10 maí, 2009

Punktur snilldarinnar

Ég hef ekki verið mikið fyrir að gorta af afrekum mínum sem iðnaðarmanns þegar Seðlabankinn er annars vegar. Því er hinsvegar ekki að leyna, að ég er betri en enginn á hvað sviði sem er, og þá ekki síst á því sviði í sem hér fær lítillega umfjöllun.

Þegar ég lauk við að setja upp ægifargra leikhúslýsinguna fyrir nokkru, mun ég hafa getið þess að aðeins væri þá eftir að setja punktinn yfir i-ið. Framundan væri að mæla fyrir, panta og setja upp veglegan spegil, sem hæfði svo mikilvægum hluta eins húss. Mér til nokkurrar undrunar hefur það nú gerst, að allir þeir þættir verksins sem þarna voru nefndir, hafa nú verið framkvæmdir, fumlaust og með festu.

Undanfari uppsetningar spegilsins varð að vera vandaður og því var það, að ég mældi sjálfur fyrir honum og hafði svo mikið við, að ég ók að Hellu með málin, fékk teikningu frá þeim til
staðfestingar, endurskoðaði mælingarnar og breytti lítillega áður en ég staðfesti endalega hvernig gripurinn skyldi líta út, upp á brot úr millimetra, hvorki meira né minna.

Fyrir nokkru fékk ég síðan hringingu frá glerverksmiðjunni um að allt væri klárt, en sökum anna varð það ekki fyrr en sama dag og dimissio var haldin hátíðleg, að ég skellti mér austureftir með farþega nokkurn, sem hér hefur verið nefndur gamli unglingurinn, en hans erindi var að líta inn hjá gömlum vini sem elur manninn í sama þorpi og speglaframleiðslan fór fram.

Spegillinn reyndist vera jafn glæsilegur og ég hafði mælt hann og heim var haldið með dýrgripinn; ferð sem gekk eðlilega áfallalaust fyrir sig.

Næst á dagskrá var að útvega plötu sem skyldi mynda bak sem spegillinn skyldi límdur á. Þessi plata reyndist verða í boði BYKO (það fyrirtæki nefni ég með nafni þar eð ekki var mér gert að greiða fyrir plötubútinn. "Þessu verður hent hvort sem er" sagði pilturinn en afgreiddi mig ljúflega.).

Í dag lét ég síðan til skarar skríða. Skrúfaði bakið á vegginn eftir að vera búinn að saga það til með fínu stingsöginni (vissi alltaf að ég myndi einhvertíma hafa þörf fyrir hana). Því næst kom að því að máta spegilinn góða við svæðið sem honum var ætlað að þekja. Ég varð ekki einusinni hissa þegar ég uppgötvaði að það var eins og hann hefði verið sniðinn í kringum afburða smekklegu leikhúsljósin og sérhönnuðu spegilinnstunguna. Enn ein staðfesting þess, að það er ekki margt sem ekki leikur í höndum mér.


Nú, þá var bara að líma spegilinn á sinn stað. Þá kom að því, loksins, að ég þurfti lítilsháttar aðstoð. fD brást ljúflega við beiðni minni þar um og studdi við spegilinn á krítískum augnablikum uppsetningarinnar.

Þarna er hann kominn og ber fagur vitni mikillar verkkunnáttu og smekkvísi, auk þess sem ég fékk staðfestingu á því, að ég er eins og ég er.


Ekki er snilldin einleikin,
engu er um það logið.
Hátt hún rís í himininn,
ég held ég geti flogið.

4 ummæli:

  1. Til hamingju ó þú hógværi snillingur :)

    SvaraEyða
  2. Ljósin blika á ljúflingsfólk
    sem léttbrýnt kætist
    Ósköp er nú yndisgott
    að allt hér rætist.

    Seðlabanki, sómi húss
    hver sæmir, prýðir
    fegin er þú fékkst í púss
    .. nú fagna lýðir.

    (Bloggskapur um fullkominn leihússpegil seðlabankans)

    Hirðkveðillinn

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...