25 ágúst, 2010

Fodboldgolf

Á ferð okkar um Middelfart og nágrenni bar það við, að ekið var framhjá því, sem heimamenn kölluðu 'FODBOLDGOLF' - sem væntanlega myndi verða þýtt sem KNATTSPYRNUGOLF (ég veit ekki hvort búið er að þýða GOLF á gott, íslenskt mál - kannski holuleikur). Þessa tegund íþrótta hef ég ekki orðið var við hér á landi, en þarna er, eins og allir geta séð, um að ræða sambland af knattspyrnu og golfi. Með öðrum orðum, þá á leikurinn sér stað á velli sem er nokkuð svipaður golfvelli: það er teigur, þaðan sem knettinum er spyrnt, síðan tekur við braut, sem oft felur í sér hindranir af einhverju tagi og loks er flötin, þar sem er að finna holu sem er sem næst 60 cm í þvermál og upp úr henni stendur fáni með númeri holunnar. Leikurinn felst síðan í að nota sem fæstar spyrnur frá teig í holu.

Heimamenn, Kvistholtstengdir, ákváðu í samráði við okkur fD, að skella sér einn hring á þessum sérstaka velli. Það var mín ákvörðun að sjá um ljósmyndun af helstu afrekum, en fD fékk það öfundsverða hlutverk að hafa ofan af fyrir ungum sveini.

Ég velti fyrir mér hvort fyrirkomulagið sem notað er við að selja inn, myndi ganga upp á föðurlandinu, en það var bara þannig að menn fylltu ú blað með fjölda þátttakenda og settu það síðan, ásamt tilgreindri upphæð, í umslag, sem síðan var sett ofan í rammgerðan kassa. Ég dáðist talsvert að þessu trausti sem Danir sýndu hver öðrum með þessu, og það var ekki fyrr en við vorum að yfirgefa völlinn að leik loknum, að ég áttaði mig á eftirlitsmyndavélinni sem fylgdist náið með öllu sem fram fór.

Hvor leikmaður fékk sér tvo knetti, og vagn, þar sem þeir voru geymdir milli spyrna. Síðan hófst leikurinn.
Mér varð það fljótt ljóst, að ef ég hefði verið þátttakandi í leiknum, hefði ég borið höfuð og herðar yfir leikmennina sem þarna léku. Mér er líklega dálítið svipað farið og gamla unglingnum; mér finnst ég enn ráða fyllilega við þær aðstæður sem ég réði eitt sinn auðveldlega við.

Leikurinn hafði sinn gang. Leikmennirnir náðu misgóðum árangri í leik sínum, en þó mátti sjá þolanleg tilþrif.  Mér fannst þó að betur hefði mátt gera.

Ég mundaði EOSinn minn nýja og smellti af í gríð og erg, enda vissi ég og veit, að myndir segja meira en þúsund orð.

Það hvarflaði að mér að það gæti verið gaman að setja svona völl upp í Laugarási, enda um að ræða íþrótt fyrir fólk á öllum aldri.


Hér var 'holan' mark með múrvegg fyrir framan
'Íþróttastilling' EOS - frysti knöttinn
2 sekúndum síðar lá knötturinn í miðri tjörn
Stefnan gæti verið betri
Neðst til hægri er árangur annars leikmannsins

Þarf vart að taka það fram, að sé smellt á myndir þá stækka þær talsvert.

3 ummæli:

  1. golf heitir á "góðri" íslensku höggleikur, þannig að höggleiksbolti gæti verið staðfærð þýðing ekki það að það sé eitthvað vit í því þar sem engin högg eru í þessi, svona er islenska nú lélegt mál :)

    SvaraEyða
  2. Höggleikur á ákv tegund af golfi. Skilt á þá keppi menn um hvor tekur hverja holu á færri höggum - í það minnsta er þetta nafn frátekið fyrir afmarkaðri hluta þessa leiks.

    SvaraEyða
  3. jamm gott og gilt, en á það samt ekki við umræddan leik í þessu bloggi? Ef ekki, þá má alltaf leita í skammstöfunina "Gentelmen Only Ladies Forbidden" :)

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...