26 maí, 2009

M*A*L*W*A*R*E - úúúúúú


Ofan á allt annað sem ég hef komið að á undanförnum dögum: daglegar kóræfingar (nánast), endalausar runur af einkunnum (nánast), blóma- og trjákaupaferðir, heimsóknir til tannlækna (reyndar bara ein til eins), þá fékk ég eftirfarandi tilkynningar dag einn fyrir stuttu:
Fyrst þetta:
Jæjahhh... ertu þá farinn að senda frá þér í tölvuformi, flenuspestir með svínaívafi? Fékk dándi góðar viðvaranir hvað eftir annað. Bittinú! 


..og síðan stuttu seinna annað frá hinum reykvíska Kvisthyltingi, sama efnis.
Í stuttu máli snérist þetta um að þessi fína síða var komin með eldrauða forsíðu þar sem tilvonandi gestum var ráðlagt að leita annað ef þeir vildu ekki verða einhverjum óskunda að bráð. Þarna höfðu þeir vissulega val milli tvenns, og auðvitað báðir kostir vondir:
a. Ýta á takkann sem kallaðist BACK TO SAFETY (aftur í öryggið).
Með því að velja þennan takka lá það ljóst fyrir, að viðkomandi fengi ekki að njóta andans auðlegðar minnar þann daginn.
b. Merkja við reit til að votta að hann væri vitandi vits um hvað þarna inni gæti leynst, og halda síðan inn á síðuna, sem reyndist ósköp sakleysisleg.

Nú voru góð ráð dýr. Ég ætla hinsvegar ekki að þreyta lesendur með langloku um allan þann feril sem nú fór í gang hjá mér og mínum nánustu til að vinna bug á þessu óhugnanlega vandamáli. (Ég hef fengið um það fleiri en eina meldingu frá reglulegum lesendum, að allt sem ekki snýst um framkvæmdir okkar Kvisthyltinga fær ekki nema 2-10 lína lestur). Síðan mín var sem sagt sögð vera mögulegur dreifiaðili fyrir allskonar MALWARE. Þetta orð er nokkuð gegnsætt: MAL þýðir alltaf vondur eða illur, WARE er náskylt íslenska orðinu VARA - þar með er það ljóst að hér gat verið ill vara á ferð, sem gæti ráðist inn í tölvur gesta minna og stolið þaðan bankanúmerum og lykilorðum og rúið þá þannig inn að skinninu.
Ég fór ýmsar leiðir og reyndi margt, sem lauk með því að með hjálp vina minna hjá GOOGLE,  USA, held ég, er rauði skjárinn horfinn og kemur vonandi ekki aftur.

Ekki gekk það allt upp hjá mér
ekki var margt að gera' hér.
Drattaðist þá upp drengur einhver,
drap hið ljótasta, MALWARE.

(huga að áherslum)

23 maí, 2009

Pärtísk andans næring og upplyfting

Nú þéttast æfingar fyrir Berlínarför. Arvo Pärt er étinn upp til agna nánast á hverju kvöldi og heill dagur æfinga framundan. Um Berlínarmessuna hans Arvos er það að segja, að til þess að ná sambandi við hana þarf maður að búa yfir einstaklega opnum huga og jákvæðu hugarfari, nákvæmlega eins og er raunin í mínu tilviki, að sjálfsögðu. Árangurinn er sá, að ég þykist vera að nálgast kjarnann í verkinu og er farinn að njóta einstakra hluta þess. 
Það gerðist samt fyrir stuttu, þegar ekið var til höfuðborgarinnar, að ákveðið var, að áskoran stjórnandans, að diskur með messunni var settur í, í þeim tilgangi að öðlast sýn inn í hvernig þetta hljómaði í heild sinni. Það gekk ágætlega með KYRIE kaflann, enda er hann stuttur og nokkurnveginn að komast á hreint. Þá hófst næsti kafli: GLORIA. 
"Eigum við að syngja þetta?" 
"Ég kannast ekkert við þetta."
Það verður nú samt að viðurkennast, að smám saman fóru að heyrast þekktir hljómar og ljóst þótti að þetta væri á söngskránni. 
Þriðji hlutinn: CREDO, er bara nokkuð skemmtilegur, en krefst mikillar einbeitingar, ekki síst af hálfu tenóranna, en þeir rísa eðlilega auðveldlega undir því.
Í gærkvöld var síðan kynntur til sögunnar ALLELUIA (það eru svo margar aðferðir við að skrifa þetta orð að ég fullyrði að þessi ritháttur er ekkert síðri en aðrir)  kafli, sem á víst ekki að vefjast fyrir þessum þrælþjálfaða hóp.

