Í hópum myndast of tiltekin stemning sem verður að viðtekinni skoðun þeirra. Við þekkjum það t.d. frá því þegar lagðar eru fram tillögur á einhverjum fundum og allir teygja hönd til himins til merkis um að þeir samþykki tillöguna. Þetta gera þeir ekki endilega vegna þess að þeir séu svo óskaplega sammála tillögunni, heldur vegna þess að þeir vilja ekki vera öðruvísi en hópurinn sem þeir samsama sig við. Yfirleitt er það einhver leiðandi sem uppdiktar og leggur fram tillöguna. Þarna verður til ákveðinn hópþrýstingur.
Fyrirbæri af sama toga á sér stað á fésbókinni þegar einhver setur af stað hóp til að mótmæla einhverju, eða lofa eitthvað. Eins og hendi sé veifað drífur allskonar fólk sig til að skrá sig sem lækara á viðkomandi síðu. Svo bara ekki söguna meir.
Enn svipað má finna þar sem lagðir eru fram undirskriftalistar til að mótmæla einhverju að reyna að fá eitthvað fram.
Þá er ónefnt dæmið, þar sem skorað er á þjóðina að mótmæla ófremdarástandinu í kjölfar hrunsins. Fólk keppist við að tjá sig með stórkarlalegum hætti um það hroðalega ástand sem ríkir og kallar eftir byltingu. En heldur svo bara áfram að verma leisíbojinn sinn.
Það sem ég hef nefnt hér að ofan á það sameiginlegt, að í engu af dæmunum þurfa þeir sem tjá skoðun sína að standa við hana með einhverjum áþreifanlegum hætti. Þeir rétta upp höndina, smella á læk takkann, skrifa nafnið sitt á einhverri bensínstöð eða skrifa skammarræðu á fésbókina eða í bloggið sitt.
Fjölmiðlar nærast á þessari vitleysu allri. Við viljum alltaf fá einhverja sensajón. Sensasjón selur áskrift, en bara í skamman tíma hver. Þá þarf að koma ný sensasjón, sem við getum hneykslast á.
Þetta er nú bara Ísland í dag og ekkert meira um það að segja, nema ef vera skyldi vegna þess, að nú stöndum við frammi fyrir því, að löggjafarsamkundan virðist ekki vera neitt skárri að þessu leyti en pöpullinn almennt. Þegar svo er komið er vond staða uppi. Það verður ekki annað séð, en samhljóða samþykkt Alþingis um að setja sérstaka þingnefnd í að athuga hvort líkur væru á að tilteknir ráðherrar hefðu gerst brotlegir í aðdraganda hrunsins, hafi verið af sama toga og óheflaðar athugasemdir ábyrgðarlausra fésbókarvina. Var þetta eitthvað annað en hreinn popúlismi? Treystu menn því að samtryggingin yrði svo mikil að það myndi aldrei koma til, að nefndin sem skipuð var, kæmist að "rangri" niðurstöðu? Það verður ekki annað séð.
Þegar ljóst var að lagt var til að ákæra einhvern hófst leitin að leiðum út úr málinu. Pólitískir forystumenn kváðu upp úr með einhverja vitleysu, sem var þvert á það sem þeir áður ákváðu áður og í kjölfarið hóf hjörðin að tyggja sama gumsið.
Ég neita því ekki, að ég skipti skapi þegar svona gerist. Ég blogga hér með um skoðun mína og reyni að nota hóflegt orðfæri. Ég lofa því hinsvegar ekki (hér og nú) að ég sé tilbúinn að fylgja orðum mínum eftir á öðrum og víðari vettvangi.
Þetta er dapurlegt ástand hjá einni þjóð, að mínu mati.