11 maí, 2009

Bifreiðin úti í á

Sjalli og Frammsa fóru í bíltúr. Þau ætluðu að keyra hringinn í kringum landið. Ferðin byrjaði vel, en smám saman varð Sjalli, sem var við stýrið, leiður á hvað þetta tók langan tíma og jók hraðann stöðugt. Frömmsu líkaði þetta bara vel og hló og skríkti. Henni fannst óskaplega gaman og réði sér varla fyrir kæti og spenningi. Sjalli var farinn að djúsa við stýrið. Hann varð stöðugt hreyfari og jafnframt missti hann þolinmæðina gagnvart gleðilátum Frömmsu. Loks varð hann  svo leiður á henni, að hann henti henni út á fljúgandi ferð og greip hennar í stað aðra, sem varð á vegi hans. Sú reyndist heita Samma. Samma virtist til að byrja með láta sér vel líka hraðann, en leist ekki alveg á hvað Sjalli var orðinn drukkinn. Hún reyndi að vara hann við, en hann var hættur að hlusta á allar mótbárur, hélt brjálæðislegum akstrinum áfram og skeytti engu þótt fólk sem stóð við vegkantinn varaði hann við með því að veifa og hrópa. Hann ætlaði sér að ná hringnum á mettíma.

Þegar Sjalli kom á fljúgandi ferð að stórfljótinu Þrotu, hitti hann ekki á brúna og bíllinn flaug út í fljótið. Það var ekki fyrr en þetta gerðist, að Samma áttaði sig á að ef til vill hefði hún átt að taka fyrr í stýrið. Hún henti sauðdrukknum Sjalla út um hliðarrúðuna. Hún kallaði sér til aðstoðar gaur sem stóð á bakkanum og sem reyndist heita Viggi. Samma og Viggi reyndu að koma bílnum í gang, en án árangurs. Í þeim svifum bar að kranabílstjórann Agga á stóra kranabílnum sínum. Á endanum ákváðu þau Samma og Viggi að biðja Agga að draga bílinn upp úr fljótinu. Aggi hugsaði sig um, því hann var ekki viss um, að hann myndi fá greitt fyrir ómakið, en lét þó til leiðast að lokum. Hann dró bílinn upp úr fljótinu. Samma reyndi að ræsa vélina, en ekkert gerðist. Viggi reyndi að ræsa, en allt kom fyrir ekki. Bílnum varð ekki haggað. Aggi vildi fá stórfé fyrir björgunina, en það var engan pening að finna í bílnum. Sjalli og Frammsa höfðu tekið með sér stóra tösku af krónum, en það kom í ljós að einhver virðist hafa stolið öllu úr töskunni, því hún reyndist full af dagblöðum. Samma og Viggi gátu því ekki greitt Agga neitt. Þau reyndu að fá pening frá fólki sem hafði safnast saman á fljótsbakkanum, en það bar lítinn árangur.
Við nánariskoðun á bílnum kom í ljós að vélin var ónýt, öll innréttingin var sömuleiðis vatnssósa og ljóst að þessum bíl yrði ekki ekið aftur. Samma og Viggi áttu ekki marga kosti í stöðunni, en þau voru ekki sammála um hvað til bragðs skyldi taka. Helst kom til álita að fá bíl hjá Evru, sem bjó í næsta þorpi. Það var það sem Samma vildi, en Viggi vildi frekar reyna að gera við handónýtan bílinn.  
Lengri er þessi saga ekki. Eins og góðra sagna er siður þá er lesandanum látið eftir að prjóna framhald.
--------------------
Frá minni hendi verður ekki  framhald á þessari sögu, en á hana ber að líta sem tilraun til að segja meira en bara einhverja sögu - eins og öllum má vera ljóst. :) :(

4 ummæli:

  1. Ferðalag eitt flausturslegt
    -má furðu sæta -
    oft var býsna undarlegt
    og engin glæta.

    (Bloggskapur um pólitískt þukl og þreifingar)

    Hirðkveðillinn

    SvaraEyða
  2. Gafst upp eftir uþb 10 línur.... wtf!!!!

    SvaraEyða
  3. Ég átta mig ekki á þessu þolleysi. Hér er um að ræða dæmisögu með skýar tilvísun í atburði síðastliðinna 18 ára, eða svo, Nöfnin á persónunum eiga að vera nægilega skýr til að hægt sé að tengja við það sem um er rætt.

    Hér gildir það, að þeir sem ekki gefast upp, munu njóta andans auðlegðar.

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...