Brynjólfsmessa Gunnars Þórðarsonar er orðin eins og nokkurskonar dægurlag miðað við Berlínarmessuna, en þó er ekki laust við ákveðið óöryggi í þeim köflum sem hafa verið endurskoðaðir af þessu tilefni. Með opnum huga og jákvæðni mun það yfirstígast eins og annað.

Þessar messur tvær verða fluttar ásamt hundrað manna þýskum kór í þessari kirkju:



Söngskrá fyrir tónleikana sem við höldum síðan ein, í Elias-Kuppelsaal er óðum að fá á sig mynd, en auðvitað er af mörgu að taka, en íslenskt skal það vera, að því mér skilst. 

Allt er lífið einskisvert
undurvitlaust, ísjárvert,
utan sértu, aftanvert
útbúinn með Arvo Pärt.

(þessa verður að íhuga vel og lengi)

17 maí, 2009

Upp og ofan

Margt má segja að hafi verið nokkuð jákvætt við þessa helgi. Það sem stendur upp úr er það afrek mitt að ljúka nánast alveg yfirferð á þeim prófum sem ég lagði fyrir á þessu vori. Ég verð að vísu að viðurkenna, að það var aðdáunarvert átak að tvennu leyti: 
Annarsvegar get ég ekki með réttu haldið því fram að mér finnist gaman að fara yfir próf (það er reyndar fremur lítt aðlaðandi athöfn), en ég lét mig hafa það á þeirri forsendu, að undan því verki verður ekki komist. 
Hinsvegar léku sólin og fuglarnir og vori fagnandi gróðurinn við hvurn sinn fingur, sem hafði frekar neikvæð áhrif á inniveru. 
---------
Ég minnist hér með lítillega á Evrósjón þó það sé að bera í bakkafullan lækinn. Þetta er allt bara ágætt, en ég er nú samt þeirrar skoðunar það það sé ekkert til sem heitir "slæm umfjöllun" (bad publicity). Þetta land vort hefur verið að vörum Evrópubúa í allan vetur og ekki af sérlega góðum ástæðum. Er ekki hugsanlegt að nýfengin snerting Evrópuþjóða við okkur hafi haft einhver áhrif á atkvæðagreiðsluna? 

Sólar var þessi sunnudagur
sæluríkur að mestu.


14 maí, 2009

Bara ein birtingarmyndin - mér blöskrar

Ég hlýt að viðurkenna, að það er til fátækt fólk sem á erfitt með að ná endum saman af ýmsum ástæðum. Það er endalaus barátta að koma málum svo fyrir, að slíku verði útrýmt. Fátækt getur hinsvegar ekki verið afsökun fyrir hverju sem er, eða hvað?

Ég hef áður fjallað um það á þessum vettvangi, að mér finnist ýmislegt athugavert við barnauppeldi og umönnun á þessu landi. Í fréttum áðan fékk ég enn eina staðfestinguna á því sem ég hef sagt þar um. Þar var fjallað um slæmt ástand í tannhirðumálum hjá börnum. Þarna var sökinni alfarið hent yfir á stjórnvöld og það má svo sem alveg. Það var hinsvegar ekki vikið einu orði að því að tannhirða barna eigi ef til vill ekki síður og jafnvel miklu frekar að vera á ábyrgð foreldra. Ég vil halda því fram að tennur í tveggja ára barni  séu ekki í rúst vegna þess hve illa stjórnvöld standa sig. Tannburstakaup hafa aldrei riðið neinum að fullu og ekki heldur lítil lús af tannkremi á þennan bursta daglega og 3ja mínútna vinna foreldris við burstun, svo ekki sé nú minnst á það sem börnin fá að setja upp í sig. Ætlar einhver að halda einhverju öðru fram?

