22 ágúst, 2010

Leitin að Sandhóla-Pétri

Einhvernveginn svona
eiga sandhólar að líta út
Það er tvennt sem varð til þess að móta hugmyndir mínar um vesturströnd Jótlands: svarthvít mynd, sem mig minnir að hafi verið að finna í Kennslubók í dönsku, eftir Ágúst Sigurðsson (pabba Helgu), af sandhólunum á fremur hrjóstrugri og vindbarðri ströndinni og hinsvegar bók sem ég las á unglingsárum: Sandhóla-Pétur, eftir Anders Christian Westergaard.
Mér varð það á, í heimsókn okkar í fjónska bænum við Litlabelti, að minnast á Sandhóla-Pétur. Eftir það kom ekkert annað til greina en að skjótast yfir á vesturströndina í leit að sandhólum. Það var einmitt á leiðinni þangað, sem komið var við á Engilshólmi. Þaðan leiddi GPS græja okkur í átt til hraðbrautarinnar sem leiðir vegfarendur til Esbjerg, en þar töldum við líklegt að rekast á, þó ekki væri nema einn sandhól.

Þetta var það næsta sem við
komumst þvíað greina sandhóla
Þegar nær dró vesturstrandarborginni þurfti að finna einhvern stað til að láta tækið vísa okkur á og varð FANØ fyrir valinu. Við hefðum nú getað sagt okkur það sjálf, að hér var um að ræða eyju, og reyndar gerðum við það, en töldum að sá möguleiki væri fyrir hendi að þangað lægi brú, eða eiði af einhverju tagi. Það kom svo sem ekkert á óvart, að þessi eyja er ótengt landi og þangað gengur ferja. Um ferjuferð gat ekki orðið að ræða og því varð úr að finna stað þar sem hægt væri að fá sér í svanginn. Til þessa var auðvitað notað galdratækið GPS. Þarna sannfærðist ég endanlega um það að framleiðendur forrita fyrir GPS tæki geri kostunarsamninga við tiltekna ameríska skyndibitakeðju; engir aðrir veitingastaðir birtust. Því var ekki um annað að ræða en snæða enn og aftur á slíkum stað. 
Í framhaldi af því hélt leitin að sandhólunum áfram, a sjálfsögðu með aðstoð GPS. 
Sandhóla-Pétur
nútímans?
"Þeir eru örugglega þarna
fyrir norðan"
Óumræðilegur áhugi

















Leitað var að götum með nafnið: Strandvejen. Þegar tækið vísaði okkur beint í austurátt, inn í land, varð leitað áfram, aftur og aftur að ýmsum útgáfum strandlægra gatna. Fyrir tilviljun fann ég götu sem heitir Sædding Strandvej, sem tækið kvað vera í vesturátt, í átt til hafs. Þarna fundum við sannkallaða sandhólagötu, þó svo hólarnir væru mikið til horfnir undir mannvirki. Við ákváðum að láta þessa sandhóla duga - sandurinn var allavega sandhólalegur.
Við höfðum reyndar komist að því, við fyrirspurn í ferjuhöfninni til Fáneyjar, að til að kynnast sandhólunum af einhverri alvöru, þyrftum við að aka til Blávatns, en tíminn leyfði ekki frekar leit.

Ég hef verið að kynna mér lítillega upplýsingar um Sandhóla-Pétur (Klit-Per)  frá því heim kom og kemur á óvart hve fátt er um þessa ágætu bók að finna. Hún lýtur að hafa verið alveg ágæt, úr því hún er mér enn í minni. Ég hef komist að því að  að það var gerð kvikmynd eftir sögunni sem heitir Vesterhavsdrenge. Hún var síðan bútuð niður í 10 mín þætti sem voru sýndir í sjónvarpi. Þá gerði Walt Disney mynd sem byggir á því sama. 
Loks fann ég upplýsingar um að bókin er til í Sunnlenska bókakaffinu:




Höfundur A. Chr. Westergaard.Útgáfuár 1964






Notuð bók
Hilla R4 
Verð kr. 500,-






Kannski er þetta Sandhóla-Pétur í dag.









Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...