05 september, 2010

Um kristilegt uppeldi (2)

Hér er um að ræða framhald.

Þarna starfaði ég, sem sagt, sem sumarkirkjuvörður í Skálholti. Líklega í kringum 1968-70 (var þarna 1970 þegar Bjarni Benediktsson lést ásamt konu og barnabarni í brunanum á Þingvöllum. Mér er þetta minnisstætt vegna þess að ég þurfti að draga fánann í hálfa stöng og klúðraði því með því að missa annan endann á bandinu sem fáninn var festur með, með þeim afleiðingum að það þurfti að fella stöngina).
Með nýrri dómkirkju þurfti að finna upp nýjungar í starfi kirkjunnar og eitt af því var svokallaður sjömessudagur, sem var einu sinni á sumri. Ekki veit ég hvort hér var um að ræða tilraun til að bæta sambandið við almættið, eða bara að taldist vera skemmtilegt að hafa svona maraþon messudag. Án þess að ég sé að velta því fyrir mér, þá var þetta svona: 7 messur á einum sunnudegi. Auðvitað komu ýmsir prestar að helgihaldinu og skiptu á sig. Þarna var gengið til altaris í öllum messunum - s.s. fullburða messur og ég var til aðstoðar við ýmislegt smálegt.
Það hefur komið fram, að á þessum tíma var gamli unglingurinn gjaldkeri sóknarnefndar, maður um fimmtugt, þannig að ég get vel sett mig í spor hans. Þarna var sú staða uppi að sóknin þurfti að standa straum af ýmsum kostnaði í Skálholti, þó svo ýmislegt sem þar fór fram hefði lítið með sóknarbörnin að gera. Ekki veit ég hvort þarna kom einhver greiðsla á móti þar sem tekið var tillit til þeira stöðu sem þarna var uppi. Meðal þess sem greiða þurfti var messuvín. Það getur hver maður sagt sér það sjálfur að þarna var orðin mikil breyting á, frá því engir fóru í messu í Skálholti nema sóknarbörn í Skálholtssókn. Kostnaðurinn við messuvínið hafði stóraukist og það svo, að rólyndismanninum, gjaldkeranum blöskraði, og hafði einhverntíma orð á því, þannig að ég heyrði, þar sem hann var að vinna í reikningunum.
Svo var það á sjömessudeginum nokkru eftir að gjaldkerinn hafði misst út úr sér athugasemd um óhóflegan kostnað vegna messuvíns, að ég var að aðstoða virðulegan Reykjavíkurprest (Reykjavíkurprestarnir þóttu virðulegri en aðrir prestar vegna þess að þeir komu fram í útvarpinu í sunnudagsmessum) við að undirbúa eina messuna. Hluti af undirbúningnum var að taka til messuvínið og hella í kaleikinn. Vínið (sem ég hélt löngum að væri einhver háheilagur drykkur, sem kirkjan fengi til afnota eftir einhverjum óskilgreinanlegum leiðum, í fögrum flöskum) var nú bara í venjulegum brennivínsföskum með algerlega óhönnuðum flöskumiðum og voru merktar ÁTVR.
Þar sem við vorum þarna í skrúðhúsinu og presturinn (sem ég kýs að nefna ekki) var að hella í kaleikinn, urðu mér á þau óskaplegu mistök, að hafa orð á því sem gjaldkerinn hafði nefnt og sem ég átti líklega ekki að heyra:
"Það var einn úr sóknarnefndinni að tala um að það færi mikið af messuvíni."
Presturinn snarhætti að hella og leit snöggt upp.
"Hvað sagðirðu?"
"Hann sagði að það færi mikið af messuvíni." svaraði ég, þar sem ég áttaði mig ekki á því, að prestur spurði ekki vegna þess að hann heyrði ekki. Prestur tók nú að roðna og þrútna og innan skamms upphófust óskaplegar skammir, sem beindust að mér, og fólu í sér að þegar um væri að ræða drykk af þessu tagi þá væru menn ekki að velta fyrir sér krónum og aurum. Ég hef líklega fölnað af skelfingu undir reiðilestrinum. Allavega hrökklaðist ég út og þurfti síðan að hlusta á þennan ágæta mann predika um kærleikann og fyrirgefninguna.

Á þessum sumrum í Skálholti hafði ég kynni af mörgum prestum. Flestir ágætir, sumir ansi stórir upp á sig, fáeinir virtust jafnvel telja sig til helgra manna. Sem sagt, menn af öllum toga.

Ég er ekki alveg viss um hvert ég held héðan í frásögninni, eða  hvort það sé rétt af mér að halda yfirleitt nokkuð áfram, svo viðkvæmir sem sumir eru fyrir umræðum af þessu tagi. Þetta kemur bara í ljós. Ég held allavega að ég sé búinn að afgreiða samneyti mitt í æsku við kirkju og trú.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...