilega þannig að ég hef fengið tölvupósta frá fólki (að langmestum hluta fyrrverandi nemendum) sem vill vera 'vinir' mínir. Ég hef einnig fengið skeyti frá núverandi 'vinum' mínum þar sem mér er bent á að óska eftir 'vináttu' við tiltekna einstaklinga - en þar dreg ég mörkin. Ég get með engu móti farið út á þá braut að senda fólki beiðni um að fá þá í 'vinahóp' minn. Mér finnst það hreinlega úr karakter.
Já og svo hvað?

Ég verð að viðurkenna, að fyrir mann á mínum aldri, og í minni stöðu, þá örlar sem sagt nokkuð á vandræðagangi í kringum þetta allt saman. Ég hef lítillega verið að spyrjst fyrir um það, hjá áhugasömum fésbókurum, hver tilgangurinn er með þessu, en hef ekki fengið viðhlítandi svör. 

Svo gerðist það í morgun, að einir tíu nýir aðilar (meðal annars 2 nýir fésbókarar í Danaveldi, á mínum aldri) bönkuðu á dyrnar og vildu vera 'vinir' mínir, og að sjálfsögðu varð ég við þeirri ósk umyrðalaust, enda allt fólk sem ég þekki af góðu. 
Eftir situr hinsvegar spurningin áleitna: 'Til hvers?"

Fés er fyndin bók


Laugarás: Æ, ég veit ekki....

Heilsugæslustöðin í Laugarási virðist ekki að hruni komin. Nú hefur forstjóri HSU skrifað annan pistil á vefinn island.is, til að upplýsa ok...