29 ágúst, 2010

Berjatími og barna

Sunnudagsmorgunn og kyrrðin umvefur allt í sveitinni. Örlítill, frískandi úði ber með sér ilminn af haustinu. Það er berjatími. Geitungaskrattarnir eru horfnir úr garðinum. Hvort það er vegna eiturspúandi úðabrúsa fD, eða bara vegna þess að þeirra tími er liðinn á þessu sumri, veit ég ekki. Ennþá sveima að minnsta kost þrjár tegundir af býflugum um loftin og leita uppi síðustu blómin sem eitthvað gefa.
Koparreynir í Kvistholtsgarði

Nú er tími umbreytinga enn á ný.

Sumarleyfi lokið og framundan annir vetrarins og vonin um að þær skili viðunandi árangri.
75% þess sem einu sinni var ungviðið í Kvistholti, gistir vítt um meginland Evrópu þennan veturinn og þau 25% sem eftir eru, hafa sett stefnuna á sömu slóð. Það er ekki laust við að maður velti því fyrir sér hvort það var eitthvað í uppeldinu sem veldur allri þessari útþrá.
Var ungunum kannski, meðvitað eða ómeðvitað, innprentuð einhverskonar alþjóðahyggja?
Var þeim ef til vill kennt, að föðurlandið hefði ekki til að bera það sem til þarf til að verða sómasamlegur Kvisthyltingur?
Var þeim á einhverjum tímapunkti sagt, að til þess að verða eitthvað þurfi maður að vera sigldur, eins og gamli unglingurinn kallar það? (Það mun hafa verið þannig á þeim tíma þegar menn sigldu til Kaupmannahafnar, og lágu þar í drykkjuvímu vetrarstund, að það var tekið ofan fyrir þeim þegar heim kom, því þeir voru sigldir).
Kannski var þessu fyrrverandi ungviði bara kennt að maður getur orðið hvað sem er, ef maður bara leggur sig fram í þeirri grein sem valin er. Hver veit?


Ég held auðvitað áfram að ala upp ungviði með mínum hætti. Vissulega eykst fjarlægð mín í aldri frá þeim sem verða fyrir uppeldisaðferðum mínum, um eitt ár á hverju ári. Á þessum tímum er orðinn ansi langur vegur milli mín og 16 ára unglinga. Mér verður það stöðugt ljósara, að málfar mitt verður þeim stöðugt torskildara og hugmyndir mínar um hvað það er að vera nýtur þjóðfélagsþegn, verða stöðugt fjarlægari hugarheimi þeirra. Þetta er væntanlega eitthvað sem er bara eðlilegt, en samt ákveðið áhyggjuefni. (hér gæti ég skrifað 2500 orða langloku um skoðanir mínar á því hversvegna staðan er þessi, og hversu slæmt er að sú staða skuli vera uppi, en læt það vera. Það væru bara skoðanir).

Ég er kannski smám saman að komast á þá skoðun, að í þessu þjóðfélagi rétthugsunar, sé best að fara inn í sjálfan sig með hugsanir sínar, en spila bara að öðru leyti með.  Það er ég smám saman að læra, að það skiptir ekki máli, hvaða skoðanir eða hugsanir eru tjáðar, þær eru jafnharðan skotnar niður af einhverjum hagsmuna- eða öfgahópum, eða þaggaðar niður af þeim sem til þess hafa vald.
Ef til vill er hér um að ræða tímabil sem þessi þjóð verður að ganga í gegnum áður en batinn hefst á ný. Vonum það.

3 ummæli:

  1. Innst í hjarta öldruð hugsun býr
    ótrúlega frjó og býsna skýr
    unga fólkið ekki skilur baun
    anda míns það rýrir sigurlaun.


    Hirðkveðill tjáir sig um
    Um málfar og meiningar Kvistholtsbónda.

    SvaraEyða
  2. Aftur komin er á stjá hjá þér
    yndiskveðill sem og vera ber
    aldrei skal ég yfirgefa þig
    aldrei fer við boðskap þinn á svig.

    Hirðkveðill yrkir um endurkomu sína í ljóðaheiminn.

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...