23 maí, 2009

Pärtísk andans næring og upplyfting

Nú þéttast æfingar fyrir Berlínarför. Arvo Pärt er étinn upp til agna nánast á hverju kvöldi og heill dagur æfinga framundan. Um Berlínarmessuna hans Arvos er það að segja, að til þess að ná sambandi við hana þarf maður að búa yfir einstaklega opnum huga og jákvæðu hugarfari, nákvæmlega eins og er raunin í mínu tilviki, að sjálfsögðu. Árangurinn er sá, að ég þykist vera að nálgast kjarnann í verkinu og er farinn að njóta einstakra hluta þess. 
Það gerðist samt fyrir stuttu, þegar ekið var til höfuðborgarinnar, að ákveðið var, að áskoran stjórnandans, að diskur með messunni var settur í, í þeim tilgangi að öðlast sýn inn í hvernig þetta hljómaði í heild sinni. Það gekk ágætlega með KYRIE kaflann, enda er hann stuttur og nokkurnveginn að komast á hreint. Þá hófst næsti kafli: GLORIA. 
"Eigum við að syngja þetta?" 
"Ég kannast ekkert við þetta."
Það verður nú samt að viðurkennast, að smám saman fóru að heyrast þekktir hljómar og ljóst þótti að þetta væri á söngskránni. 
Þriðji hlutinn: CREDO, er bara nokkuð skemmtilegur, en krefst mikillar einbeitingar, ekki síst af hálfu tenóranna, en þeir rísa eðlilega auðveldlega undir því.
Í gærkvöld var síðan kynntur til sögunnar ALLELUIA (það eru svo margar aðferðir við að skrifa þetta orð að ég fullyrði að þessi ritháttur er ekkert síðri en aðrir)  kafli, sem á víst ekki að vefjast fyrir þessum þrælþjálfaða hóp.

Brynjólfsmessa Gunnars Þórðarsonar er orðin eins og nokkurskonar dægurlag miðað við Berlínarmessuna, en þó er ekki laust við ákveðið óöryggi í þeim köflum sem hafa verið endurskoðaðir af þessu tilefni. Með opnum huga og jákvæðni mun það yfirstígast eins og annað.

Þessar messur tvær verða fluttar ásamt hundrað manna þýskum kór í þessari kirkju:



Söngskrá fyrir tónleikana sem við höldum síðan ein, í Elias-Kuppelsaal er óðum að fá á sig mynd, en auðvitað er af mörgu að taka, en íslenskt skal það vera, að því mér skilst. 

Allt er lífið einskisvert
undurvitlaust, ísjárvert,
utan sértu, aftanvert
útbúinn með Arvo Pärt.

(þessa verður að íhuga vel og lengi)

1 ummæli:

  1. Sammála er sjálfum þér
    er sit og hug' að Pärt,sem ber
    ótrúlegt að oftast hér
    auðnast -týna sjálfri mér!

    (bloggskapur um hlustun á Pärvertinn okkar hinn eina og sanna)
    Hirðkveðillinn,

    sem prísar Drottinn fyrir heilsufarslegar umbætur á þessarri mikilverðu síðu í tilverunni! - Sennilega hefði H.kv. fremur átt að setja þau ummæli í stutta vísu! EN oft seint!

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...