Umfjöllun um barnauppeldi fjallar langoftast hvað opinberir aðilar eru vondir við barnafjölskyldur. Foreldrarnir virðast alltof oft vera stikkfrí; opinbera jafnvel skelfilega vanrækslu sína fyrir alþjóð undir því yfirskini að allt sé ríkinu að kenna - og fjölmiðlarnir ýja ekki einusinni að því að þar geti verið að aðrir véli um. 

Hrmmmpf 


11 maí, 2009

Bifreiðin úti í á

Sjalli og Frammsa fóru í bíltúr. Þau ætluðu að keyra hringinn í kringum landið. Ferðin byrjaði vel, en smám saman varð Sjalli, sem var við stýrið, leiður á hvað þetta tók langan tíma og jók hraðann stöðugt. Frömmsu líkaði þetta bara vel og hló og skríkti. Henni fannst óskaplega gaman og réði sér varla fyrir kæti og spenningi. Sjalli var farinn að djúsa við stýrið. Hann varð stöðugt hreyfari og jafnframt missti hann þolinmæðina gagnvart gleðilátum Frömmsu. Loks varð hann  svo leiður á henni, að hann henti henni út á fljúgandi ferð og greip hennar í stað aðra, sem varð á vegi hans. Sú reyndist heita Samma. Samma virtist til að byrja með láta sér vel líka hraðann, en leist ekki alveg á hvað Sjalli var orðinn drukkinn. Hún reyndi að vara hann við, en hann var hættur að hlusta á allar mótbárur, hélt brjálæðislegum akstrinum áfram og skeytti engu þótt fólk sem stóð við vegkantinn varaði hann við með því að veifa og hrópa. Hann ætlaði sér að ná hringnum á mettíma.

Þegar Sjalli kom á fljúgandi ferð að stórfljótinu Þrotu, hitti hann ekki á brúna og bíllinn flaug út í fljótið. Það var ekki fyrr en þetta gerðist, að Samma áttaði sig á að ef til vill hefði hún átt að taka fyrr í stýrið. Hún henti sauðdrukknum Sjalla út um hliðarrúðuna. Hún kallaði sér til aðstoðar gaur sem stóð á bakkanum og sem reyndist heita Viggi. Samma og Viggi reyndu að koma bílnum í gang, en án árangurs. Í þeim svifum bar að kranabílstjórann Agga á stóra kranabílnum sínum. Á endanum ákváðu þau Samma og Viggi að biðja Agga að draga bílinn upp úr fljótinu. Aggi hugsaði sig um, því hann var ekki viss um, að hann myndi fá greitt fyrir ómakið, en lét þó til leiðast að lokum. Hann dró bílinn upp úr fljótinu. Samma reyndi að ræsa vélina, en ekkert gerðist. Viggi reyndi að ræsa, en allt kom fyrir ekki. Bílnum varð ekki haggað. Aggi vildi fá stórfé fyrir björgunina, en það var engan pening að finna í bílnum. Sjalli og Frammsa höfðu tekið með sér stóra tösku af krónum, en það kom í ljós að einhver virðist hafa stolið öllu úr töskunni, því hún reyndist full af dagblöðum. Samma og Viggi gátu því ekki greitt Agga neitt. Þau reyndu að fá pening frá fólki sem hafði safnast saman á fljótsbakkanum, en það bar lítinn árangur.
Við nánariskoðun á bílnum kom í ljós að vélin var ónýt, öll innréttingin var sömuleiðis vatnssósa og ljóst að þessum bíl yrði ekki ekið aftur. Samma og Viggi áttu ekki marga kosti í stöðunni, en þau voru ekki sammála um hvað til bragðs skyldi taka. Helst kom til álita að fá bíl hjá Evru, sem bjó í næsta þorpi. Það var það sem Samma vildi, en Viggi vildi frekar reyna að gera við handónýtan bílinn.  
Lengri er þessi saga ekki. Eins og góðra sagna er siður þá er lesandanum látið eftir að prjóna framhald.
--------------------
Frá minni hendi verður ekki  framhald á þessari sögu, en á hana ber að líta sem tilraun til að segja meira en bara einhverja sögu - eins og öllum má vera ljóst. :) :(

Eldri borgari kaupir skjávarpa (eftirmáli með Ali)

Þetta má heita framhald þessa . Eftir að ég hafði nú fengið krónurnar sem ég hafði greitt fyrir skjávarpann sem kom svo aldrei, sat ég uppi ...