02 nóvember, 2008

Sunnudagsmorgunn, og lífið...


Þó það hafi komið hér fram einhverjum sinnum, að endurtekin tilvik hafa sýnt fram á að ég er engan veginn kominn að fótum fram, þá er reyndin sú að ákveðnir þættir daglegs lífs bera þess keim, að ég er enginn unglingur lengur. Ekki svo að skilja að það sé endilega sérlega eftirsóknarvert hlutskipti. 
Sú var tíð, að maður gat sofið fram undir fjögur á sunnudegi án þess að blikna, ekki síst ef það var dansleikur með Mánum í Aratungu kvöldið og nóttina áður (þá hófust dansleikir á kristilegum tíma, svona um kl 21.30).
Nú er auðvitað öldin önnur.
Það var ekki dansleikur í gærkvöldi, ekki einu sinni með Geirmundi, eða harmónikkusveit Húnaþings í Hótel Hvítá (sem sumir kalla enn Iðufell, sláturhúsið eða jafnvel gróðurhúsið).
Ég sprett upp eins og gormur upp úr hálf átta og enn dimmt utandyra, rigningadroparnir lemjandi þakið. Ég stend mig meira að segja að því að hugsa fremur jákvætt um svona morgna. Þeir eru upphaf nýs dags sem felur í sér tækifæri, eins og allir dagar. 
Við svona aðstæður hugsa ég mér gott til glóðarinnar að koma frá ýmsu því sem ekki hefur komist í verk, ekki síst því, sem snýr að námskeiðinu mínu í almannatengslum, en ef ekki væri fyrir þessa morgna væri staðan ekki sú nú, að ég stefni á að ljúka diplómanámi í opinberri stjórnsýslu um jól. Ekki laust við að ég sé tiltölulega sáttur við það.
Starfs mín vegna þarf ég einnig sð sinna ýmsu sem lýtur að vinnunni á mánudegi, en oftar en ekki, í ljósi þess að hér eru vanir menn á ferð, er það afgreitt tiltölulega hratt (en vel).

Það er gott að nota morgna sem þennan til að hugleiða um lífið og tilveruna, en margoft hefur verið sýnt fram á að hugurinn er mest vakandi og heilinn móttækilegastur að morgni, þó tilraunir mínar til að sannfæra svefndrukkna unglingana á hverjum tíma um, að svo sé, hafi í 100% tilvika mistekist. Viðbrögð þeirra við þessari speki minni eru svipuð viðbrögðum Geirs og Davíðs við þeirri hugmynd að rétt geti verið að endurskoða yfirstjórn Seðlabankans (reka þann síðarnefnda). 

Það blasir við höfuðborgarferð á þessum degi og stefnir í að ryðguð raddböndin fái lítillega að liðka sig seinnipartinn.

Á sunnudagsmorgni er sannlega fátt sem oss truflar,
og sjálfsagt er ekkert sem breytt getur neinu um það.



3 ummæli:

  1. Velkominn á fætur frændi :)

    SvaraEyða
  2. Á sunnudagsmorgni er sannlega
    fátt sem oss truflar
    og sjálfsagt er ekkert
    sem breytt getur neinu um það.
    Í sætlegri rósemd
    þá sálin mín eilífa gruflar
    um sannvíddir lífsins
    - og síðan er haldið í bað.

    Og víddir míns hugar svo víðfeðmar er' í þann tíma,
    að varla ég kemst hjá að undrast og dásam' í senn
    hvað Guð virðist hafa sko lagt sig hreint alveg í líma
    er laghentur náði mig skapa
    - Það gleður hann enn!

    (já,já síðasta línan er "afbrigði")

    Bloggskapur um sunnudagsmorgna
    - og Guð, staddan í Kvistholti

    Hirðkveðillinn

    SvaraEyða
  3. Æ uppsetningin er röng í seinna erindinu. Það á auðvitað að "skipta í miðju" eins og hitt!
    Árans, fárans...
    Anónímus hirðkveðill

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...