28 ágúst, 2010

Háloftasvíinn

Nú, þegar ágústmánuði er að ljúka, tel ég við hæfi að fara að ljúka hugarmyndasýningu minni frá Evrópuferð okkar fD, sem lauk um síðustu mánaðamót. Allt fór í þessari ferð eins og lagt var upp með við áætlanagerð. Það vil ég nú þakka ýmsum, ekki síst sjálfum mér, sem las fyrirugaða ferð sérlega vel og skipulagði í framhaldi af því, auk þess sem ég ögraði sjálfum mér talsvert (og fD líka) með því að takast á við nýjar áskoranir. Aðrir þeir sem gerðu sitt til að allt færi vel og að við nytum alls sem fyrir augu og eyru bar, fá hér enn þakkir fyrir höfðingsskap og elskusemi.
-----------------------------
Það er hreint ekki svo að ég ætli mér að enda þessa mánaðarlöngu syrpu á neitt jákvæðum nótum, þvert á móti tileinka ég hana íslenskum manni um þrítugt sem hér eftir verður kallaður "Svíinn" og sem við vorum svo óheppin að vera samferða í flugvél sem flutti okkur til baka eftir Evrópuævintýrið.
Fljótlega eftir að við vorum sest í flugvélinni kom Svíinn inn ásamt, líklega 7 ára dóttur sinni, að því er ætla mátti. Þau settust í sæti sín, tveim sætaröðum fyrir framan okkur og við urðum fljótt vör við að hann talaði afskaplega mikið við dótturina, sagði henni allt sem nöfnum tjáir að nefna í sambandi við flugvélina, áhöfnina, reglur sem flugfarþegar eiga að fylgja o.s.frv. Það var ekki laust við að ég dáðist að því hve góður faðir var hér á ferð, hugulsamur og fræðandi. En hann talaði stanslaust, og var ekki beint að hvísla, en það var svo sem ekkert til ama.

Hvað um það, flugvélin tók á loft og þá þurftu allir farþegar að vera bundnir eins og reglur gera ráð fyrir, og sem Svíinn gerði dótturinni ítarlega grein fyrir. Í sætaröðinni fyrir framan okkur var kona með tvö börn á svipuðum aldri og dóttirin. Í sætaröðinni fyrir framan Svíann og dótturina var síðan enn eitt ca 7 ára barnið. Sem sagt þarna voru á svæðinu  fjögur ca 7 ára börn.
Öryggisbeltaljósið var ekki fyrr slokknað en Svíinn stóð á fætur og kom sér fyrir á ganginum. Hann reyndist vera með bjórdós í hönd og þá skýrðist nokkuð það sem á undan var gengið. Það reyndust verða þó nokkrar bjórdósir sem hann tæmdi áður en þessari ferð lauk. 
Þar sem hann stóð á ganginum og skannaði umhhverfið í átt til okkar, kom hann auga á börnin í sætaröðinni fyrir framan okkur. Það skipti engum togum, að hann fór að ræða við börnin um allt milli himins og jarðar, meðal annars um ástæður þess að hann var þarna staddur, en hann hafði farið til Svíþjóðar fyrir sex mánuðum til að vinna að einverju mikilvægu verkefni og var nú á leið heim í heimsókn. Hann tók til við að kenna börnunum fjórum sænsku, en þau stóðu smám saman einnig upp og hjálpuðu honum að teppa ganginn. Þau fóru fljótlega að taka meiri og meiri þátt í samkomunni. Ef þetta hefði staðið yfir í 20 mínútur til hálftíma, hefði ég ekki farið að eyða andans orku minni í að reyna að orða það sem þarna fór fram, en það var ekki fyrr en um klukkutími var eftir af fluginu, sem flugþjónum tókst loks að fá Svíann til að skilja að það voru ekki allir jafnhrifnir og börnin fjögur, af frægðarsögum hans. Þetta þýddi að hann hélt miðhluta flugvélarinnir í heljargreipum í tvo klukkutíma með ótrúlegu bulli sem valt út úr talfærum hans. Þeir sem gátu fluttu sig í laus sæti aftast, en þangað komust nú bara tiltölulega fáir.  Það keyrði um þverbak, þegar eitt barnanna í aðdáendahópnum fann sænskan peyja á sama aldri aftar í vélinni. Þá skipti auðvitað engum togum, að Svíinn stormaði þangað með skarann á eftir sér. Við önduðum léttar - nú væri komið að öðrum að þurfa að þola þetta. Það leið þó ekki á löngu áður en vinurinn kom til baka með allan skarann og þann sænska líka. Svíinn sveiflaði um sig með sænskunni sinni, sem var aldeilis ekkert mjög lík sænsku - blanda af íslensku, dönsku og ensku, með íblönduðum sænskri framburði inn á milli. Þarna margfaldaðist samtalið með því að Svíinn varð túlkur milli barnanna auk þess sem hann kom sjálfum sér skilmerkilega á framfæri.

Það varð fljótt ljóst, að flugþjónarnir höfðu nokkurn ama af Svíanum og hirð hans, enda tepptu þau ganginn og farþegar voru farnir að kvarta yfir kjaftæðinu. Þeir voru margbúnir að biðja manninn að setjast, en hann taldi samneytið við börnin vera það heilagt að ekki væri ástæða til að sinna slíku. Það var ekki fyrr en einn þeirra tók á sig rögg og sagði hátt og skýrt, svo foreldrar barnanna heyrðu, að hann yrði að hætta því það væri þarna fólk sem væri að reyna að hvílast, að börnin voru kölluð í sæti sín og maðurinn stóð einn eftir, ekki kominn á það stig enn að halda bara áfram og tala við sjálfan sig. Hann kom sér þar með í sæti sitt og sat þar síðasta klukkutíma ferðarinnar, þegjandi. Flugferðin eftir það var hin ánægjulegasta.
-------------------------------
Nú þegar ég er búinn að koma þessu frá, get ég með góðri samvisku hent þessari leiðinda reynslu aftur fyrir mig og haldið áfram með lífið. 

Hér með lýkur þessari, að hluta til, geðvonskulegu færslu, og þar með umfjöllun um ævintýri sumarsins.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...