04 september, 2010

Um kristilegt uppeldi (1)

Ég held því statt og stöðugt fram, að ég sé alinn upp í því sem hefur verið kallað 'guðsótti og góðir siðir'. Að svonalöguðu uppeldi stóð, í mínum huga, að stærstum hluta tvær konur og síðan ein til viðbótar.
Sú eldri var húsfreyjan á Baugsstöðum, amma mín, Elín Jóhannsdóttir. Hún varð, í huga mínum, ímynd hinnar fullkomnu góðmennsku og kristilegs siðgæðis. Það getur sjálfsagt verið að hún hafi átt sér aðrar hliðar, en ég sá þær í það minnsta aldrei. Hjá henni fann ég aldrei neitt nema elskusemi og guðsblessanir: 'Elsku, góða fólkið mitt!'
Sú yngri var síðan móðir mín, húsfreyjan í Hveratúni, Guðný Pálsdóttir, sem ég tel að hafi tekið að sér að ala okkur systkinin þannig upp, að Kristur yrði leiðtogi lífs okkar. Fyrir utan það, að innræta okkur góða siði og vera okkur góð fyrirmynd sem sannkristin manneskja, fólst hið kristilega uppeldi í því að sækja messur í Skálholti frá frumbernsku og þar til streðið við að koma okkur þangað, varð of mikið. Ég nánast fullyrði (það verður bara einhver að leiðrétta mig, ef hér skyldi vera um misminni að ræða) að ekki hafi verið sungin messa í kjallaranum í biskupshúsinu í Skálholti frá 1953 -1963 (í kjallaranum í biskupshúsinu) án þess að Hveratúnsfjölskyldan hafi verið þar viðstödd. Eftir að dómkirkjan var vígð tel ég að það sama hafi verið uppi á teningnum, svo lengi sem nokkur möguleiki var að draga okkur til messu. Það sem gerði þetta að enn meira afreksverki hjá móður minni var, að á þessum tíma var ekki til bifreið í Hveratúni þannig að hersingin þurfti að fara fótgangandi kílómetrana tvo út í Skálholt.

Þriðja konan sem kemur við sögu í kristilegu uppeldi mínu var prestsfrúin, frú Anna Magnúsdóttir. Það var hjá henni sem kristinfræðin var lesin í barnaskóla, og ég man ekki betur en einkunnir mínar aá prófum í þessari grein, hafi gefið til kynna að ég væri talsvert vel að mér í öllu sem frelsarinn hafði tekið sér fyrir hendur, eða látið út úr sér. Fyrir utan kennsluna hélt frú Anna (hún var aldrei kölluð annað en frú Anna), utan um helgileikinn sem var settur upp í Skálholti fyrir hver jól. Öflugri stjórnandi helgileikja held ég að hljóti að vera vandfundinn.

Á heildina litið má líklega segja að kristileg uppbygging mín eftir fyrstu 14 ár ævinnar hafi verið talsvert traust. Á þessum tíma gerði ég auðvitað engan greinarmun á trú og kirkju. Prestar voru nokkurskonar hálfguðir og allsendis óskeikulir.

Þannig æxluðust málin, að síðustu árin í grunnskóla, sennilega þegar ég var 13-14 ára var ég dubbaður upp í að vera kirkjuvörður í Skálholti á sumrin, sennilega ein tvö sumur. Ég reikna með, að fyrir utan það að ég var sannkristinn ungur maður, talinn, að það hafi komið til vegna þess að Hveratúnsbóndinn, gamli unglingurinn, faðir minn, var þá gjaldkeri í sóknarnefnd.
Á þessum tíma má segja að ég hafi byrjað á sjá þetta allt saman í öðru ljósi en áður hafði verið. Ég komst að því, t.d. að prestarnir voru bara breyskir menn. Ég komst að því að oft kom það fyrir, að kirkjunnar menn gengu í orði og verki gegn þeirri kenningu sem þeir töluðu fyrir úr stólnum.

Eitt tilvik af þessum toga fer mér ekki úr minni, en frá því verður greint í næsta hluta.

2 ummæli:

  1. Þitt réttkristna uppeldi rengja ei má
    svo réttsýnn og góður frá hvirfli að tá
    því fas þitt ei lýgur né ljúfmennskan tær
    Þú ljómar af kristni sem guðs engill skær!

    Hirðkveðill kveður um "elsku manninn"

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...