20 ágúst, 2010

Engilshólmshöll

Eftir Þýskalandsdvölina tóku Kvistholtstengdir Danir við okkur í Flensburg og báru síðan hitann og þungann af dvöl okkar í Danaveldi í vikutíma, eða svo. Margt tóku menn sér fyrir hendur, og ekki verða því öllu gerð skil hér, heldur birtar nokkrar minnismyndir.
Ef grannt er skoðað má sjá, að þumalfingur vinstri handar
bendir upp á við í stórum dráttum.
Í baksýn er Engilshólmshöll

Engilshólmshöll (Engelsholm Slot) stendur því sem næst á miðju Jótlandi og hefur tengst Kvisthyltingum um nokkurt skeið sökum þess, að þar er starfræktur skóli fyrir fólk sem leggur fyrir sig að koma frá sér, með einhverjum hætti, hugarstarfi sínu, eða hugarórum, í einhverju formi, hvort sem um er að ræða léreft, pappír, gler, járn, stein, eða ennað efnislegt eða efnislaust.
Þarna sést til þeirra bygginga (sem sjálfsagt hafa gegnt
hlutverkigripahúsa áður fyrr) sem hýsa listsmiðjur.
Í tilefni af stórafmæli fD varð það úr, að hennar næsta fólk sameinaðist um að stuðla að því að þangað færi hún til að efla sig í myndrænni tjáningu. Í kjölfar þess kom það sem allir þekkja: hrunadans íslensks þjóðfélags, sem enn er dansaður af fullum krafti. Því varð ekkert úr að fyrirhugaður afmælisglaðningur næði að fullkomnast og leiða til aukins listræns þroska og færni gjafarþegans.
Það þótti ekki vitlaus hugmynd, þrátt fyrir máttlítil mótmæli fD, að leggja lítilsháttar lykkju á leið um hinar jósku heiðar, að freista þess að renna í hlað að Engilshólmi og kanna þar með hvort þar væri um það að ræða sem hugmyndir höfðu lotið að.
Hér var málað af miklum móð.
Það varð ljóst þegar nálgaðist höllina, að hún er sérlega falleg í dáindisgæsilegu umhverfi. Ekki varð annað fundið en fyrrverandi afmælisbarni litist sérlega vel á allt sem þarna bar fyrir augu, enda fengum við að leiðsögn um höllina sjálfa og máttum síðan fara hreint um allt til að kynnast enn betur því starfi sem þarna er unnið. Í málningarhúsinu varð á vegi okkar Íslendingur, sem þarna var öðru sinni á námskeiði, sem dásamaði hóflítið staðinn og námið. Sérstakleg held ég að það hafi verið frásögnin af rauðvínslistakvöldunum, sem varð til þess að fD heillaðist endanlega.
Nú er framundan tímu umþenkingar og skipulagningar, sem væntanlega lýkur með því að Kvisthyltingurinn fer til einhverra vikna dvalar á þessum dýrðarstað.
Ég get nú sjálfur alveg hugsað mér að eyða þarna einhverjum tíma við listsköpun, svona þegar sá tími rennur upp, sem nálgast óðum, að formlegu ævistarfi ljúki. Hver veit.
Feðgarnir komust í snertingu við náttúruna á hlaðinu við höllina.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...