10 september, 2010

Þverstæð þjóð


Mannréttindi eru í hávegum höfð, málfrelsi á að vera skilyrðislaust, nýjungum er tekið opnum örmum, lýðræðisástin blómstrar, allir skullu njóta réttlætis og réttlátrar málsmeðferðar, það er upplýsingaskylda stjórnvalda, andmælaréttur við ákvörðunum stjórnvalda, hver maður getur tjáð sig, í stórum dráttum, eins og honum lystir. Hömlur á þegnunum eru líklega með því minnsta sem gerist.

Pólitísk rétthugsun er að drepa allan frumleika, opinberar persónur mega ekki segja neitt rangt, álitsgjafar fjölmiðla eru í samkeppni um að gagnrýna sem harðast því það verður allt að vera sensasjón, pólitískir andstæðingar vega úr launsátri, tjáningarfrelsið er nýtt til að koma höggi á andstæðinga, hömluleysið fjarlægir ábyrgðina frá einstaklingunum og þeir láta gamminn geysa, óháð þekkingu á málefninu.

Ekki þekki ég þennan borgarstjóra, sem hefur átt hendur að verja undanfarna daga, en mikið skelfing óx hann í áliti hjá mér með því að reyna að vera hann sjálfur, með kostum og göllum. Það var eins og ferskur vindur færi um landið í því þrátefli steingeldrar frasabaráttu, sem dynur á okkur meira og minna. 
Það gæti verið gaman að ímynda sér þau Bjarna, Steingrím og Jóhönnu gefa samskonar færi á sér og borgarstjórinn. 

Ég er ekki í vafa um að borgarstjórinn gengur frá rimmunni með pálmann í höndunum. Hann gekkst við því að vera maður, sem, eins og  við öll, er ekki gallalaus (ef á annað borð er um galla að ræða). Þeir sem komust síður vel frá þessu eru rétttrúnaðarpostularnir.

Mér þætti gott að fá stjórnmálamenn sem virka á menn eins og manneskjur af holdi og blóði, með alla sína kosti og galla, í stað þeirra strengjabrúða, sem ekki virðast mega vamm sitt vita, en eru ekki svo ólík okkur hinum þegar undir skrápinn er komið.

Jamm, það var nú svo. 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...